Aðalfundur Rótarinnar 2024

Aðalfundur Rótarinnar 2024

Aðalfundur Rótarinnar verður haldinn miðvikudaginn 15. maí kl. 17, í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Þátttakendur eru vinsamlega beðnar að skrá sig á aðalfundinn hér.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir varafulltrúar í ráðið og skoðunarkona reikninga. Athygli er vakin á því að tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund, eða eigi síðar en 10. maí.

Dagskrá aðalfundur:

 1. Fundur settur.
 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
 4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
 5. Lagabreytingar
 6. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
 7. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
 8. Ákvörðun félagsgjalda.
 9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
 10. Önnur mál.

Hefur þú áhuga á trúnaðarstörfum fyrir Rótina?

Við hvetjum áhugasamar félagskonur til að bjóða sig fram í ráð eða sem skoðunaraðila reikninga eða  hér.

Frekari upplýsingar fást hjá Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu, í netfanginu kristin@rotin.is eða í síma 793-0090.

Markmið Rótarinnar eru:

a) Að vera málsvari kvenna og kvára sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir mannréttindum og velferð þeirra.

b) Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun sem hefur að leiðarljósi skaðaminnkun, mannréttindi og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.

c) Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum og kvárum til góða.

d) Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.

e) Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

f) Trúnaður skal viðhafður um þá einstaklinga sem leita til samtakanna. Félagar, starfsfólk, sjálfboðaliðar, ráð Rótarinnar og þau sem dvelja í neyðarskýlinu eru bundin þagnarskyldu samkvæmt lögum félagsins. Þagnarskylda skal virt eftir að starfi eða dvöl í athvarfinu lýkur.

Fyrirlestur um breytingar á vímuefnamarkaði

Fyrirlestur um breytingar á vímuefnamarkaði

Julia Buxton heldur fyrirlestur á vegum Rótarinnar, námsbrautar í félagsfræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og Félagsfræðingafélags Íslands hinn 11. apríl kl. 12. í stofu 104 á Háskólatorgi. Fundarstjóri verður Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félags- og afbrotafræði.

Fyrirlestur Juliu nefnist New wine in old bottles: drug criminalisation in an age of dynamic drug market change

Dínamísk nýsköpun og tæknibreytingar eru að breyta ólöglegum fíkniefnamörkuðum. Samskipti á samfélagsmiðlum, offramboð á kókaíni, fjölgun tilbúinna vímuefna (e. synthetic drugs) og mikill vöxtur kannabisræktunar í heimahúsum eru nokkur einkenni vímuefnamarkaðarins í dag. Fyrirlesturinn fjallar um hversu gagnlegar hefðbundnar aðferðir glæpavæðingar vímuefna eru til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og skaðann sem bæði bannstefna og bráðabirgðaumbætur á fíkniefnastefnu geta valdið.

Julia Buxton er British Academy Global Professor við afbrotafræðideild Manchester-háskóla. Hún er sérfræðingur í þróun vímuefnamála, kynbundum áhrifum framfylgni við fíknistefnu og sýndarmörkuðum (e. cryptomarkets). Þær rannsóknir sem hún vinnur að núna beinast að þverþjóðlegum aðstæðum og ferlum sem knýja fram breytingar og samtvinnun mannréttinda í fíknistefnu.

Öll velkomin!

GLÓÐ til styrktar Konukoti

GLÓÐ til styrktar Konukoti

Nýr íslenskur hönnunargripur, Glóð, var kynntur með viðhöfn í Smiðsbúðinni á Geirsgötu  þann 26. október. Um er að ræða kertastjaka sem er seldur til styrktar Konukoti, neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur. Með kaupum á Glóð er þannig hægt að sameina í einni gjöf vandaða íslenska hönnun og stuðning við nauðsynlega starfsemi Konukots.

Erling Jóhannesson gullsmiður hannaði þennan fallega stjaka sem hentar fyrir lítið kertaljós og er gerður úr möttu og spegluðu stáli, sem er skorið út í tímalaust form sem vísar m.a. í hátíðahefðir á íslenskum heimilum.

Smiðsbúðin er verkstæði og verslun gullsmiðanna Erlings og Helgu Óskar.

Áformað er að Glóð 2023 verði fyrst í röð sex stjaka sem kynntir verða árlega og seldir til styrktar starfsemi Konukots. Glóð er seld í Smiðsbúðinni auk helstu gjafaverslana eins og í Epal, Kokka & PRAKT jewellery

Konukot er rekið af félagasamtökunum Rótinni samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg og þjónar hópi sem hefur fjölbreyttan bakgrunn og þarfir. Hugmyndafræði Rótarinnar byggist á því að nálgast fíkn sem fjölþættan vanda, afleiðingu áfalla og félagslegra aðstæðna.

Ábending til umboðsmanns Alþingis um frumkvæðisathugun

Ábending til umboðsmanns Alþingis um frumkvæðisathugun

Rótin sendi í dag, 6. október 2023, ábendingu, með ítarlegri greinargerð, á umboðsmann Alþingis um frumkvæðisathugun á því hvort að sú þjónusta sem fólk með vímuefnavanda fær á Íslandi stuðlar að þeim grundvallarmannréttindum sem felast í réttinum „til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er“,eins og fram kemur í Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, og „fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita“ sbr. 1. gr. 3. mgr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74 frá árinu 1997. Einnig hvort að þess sé gætt að tryggt sé í þjónustu við fólk með vímuefnavanda að allir skuli „frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar“ í samræmi við 18. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sþ.

Erindið er einnig aðgengilegt í PDF-skjali hér.

Réttur fólks með vímuefnavanda til fullkomnustu heilbrigðisþjónustu

Erindi til umboðsmanns Alþingis. Ábending um frumkvæðisathugun

Inngangsorð

Í sumar barst sú frétt að samningur hefði náðst á milli SÁÁ og Símenntunar Háskólans á Norðurlandi um að hin síðarnefndu myndu bjóða upp á nám í áfengis- og vímuefnaráðgjöf í haust.[1]

Ráð Rótarinnar varð mjög undrandi á þessum fréttum sem ekki eru í samræmi við þær upplýsingar sem yfirvöld hafa gefið um þróun námsins og almennt um framtíð þessarar starfstéttar sem er löggilt heilbrigðisstétt, þrátt fyrir að uppfylla engan veginn þær kröfur sem gerðar eru um menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks í nútímaheilbrigðiskerfi.

Rótin hefur frá stofnun félagsins árið 2013 beitt sér fyrir bættum gæðum í þjónustu við fólk með vímuefnavanda og þá ekki síst að því er varðar menntun þeirra sem veita meðferð. Félagið hefur síendurtekið vakið athygli á menntunarmálum áfengis- og vímuefnaráðgjafa sem yfirvöld viðurkenna að séu í ólestri en engar raunverulegar úrbætur hafa átt sér stað. Á meðan er langt því frá að fólk með vímuefnavanda fái þjónustu sem stuðlar að þeim grundvallarmannréttindum sem felast í réttinum „til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er“,[2] eins og fram kemur í Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, og „fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita[3] sbr. 1. gr. 3. mgr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74 frá árinu 1997. Einnig hvort að tryggt sé í þjónustu við fólk með vímuefnavanda sem hið opinbera veitir fjármagni í að allir skuli „frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar“ í samræmi við 18. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sþ.[4]

Í samræmi við framangreint sendir Rótin nú þessa ábendingu til umboðsmanns Alþingis um að hefja frumkvæðisathugun á gæðum meðferðar og þjónustu við fólk með vímuefnavanda í samræmi við mannréttindi og rétt til heilbrigðisþjónustu.

Yfirlit yfir helstu atriði

 • Lagagrundvöllur náms áfengis- og vímuefnaráðgjafa er óljós en ljóst að Embætti landlæknis hefur það hlutverk að meta hvað er gilt nám fyrir starfstéttina
 • Rótin hefur sent fyrirspurn á formann háskólaráðs Háskólans á Akureyri til að fá úr því skorið hver lagaleg staða Símenntunar Háskólans á Akureyri er
 • Framkvæmdastjóri lækninga hjá eina aðilanum sem býður upp á starfsnám, SÁÁ, er í fagráði Landlæknisembættisins um áfengis- og vímuefnaráðgjafa
 • Ráðgjafar og ráðgjafanemar bera uppi meðferðarstarf í landinu, að Landspítala undanskildum
 • Námið er u.þ.b. 15 eininga nám, miðað er við 300 kennslustundir, stúdentsprófs ekki krafist
 • Óljóst á hvaða námsstigi námið tilheyrir
 • Einsdæmi í heilbrigðiskerfinu að starfsstétt sem er með svo litla menntun beri jafn mikla ábyrgð á meðferð sjúklinga sem margir hverjir glíma við fjölþættan og flókinn vanda
 • Ráðgjafar, sem hafa enga akademíska menntun, hafa borið ótrúlega mikla ábyrgð á sjúklingum SÁÁ og velferð þeirra
 • Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa vill að námið sé við viðurkennda“ menntastofnun til þess að geta fengið námið metið til eininga, auka tengsl við fræðasamfélagið og aðrar starfsstéttir“.

