Um Rótina

Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa – var stofnað þann 8. mars 2013 . Rótin er félag áhugakvenna og eru allar konur með áhuga á málefninu velkomnar til þátttöku.

Markmið félagsins eru eftirfarandi:

Markmið Rótarinnar eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið vill að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samstarfið við önnur félög, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.“

Skráðu þig í félagið og fáðu fréttabréfið okkar í tölvupósti!

Engin félagsgjöld eru í Rótinni enn sem komið er en við tökum glaðar á móti frjálsum framlögum. Hvert framlag skiptir máli!

Smelltu hér til að skrá þig í Rótina.

Rótin – félag kvenna með áfengis- og fíknivanda – Kt. 500513-0470 – Bankanr. 0101 -26-011472.

Sendu póst á rotin@rotin.is þegar greitt er inn á reikninginn.

Starfsfólk

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, grunnskólakennari og með diplóma í starfstengdri leiðsögn. Saga hennar, Ekki líta undan kom út 2011. Guðrún Ebba sat í stjórn Blátt áfram og stofnaði ásamt fleiri konum Drekaslóð og Rótina. Hún hefur leitt hópa fyrir Stígamót og Drekaslóð. Guðrún Ebba var um árabil í forystu Kennarasambands Íslands, m.a. sem varaformaður en einnig fyrsti formaður Félags grunnskólakennara. Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur sem kjörinn fulltrúi 2002-2006 og sat m.a. í borgar-, velferðar- og fræðsluráði borgarinnar auk einnar áfrýjunarnefndar. Guðrún Ebba stýrði vinnu um heildarendurskoðun laga um grunnskóla sem tóku gildi 2008. Hún þýddi tvær handbækur fyrir kennara og skólastjóra sem Menntamálastofnun gefur út: Viðkvæm álitamál og nemendur og Stjórnun á tímum ágreinings og átaka. Guðrún Ebba hefur séð um þýðingu og gerð handbóka fyrir námskeið Rótarinnar og Rótarhópa.

Katrín Alfreðsdóttir

Katrín Alfreðsdóttir

Katrín Alfreðsdóttir, Katrín G. Alfreðsdóttir er MA í félagsráðgjöf, hefur lokið tveggja ára námi í Fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun HÍ, ProfCert í vinnu með konum með vímuefnavanda frá University College Dublin og með viðbótardiplóma frá HÍ í áfengis- og vímuefnafræðum. Að auki hefur hún lokið námskeiði í Háskólanum á Akureyri um sálræn áföll og ofbeldi. Katrín hefur réttindi til að veita EMDR meðferð (ens. Eye movement Desensitization and reprocessing) og hefur lokið námskeiðum í Endurmenntun H.Í. í áhugahvetjandi samtali (ens. Motivational Interviewing) og lausnamiðaðri nálgun (ens. Solution focused therapy). Katrín hefur tileinkað sér hugmyndafræði skaðaminnkandi nálgunar (ens. Harm reduction) og var ein af frumkvöðlum hér á landi í að kynna hugmyndafræðina og koma henni á framfæri með fyrirlestrum, kennslu og rituðu efni. Hún vann um tíma á fíknigeðdeild Landspítalans og starfaði um árabil sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, bæði í Konukoti og hjá Frú Ragnheiði. Auk vinnu sinnar fyrir Rótina er Katrín sjálfstætt starfandi félags- og fjölskyldufræðingur hjá Vegvísi – ráðgjöf í Hafnarfirði.

Kristín I. Pálsdóttir

Kristín I. Pálsdóttir

Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastóri Rótarinnar, er ein af stofnendum félagsins. Kristín er með BA-próf í spænsku og ferðamálafræði og MA-próf í ritstjórn og útgáfufræðum frá Háskóla Íslands og ProfCert í konum og vímuefnanotkun frá University College Dublin. Hún hefur verið þátttakandi í margvíslegu grasrótarstarfi. Kristín var í ráði Femínistafélags Íslands frá 2009-2012, sat í starfshópi velferðarráðherra um heildstæða áfengis- og vímuvarnastefnu 2012-2013 og í Jafnréttisráði frá 2015-2018. Hún starfar sem verkefnisstjóri við Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum í Háskóla Íslands, RIKK. Kristín hefur verið verkefnisstjóri fjölda ráðstefna, hérlendis og erlendis, og skrifað ritrýndar greinar, m.a. „Fíknivandi kvenna og meðferð við honum“ í Geðvernd, rit Geðverndarfélags Íslands, (44. árg. 2015). Hún er einn af höfundum skýrslanna „Saman gegn ofbeldi: úttekt á samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi“ (RIKK, 2016) og „Átak gegn heimilisofbeldi : úttekt á samstarfsverkefni sveitarfélaganna Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi“ (RIKK, 2017).

