Markaður

Markaður til styrktar Konukoti er í Eskihlíð 4, Skógarhlíðarmegin. Hann er lokaður frá 30. mars 2024 um óákveðinn tíma.

Markaðurinn er á Facebook!

Gjafir til Konukots

Ef þú vilt styrkja starfið í Konukoti er hægt að gera það með því að gefa fatnað og snyrtivörur á markað Konukots en einnig er tekið við matvælum og þá er best að hringja í síma 511-5150. Þá er hægt að styrkja starfið með því að leggja inn á gjafareikning Konukots og eru þeir fjármunir notaðir til að bæta aðstöðu eða hag kvennanna sem þangað sækja.

Reikningsnúmer og kennitala gjafareikningsins er:

0133-26-001041, 500513-0470.

Þar sem margir, sérstaklega konur, hafa sýnt því áhuga að gefa föt og snyrtivörur til Konukots létum við okkur detta í hug að halda flóamarkað og er afraksturinn nýttur í þágu kvennanna sem sækja Konukot.

Eftir að markaðurinn hóf starfsemi búum við almennt vel og eigum í flestum tilfellum til það sem konurnar í athvarfinu vantar. Við seljum það sem er umfram og afraksturinn nýtist konunum þannig  að við getum búið betur að þeim. Við tökum þess vegna á móti snyrtivörum, skóm og  allskonar fötum,  flokkum, notum, seljum eða komum áfram í not annars staðar.

Margir sem ekki hafa mikið á milli handanna njóta þannig líka góðs af starfseminni, þ.e. með því að geta keypt eigulegar og flottar flíkur á mjög góðu verði.

Fyrir utan athvarfið er gámur sem ætlaður er fyrir föt og annan varning sem komið er með. Ef fólk kemur t.d. með vörur í kössum, sem erfitt er að setja í gáminn t.d. brotthættan varnign, er í lagi að skilja sitthvað eftir fyrir utan og því er kippt því inn um leið og færi gefst.

Við erum þakklátar fyrir allar „maður á mann“ auglýsingar sem eru okkur mikils virði!

Saga markaðarins

Markaður til styrktar starfsemi Konukots, hefur verið starfræktur síðan 2013.

Haustið 2013 skapaðist ákveðinn lúxusvandi í Konukoti og má segja að Konukotsmarkaður hafi sprottið upp úr þeim vanda. Þá hafði ung kona samband við verkefnastjóra athvarfsins og spurði hvort tekið yrði við snyrtivörum og ilmvötnum sem hún hafði ekki lengur not fyrir og var tilboðinu tekið með þökkum.

Áður en konan kom færandi hendi tók hún mynd af því sem hún hafði ákveðið að gefa, og bloggaði um það líka, sem varð til þess að sjónvarpsviðtal var tekið við hana og þá var eins og tappi væri tekin úr flösku.

Konur um allt land fóru að taka til hjá sér og sendu til athvarfsins mikið af fallegum fötum, skarti og snyrtivörum.

Á svipuðum tíma hafði Rótarý í Reykjavík samband og sagðist hafa heyrt af snyrtivörusöfnun, hvort þau gætu lagt eitthvað af mörkum við söfnunina. Þau fengu upplýsingar um að nóg væri til af snyrtivörum en það væri vel þegið að fá hjálp við að koma í gang markaði, sem þau og gerðu og síðan hefur markaðurinn verið opinn.

Í samningi sem Rauði krossinn gerði við velferðarsvið Reykjavíkurborgar haustið 2016 er tekið sérstaklega fram að miðhluti húsnæðisins í Eskihlíð 4 verði notaður undir fjáröflun Konukots.

Það má segja að vöxtur í starfseminni hafi verið jafn á milli ára og helsta skýringin sú að markaðurinn er orðinn þekktari og  á sér nú „fasta“ viðskiptavini sem mæta reglulega og geta treyst því að ávallt sé eitthvað nýtt á boðstólum.

Til þess að svo geti verið þarf um 20 klst. vinnuframlag á viku og því sinnir samhentur  hópur sjálfboðaliða.

Sérstakur gámu er fyrir framan markaðinn, þar sem hægt er að skilja eftir það sem fólk vill gefa til starfseminnar.

Hinn 1. október tók Rótin við rekstri Konukots með samningi við Konukot og einnig við rekstri markaðarins.

Verkefnastjóri markaðarins frá upphafi Kristín Helga Guðmundsdóttir og hefur hún stýrt honum af mikilli alúð frá upphafi.

Share This