Staða náms áfengis- og vímuefnaráðgjafa

Embætti landlæknis hefur það hlutverk að meta hvað er gilt nám skv. reglugerð 1106/2012, um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuvarnaráðgjafa, og skilyrði til að hljóta starfsleyfi:

Landlæknir gerir tillögur, í samráði við stofnanir sem veita menntun í áfengis- og vímu­varnaráðgjöf, sem og fagráð landlæknis um áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og aðra sem landlæknir metur hæfa, um nauðsynlega menntun fyrir áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og hvernig henni skuli hagað. Landlæknir skal senda ráðherra tillögurnar til staðfestingar.“[5]

Tekið skal fram að framkvæmdastjóri lækninga hjá eina aðilanum sem býður upp á starfsnám, SÁÁ, er í fagráði Landlæknisembættisins um áfengis- og vímuefnaráðgjafa og verður það að teljast óheppilegt.[6] Ljóst er að hagsmunaaðilinn sem ræður áfengis- og vímuefnaráðgjafa til starfa, SÁÁ, hefur aðra hagsmuni en t.d. þau sem þiggja þjónustu starfsstéttarinnar, sem ekki eiga fulltrúa í fagráðinu.

Fréttir af því að SÁÁ hafi samið við Símenntun HA upp á sitt einsdæmi vöktu okkur í ráði Rótarinnar mikillar furðu, ekki síst með tilliti til þess að heilbrigðisráðherra hefur gefið út að námið eigi að færast á háskólastig.[7] Með því fyrirkomulagi sem nú er auglýst er ljóst að ekkert hefur orðið af margboðuðum umbótum á náminu, ekki er t.d. um endurskoðun á reglugerð að ræða.

Af þeim takmörkuðu upplýsingum sem gefnar eru um námið á vef Símenntunar HA má ráða að þar er í boði 300 fræðslustunda nám, þó eru aðeins 13 fyrirlestrar á dagskrá fyrstu annar og námsbrautarlýsing er einungis birt fyrir hana. Ekki eru neinar forkröfur í námið, ekki þarf að hafa stúdentspróf t.d. og einungis er hægt að vera í starfsnámi hjá SÁÁ. Til að komast í starfsnám þar er þó krafist stúdentsprófs.[8] Ekki er fjallað um námsmat eða vinnuálag í náminu og þá kemur ekki fram hvernig námið er flokkað að öðru leyti innan laga og reglna um menntun á Íslandi og því ekki skýrt á hvaða skólastigi námið er. Rótin hefur óskað eftir upplýsingum um stjórnsýslulega stöðu Símenntunar HA hjá formanni háskólaráðs Háskólans á Akureyri því eins og námið er auglýst er vandséð að það geti flokkast undir ákvæði um endurmenntun á vegum háskóla skv. 3. og 23. gr. laga um opinbera háskóla.[9] Símenntun HA er heldur ekki á lista Menntamálastofnunar yfir viðurkennda fræðsluaðila.[10]

Árið 2019 var búinn til starfaprófíll fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjöf á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins en starfaprófíllinn er afurð hæfnigreiningar og inniheldur lista yfir þá hæfniþætti sem eru mikilvægastir til að inna starfið af hendi á árangursríkan hátt, ásamt lýsingu á hæfninni á viðeigandi þrepi. Hæfniþættirnir fyrir nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa eru almennt á þriðja þrepi hæfniramm aum íslenska menntun[11] sem samræmist framhaldsskólaprófi eða prófi til starfsréttinda.[12] Stúdentspróf er t.d. í fjórða þrepi.

Vert er að hafa í huga að áfengis- og vímuefnaráðgjafar eru lykilstarfsmenn í meðferð SÁÁ eins og Þráinn Farestveit, sem er varaformaður framkvæmdastjórnar SÁÁ, bendir á í nýlegri grein :

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar mynda kjarnann í meðferðarstarfinu. Á þeirra herðum er að leiða það sálfélagslega ferli sem felst í meðferðinni. Áratuga reynsla hefur sýnt og sannað að leiðsögn þeirra og sérþekking er lykillinn að árangri þeirra sem glíma við fíknsjúkdóminn. Nú starfa 42 ráðgjafar og ráðgjafanemar hjá SÁÁ og hafa þeir aldrei verið fleiri að störfum hjá samtökunum.[13]

Eins og sjá má á lýsingu ráðgjafa á starfinu í nokkurra ára gamalli grein bera ráðgjafarnir mikla ábyrgð og:

… hitann og þungann af meðferðinni. Þeir eru í mestri nálægð við sjúklingana og bera því mikla ábyrgð. Þeir halda fyrirlestra, sjá að mestu um hópmeðferð og einstaklingsráðgjöf varðandi vímuefna- og spilafíkn.[14]

Hann bætir því við að svo „starfa áfengis- og vímuefnaráðgjafar meðal annars við forvarnir og rannsóknir“ að í starfinu felist að „hjálpa fólki að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína“.

Helmingur ráðgjafanna sem starfa hjá SÁÁ eru ráðgjafanemar og því ekki einu sinni með þá takmörkuðu menntun sem ráðgjafanámið veitir.[15]

Ráðgjafar, sem hafa enga akademíska menntun, hafa borið ótrúlega mikla ábyrgð á sjúklingum SÁÁ og velferð þeirra. Það er einsdæmi í heilbrigðiskerfinu að starfsstétt sem er með svo litla menntun beri jafn mikla ábyrgð á meðferð sjúklinga sem margir hverjir glíma við fjölþættan og flókinn vanda. Til að fá löggildingu þurfa ráðgjafar einungis að mæta í 300 kennslustundir en það samsvarar um 15 einingum á framhaldsskólastigi.

Rétt er að benda á að ráðgjafar hafa ekki tækifæri til að klára námið annars staðar en hjá SÁÁ. Þar hefur verið mikil starfsmannavelta og Rótin hefur verið í sambandi við fólk sem hefur hrökklast úr náminu af ýmsum ástæðum t.d. vegna þeirrar ógnarstjórnar sem ríkti á vinnustaðnum og lýst er í yfirlýsingu 57 starfsmanna, eða meirihluta starfsfólksins árið 2020.[16] Þá sá ráðgjafaneminn Hilmar Hansson ástæðu til að gefa út bók um reynslu sína af ráðgjafastarfinu þar sem hann lýsir því sem hann upplifir sem „eineltisvinnustað“.[17] Vitnisburður Hilmars rímar vel við frásagnir annarra starfsmanna sem hafa deilt reynslu sinni með Rótarkonum.

Mikið óréttlæti fellst í því gagnvart ráðgjöfunum að búa ekki við meira réttlæti og öryggi í sínu námi enda hafa flestir innanhússskólar lagst af á síðastliðnum árum, eins og t.d. Lögregluskólinn. Slíkir skólar eru börn síns tíma og skapa oft mjög mikið valdaójafnvægi, þar sem hallar á nemana, ásamt því að oft verður lítil endurnýjun á þekkingu innan slíkra kerfa. Ráðgjafarnir sjálfir gleðjast varla yfir fréttum af samningum SÁÁ við Símenntun HA þar sem formaður Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa, Oddur Sigurjónsson, skrifar í ársskýrslu Sameykis 2022:

Eitt helsta verkefni FÁR síðustu misseri hefur verið að koma námi áfengis- og vímuefnaráðgjafa, sem SÁÁ sér nú um, inn í viðurkennda menntastofnun til þess að geta fengið námið metið til eininga, auka tengsl við fræðasamfélagið og aðrar starfsstéttir en einnig að styðja við þá þróun að áfengis- og vímuefnaráðgjafar geti starfað víðar en á heilbrigðisstofnunum SÁÁ, en langflestir meðlimir FÁR vinna hjá SÁÁ. FÁR telur að aukin breidd í starfsvettvangi áfengis- og vímuefnaráðgjafa sé rökrétt þróun og styrki grundvöll þessarar mikilvægu starfsstéttar.[18]

Ráðgjafar- og ráðgjafanemar bjuggu einnig við það ástand í áratugi að yfirmaður þeirra á Vogi var allt í senn formaður fagfélagsins þeirra, Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa og jafnframt aðalkennari í náminu. Mágur hans var svo yfirmaður hans svo að margir veigruðu sér við að leita þar réttlætis. Hið opinbera hefur því ekki bara brugðist fólki sem leitar sér meðferðar heldur einnig starfsfólki meðferðarstöðvanna með því að regluverk og gæðakröfur og -eftirlit er ekki öflugra um svo mikilvæga starfsemi fyrir fólk í viðkvæmri stöðu.

Svo virðist sem fáir ef einhverjir af þeim ráðgjöfum sem starfandi eru í íslenska meðferðarkerfinu séu með meiri menntun en fyrsta ráðgjafastigið af þremur, sem ekki er á háskólastigi. Í Bandaríkjunum eru margir ráðgjafar hins vegar með háskólamenntun, BA/BS, MA/MS og doktorsgráður. Menntun ráðgjafa er útskýrð í greininni „Reynsla eða þekking? Fleiri staðreyndir um ráðgjafanám“ eftir Rótarkonur.

Reglugerð um ráðgjafanám byggir á fyrirmyndum frá Bandaríkjunum og Kanada og kröfur til ráðgjafa virðast miðaðar við ráðgjafanám National Association of Alcoholism and Drug Abuse Counselors (NACCDAC). Íslenskir ráðgjafar hafa margir fengið viðurkenningu þessara samtaka sem bjóða upp á vottun á þremur stigum, National Certified Addiction Counselor (NCAC) I, II og Master Addiction Counselor (MAC).

