Konur finna styrk sinn – Námskeið

Konur finna styrk sinn – Námskeið

Konur finna styrk sinn er áfalla- og kynjamiðaður leiðsagnarhópur (e. Psychodynamic Group) þar sem lögð er áhersla á að vinna með rætur áfengis- og vímuefnavanda og annað andstreymi í lífi kvenna. Vímuefnavandi eða skaðleg vímuefnanotkun er ekki einangrað vandamál heldur á sér m.a. rætur í áföllum. Unnið er með þann fjölþætta vanda sem konur glíma jafnan við. Á milli tíma er verkefnavinna sem þátttakendur eru hvattar til að vinna svo að þær fái sem mest út úr námskeiðinu og fá þátttakendur veglega vinnubók.
Námskeiðið er úr smiðju dr. Stephanie Covington og heitir á ensku Helping women recover. Covington er frumkvöðull í vinnu með konum með áfallasögu sem notað hafa sjálfskaðandi bjargráð eins og vímuefnanotkun.

Skráning

Umsagnir þátttakenda á fyrri námskeiðum

„Mér fannst rosalega gott að vinna með að bæta líkamsvitund, hugsa jákvætt til líkama síns. Einnig mjög gagnleg um kynlíf í tengslum við neyslu.“
„Að finna rótina að því hver ég er, hvernig hlutverk ég hef alist upp við og fests í. Að geta skapað nýja mig.“
„Námskeiðið var fullkomið og afar gagnlegt.“
„Ég er óendanlega þakklát!“
„Leiðbeinandi var alveg yndisleg og mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.“
„Frábærlega góð nærvera og fullkomið traust.”
„Leiðbeinandinn stóð sig frábærlega! Alveg yndisleg og mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.“
„Allt var svo gott og þægilegt umhverfi,“

Fyrir hverjar?

Námskeiðið er ætlað konum sem eiga sögu um vímuefnavanda. Það hentar jafnt konum sem hafa ekki notað vímuefni í langan tíma sem og konum sem eru að hefja vinnu við að bæta lífsgæði sín. Hámarksfjöldi er venjulega 10 þátttakendur en vegna sóttvarnaráðstafana eru nú einungis sex pláss í boði.

Markmið

Markmið námskeiðsins er að konur öðlist aukna sjálfsþekkingu sem einstaklingar en skilgreini sig ekki í gegnum sambönd eða stöðu sína. Einnig að þær átti sig á styrkleikum sínum og geti byggt framtíð sína og betra líf á þeim.

Innihald

Aðaláherslan er á fjóra þætti: Sjálfsmynd, samskipti, kynverund og andlega heilsu. Innan þessara þátta eru undirflokkar þar sem farið er ítarlega í atriði sem eru mikilvæg til að auka lífsgæði og kynntar nýjar aðferðir sem stuðla að þeim. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim, hvernig þær komust af og til hvaða bjargráða greip hver og ein þeirra.

Samþykktir fyrir námskeið og hópa Rótarinnar gilda á námskeiðinu eins og í öðru starfi félagsins.

Hvenær?

Hópurinn hittist 10 sinnum í u.þ.b. 90 mínútur í hvert skipti. Næsta námskeið hefst 9. febrúar 2022.  Tímarnir hefjast stundvíslega kl. 16:30 og lýkur yfirleitt kl. 18:00 og aldrei seinna en upp úr kl. 18:30. Undantekning á þessu er að tíminn 2. mars hefst kl. 16:00.

Hvar?

Námskeiðið er haldið í sal í kjallara, Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Þátttökugjald er 36.000 kr.

Skráning.

Dagsetningar

Tími Dagsetning Tími Dagsetning
1 9. febrúar 6 7. mars
2 14. febrúar 7 9. mars
3 16. febrúar 8 16. mars
4 23. febrúar 9 23. mars
5 2. mars 10 30. mars

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir.

Námskeiðið er niðurgreitt með styrkjum frá Lýðheilsusjóði og heilbrigðisráðuneyti.

Laus störf í Konukoti

Laus störf í Konukoti

Nú eru laus til umsóknar störf í Konukoti – neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Í Konukoti er unnið samkvæmt hugmyndafræði um skaðaminnkandi-, áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Áhugasamar fylla út meðfylgjandi form og senda einnig ferilskrá á konukot@rotin.is fyrir 23. desember 2021.

Starfssvið starfskonu er varsla athvarfsins á opnunartíma og móttaka kvenna auk umsjónar í athvarfinu. Hún þarf að vera til taks, elda létta kvöldmáltíð, sjá um frágang, þvott, þrif, aðstoða notendur við athafnir daglegs lífs og sinna öðrum störfum sem til falla og forstöðukona ákveður.

Pólskumælandi konur eru sérstaklega hvattar til að sækja um.

Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningi Eflingar og Rótarinnar sem er sambærilegur við samning Eflingar og Reykjavíkurborgar.

