Rótin er eitt af aðildarfélögum Kvenréttindafélags Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands og því aðili að yfirlýsingu félagasamtaka sem lýsa þungum áhyggjum af mjög alvarlegri stöðu sem upp er komin í málefnum fólks á flótta. Rótin vill hér með ítreka fullan stuðning við yfirlýsinguna í eigin nafni.
Félgið vill einnig benda á að GREVIO – Nefnd Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi – gaf út skýrslu sína á síðasta ári um stöðuna hér á landi en nefndin hefur eftirlit með framkvæmd Istanbúl-samningsins. Þar segir að kerfi hérlendis séu ekki nægilega í stakk búin til að bregðast við ofbeldi gegn jaðarsettum hópum, svo sem konum af erlendum uppruna, konum með fötlun eða konum með vímuefnavanda. Ákvæði 4. gr. 3. mgr. Istanbúl-samningsins um vernd þolenda krefst þess að öllum konum sem búa við eða eru í hættu á að verða fyrir ofbeldi sé framkvæmd án nokkurrar mismununar.
Mikil er niðurlæging jafn ríkrar þjóðar og Íslendingar eru að beita valdi gegn fólki í viðkvæmri stöðu á þann hátt sem breytingar á útlendingalögum hafa leitt af sér.

Yfirlýsing samtakanna
„Neðangreind félagasamtök lýsa þungum áhyggjum af mjög alvarlegri stöðu sem komin er upp í málefnum fólks á flótta sem vísað hefur verið úr allri þjónustu opinberra aðila eftir neikvæða niðurstöðu umsóknar um vernd á báðum stjórnsýslustigum. Afdrif þess, öryggi og mannleg reisn eru í hættu.
Samtökin harma að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra lagaákvæða. Þá leikur mikill vafi á að framkvæmdin standist þær mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.
Margt sem ráðamenn hafa sagt í þessari umræðu er villandi, óljóst og byggir á skorti á upplýsingum um raunverulega stöðu fólksins.
Samtökin skora á yfirvöld að tryggja öryggi þessa hóps, mannréttindi og grunnaðstoð með virku samráði við hjálpar- og mannréttindasamtök.
Því boða neðangreind samtök stjórnvöld til samráðsfundar nk. mánudag 21. ágúst 2023 klukkan 17.00 í sal Hjálpræðishersins á Suðurlandsbraut 72. Sérstaklega hefur verið óskað eftir viðveru hlutaðeigandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Reykjavík, 18. ágúst 2023

 • Barnaheill
 • Biskup Íslands
 • FTA – félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd
 • Geðhjálp
 • GETA hjálparsamtök
 • Hjálparstarf kirkjunnar
 • Hjálpræðisherinn á Íslandi
 • Íslandsdeild Amnesty International
 • Kvenréttindafélag Íslands
 • Mannréttindaskrifstofa Íslands
 • No Boarders
 • Prestar innflytjenda, Þjóðkirkjunni
 • Rauði krossinn á Íslandi
 • Réttur barna á flótta
 • Samhjálp
 • Samtökin 78
 • Solaris
 • Stígamót
 • UNICEF á Íslandi
 • UN Women á Íslandi
 • W.O.M.E.N. – samtök kvenna af erlendum uppruna
 • Þroskahjálp
 • ÖBÍ – heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi“
Share This