Fyrsta stigið er sambærilegt við það nám sem viðurkennt er af Embætti landlæknis. Annað stigið er fyrir þá sem eru með BA/BS-gráðu og þriðja stigið er fyrir fólk með MA/MS-gráðu í heilbrigðis-, félagsvísinda- eða öðrum tengdum greinum. Munurinn á stöðunni hér á landi og í Bandaríkjunum er sá að hér virðist lítið vera um að ráðgjafar séu með meiri menntun en fyrsta stigið. Í Bandaríkjunum er stærsti hluti ráðgjafanna hins vegar með menntun á háskólastigi.[19]

Í bandarískri rannsókn á því af hverju erfiðlega gengur að innleiða nýjar gagnreyndar aðferðir í þjónustu við fólk með vímuefnavanda kemur fram að starfsfólk í meðferð sem styður 12 spora nálgun, en ráðgjafastarfið er sprottið úr henni, eigi erfiðara með að tileinka sér nýjar aðferðir:

… providers that support traditional twelve-step approaches, have longer tenure in the field, and identify as being in recovery, may be more resistant to implementation of new interventions.[20]

Meðferð SÁÁ hefur verið mjög tengd 12 spora hugmyndafræði og það var lengi skilyrði að starfsfólk væri í 12 spora samtökum. Þá er ljóst þegar gögn um viðurkenningu ráðgjafanámskins eru skoðuð að þar er byggt á 12 spora hugmyndafræði og sjúkdómshugtakinu. Enda segir í bréfi Hjalta Björnssonar, þáverandi formanns Félags áfengisráðgjafa, til Jóns Kristjánssonar, þ.v. heilbrigðis- og tryggingaráðherra, um fræðilegan grunn áfengisráðgjafar að hann sé sjúkdómshugtakið, stig sjúkdómsins og 12 spora hugmyndafræðin[21]:

Þannig hafa flestir starfsmenn samtakanna verið í 12 spora starfi, enda var það krafa þar til fyrir nokkrum árum, og 12 spora fundir eru ennþá hluti af meðferðinni. Kenningunni um að fíkn sé heilasjúkdómur hefur verið haldið á lofti af trúarlegri sannfæringu hjá SÁÁ. Gengi kenningarinnar hefur fallið mjög á undanförnum árum og því til vitnis eru orð Matildu Hellman, ritstjóra, í leiðara tímaritsins Nordic Studies on Alcohol and Drugs, á síðasta ári, um að tími sé til kominn að endurskoða kenninguna um að fíkn sé heilasjúkdómur og að margt áhrifamikið vísindafólk, þar á meðal í taugavísindum, hafi nú bent á hversu haldlítil og afstæð þau vísindi, sem kenningin byggir á, eru og hversu litlu þau hafa skilað í bættri meðferð fólks með vímuefnavanda.[22]

Einnig má nefna bréf 94 vísindamanna til tímaritsins Nature, sem fjallað er um í greinargerð Rótarinnar til heilbrigðisráðherra um konur og fíkn frá árinu 2017. 94 vísindamenn skrifuðu ritstjóra tímaritsins Nature til að mótmæla því að í leiðara tímaritsins var heilasjúkdómskenningunni haldið á lofti og í yfirlýsingu vísindamannanna segir:

Það þrönga sjónarhorn sem haldið er á lofti í leiðaranum tekur vímuefnanotkun úr pólitísku, félags-, laga- og umhverfislegu samhengi sínu og hún er eingöngu skoðuð sem afleiðing af truflun á heilastarfsemi. Þetta þröngsýna sjónarhorn gerir lítið úr gríðarlegum áhrifum möguleika fólks í lífinu, vali og aðstæðum á fíknihegðun.[23]

Einn af þeim sem hafa fjallað um heilasjúkdómskenninguna um fíkn er Lance Dodes og í þýddri grein á vef Rótarinnar fjallar hann um hversu afmennskandi þessi nálgun er og í niðurlagi hennar segir:

Taugalíffræðingar NIDA hafa gert fólki með fíknivanda og greininni allri mikinn óleik með því að halda því fram að rotturannsóknir þeirra útskýri mannlega fíkn. Til að skilja þau áráttukenndu einkenni sem við köllum fíkn verðum við að skilja manneskjur.[24]

Dr. Jeffrey Foote, sálfræðingur og fíknisérfræðingur í Bandaríkjunum, hefur orðað vandann í fíknimeðferðarkerfinu þannig að í fáum öðrum greinum sé minnst þjálfaða starfsfólkið látið sjá um flóknasta hópinn:

In few other fields do we place some of the most difficult and complicated patients in the health-care system with some of the least trained folk among us.[25]

Fyrirspurnir um stöðu námsins

Ef stiklað er á stóru varðandi erindi til hins opinbera um menntun ráðgjafa þá sendi Rótin fyrsta erindi sitt til yfirvalda í október árið 2013 en það var fyrirspurn til Embættis landlæknis:

Í reglugerð um um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi segir:

„Landlæknir gerir tillögur, í samráði við stofnanir sem veita menntun í áfengis- og vímuvarnaráðgjöf, sem og fagráð landlæknis um áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og aðra sem landlæknir metur hæfa, um nauðsynlega menntun fyrir áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og hvernig henni skuli hagað. Landlæknir skal senda ráðherra tillögurnar til staðfestingar.“

Við Rótarkonur óskum eftir upplýsingum um hvort að landlæknir hafi gert ofangreindar tillögur og ef svo er óskum við eftir að fá þær sendar.

Svarið sem félaginu barst var eftirfarandi:

Við vinnslu reglugerðarinnar kom fram að nauðsynlegt væri að endurskoða þær námskröfur sem gerðar eru til þessarar stéttar og taka þá mið af menntun sambærilegra stétta í nágrannalöndum okkur. Sú vinna er ekki komin formlega af stað en það verður farið í hana. Ekki er hægt að segja að svo stöddu hvenær það yrði.[26]

Okkur vitanlega hefur þessi endurskoðun ekki átt sér stað.

Rótin sendi einnig erindi á heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra í október 2013 þar sem segir:

Í reglugerð 1106/2012 um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi kemur fram að landlæknir gefur út starfsleyfi ráðgjafa og að leyfið megi veita þeim sem lokið hafa námi sem landlæknir metur gilt.

Við eftirgrennslan hjá landlækni, sem gefur út starfsleyfi heilbrigðisstétta og þar með áfengis- og vímuefnaráðgjafa, kom fram að embættið hefur ekki gert tillögur um menntunina og hvernig henni skuli hagað, samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar, en að embættið telji nauðsynlegt að „endurskoða þær námskröfur sem gerðar eru til þessarar stéttar og taka þá mið af menntun sambærilegra stétta í nágrannalöndum okkur.“ Jafnframt kemur fram að sú vinna sé ekki farin af stað.[27]

Í svari frá menntamálaráðherra segir hinn 10. janúar 2014 segir:

Menntun ráðgjafa heyrir ekki undir mennta- og menningarmálaráðuneyti heldur Embætti landlæknis sem heyrir undir velferðarráðuneyti. Mælst er til að fyrirspurnum um menntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa verði beint til Embættis landlæknis.[28]

Í svari heilbrigðisráðuneytisins kemur m.a. fram að:

 • Menntun ráðgjafa fer ekki fram á ákveðnu skólastigi heldur á heilbrigðisstofnunum sem annast fíknimeðferð og endurskoðun á náminu er ekki hafin.
 • Námið heyrir undir velferðarráðuneytið í samvinnu landlæknis, fagráðs landlæknis og stofnana sem veita meðferð.
 • Velferðarráðuneytið hefur ekki í hyggju að beita sér fyrir því að menntun þessara heilbrigðisstarfsmanna feli í sér fræðslu um ofbeldi og áföll og áhrif þess að fíknisjúkdóma.
 • Engar kröfur eru gerðar til þeirra sem kenna ráðgjöfina aðrar en þær að námið sé í umsjón læknis. Þeir sem sjá um kennsluna þurfa ekki að hafa neina kennslufræðilega menntun. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um framtíð menntunar á þessu sviði.[29]

Þá var ráðskonum í Rótinni tjáð á fundi hjá Embætti landlæknis árið 2015 að embættið hefði verið mótfallið því að áfengis- og vímuefnaráðgjafar fengju löggildingu sem heilbrigðisstétt á sínum tíma. Samkvæmt því sem kom fram á fundinum má draga þá ályktun að stjórnmálamenn hafi tekið ákvörðun um að gera áfengis- og vímuefnaráðgjafa að löggiltri heilbrigðisstétt í trássi við ráðleggingar fagfólks í stjórnsýslunni.

Árið 2014 sendi Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona, tvær fyrirspurnir til Kristjáns Þórs Júlíussonar þáverandi heilbrigðisráðherra um nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Fyrri fyrirspurnin var innihélt fimm spurningar[30]:

 1. Hvaða fræðilegur grunnur er undir menntun áfengis- og vímuvarnaráðgjafa, sbr. 3. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012?
 2. Við hvaða menntastofnun hafði ráðherra samráð þegar sett var reglugerð nr. 1106/2012, um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 34/2012 þar sem fram kemur að ráðherra skuli hafa samráð við landlækni, viðkomandi fagfélag og menntastofnun hér á landi við setningu slíkrar reglugerðar?
 3. Hvaða menntastofnun ber ábyrgð á kennslu skv. 2. tölul. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1106/2012?
 4. Á hvaða heilbrigðisstofnunum fer starfsnám skv. 1. tölul. 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar fram?
 5. Er fjöldi kennslustunda skv. 2. og 3. tölul. 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sambærilegur við fjölda kennslustunda í námi annarra heilbrigðisstétta skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 34/2012?

