Laus störf í Konukoti

Laus störf í Konukoti

Nú eru laus til umsóknar störf í Konukoti – neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Í Konukoti er unnið samkvæmt hugmyndafræði um skaðaminnkandi-, áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Áhugasamar fylla út meðfylgjandi form og senda einnig ferilskrá á konukot@rotin.is fyrir 10. janúar.

Starfssvið starfskonu er varsla athvarfsins á opnunartíma og móttaka kvenna auk umsjónar í athvarfinu. Hún þarf að vera til taks, elda létta kvöldmáltíð, sjá um frágang, þvott, þrif, aðstoða notendur við athafnir daglegs lífs og sinna öðrum störfum sem til falla og forstöðukona ákveður.

Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningi Eflingar og Rótarinnar sem er sambærilegur við samning Eflingar og Reykjavíkurborgar.

Unnið er samkvæmt eftirfarandi hugmyndafræði:

  • Skaðaminnkun er hugmyndafræði á sviði lýðheilsufræða sem hefur það að markmiði að draga úr heilsufars-, félags- og efnahagslegum afleiðingum vímuefnaneyslu, án þess að krefjast bindindis. Leitast er við að styðja allar jákvæðar breytingar á högum einstaklings sem minnka skaða og bæta lífsgæði hans.
  • Áfalla- og kynjamiðuð nálgun felur í sér að sá sem veitir þjónustu tekur mið af víðtækum áhrifum áfalla og hefur skilning á mögulegum leiðum til bata; ber kennsl á vísbendingar og einkenni áfalla hjá þeim sem nota þjónustuna, aðstandendur starfsfólki og öðrum sem koma að þjónustunni og bregst við með því að samþætta þekkingu á áföllum inn í stefnu, verkferla og framkvæmd og vinnur markvisst að því að hindra að endurvekja áföll.
  • „Konur sinna konum“: Unnið er eftir viðurkenndu verklagi í þjónustu við konur í viðkvæmri stöðu að konur sinni konum.

Nánari upplýsingar veitir Halldóra R. Guðmundsdóttir í síma 7935080 eða halldora@rotin.is.

Erindi til Ásmundar Einars

Erindi til Ásmundar Einars

Rótin hefur sent eftirfarandi erindi til Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra.

Sæll Ásmundur.

Okkur langar að þakka þér fyrir einlægt viðtal sem birtist í Morgunblaðinu um helgina. Sérstaklega þökkum við þér fyrir falleg orð í garð Konukots en Rótin tók við rekstri þess 1. október sl. Frásögnin af móður þinni snerti okkur djúpt af því að reynsla hennar og fjölda annarra kvenna er ástæða þess að við stofnuðum félagið Rótina 8. mars 2013. Okkur fannst skorta á að tekið væri heildstætt á tengslum áfalla og vímuefnavanda kvenna. Auk þess sem við höfum enn áhyggjur af öryggi kvenna í meðferðarkerfinu. (more…)

Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja

Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja

Í fjölda ára hefur þeirri hugmynd statt og stöðugt verið haldið að almenningi að fíkn sé „heilasjúkdómur“ sem þróist vegna galla í taugalíffræði heilans. Þetta er rangt.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að þessi ranghugmynd er hluti af stærri rangtúlkun, þ.e. á sálarfræði mannsins, og að hægt sé að smætta þau hugarferli sem gera okkur mennsk niður í rafboð sem taugafrumur senda í heilanum. Þessi hugmynd horfir alveg fram hjá þekkingu sem orðin er hluti af nútíma eðlisfræði, flækjufræði (e. Complexity Theory)

Flækjufræði urðu til sem viðurkenning á því að öll flókin kerfi þrói með sér nýja eiginleika sem ekki er hægt að útskýra eða spá fyrir um út frá þeim einstöku þáttum sem saman mynda kerfið. Þetta gerist vegna þess að einstakir þættir allra flókinna kerfa innibera einfaldlega ekki sömu eiginleika og kerfið gerir í heild sinni. (more…)

Forstöðukona ráðin í Konukot

Forstöðukona ráðin í Konukot

Halldóra R. Guðmundsdóttir

Rótin tók við rekstri Konukots 1. október og auglýsti í kjölfarið eftir forstöðukonu í neyðarskýlinu. Alls bárust 32 umsóknir. Nú hefur verið gengið frá ráðningu Halldóru R. Guðmundsdóttur í starf forstöðukonu en hún starfar nú sem forstöðumaður í sértækri búsetu fyrir fólk með einhverfu og hegðunarfrávik. Halldóra er með menntun í sálfræði, heilsuhagfræði og þjónandi leiðsögn. Hún hefur einnig verið sjálfboðaliði hjá skaðaminnkunarúrræðinu Frú Ragnheiði.

Halldóra hefur störf hinn 1. desember og býður ráð Rótarinnar hana velkomna til starfa og þakkar Þóreyju Einarsdóttur, umsjónarkonu í Konukoti, sem hefur starfað í afleysingum sem forstöðukona, hennar störf.