
Yfirlýsing vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands
Yfirlýsing frá Rótinni vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands
Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa telur gríðarlega mikilvægt að tryggt sé að meðferðarheimilið Laugalands starfi áfram á sömu forsendum og nú er, það er að segja fyrir stúlkur og á forsendum kenninga um kynjaskipta meðferð. Í janúar bárust af því fréttir að loka ætti heimilinu og ekki er ljóst hver staða málsins er nú.[1]
Ein grunnforsenda þess að geta unnið með stúlkur sem glíma við áföll og vímuefnavanda er að meðferðin sé örugg og þær upplifi traust, virðingu og stuðning. Þá þarf meðferðin að taka mið að þeirra þörfum og ótækt er að nota meðferðarefni sem samið er fyrir karla og drengi eins og því miður staðan er víða í dag.
Þó að unglingsárin geti verið mikil áskorun fyrir alla er mikilvægt að huga að kynjamun í reynslu þeirra og áskorunum í úrræðum sem þeim eru ætluð. Það breytir miklu um lífsferil okkar hvers kyns við fæðumst og það hefur líka mikil áhrif á þróun vímuefnavanda. Það er því nauðsynlegt að þekking og leiðbeiningar um bestu meðferð fyrir konur og stúlkur sé höfð að leiðarljósi í meðferðarstarfi fyrir þær.
Unglingsstúlkum mæta margar áskoranir á þroskabrautinni og samkvæmt kenningum í þroskasálfræði verður mikilvæg breyting í átt að sjálfstæði, aðskilnaði og þróunar sjálfsins á unglingsárum. Þó er það þannig að samfélagslegur þrýstingur er hindrun á leið stúlkna til sjálfsþekkingar og -tjáningar. Stúlkum er sniðinn mjög þröngur kvenímyndarstakkur sem veitir þeim ekki mikið svigrúm til að finna eigin rödd og standa með sjálfum sér.
Stúlkur verða illa fyrir barðinu á kynlífsvæðingu fjölmiðla og væntingum um „kvenlega“ hegðun þar sem áherslan er á útlit og kynþokka. Frá unga aldri geta þessi skilaboð skekkt mynd þeirra af því hvað í því fellst að vera kona. Þeim er kennt frá unga aldri að vera fallegar, mjóar og kynþokkafullar á meðan drengjum er kennt að dæma þær eftir þessum þröngu viðmiðum sem eru tilbúin, óraunhæf og grunnhyggin.
Átta konur stigu nýlega fram og lýstu ofbeldi og illri meðferð sem þær sættu af hálfu fyrrverandi rekstraraðila Laugalands og er það nú til rannsóknar. Rótin telur að þessar hugrökku konur eigi það inni hjá Barnaverndarstofu og félags- og barnamálaráðherra að þarna verði áfram rekið meðferðarheimili sem er eingöngu fyrir stúlkur og þeim tryggt öruggt og traust umhverfi.
f.h. ráðs Rótarinnar
Kristín I. Pálsdóttir,
talskona og framkvæmdastjóri
Greinargerð með yfirlýsingu Rótarinnar vegna meðferðarheimilisins Laugalands
Rök með kynjaskiptri meðferð
Ungar stúlkur og vímuefnavandi
Í svari við fyrirspurn Rótarinnar, árið 2015, kemur eftirfarandi fram um bakgrunn þeirra barna sem koma til meðferðar á stofnunum BVS:
Unglingar sem koma til meðferðar á stofnunum Barnaverndarstofu eiga flestir við margþættan vanda að stríða. Meirihluti skjólstæðinga meðferðarheimilanna hefur neytt áfengis eða annarra vímuefna en eiga jafnframt við að stríða hegðunarerfiðleika, tilfinningalegan vanda, þroskafrávik og jafnvel geðraskanir. Afar fáir greinast hins vegar með fíknisjúkdóm á þessum aldri og heyrir það til undantekninga. Stór hluti þessara barna á sögu um erfiðar heimilisaðstæður, endurtekin áföll, námserfiðleika og erfiðleika í skólagöngu, neikvæðan félagsskap og margvíslega íhlutun hjálparkerfa samfélagsins frá unga aldri.