Hræða – fræða – ræða? – Umræðukvöld um forvarnir

Hræða – fræða – ræða? – Umræðukvöld um forvarnir

Hvað má og hvað er rétt að gera þegar kemur að forvörnum fyrir börn og unglinga? Gleymdum við íslenska módelinu? Hvar eru fyrirmyndir unglinga? Felast hættuleg skilaboð í rapptextum? Þessum spurningum og ótal öðrum verður reynt að svara á næsta umræðukvöldi Rótarinnar sem haldið verður miðvikudaginn 12. febrúar nk. kl. 20 á Hallveigarstöðum.

Dagskrá

  • Inngangur Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sem jafnframt er fundarstjóri
  • „Að poppa pillu“ – áhrif dægurmenningar á viðhorf ungmenna til ólöglegra vímuefna, Halla Sigrún Arnardóttir, lýðheilsufræðingur
  • Forvarnir, virkni þeirra og þróun. Rafn Jónsson, sérfræðingur hjá Embætti landlæknis.
  • Umræður

(more…)

Johann Hari – Skaðaminnkun og fíknistefna

Johann Hari – Skaðaminnkun og fíknistefna

Bókin „Að hundelta ópið“ (e. Chasing the Scream), eftir breska blaðamanninn Johann Hari kemur út í íslenskri þýðingu Halldórs Árnasonar í þessari viku en bókin og fyrirlestur Johanns um hana á TED hafa vakið verðskuldaða athygli um allan heim.

Í bókinni rekur Johann sögu hins svokallaða stríðs gegn fíkniefnum og þann skaða sem það hefur valdið í erindinu “Af hverju þarf Ísland á skaðaminnkandi hugmyndafræði og endalokum fíknistríðsins að halda?”

Í skaðaminnkandi nálgun er áhersla lögð á afleiðingar og áhrif fíknihegðunar, en ekki á notkunina sem slíka, með það að markmiði að auka lífsgæði neytenda.

Eftir erindi Johanns stýrir Helga Sif Friðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur umræðum.

Snarrótin, Rótin og Frú Laufey standa að fundinum og er hann öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Viðburðurinn er á Facebook.

Rótin fær jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs

Rótin fær jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs

Rótinni hlotnaðist sá heiður 31. október 2019 að þiggja jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir árið 2019. Við sama tækifæri fékk Rauðsokkahreyfingin einnig viðurkenningu ráðsins og vefmiðillinn Knúz.is fékk fjölmiðlaviðurkenningu þess. Sendum við þeim árnaðaróskir!

Rökstuðningur með viðurkenningunni er eftirfarandi:

“Jafnréttisráð hefur ákveðið að veita Rótinni jafnréttisviðurkenningu ráðsins til grasrótarsamtaka fyrir árið 2019.

Rótin er félag áhugakvenna um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði. Félagið er brautryðjandi í umræðunni um tengsl áfalla, ofbeldis og fíknar hér á landi. Rótin var stofnuð í Reykjavík 8. mars 2013 og hefur því starfað óslitið á sjöunda ár.

Frá upphafi hefur Rótin beitt sér með eftirtektarverðum hætti í opinberri umræðu um þjónustu við konur og börn sem eiga við fíknavanda að stríða. Talskonur Rótarinnar hafa vakið athygli á ýmsum brotalömum í heilbrigðisþjónustu á þessu sviði. Þær hafa verið óþreytandi við að benda á tengsl áfalla og ofbeldis gagnvart konum við fíkni- og geðsjúkdóma. Þær hafa fært gild rök fyrir nauðsyn kynjaskiptrar meðferðar og gagnrýnt að börn séu höfð í fíknimeðferð með fullorðnum. Rótin hefur einnig varað við hvers kyns hræðsluáróðri um fíkn og afleiðingar hennar. Þá má nefna að Rótin hefur gefið út leiðbeiningar fyrir konur sem vilja tjá sig um fíkn eða áföll opinberlega og heldur reglulega fræðslunámskeið sem er sérstaklega beint til kvenna. Rótin hefur með starfi sínu og málflutningi ögrað viðteknum kenningum og hugmyndum í samfélaginu um konur og fíkn og leiðir til bata. (more…)

Rótarhópur fellur niður 9. og 23. október

Rótarhópur fellur niður 9. og 23. október

Miðvikudag 9. október verður umræðukvöld hjá Rótinni þar sem Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur, flytur erindi um samkenndarmiðaða nálgun við áföllum (e. Compassion focused therapy).