Unnið er samkvæmt eftirfarandi hugmyndafræði:

  • Skaðaminnkun er hugmyndafræði á sviði lýðheilsufræða sem hefur það að markmiði að draga úr heilsufars-, félags- og efnahagslegum afleiðingum vímuefnaneyslu, án þess að krefjast bindindis. Leitast er við að styðja allar jákvæðar breytingar á högum einstaklings sem minnka skaða og bæta lífsgæði hans.
  • Áfalla- og kynjamiðuð nálgun felur í sér að sá sem veitir þjónustu tekur mið af víðtækum áhrifum áfalla og hefur skilning á mögulegum leiðum til bata; ber kennsl á vísbendingar og einkenni áfalla hjá þeim sem nota þjónustuna, aðstandendur starfsfólki og öðrum sem koma að þjónustunni og bregst við með því að samþætta þekkingu á áföllum inn í stefnu, verkferla og framkvæmd og vinnur markvisst að því að hindra að endurvekja áföll.
  • „Konur sinna konum“: Unnið er eftir viðurkenndu verklagi í þjónustu við konur í viðkvæmri stöðu að konur sinni konum.

Nánari upplýsingar veitir Halldóra R. Guðmundsdóttir í síma 7935080 eða halldora@rotin.is.

Vinnustofa um ofbeldi í nánum samböndum og vímuefnavanda

Vinnustofa um ofbeldi í nánum samböndum og vímuefnavanda

Miðvikudaginn 24. nóvember hittist  fagfólk í vímuefnameðferð  og starfsfólk í úrræðum fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum í vinnustofu MARISSA-verkefnisins sem er tveggja ára samstarfsverkefni Grikkja, Eista og Íslendinga. Markmið þess er að styðja fagfólk sem vinnur með þolendum ofbeldis annars vegar og fagfólki sem vinnur með fólki sem glímir við vímuefnavanda hins vegar. 

Markmiðið með vinnustofunni, sem haldinn var að Hallveigarstöðum, var að fá speglun frá fagfólki um notkun handbókar sem er lokaafurð verkefnisins og verður gefin út á íslensku á næsta ári og gerð aðgengileg á netinu. Handbókin heitir á ensku: Training Manual on Supporting Women Dealing with Co-occurring Victimization of Intimate Partner Violence and Problematic Substance Use: A Guide for Facilitators.

Leiðbeinendur í vinnustofunni voru Guðrún Sif Friðriksdóttir, verkefnisstjóri hjá RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, fræðslustjóri Rótarinnar og Kristín I. Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Rótarinnar.

(more…)

Laus störf í Konukoti

Greinargerð um heimilislausar konur

Þær Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, og Halldóra R. Guðmundsdóttir, forstöðukona í Konukoti, mættu fyrir hönd félagsins og Konukots á fund ofbeldisvarnarnefndar hinn 17. október. Fyrir utan áherslur á það sem kemur fram í greinargerðinni lögðu þær áherslu á mikilvægi þess að efla þyrfti skaðaminnkandi þjónustu við heimilislausar konur með alvarlegan vímuefnavanda og skoða þarfir þeirra sérstaklega með tilliti til þess að oft er meiri skaði fólgin í því að útvega sér efni en í notkun þeirra.

Greinargerð um heimilislausar konur

Um heimilisleysi kvenna og ofbeldi

Konur sem glíma við heimilisleysi eiga aðra reynslu að baki en karlar í sömu stöðu og í rannsókn á viðhorfi og reynslu félagsráðgjafa af Konukoti segir að konurnar sem þangað sækja „hafi flestar átt erfiða æsku, hafi orðið fyrir áföllum í lífinu og margar þeirra eiga einnig við geðræn vandamál að stríða. Bakland kvennanna er lélegt og flestar þeirra neyta áfengis- og/eða vímuefna“.[1] Sögur þessara kvenna einkennast oft af flóknum, kynjuðum vanda og því þarf að taka á honum með kynjagleraugun á sínum stað og áætlunum sem miða að því að koma í veg fyrir að þær festist í þeirri stöðu að þurfa að treysta á þjónustu neyðarskýlis.

Fíknistefna á Íslandi hefur verið heldur íhaldssamari en í mörgum löndum í kringum okkur og ekki fylgt þeirri mannréttindamiðuðu og skaðaminnkandi nálgun sem verið hefur að vinna lönd í kringum okkur fyrr en á allra síðustu árum. Stefnumótun stjórnvalda endurspeglar því ekki þær menningarlegu breytingar í átt til aukinna mannréttinda þeirra sem glíma við vímuefnavanda, og aðrar áskoranir sem valda jaðarsetningu, sem hafa átt sér stað á undanförnum árum þó að Reykjavíkurborg hafi verið skrefi á undan ríkinu að breyta um stefnu í átt til skaðaminnkunar og kynjasamþættingar í málaflokknum.

Vegna þess hversu skilgreiningar á heimilisleysi hafa fram til þessa verið blindar á hegðun og þarfir heimilislausra kvenna er mikilvægt að vera vakandi fyrir því að konur séu sýnilegar í stefnumótun og þjónustuúrræði séu miðuð við raunverulegar þarfir þeirra. (more…)