Í svörum ráðherrans kemur fram að „Nám áfengis- og vímuvarnaráðgjafa byggist m.a. á faglegum kröfum frá samtökum bandarískra áfengisráðgjafa, NAADAC (The Association for Addiction Professional)“[31] og að „Embætti landlæknis hefur bent á að nauðsynlegt sé að endurskoða þær námskröfur sem gerðar eru til þessarar stéttar og taka þá mið af menntun sambærilegra stétta í nágrannalöndum okkar.“

Sigríður Ingibjörg fylgdi þessari fyrirspurn eftir í september sama ár með eftirfarandi fyrirspurn:

Er verið að endurskoða námskröfur sem gerðar eru til áfengis- og vímuefnaráðgjafa í samræmi við ábendingu landlæknis um nauðsyn þess að slík endurskoðun fari fram sem taki mið af menntun sambærilegra stétta í nágrannalöndum okkar?[32]

Í svari ráðherrans kemur skýrt fram að nauðsynlegt sé að endurskoða námskröfur ráðgjafa:

Endurskoðun á námi áfengis- og vímuefnaráðgjafa var nokkuð til umræðu hjá fagráði landlæknis um áfengis- og vímuefnaráðgjafa, einkum á árunum 2009 og 2010. Ýmsar leiðir voru ræddar, svo sem að námið yrði á framhaldsskólastigi og gæti verið hluti af einingum til stúdentsprófs og byggt upp á svipaðan hátt og sjúkraliðanám. Þá var rætt um að mikilvægt væri að einnig yrði boðið upp á nám á háskólastigi, t.d. diplómanám í áfengis- og vímuefnaráðgjöf. Um gæti verið að ræða þverfaglegt nám fyrir heilbrigðisstéttir til sérhæfingar á sviði áfengis- og vímuefnaráðgjafar. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis er nauðsynlegt að endurskoða námskröfur áfengis- og vímuefnaráðgjafa en fyrirætlanir um að endurskoða námið hafa þó legið niðri um nokkurt skeið. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um á hvaða skólastigi námið yrði en mennta- og menningarmálaráðuneytið fer með málefni framhaldsskóla og háskóla.[33]

Í byrjun árs 2015 mættu fulltrúar Rótarinnar á fund starfshóps um áfengis- og vímuvarnir og sendu hópnum jafnframt tillögur og athugasemdir við tillögur starfshópsins þar sem komið er inn á menntunarmál ráðgjafa þar sem bent er á að:

… undirstaða góðrar meðferðar hlýtur að vera menntun og reynsla þeirra sem vinna við meðferð. Rótin hefur lýst áhyggjum af því að áfengis- og vímuefnaráðgjafar sem enga akademíska menntun hafa beri jafn mikla ábyrgð á meðferð og raun ber vitni. Höfum við sent velferðarráðherra erindi af þessu tilefni og skrifað um það greinar.

Þá benti félagið á skýrslu CASA Colombia (The National Center on Addiction and Substance Use at Columbia University) þar sem fjallað var um skort á gæðaeftirliti í meðferðargeiranum í Bandaríkjunum sem sá íslenski sækir margt til m.a. menntunarkröfur ráðgjafa:

In facilities that are subject to state regulation, the staffing requirements do not consistently mandate the involvement of professionals who are capable of providing a full range of effective interventions (including pharmaceutical and psychosocial therapies), services rarely are required to reflect best practices and quality assurance requirements seldom stipulate that patient outcome data be collected, analyzed or made available to the public. For no other health condition are such exemptions from routine governmental oversight considered acceptable practice.[34]

Félagið sendi einnig greinargerð á heilbrigðisráðherra árið 2017 þar sem sagði um nám ráðgjafa:

Nauðsynlegt er að huga að menntun ráðgjafa og hefur Rótin sent nokkur erindi til yfirvalda um þau mál. Samkvæmt svörum fyrri ráðherra er ljóst að:

 • Menntun ráðgjafa fer ekki fram á ákveðnu skólastigi heldur á heilbrigðisstofnunum sem annast fíknimeðferð. Endurskoðun á náminu var ekki hafin síðast þegar spurðist til málsins.
 • Námið heyrir undir velferðarráðuneytið í samvinnu landlæknis, fagráðs landlæknis og stofnana sem veita meðferð.
 • Velferðarráðuneytið hefur ekki í hyggju að beita sér fyrir því að menntun þessara heilbrigðisstarfsmanna feli í sér fræðslu um ofbeldi og áföll og áhrif þess á þróun fíknar.
 • Engar kröfur eru gerðar til þeirra sem kenna ráðgjöfina aðrar en þær að námið sé í umsjón læknis. Þeir sem sjá um kennsluna þurfa ekki að hafa neina kennslufræðilega menntun. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um framtíð menntunar á þessu sviði.

Af svarinu má ráða að málið er í ólestri, námið tilheyrir engu skólastigi og litlar sem engar kröfur eru gerðar til þeirra sem annast kennslu ráðgjafanna. Því er mikilvægt að lagaumhverfi og gæðaeftirlit með námi áfengis- og vímuefnaráðgjafa verði skýrt, námið verði sett undir ákveðið skólastig og heyri þar með undir menntamálaráðuneytið. Þá verði náminu sett námskrá og viðeigandi menntunarkröfur gerðar til þeirra sem annast kennslu ráðgjafa.[35]

Árið 2017 fékk Þorsteinn Víglundsson, þáverandi félags- og jafnréttisráðherra, einnig erindi frá Rótinni þar sem fjallað er um áhyggjur félagsins af stöðu meðferðarmála:

… því afar mikilvægt að vanda til þjónustu við þennan hóp og sjá til þess að hún sé áfallamiðuð og byggi á kynjafræðilegri þekkingu á þróun fíknivanda. Eins og sakir standa eru langflestir starfsmenn meðferðarkerfisins, sem eru áfengis- og vímuefnaráðgjafar, með menntun sem inniheldur enga slíka fræðslu og samræmist ekki, að öðru leyti, öðrum stöfum sem Embætti landlæknis veitir starfsleyfi.

Okkur í Rótinni berast stöðugt sögur úr fíknimeðferðarkerfinu sem endurspegla þann veruleika að þar sé fólk með litla menntun að glíma við flókinn vanda. Margar þessara sagna fjalla um það að konur verði fyrir ofbeldi og áreitni í meðferðarkerfinu, aðallega af völdum karla sem eru með þeim í meðferð en einnig karla sem starfa í meðferðinni. Þær sögur sem fjalla um samband starfsmanna meðferðar við skjólstæðinga eru því miður ekki sjaldgæfar og ýmist hefjast þær í meðferðinni eða eftir að henni lýkur. Þessar sögur hafa nú verið staðfestar í rannsókn sem Rótin er aðili að og er enn í vinnslu. Sjá: https://www.rotin.is/slaandi-nidurstodur/.[36]

Að lokum má minnast á að Rótin hefur gert alvarlegar athugasemdir við meðferð stúlkna á vegum íslenska ríkisins í „Greinargerð um réttlæti og reynslu kvenna af vistun í Varpholti/Laugalandi“ sem félagið afhenti m.a. forsætisráðherra í febrúar 2023 eftir fund með Katrínu Jakobsdóttur og tveimur konur sem vistaðar voru í Varpholti/Laugalandi.[37] Greinargerðin var einnig send á Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Engar menntunarkröfur voru gerðar til rekstraraðila meðferðarheimila Barnaverndarstofu fram að árinu 2017 eða jafnvel síðar.

Áætlanir um að koma námi ráðgjafa í formlegri farveg

Við upptalninguna hér á undan má bæta að í samskiptum við heilbrigðisyfirvöld hafa ráðskonur Rótarinnar á mismunandi tímapunktum fengið upplýsingar um að námið ætti m.a. að vera hluti af námsframboði Keilis, Ármúlaskóla – sem er með heilbrigðisbraut – eða á háskólastigi.

Sagan um hvar á að koma náminu fyrir er hins vegar lengri og í skýrslu Félagsvísindastofnunar frá árinu 2004 þar sem fjallað er um 12 störf í félags- og heilbrigðisþjónustu; stöðu þeirra á vinnumarkaði, þróun, starfssvið, námsleiðir, þjálfun og þörf fyrir þekkingu og hæfni, er ljóst að talið er að starf áfengis- og vímuefnaráðgjafa muni víkja fyrir háskólamenntuðum sérfræðingum en það segir:

Frá og með 1. september 2004 hefur Landspítali – Háskólasjúkrahús til að mynda aflagt áfengismeðferð samkvæmt 12 spora kerfinu. Fyrir vikið ríkir nokkur óvissa um starfssvið þeirra ráðgjafa sem þar starfa en þessar breytingar munu líklega þýða að meðferð færist í meira mæli en áður inn á göngudeildir og þá undir umsjón sálfræðinga.[38]

Í skýrslunni er einnig bent á að „Ráðgjafar nytu góðs af því að hafa stúdentspróf …“ (bls. 103) þannig að það er löngu er ljóst að auka þurfi menntunarkröfur til stéttarinnar en því miður hefur ekkert mjakast í þá átt nú 19 árum síðar. Í tilvitnuninni má líka sjá að starf ráðgjafa er tengt 12 spora starfi á órjúfanlegan hátt. Starf ráðgjafa varð til sem stofnanavæddur „sponsor“[39] eða persónulegur leiðtogi innan 12 spora samtaka. Staða ráðgjafa í heilbrigðiskerfinu stríðir bæði gegn vísindalegum kröfum heilbrigðiskerfisins og hins vegar er slík stofnanavæðing andstæð erfðavenjum AA-samtakanna.[40]

Í ársskýrslu Sameykis árið 2009 kemur fram að unnið var að því að þróa námið í samvinnu SÁÁ og Sameykis en þar er eftirfarandi klausa:

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar Starfsmennt fór í samstarf við SÁÁ á árinu með það að markmiði að þróa áfram nám fyrir starfandi áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Stefnt var að því að þróa nám SÁÁ fyrir stærri markhóp en nú er s.s. fyrir starfsmenn á geðsviði Landspítala en ekki komst skriður á málið m.a. vegna þess að verið var að hanna formlegt nám á vegum annarra aðila og ákveðið var að bíða eftir niðurstöðum þess hóps til að forðast tvíverknað. Starfsmennt hélt þó utan um eina námslotu á haustönninni sem 20 starfsmenn tóku þátt í. Brýnt þykir að samhæfa menntun þessa hóps í breiðu samstarfi allra hagsmunaaðila til að auka gegnsæi, skýrleika og hagkvæmni og er því beðið átekta.