Ráð Rótarinnar

Ráð Rótarinnar 2020-2021

Anna Daníelsdóttir, Áslaug Kristjana Árnadóttir, Elísabet Brynjarsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hulda Stefanía Hólm, Katrín G. Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Vagnbjörg Magnúsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir

Vararáð: Guðrún Magnúsdóttir (Gunný), Elínrós Líndal og Sólveig Þorleifsdóttir 

Skoðunaraðili reikninga: Auður Önnu Magnúsdóttir

Netfang ráðsins er: rotin@rotin.is

Ráð Rótarinnar 2019-2020

 Auður Önnu Magnúsdóttir, Árdís Þórðardóttir, Áslaug Kristjana Árnadóttir. Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir (sagði sig úr ráðinu  í febrúar af persónulegum ástæðum), Hulda Stefanía Kristjánsdóttir, Katrín Alfreðsdóttir, Kristín Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.

Vararáð: Björg Torfadóttir, Guðrún Erna Hreiðarsdóttir og Sólveig Þorleifsdóttir.

Skoðunaraðili reikninga: Dóróthea Lórenzdóttir.

Netfang ráðsins er: rotin@rotin.is

Ráð Rótarinnar 2018-2019

Árdís Þórðardóttir, Áslaug Kristjana Árnadóttir,  Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Helena Bragadóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Margrét Gunnarsdóttir, Soffía Bæringsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.

Vararáð: Guðrún Kristjánsdóttir, Edda Arinbjarnar og Lísa Kristjánsdóttir. Lísa vék úr vararáði 1. desember 2017.

Netfang ráðsins er: rotin@rotin.is

Netfang talskonu er: talskona@rotin.is

Ráð Rótarinnar 2017-2018

Árdís Þórðardóttir, Áslaug Kristjana Árnadóttir,  Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Margrét Gunnarsdóttir, Margrét Valdimarsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.

Vararáð: Guðrún Kristjánsdóttir, Edda Arinbjarnar og Lísa Kristjánsdóttir. Lísa vék úr vararáði 1. desember 2017.

Netfang ráðsins er: rotin@rotin.is

Netfang talskonu er: talskona@rotin.is

Ráð Rótarinnar 2016-2017

Árdís Þórðardóttir, Áslaug Kristjana Árnadóttir,  Guðrún Ebba Ólafsdóttir,  Gunnhildur Bragadóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir, Heiða Brynja Heiðarsdóttir (sagði sig úr ráði í lok nóvember 2016), Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.

Kristín er talskona og ritari og Árdís er gjaldkeri.

Vararáð: Guðrún Kristjánsdóttir, Edda Arinbjarnar og Lísa Kristjánsdóttir.

Netfang ráðsins er: rotin@rotin.is

Netfang talskonu er: talskona@rotin.is

Ráð Rótarinnar 2015-2016

Árdís Þórðardóttir, Brynhildur Jensdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir,  Gunnhildur Bragadóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir, Hildur Þórðardóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.

Kristín er talskona og ritari og Árdís er gjaldkeri.

Vararáð: Guðrún Kristjánsdóttir, Edda Arinbjarnar og Lísa Kristjánsdóttir

Ráð Rótarinnar 2014-2015

Árdís Þórðardóttir, Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir,  Gunnhildur Bragadóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir, Jóna Björg Howard, Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.

Kristín er talskona og ritari og Gunný Ísis er gjaldkeri.

Vararáð: Guðrún Kristjánsdóttir, Edda Arinbjarnar og Lísa Kristjánsdóttir.

Ráð Rótarinnar 2013-2014

Árdís Þórðardóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Gunnhildur Bragadóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Þórlaug Sveinsdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir og Gunný Ísis Magnúsdóttir.

Talskona var Guðrún Kristjánsdóttir en ritari Kristín og Gunný Ísis gjaldkeri.

Vararáð: Edda Arinbjarnar, Sólveig Anna Bóasdóttir og Lísa Kristjánsdóttir.

Samþykktir fyrir námskeið og hópa

Eftirfarandi samþykktir gilda á námskeiðum og í Rótarhópi.

Viðvera – Við skuldbindum okkur til að mæta í alla tímana. Skuldbinding hverrar og einnar til að mæta vel og reglulega hjálpar okkur að koma á jafnvægi í hópnum og finna fyrir stuðningi frá hver annarri. Ef þið komist ekki er mikilvægt að láta leiðbeinendur vita af því fyrir tímann.

Trúnaður – Þeim persónulegu upplýsingum sem deilt er innan hópsins má ekki deila utan hans. Við verðum að vera vissar um að það ríki trúnaður innan hópsins. Það er ein undantekning frá þessu, leiðbeinendur verða að tilkynna það til réttra aðila ef fram koma upplýsingar um að öryggi einhvers sé í hættu.

Öryggi – Mikilvægt er að hver og ein upplifi öryggi innan hópsins. Til að tryggja öryggi beitum við hvorki andlegu né líkamlegu ofbeldi. Ekki er í boði að tala dónalega eða niðrandi við aðrar konur í hópnum.

