Fréttatilkynning

Rótinni hafa borist svör Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra og Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra við bréfi sem Rótin sendi þeim á haustmánuðum með spurningum um fyrirkomulag menntunar áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Tilefni erindisins var að afla upplýsinga um stöðu mála og áform stjórnvalda um bætta menntun þeirra sem meðhöndla fólk með fíknivanda. Í svari heilbrigðisráðuneytisins kemur m.a. fram að:

  • Menntun ráðgjafa fer ekki fram á ákveðnu skólastigi heldur á heilbrigðisstofnunum sem annast fíknimeðferð og endurskoðun á náminu er ekki hafin.
  • Námið heyrir undir velferðarráðuneytið í samvinnu landlæknis, fagráðs landlæknis og stofnana sem veita meðferð.
  • Velferðarráðuneytið hefur ekki í hyggju að beita sér fyrir því að menntun þessara heilbrigðisstarfsmanna feli í sér fræðslu um ofbeldi og áföll og áhrif þess að fíknisjúkdóma.
  • Engar kröfur eru gerðar til þeirra sem kenna ráðgjöfina aðrar en þær að námið sé í umsjón læknis. Þeir sem sjá um kennsluna þurfa ekki að hafa neina kennslufræðilega menntun. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um framtíð menntunar á þessu sviði.

Af svarinu má ráða að málið er í ákveðnum ólestri, námið tilheyrir engu skólastigi og litlar sem engar kröfur eru gerðar til þeirra sem annast kennslu ráðgjafanna. Umgjörð náms áfengis- og fíkniráðgjafa er því í skötulíki og yfirvöld þurfa að ráðast í úrbætur.

Áfengis- og vímuefnafíkn er flókið og margþætt heilkenni þar sem saman fara sálræn, líkamleg og atferlisleg einkenni. Áfengistengd vandamál eru líka einn stærsti áhrifaþátturinn á heilsufarsvandamál í samtímanum.

Með tilliti til þess vandasama hlutverks sem þessir starfsmenn hafa í lífi þeirra sem leita sér meðferðar þarf að gera metnaðarfyllri kröfur. Háskóli Íslands býður upp á diplómanám í áfengis- og vímuefnamálum sem samanstendur af tveimur 10 eininga fagnámskeiðum og einu sérverkefni. Það er langt frá því að vera fullnægjandi.

Víða í heiminum er meirihluti ráðgjafa með BA/BS-gráðu eða meiri menntun, þetta átti við 71% meðferðaraðila samkvæmt rannsókn sem gerð var í Norðvesturríkjum Bandaríkjanna árið 2000. Á Íslandi er því hins vegar þannig farið að menntun ráðgjafa er ekki einu sinni hluti af hinu formlega skólakerfi og engin námskrá er til í faginu.

Rótin telur því mikilvægt að lagaumhverfi og gæðaeftirlit með námi áfengis- og vímuefnaráðgjafa verði skýrt, námið verði sett undir ákveðið skólastig og heyri þar með undir menntamálaráðuneytið. Þá verði náminu sett námskrá og viðeigandi menntunarkröfur gerðar til þeirra sem annast kennslu ráðgjafa.

Í ljósi þess að um 80% kvenna sem fara í meðferð hafa orðið fyrir ofbeldi telur Rótin einsýnt að sú alvarlega staðreynd verði höfð til hliðsjónar við endurskoðun ráðgjafanámsins og við námskrárgerð í faginu. Þá er tímabært að boðið sé upp á fullt nám í fíknifræðum við háskóla hér á landi, með tilheyrandi rannsóknarstarfi í faginu.

Fyrir hönd Rótarinnar, félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda,

Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Kristín Pálsdóttir
Þórlaug Sveinsdóttir

Svör ráðuneytanna má lesa í eftirfarandi viðhengjum:

Svar heilbrigðisráðherra

Svar menntamálaráðherra

Rótin sendi einnig erindi til landlæknis vegna ráðgjafanáms:

Erindi til landlæknis vegna ráðgjafanáms

19. janúar 2014

Share This