Eins og kemur fram í ársskýrslunni var þá hópur að störfum við að skipuleggja framtíð námsins en augljóst er að ekkert hefur orðið úr þeim áformum. Það er líka mikilvægt sem hér kemur fram að nauðsynlegt var talið að samhæfa menntunina í breiðu samstarfi en það er akkúrat öfugt við það sem gerðist nú í sumarbyrjun þegar stjórn SÁÁ semur við Símenntun Akureyrar um að hýsa bóklegan hluta námsins án sýnilegs samráðs við neinn.

Frétt frá því í febrúar 2022 vakti vonir um að málið væri nú loksins að komast á góðan skrið og væri það á leið inn í háskólastigið en í henni segir:

Í svari ráðuneytisins segir að mótaðar hafi verið hæfniskröfur og starfaprófíll fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjafa, sem ráðuneytið hafi afhent Háskóla Íslands fyrir gerð námskrár. Áhugi Háskólans á því að koma náminu á fót liggi fyrir, með fyrirvara um fjármögnun þess.

„Heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa átt í samstarfi um þetta mál, enda einhuga um markmiðið, auk þess sem bæði ráðuneytin hafa samþykkt að styrkja háskólann til að hægt sé að undirbúa námið og koma því af stað,“ segir í svarinu.

Þá hafi ráðuneytið kannað afstöðu SÁÁ til breytinga á náminu, hún sé jákvæð.

„Næsta skref heilbrigðisráðuneytisins er að leita til ráðuneytis háskólamála, til að afla upplýsinga um stöðu þessa máls og mögulega fjármögnun námsbrautarinnar til framtíðar.“[41]

Starfaprófíllinn sem minnst er á fyrr raðar náminu hins vegar ekki á háskólastig heldur á þriðja þrep hæfniramma um íslenska menntun[42] sem samræmist framhaldsskólaprófi eða prófi til starfsréttinda en stúdentspróf er t.d. á fjórða þrepi. Hvar staðsetning námsins hjá Símenntun HA staðsetur það er ekki ljóst, þar sem ekki er krafist stúdentsprófs í námið er þó ljóst að það er ekki á háskólastigi.

Jaðarsetning í velferðar- og heilbrigðiskerfi

Án þess að hér verði farið ítarlega í sögu þjónustu hins opinbera við fólk með vímuefnavanda þá er um langa sögu jaðarsetningar innan heilbrigðisþjónustunnar að ræða. Hildigunnur Ólafsdóttir rekur þessa sögu í doktorsritgerð sinni um AA-samtökin á Íslandi.[43] Lögum um heilbrigðisþjónustu er ætlað að setja viðmið fyrir þjónustu á meðan stjórnsýslan á að útfæra hana en Hildigunnur bendir á að skipulag vímuefnamála hafi vikið frá þessari almennu reglu og því hafi verið sett sérstök lög um vímuefnameðferð. Ástæðurnar sem hún nefnir eru bæði neikvæð afstaða fagfólks gagnvart því að þjónusta þennan hóp og hins vegar að nauðsynlegt væri að hafa vit fyrir þessum skjólstæðingum sem ekki var talið að vissu sjálfir hvað væri þeim fyrir bestu og því þyrfti hið opinbera að axla ábyrgðina á þeim.[44] Þannig hefur fólk með vímuefnavanda löngum búið við mikla forsjár- og refsihyggju í þjónustu og hún birtist ekki síst í því módeli sem hefur verið ríkjandi á Íslandi sl. 45 ár, Minnesota-módelinu sem hér hefur verið kallað íslenska módelið. Þessi leið er að mörgu leyti andleg og miðar að því að gera fólk betra en almennt er markmið meðferðar í geðheilbrigðiskerfinu er að fólk líði betur.

Þjónusta við fólk með vímuefnavanda hefur löngum verið mjög ólík þjónustu fólks með geðrænan vanda t.d. að því leyti að almennt starfar háskólamenntað fagfólk með fólki með geðrænan vanda en í vímuefnameðferð er það svo til eingöngu ráðgjafar sem starfa að meðferðinni. Undantekningin frá þessu er fráhvarfsmeðferð þar sem læknar og hjúkrunarfólk kemur að meðferðinni og og meðferð á Landspítala sem yfirgaf Minnesota-módelið árið 2004.

Í grein eftir Hildigunni árið 1990 lýsir hún muninum á meðferð við „áfengismisnotkun“ í geðheilbrigðiskerfinu og hjá SÁÁ:

Á stofnunum S.Á.Á. er ríkjandi ein kenning um alkóhólisma og eðli hans. Í geðheilbrigðiskerfinu hafa fagmenn með mismunandi menntun ólíka fræðilega afstöðu til áfengisvandamála. Sérfræðingarnir í heilbrigðiskerfinu gera sjúkdómsgreininguna. En í hinu kerfinu er það nánast sjúklingurinn sjálfur sem ákveður hvort hann er alkóhólisti eða ekki. Fagfólkið setur greinileg mörk á milli sín og sjúklinganna. Í Minnesota-líkaninu eru slík mörk miklu óskýrari, þar sem flestir starfsmanna eru óvirkir alkóhólistar. Þetta leiðir til samkenndar og samstöðu á milli allra í kerfinu. Starfsmennirnir eru fyrirmyndir, en markmiðið er einmitt að alkóhólistinn mótist inn í hlutverk hins óvirka alkóhólista. Við þessa félagsmótun er stuðst við hefðir AA-samtakanna. Hið nýja hlutverk þarf að læra og menn þurfa einnig að læra sérstaka hugtakanotkun. Stefnt er að því að alkóhólistarnir komi úr meðferðinni eins og „nýir menn“. Að auki er boðið upp á hlutverk fyrir maka og börn sem fólk getur þjálfað í Al-Anon og Alateen. Markmið meðferðar í höndum fagfólks er hins vegar að koma sjúklingum aftur út í þjóðfélagið, gera hann eins og hann var áður en drykkjan varð til vandræða.

Minnesota-líkanið hefur ýmis lýðræðisleg einkenni og minnir um sumt á „meðferðarsamfélagið“ (therapeutic community). En þetta er ósveigjanlegt kerfi, þar sem menn verða að aðhyllast hugmyndafræði þess eða standa utan við kerfið. Séð í þessu ljósi er það ekki eins lýðræðislegt og geðheilbrigðiskerfið sem hefur meira svigrúm til skýringa á áfengisvandamálum og fjölbreyttari meðferðarúrræði.[45]

Óhætt er að halda því fram að margt af því sem Hildigunnur lýsir eigi enn við í íslenska meðferðarkerfinu þar sem öll meðferð nema sú sem veitt er á Landspítala er byggð á þessu ósveigjanlega kerfi sem Hildigunnur lýsir. Þegar frásagnir fólks sem leitað hefur sér meðferðar eru skoðaðar eru þær oft keimlíkar. Fólki er kennt að skilja sjálft sig innan þess þrönga ramma sem hugmyndafræði meðferðarkerfisins býður upp á. Fólk kemur iðulega úr meðferð sannfært um að það sé með ólæknanlegan heilasjúkdóm. Samhljóma sögur fólks sem kemur úr meðferð hjá hinu einka/félagarekna meðferðarkerfi segja okkur hversu lítið svigrúm fólk hefur til að skoða sjálft sig og sína sögu á opinn hátt og leita eigin leiða til sjálfskilnings.

Þegar þessar sögur eru svo tengdar fjáröflun fyrir meðferðaraðilana bætast við nýjar siðferðilegar spurningar.

Það er skiljanlegt að fólk komi út úr meðferðinni með einsleitar sögur. Meðferðin er að miklu leyti kennsla í því hvað það er að vera með „heilasjúkdóminn“ „alkóhólisma“. Hildigunnur Ólafsdóttir fjallar í sinni grein um hvernig kenningin um vímuefnavanda sem sjúkdóm er breidd út og viðhaldið innan meðferðarkerfisins.

Ef til vill hefur verið gert of mikið úr áhrifamætti sjúkdómslíkansins. Það hefur komið í ljós að aðeins fjórðungur almennings telur að alkóhólismi sé sjúkdómur sem einstaklingurinn fái engu um ráðið hvort hann fær eða ekki. Þeir sem aðhyllast þessa skoðun eru helst þeir sem hafa verið í meðferð, þar sem þessi skoðun hefur verið kennd.[46]

Í þessu samhengi er gott að skoða hversu algengt það er að í þjónustu félagasamtaka felist krafa um að mæta á trúarlegar eða aðrar samkomur sem fela í sér hugmyndafræðilega undirgefni, eins og trú á t.d. 12 spora hugmyndafræði, sem er trúarleg þó að 12 spora samtök séu ekki trúfélög, og sjúkdómskenninguna um fíkn sem er oft boðuð eins og heilagur sannleikur án svigrúms til efa. Þessar aðferðir eiga litla samleið með almenna heilbrigðiskerfinu þar sem mikil áhersla er á vísindalega og gagnreynda nálgun. Allir skuli „frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar“, og í samræmi við 18. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sþ, ættu stjórnvöld að innleiða í stefnumótun að kaupa ekki slíka þjónustu heldur gera það að skilyrði að ekki sé um trúar- eða hugmyndafræðilega innrætingu að ræða í velferðar- og heilbrigðisþjónustu sem nýtur opinberra styrkja.[47]

Skýrsla sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er, fjallar sérstaklega um líffræðilegar kenningar um andlegan og geðrænan vanda. Áður fyrr var talið að sjúkdómshugtakið myndi gagnast fólki með geðrænan vanda og fíknivanda í baráttunni við fordóma. Það hefur ekki gerst og erfitt hefur reynst að skjóta styrkum vísindalegum stoðum undir kenningarnar. Hins vegar hafa þær leitt til smættarhyggju sem vinnur gegn mannréttindum fólks með flókinn samsettan vanda þar sem félagslegar aðstæður, heilbrigði, bæði líkamlegt og andlegt fléttast saman á hátt sem ekki er hægt að greina í sundur.