Þátttaka – Allar konur þurfa að fá að taka þátt í umræðum í hópnum. Ekki er hjálplegt ef einhverjar verða ráðandi í umræðunum og aðrar sitja hljóðar. Vinsamlegast deilið öllum athugasemdum með öllum í hópnum. Athugasemdir ykkar, spurningar og álit eiga erindi til okkar allra. Það getur bæði truflað og valdið skiptingu innan hópsins ef tvær og tvær eru að tala saman. Ef það kemur upp spurning um ákveðið efni sem einhver treystir sér ekki til að tala um má hún segja „PASS“.

Heiðarleiki – Við erum hér til að segja sannleikann. Það mun enginn hér neyða ykkur til að segja frá ykkar persónulegu reynslu eða öðru sem þið viljið ekki tala um. Ef þið veljið að segja frá vinsamlega segið satt og rétt frá, hvað gerðist og hvernig ykkur líður. Það er almennt mun hjálplegra ef þið talið um persónulega reynslu en um annað fólk.

Virðing – Þegar þið segið frá skoðun ykkar, vinsamlegast gerið það með virðingu fyrir öðrum í hópnum. Þá má ekki gagnrýna, dæma eða tala niður til nokkurs í hópnum. Vinsamlegast grípið ekki fram í fyrir þeirri sem er að tala. Ef einhver ætlar að taka yfir umræðuna munu leiðbeinendur grípa inn í svo allar fái tækifæri til að tala. Það getur verið að einhverri líði illa, finni fyrir reiði og vilji ekki taka þátt í umræðunni en hluti af virðingu fyrir hinum er að trufla þær ekki með slæmri framkomu. Það má velja að taka ekki þátt fyrr en ykkur er runnin reiðin eða ykkur líður betur. Í hópum og námskeiðum lærum við af reynslu annarra og miðlum okkar eigin. En við erum samt ekki að gefa hverri annarri ráð um hvað þær eigi að gera.

Spurningar – Það eru ekki til neinar rangar eða heimskulegar spurningar. Ykkur er heimilt að spyrja um hvað sem er. Vinsamlegast virðið spurningar hinna kvennanna í hópnum.

Verkefni – Við erum hér til að taka þátt í og tala um bataferli. Vinsamlega haldið ykkur við það efni. Ef við förum út fyrir efnið leitumst við leiðbeinendurnir við að koma okkur að efninu. Ef ykkur finnst við vera komnar út fyrir efnið, þá er ykkur heimilt að benda okkur á það.

Stundvísi – Við byrjum á réttum tíma og við endum á réttum tíma.

Lög félagsins

1.gr.

Félagið heitir Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa. Lögheimili og varnarþing þess eru í Reykjavík.

2.gr.

Markmið Rótarinnar eru að halda uppi umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og beita sér fyrir faglegri stefnumótun í málaflokknum. Félagið vill stuðla að því að konum standi til boða áfalla- og kynjamiðuð þjónusta og að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.

3.gr.

Félagið er opið öllum konum sem aðhyllast markmið félagsins.

4.gr.

Framlög til félagsins eru öllum frjáls. Heimilt er að leggja fram stuðning og styrki til samtakanna í öðru formi en peningum og skal þess þá sérstaklega getið. Félaginu er heimilt en ekki skylt að taka við fjárframlögum, gjöfum, styrkjum eða stuðningi sem bundin er kvöðum.

Ákvörðun um móttöku skv. ákvæði þessu skal tekin af talskonu ráðsins en hann getur jafnframt ákveðið að eigin frumkvæði að fela ráði samtakanna að taka ákvörðun um móttöku í einstaka tilvikum.

5.gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn vor hvert. Allir félagar sem skráðir hafa verið að lágmarki fimm daga í félagið hafa rétt til setu og atkvæðisrétt á fundi. Aðalfundur telst löglega boðaður ef fundarboð er sent með tölvupósti á félaga með a.m.k. tíu daga fyrirvara.

6.gr.

Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs. Á aðalfundi skulu kosnir níu félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir þrír varafulltrúar í ráð félagsins. Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins. Ráðið skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Skipaður skal ritari og gjaldkeri félagsins. Ráðið skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi;

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  6. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
  7. Ákvörðun félagsgjalda.
  8. Lagabreytingar
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

7.gr.

Reikningsár félagsins er 1. maí til 30.apríl. Á aðalfundi skal kjósa einn skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins leggur fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins.

8.gr.

Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Lagabreytingarnar teljast samþykktar ef 2/3 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar.

9.gr.

Rótinni má slíta með ákvörðun 2/3 hluta félaga á aðalfundi eða félagsfundi. Náist ekki tilskilin félagafjöldi á aðalfundi/félagsfundi má halda framhaldsfund og þarf þá 2/3 hluti fundaraðila að samþykkja slit til að félaginu teljist slitið. Við slit félagsins skulu eignir, ef einhverja eru, renna til styrktar meðferðastarfs fyrir konur.

Share This