Þar sem Rótarhópur fellur niður þau kvöld sem boðið er upp á umræðukvöld verður enginn fundur í Rótarhópnum næsta miðvikudag. Við hvetjum ykkur hins vegar til að koma á umræðukvöldið  sem er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 9. október, kl. 20.00-21.30.

Þá fellur Rótarhópur og námskeið félagsins einnig niður vikuna 21.-25. október vegna vetrarleyfis.

Rótarhópurinn er fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðum á vegum Rótarinnar, konur sem hafa áhuga á að taka þátt í slíkum námskeiðum og konur sem eru komnar vel af stað í bata með öðrum leiðum eru einnig velkomnar og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Við söfnum þó í pott fyrir kaffi og te. (more…)

Samkenndarmiðuð nálgun við áföllum – Umræðukvöld

Samkenndarmiðuð nálgun við áföllum – Umræðukvöld

Á næsta umræðukvöldi Rótarinnar, miðvikudaginn 9. október kl. 20:00-21:30, heldur gestur okkar Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur, erindi um samkenndarmiðaða nálgun við áföllum (e. Compassion focused therapy).

Meðferðin sameinar aðferðir annarra gagnreyndra sálfræðimeðferða og núvitundar, austurlenskrar heimspeki og nýjustu rannsókna á heilanum og þróun mannkyns. Samkenndarmiðuð nálgun við áföllum byggir að miklu leyti á fræðslu um mannlegt eðli út frá þróunarfræðilegu sjónarmiði. Að auki er mikið notast við hugleiðsluæfingar, þar sem rannsóknir sýna að hægt er að örva ákveðin svæði í heilanum með ímyndunaraflinu. Allir geta tileinkað sér samkennd, líka þeir sem eiga sögu um endurtekin áföll.

Gabríela lauk B.Sc. prófi í sálfræði við Háskóla Íslands árið 2009 og útskrifaðist með Cand. Psych. gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2013. Gabríela hefur einnig lokið diplómanámi í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2016. Gabríela starfar við sálfræðiþjónustu fullorðinna á Sálfræðistofu Reykjavíkur. Þar áður starfaði hún sem sálfræðingur í geðteymi fyrir fullorðna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og síðar á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar: Kt. 500513-0470, bankanr. 0101 -26-011472.

Viðburðurinn er á Facebook!

Umræðukvöldið er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Kynningarfundur – Haust 2019

Kynningarfundur – Haust 2019

Starf Rótarinnar á haustmisseri 2019 verður kynnt miðvikudaginn 21. ágúst kl. 20 að Hallveigarstöðum.
Félagið býður upp á fimm mismunandi námskeið í haust ásamt Rótarhópnum og umræðukvöldum. Námskeiðin „Konur studdar til bata“ og „Þú ert ekki ein, við erum margar“, sem einnig voru haldin síðasta vetur, eru aftur á dagskrá ásamt þremur nýjum námskeiðum. Tvö þeirra eru úr smiðju dr. Stephanie Covington, eins og „Konur studdar til bata“, en það eru námskeiðin „Áföll – Leiðir til bata“, sem er helgarnámskeið, og „Sjálfsuppgötvun og valdefling“ sem er sérsniðið að stúlkum og yngri konum, 18-25 ára. Þriðja nýja námskeiðið er svo  „Að segja frá“ sem er stutt námskeið fyrir konur sem íhuga að segja frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Sjá nánar um dagskrána og hér er skráningarsíða.
Athugið að eftir kynningu á dagskránni, um kl. 20.45, mun lögmaður fjalla um sjúkragagnamál SÁÁ og ræða spurningar sem brenna á konum varðandi sjúkragögn þeirra sem hafa verið í meðferð á Vík. Sjá nánar.
Allar sem áhuga hafa á starfi Rótarinnar eru hvattar til að mæta og taka vinkonur sínar með!
Viðburðurinn er á Facebook!
Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar: Kt. 500513-0470, bankanr. 0101 -26-011472.
Umræðukvöldið er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.