 1. The biomedical model regards neurobiological aspects and processes as the explanation for mental conditions and the basis for interventions. It was believed that biomedical explanations, such as “chemical imbalance”, would bring mental health closer to physical health and general medicine, gradually eliminating stigma. However, that has not happened and many of the concepts supporting the biomedical model in mental health have failed to be confirmed by further research. … Critics warn that the overexpansion of diagnostic categories encroaches upon human experience in a way that could lead to a narrowing acceptance of human diversity.
 2. However, the field of mental health continues to be over-medicalized and the reductionist biomedical model, with support from psychiatry and the pharmaceutical industry, dominates clinical practice, policy, research agendas, medical education and investment in mental health around the world. The majority of mental health investments in low-, middle- and high-income countries disproportionately fund services based on the biomedical model of psychiatry.

Gæði og öryggi í meðferð

Margar góðar tillögur komu fram í skýrslu heilbrigðisráðherra um þjónustu fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur á Íslandi sem lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005. M.a. var vísað í norska gæðastaðla- og viðmið um meðferð. Fáar af þessum tillögum hafa komið til framkvæmda en svo virðist sem hinir valdamestu í málaflokki fólks með vímuefnavanda hafi lítinn hag af því að stuðla að úrbótum á menntun þeirra sem vinna við meðferð fólks með vímuefnavanda og þar með að bæta gæði þjónustunnar. Í meistararitgerð sinni í opinberri stjórnsýslu skrifar Þorgerður Ragnarsdóttir um ástæður þess að breytingar þingsályktunartillögu um mótun heildarstefnu um meðferðarstofnanir fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur sem var lögð fram á Alþingi vorið 2002[48] kom ekki til framkvæmda. Niðurstöður Þorgerðar má túlka þannig að málaflokkurinn hafi verið í klemmu hagsmunaaðila sem ekki sáu sér hag í heildarskipulagi málaflokksins:

Það er fróðlegt að velta fyrir sér hvort mótun heildarstefnu sé raunverulega til bóta þegar til lengdar lætur. Í mótunarferli stefnunnar þarf að hrista saman fjölmörg misvísandi sjónarmið. Í því ferli er næsta ógjörningur að gera öllum til hæfis. Einhver sjónarmið verða ofan á en önnur gjalda afhroð. Alþingismönnum getur verið annt um málaflokkinn sem heildarstefna snýst um en þeim er væntanlega einnig annt um starfsframa sinn og geta veigrað sér við að taka óvinsælar ákvarðanir ef það kostar þá atkvæði. [49]

Upplifun okkar Rótarkvenna að málaflokkum sé enn haldið í heljargreipum hagsmunaaðila sem ekki sjá hag sinn í nútímalegum úrbótum á kostnað réttinda fólks með áfengis- og vímuefnavanda sem líður fyrir að yfirvöld hafa ekki axlað ábyrgð á því að tryggja gæði þjónustu og þar með mannréttindi fólks með fíknivanda.

Opinberir aðilar eru oft ekki með skýr viðmið um hvaða þjónustu skal kaupa eða hvernig hún á að vera. Þannig eru t.d. sumar af stærstu meðferðarstöðvum landsins ekki með stjórnendur sem hafa starfsleyfi frá Landlækni né menntun við hæfi og margt fólk sem vinnur innan geirans en með próf frá skóla þar sem kennd eru ýmis hjávísindi eins og Neuro-Linguistic Programming.[50] Í grein sem birtist í Journal of Addictive Medicine um hvað virkar og hvað ekki í meðferð, hvað er gagnreynt og hvað ekki, í vímuefnameðferð fengu sérfræðingar lista yfir 65 meðferðaraðferðir og mátu þær á Likert-skala frá “not at all discredited” to “certainly discredited”. Neuro-Linguistic Programming er á meðal þeirra 11 aðferða sem féllu undir það mat sérfræðinganna að vera „certainly discredided“.[51] Flestir sem starfa t.d. við meðferð í Krýsuvík eru með menntun frá Ráðgjafarskólanum.

Menntun starfsfólks í meðferð er mikilvæg til að tryggja bæði gæði og öryggi þeirra sem sækja sér meðferðar. Svo til engin gögn sem unnin eru af sjálfstæðum rannsakendum eru til um gæði meðferðar á Íslandi. Hvergi er að finna niðurstöður úr þjónustukönnunum, ekki virðist vera haldið utan um atvikaskráningu á meðferðarstöðum[52] og í nokkur ár hefur Rótin skrifast á við Landlækni um skráningu fólks í vistunarskrá sjúkrahúsa, sem er lögbundin, en ekki viðhöfð á Vogi[53]. Þannig virðist hið opinbera ekki fylgja eftir þó þeim lögum og reglum sem til staðar eru til að gæta hagsmuna hópsins.

Reyndar gerði Embætti landlæknis úttekt á meðferðarstöðvum árið 2016 og niðurstaðan var sú að fáir þættir stóðust prófið. Í hlutaúttekt á Vogi sést að húsnæðið er það eina sem stenst kröfur:[54]

Útkoman í Krýsuvík og Hlaðgerðarkoti var ekki betri.[55] 

Þrátt fyrir þessar niðurstöður og ótal vísbendingar og sannanir um að nauðsynlegt sé að gera úrbætur í þjónustu við fólk með fíknivanda t.d. hefur hið opinbera ekki brugðist nægilega hratt við ötulli baráttu Rótarinnar og annarra fyrir bættum gæðum í þjónustu við fólk með vímuefnavanda.[56]

[1] Akureyri.net. 11.6.2023. Hefja kennslu í áfengis- og vímuefnaráðgjöf. Sjá: https://www.akureyri.net/is/moya/news/taka-vid-kennslu-i-afengis-og-vimuefnaradgjof.

[2] Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. 1979. Sjá: https://www.althingi.is/lagas/150b/1979010.2c4.html.

[3] Lög um réttindi sjúklinga nr. 74 frá árinu 1997. Sjá: https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997074.html.

[4] Mannréttindayfirlýsing Sþ. Sjá: https://www.humanrights.is/is/mannrettindi-og-island/helstu-samningar-og-yfirlysingar/sameinudu-thjodirnar/mannrettindayfirlysing-sameinudu-thjodanna.

[5] Reglugerð um https://island.is/reglugerdir/nr/1106-2012

[6] Embætti landlæknis. 2.10.2023. Ráð og nefndir. Sjá: https://island.is/s/landlaeknir/rad-og-nefndir.

[7] Fréttablaðið. 3. febrúar 2022. Unnið að því að auka kröfur til áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Sjá: https://timarit.is/files/51632165.

[8] Símenntun HA. 2023. Nám í fíkniráðgjöf – önn 1. Sjá: https://smha.is/namskeid/nam-i-afengis-og-vimuefnaradgjof-onn-1/.

[9] Lög um opinbera háskóla nr. 85 frá 12. júní 2008. Sjá: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008085.html.

[10] Menntamálastofnun. 2023. Viðurkenndir fræðsluaðilar. Sjá: https://mms.is/vidurkenndir-fraedsluadilar.

[11] Stjórnarráðið. Hæfnirammi um íslenska menntun. Sjá: https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/framhaldsskolar/haefnirammi-um-islenska-menntun/.

[12] Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. 2019. Starfaprófíll áfengis- og vímuefnaráðgjafi. Framhaldsfræðsla. Sjá: https://frae.is/wp-content/uploads/2021/12/Afengis-og-vimuefnaradgjafi.pdf.

[13] Þráinn Farestsveit. 16. júní 2022. Ráðgjafarnir eru lykilfólk SÁÁ. Sjá: https://www.visir.is/g/20222276575d/rad-gjafarnir-eru-lykil-folk-saa.

[14] Magnús Einarsson. 2007. „Um starf áfengis- og vímuefnaráðgjafa“, í SÁÁ-blaðið, 1. tbl, bls. 19.

[15] Ríkisendurskoðun. Mars 2022. Geðheilbrigðisþjónusta  Stefna – skipulag – kostnaður – árangur: Stjórnsýsluúttekt. Sjá: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-gedheilbrigdismal.pdf.

[16] Viðskiptablaðið. 22.6.2020. Þórarinn hafi verið með ógnarstjórn. Sjá: https://vb.is/frettir/thorarinn-hafi-verid-med-ognarstjorn/.

[17] Hilmar Hansson. 2013. Lítið kver um brennivín og fleira – vangaveltur miðaldra múrara sem vann á Vogi.

[18] Oddur Sigurjónsson. 2022. Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, í ársskýrslu Sameykis 2022, bls. 37. Sjá: https://www.sameyki.is/library/Skrar-a-vef/2023/Sameyki%20ársskýrsla%202023.pdf.

[19] Rótin. 28. mars 2014. Reynsla eða þekking? Fleiri staðreyndir um ráðgjafanám. Sjá: https://www.rotin.is/reynsla-eda-thekking-fleiri-stadreyndir-um-radgjafanam/ og sjá innig Staðreyndir um menntun áfengis- og fíkniráðgjafa: https://www.rotin.is/stadreyndir-um-menntun-afengis-og-fikniradgjafa/.

[20] Rieckmann og fl. 2012. The Substance Abuse Counseling Workforce: Education, Preparation and Certification, Sjá: https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3486694/#R24. Ath. að breiðletrun í tilvitnuninni er Rótarinnar.

[21] Bréf til Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra. 16. maí 2005. Fylgiskjal 2: Ráðgjafanámið hjá SÁÁ.

[22] Sjá nánari umfjöllun um heilasjúkdómskenninguna í ályktun Rótarinnar um skaðaminnkun og afglæpavæðingu frá 5. maí 2023, sjá: https://www.rotin.is/alyktun-um-skadaminnkun-og-afglaepavaedingu/.

[23] Rótin. 2017. Greinargerð til heilbrigðisráðherra um konur og fíkn. https://www.rotin.is/greinargerd-til-heilbrigdisradherra/.

[24] Lance Dodes. 2020. Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja. Sjá: https://www.rotin.is/haettuleg-taugaliffraedithrahyggja/. NIDA er National Institute of Drug Abuse í Bandaríkjunum sem hefur leitt þann hóp sem heldur kenningum um fíkn sem líffræðilegan vanda á lofti.

[25] Fletcher, Anne M. 2013. Inside Rehab. The Surprising Truth About Addiction Treatment and How to Get Help That Works. Penguin Books, New York, bls. 390.

[26] Svar Embættis landlæknis til Rótarinnar 21. október 2013.

[27] Fyrirspurn Rótarinnar til ráðherra og Embættis um nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa 27. október 2013: https://www.rotin.is/menntun-afengis-og-vimuefnaradgjafa/.

[28] Svar Mennta- og menningarmálaráðuneytis til Rótarinnar 10. janúar 2014. Tilv. MMR13100284/6.18.0-

[29] Svör ráðherra um ráðgjafanám. Sjá: https://www.rotin.is/svor-radherra-um-radgjafanam/.

[30] Alþingi. 10. apríl 2014. 951 fyrirspurn. Sjá: https://www.althingi.is/altext/143/s/0951.html.

[31] Alþingi. 13.maí 2014. 1110 svar. Sjá: https://www.althingi.is/altext/143/s/1110.html.

[32] Alþingi. 22. september 2014. 147 fyrirspurn: Sjá: https://www.althingi.is/altext/144/s/0147.html.

[33] Alþingi. 15. október 2014. 286 svar: Sjá: https://www.althingi.is/altext/144/s/0286.html.

[34] National Center on Addiction and Substance Abuse við Columbia-háskóla. „Report on addiction treatment. 2012. Vefslóð: https://archive.org/stream/781862-casa-columbia-addiction-med/781862-casa-columbia-addiction-med_djvu.txt.

[35] Rótin. 27.6.2017. Greinargerð til heilbrigðisráðherra um konur og fíkn. Sjá: https://www.rotin.is/greinargerd-til-heilbrigdisradherra/.

[36] Rótin. 28.11.2017. Ósk um úttekt á áreitni á meðferðarstöðvum. Sjá: https://www.rotin.is/areitni-a-medferdarstodvum/.

[37] Rótin. 1.2.2023. Greinargerð um réttlæti og reynslu kvenna af vistun í Varpholti/Laugalandi. Til: Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Sjá: https://www.rotin.is/heimsokn-og-greinargerd-til-forsaetisradherra-vegna-varpholts/.

[38] Hildur Björk Svavarsdóttir, Pétur Maack Þorsteinsson og Friðrik H. Jónsson. 2004. 12 störf í heilbrigðis- og félagsþjónustu : staða, starfssvið, námsleiðir, þekking og hæfni, bls. 18. Útg. Félagsvísindastofnun, sjá: https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2004/11/15/12-storf-i-heilbrigdis-og-felagsthjonustu-stada-starfssvid-namsleidir-thekking-og-haefni/.

[39] „Sponsor“ er trúnaðarmaður og persónulegur leiðtogi í 12 spora samtökum. Hann leiðir t.d. nýliða í gegnum 12 spot samtakanna.

[40] AA-samtökin á Íslandi. 12 Erfðavenjur AA. Sjá: https://www.aa.is/12-erfdavenjur-aa.

[41] Fréttablaðið. 3. febrúar 2022. Unnið að því að auka kröfur til áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Sjá: https://timarit.is/files/51632165.

[42] Mennta – og barnamálaráðuneytið. 2023. Hæfnirammi um íslenska menntun. Sjá: https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/framhaldsskolar/haefnirammi-um-islenska-menntun/.

[43] Hildigunnur Ólafsdóttir. 2000. Alcoholics Anonymous in Iceland: From Marginality to Mainstream Culture. Bókin er aðgengileg á netinu: https://books.google.is/books/about/Alcoholics_Anonymous_in_Iceland.html?id=lX-Um4BanhsC&redir_esc=y.

[44] Sama heimild bls. 161.

[45] Hildigunnur Ólafsdóttir. Straumar í meðferð við áfengisvandamálum. 1990; 1., bls. 36. Aðgengilegt á vefnum: http://hirsla.lsh.is/lsh/bitstream/2336/99806/1/G1990-01-21-G2. pdf.

[46] Hildigunnur Ólafsdóttir. Straumar í meðferð við áfengisvandamálum. 1990; 1., bls. 37. Sjá: http://hirsla.lsh.is/lsh/bitstream/2336/99806/1/G1990-01-21-G2. pdf.

[47] Mannréttindayfirlýsing Sþ. Sjá: https://www.humanrights.is/is/mannrettindi-og-island/helstu-samningar-og-yfirlysingar/sameinudu-thjodirnar/mannrettindayfirlysing-sameinudu-thjodanna.

[48] Skýrsla heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um meðferðarstofnanir: https://www.althingi.is/altext/pdf/126/s/1255.pdf.

[49] Þorgerður Ragnarsdsóttir. 2006.

[50] Ráðgjafarskólinn. Framhaldsnám í Ráðgjafarskólanum. Sjá: https://www.radgjafarskolinn.is/framhald.html.

[51] Norcross, J. C., Koocher, G. P., Fala, N. C., & Wexler, H. K. 2010. What does not work? Expert consensus on discredited treatments in the addictions. Journal of Addiction Medicine, 4(3), 174-180. Sjá:https://oldev.trubox.ca/wp-content/uploads/sites/37/2015/06/hlth4511_l8_whatdoesnotwork.pdf.

[52] Sjá samskipti Rótarinnar við Embætti landlæknis og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem finna má í þessum lista: https://www.rotin.is/oryggi-kvenna-i-medferd-yfirlit/.

[53] Sjá tölvupóstsamskipti sem verða senda með erindinu.

[54] Embætti landlæknis. 2016. Hlutaúttekt. Meðferðarstofnanir SÁÁ. Sjá https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item29702/.

[55] Sjá úttektir Embættis landlæknis frá árinu 2016: https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/5JubSPJakuS39kP7Dt3AA6/585aa8cbdc7f6e85ef67064e2d91e1c6/__ttektarsk__rsla_Kr__suv__k.pdf.pdf, https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/1t2rC5C7fY5gYDxqBcfwzr/5b55ef230ebc52d7f8989cb98c03dbbb/Hla__ger__arkot___ttektarsk__rsla.pdf.pdf og https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/u30XcwIYuuwOrhysxq2sx/a340a5d061868ce65ef2ec10defcb6d0/Sk__rsla_hluta__ttektar_hj___S____.pdf.pdf.

[56] Sjá lista yfir ýmis erindi Rótarinnar: https://www.rotin.is/oryggi-kvenna-i-medferd-yfirlit/.

Ráðstefna um mannréttindamiðaða fíknistefnu, 17.-18. október

Ráðstefna um mannréttindamiðaða fíknistefnu, 17.-18. október

Treading the Path to Human Rights. Gender, Substance Use and Welfare States er þverfagleg ráðstefna um mannréttindamiðaða nálgun í mótun fíknistefnu í velferðarríkjum sem var haldin dagana 17.–18. október 2023. Á ráðstefnunni var sjónum beint að stöðu og framtíð í fíknistefnu og vímuefnanotkun í velferðarríkjum. Erlendir og innlendir sérfræðingar fjölluðu um stefnumótun í málaflokknum að því er varðar mannréttindi, skaðaminnkun og bæði kynjaða og félagslega áhrifaþætti vímuefnanotkunar. Sérstök áhersla er á fíknistefnu í velferðarríkjum, og þá ekki síst norrænum, og fjallað um mismunun á grundvelli kynþáttar, stéttar, kynferðis, kynhneigðar ásamt kynjamisrétti, í samræmi við áskoranir alþjóðastofnana og fólks sem notar vímuefni. Einnig er áhersla á nauðsyn þess að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun, með hliðsjón af bæði þörfum kvenna og hinsegin fólks og hvernig þær eru frábrugðnar þörfum gagnkynhneigðra sís karla. Ráðstefnan er skipulögð af Rótinni og RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Ráðstefnan fer fram á Hótel Reykjavík Grand.

Dagskrá og upplýsingar má finna hér og skráning á vegum RIKK, hér.

Ráðstefnan og vinnustofur eru á ensku.

Markmið ráðstefnunnar eru að vekja athygli á mikilvægi stefnumótunar í málflokknum, safna saman sérfræðingum, fagfólki, embættismönnum, stjórnmálafólki og öðrum sem áhrif hafa á stefnumótun eða vilja miðla þekkingu sinni og reynslu. Einnig að fá til landsins nýjustu strauma og stefnur um málefnið frá Evrópu.

Fyrirlesarar eru í stafrófsröð:

Danilo Ballotta er aðal stefnumótunarsérfræðingur og fulltrúi samskipta hjá Eftirlitsmiðstöð Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn (EMCDDA). Hann er tengiliður við stofnanir Evrópusambandsins og fulltrúi í vinnuhópi um vímuefni hjá Evrópuráðinu (HDG), hjá Pompidou-hópnum og tengiliður við UNODC. Hann hefur tekið þátt í hundruðum nefnda og stefnumótunarviðburða á vegum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Ballotta ætlar að fjalla um þróun fíknistefnu í Evrópu í samtímanum. 

Fyrirlestur: Nú á tímum krefjandi fíknivanda á heimsvísu, stuðlar Evrópusambandið að sameiginlegri aðferðafræði á sviðinu sem byggir á raunsæi, yfirvegun og gagnreyndri nálgun. Stefnan sem orðið hefur til innan sambandsins er mótuð á löngum tíma með „mjúkri samleitni“ mismunandi stefna aðildarríkja ESB. Nú er hins vegar brýn þörf á víðtækara bandalagi í átt að sameiginlegri sýn þar sem mannréttindi fara hönd í hönd við markmið um heilbrigðari og öruggari fíknistefnu.

Hér má horfa á erindi Danilos.

Emma Eleonorasdotter lektor og rannsakandi í mannfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Rannsóknir hennar veita menningarlega innsýn í misrétti, þá sérstaklega um löglega og ólöglega notkun vímuefna. Emma fjallar um hversdagslega notkun kvenna í Svíþjóð á vímuefnum út frá menningarlegu sjónarhorni með áherslu á kyn og stétt. Doktorsritgerð Emmu, „Det hade ju aldrig hänt annars”. Om kvinnor, klass och droger (2021), hefur verið endurskrifuð á ensku og kemur út hjá Palgrave haustið 2023 undir titlinum Women’s Drug Use in Everyday Life í opnum aðgangi eins og sænska ritgerðin.

Emma fjallaði um hversdagslega notkun kvenna í Svíþjóð á vímuefnum út frá menningarlegu sjónarhorni, með áherslu á kyn og stétt. Kynjamiðuð etnógrafía, eða vettvangslýsing, á hversdagslegri vímuefnanotkun getur aukið þekkingu á hlutverki vímuefnanotkunar í neyslusamfélögum samtímans. Hugað var að laga-, sögu-, félagshagfræðilegum, kynjuðum, stéttar- og menningarlegum bakgrunni vímuefnanotkunar og -hegðunar. Fyrirlesturinn sækir efnivið sinn í átta ára rannsókn að baki doktorsritgerð Emmu, sem er þátttökuathugun um tólf sænskar konur, 25-65 ára gamlar, sem nota vímuefni í daglegu lífi. Þemu verkefnisins eru fíkn, lyf, börn og hamingja sem og áhrif lagaumhverfis á konurnar.

___________________

Helga Sif Friðjónsdóttir er Sérfræðingur í hjúkrun með áherslu á fíkn og staðgengill ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu, Ph.D, APMHN, RN, aðjúnkt og klínískur lektor við Háskóla Íslands. Helga Sif hefur alla sína starfsævi haft brennandi áhuga á vönduðum samskiptum, mannlegri reisn, jafnrétti, breytingum, hvatningu og gæðum heilbrigðisþjónustu. Hún hefur lagt áherslu á að þróa og endur-skipuleggja geðheilbrigðis- og fíkniþjónustu auk kennslu og þjálfunar geðhjúkrunarfræðinga framtíðarinnar á Íslandi. Vegna brautryðjendastarfs síns við skaðaminnkun sæmdi forseti Íslands hana fálkaorðu árið 2021.

Fyrirlestur: Vorið 2021 ákvað heilbrigðisráðherra að gera heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnaraskanir. Á gagnasöfnunarstigi var lögð áhersla á að skoða alþjóðlega staðla, klínískar leiðbeiningar og rannsóknir. Haldnir voru fundir með fulltrúum frá ýmsum hagsmunasamtökum til að varpa ljósi á sérstakar þarfir ólíkra hópa fyrir heilbrigðisþjónustu vegna vímuefnaraskana. Þessir fundir veittu einnig innsýn í reynslu ólíkra hópa af núverandi kerfum og gáfu upplýsingar um hvar úrbóta væri þörf til að mæta þjónustuþörfum þeirra.

___________________

Matilda Hellman er prófessor í félagsfræði við háskólann í Uppsölum og rannsóknarstjóri við háskólann í Helsinki. Rannsóknir hennar snúast um félags-, félagssögu- og menningarlegan skilning og túlkun á fíkn, lífsstíl, heilsu, frávikshegðun og félagslega jaðarsetningu. Hún hefur lagt sérstaka áherslu á hvernig pólitísk og almenn orðræða, sem og stjórnarhættir og stofnanir, festa í sessi skoðanir á málefnum eins og vímuefnaneyslu, áfengisstefnu, fjárhættuspili, kenningum um fíkn sem heilasjúkdóm og hvernig hún hefur áhrif á einstaklinga, hópa og samfélög. Hún er aðalritstjóri Nordic Studies on Alcohol and Drugs (NAD).

Í fyrirlestrinum er lögð áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr skaða af völdum vímuefnaneyslu í velferðarríkjum. Hvernig hefur verið tekið á vímuefnanotkun og fíkn í norræna velferðarríkinu og hverjar eru helstu áskoranirnar í dag? Þær leiðir sem við höfum farið í að koma í veg fyrir og minnka skaða af völdum vímuefnanotkunar hefur fylgt ákveðnum skoðunum á eðli vandans (félagslegur, læknisfræðilegur o.s.fr.) og hvern hann snertir (einstaklinga, ákveðna hópa, samfélagið allt o.s.fr.). Nýjar áskoranir eru bæði þekkingarfræðilegar og varða skipuleg kerfa: nýr skilningur er á vandanum og það er flóknara að skipuleggja og samhæfa stefnur og þjónustukerfi.

Sarah Morton er lektor við University College Dublin þar sem hún leiðir m.a. Community Partnership Drugs Programme, hefur þróað nám um konur og vímuefnavanda, situr í stjórn stærstu meðferðarsamtaka Írlands, hefur leitt breytingar er varða stefnumótun og enduruppbyggingu þjónustu fyrir konur með vímuefnavanda og var í 10 ár þróunarstjóri Safe Ireland, landsamtaka um öryggi kvenna og barna. Hún hefur veitt félagasamtökum, sveitarfélögum og öðrum stjórnvöldum ráðgjöf í málum er varða samtvinnun vímuefnanotkunar og heimilis- og kynferðisofbeldis. Árið 2020 hlaut hún Evrópuverðlaun fyrir Excellence in Teaching in the Social Sciences and Humanities Hún er fulltrúi í National Oversight Committee for the National Drug Strategy og rannsóknir hennar snúast um samtvinnun vímuefna-notkunar og ofbeldis ásamt skapandi og þátttökumiðuðum rannsóknaraðferðum.

Fyrirlestur: Hver er reynsla kvenna sem eru að fást við flókinn vanda og hver er þörf þeirra fyrir stuðning, þar með talið vímuefnavanda? Byggt er á rannsókn sem hafði það markmið að öðlast ítarlegan skilning á lífsreynslu kvenna, fíkniferil þeirra, vímuefnaneyslu og hvernig þau tengjast þáttum eins og móðurhlutverki, fátækt, félagslegri einangrun, heimilisofbeldi, kynlífi gegn endurgjaldi, heimilisleysi og fangelsun. Kynningin mun draga fram kynbundna reynslu kvenna, auk þess að kanna hugsanlegar aðgerðir sem myndu bæta fíknistefnu og þjónustu við konum. Sérstaklega er litið til samtvinnunar á vímuefnavanda kvenna og þess að hann er flóknari en að leysa megi hann á hálfu ári, eins og titillinn vísar til. Rannsóknin var fjármögnuð af Irish Research Council New Foundations-áætluninni sem styður samstarf fræðimanna og frjálsra félagasamtaka (NGO) til að taka á mikilvægum málum sem koma upp í írsku samhengi.

Sigrún Ólafsdóttir er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún beint sjónum að heilsu, geðheilsu, ójöfnuði, stjórnmálum og menningu, þá sérstaklega hvernig stærri samfélagslegir þættir, svo sem velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið, hafa áhrif á líf einstaklinga.Hún hefur meðal annars skoðað heilsufarsmisrétti og skoðað fordóma í garð fólks með geðrænan vanda, val almennings á notkun geðheilbrigðisþjónustu og sjúkdómsvæðingu geðheilbrigðis. Hún leiðir þátttöku Íslands í þremur alþjóðlegum félagslegum könnunum (European Social Survey, European Values Study og International Social Survey) og var ritstjóri Acta Sociologica frá 2019-2023. Hún hefur stjórnað hlaðvarpi íslenskrar félagsfræði, Samtal við samfélagið, síðastliðin fimm ár.

Sigrún hélt erindið The Public Stigma of Mental Illness and Substance Use.

___________________

Sigurður Örn Hektorsson er yfirlæknir hjá Embætti landlæknis og er sérfræðingur í heimilislækningum, fíknlækningum og geðlækningum. Hann hefur 40 ára reynslu af fjölbreytilegu klínísku læknisstarfi með fólki með vímuefnavanda og föngum bæði hér á landi og í Kaliforníu. Sigurður var yfirlæknir í geðheilsuteymi fangelsa; sem heilbrigðisráðherra setti af stað í ársbyrjun 2020 innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Íslandi og var ný á þeim tíma.

Helena Bragadóttir, geðhjúkrunarfræðingur með starfsleyfi, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Helena starfaði á ýmsum deildum á Landspítalanum frá 2009-2018, bæði legudeildum og göngudeildum. Hún hefur starfað með fólki í skaðlegri vímuefnaneyslu og með geðrænan vanda. Helena lét nýlega af störfum sem teymisstjóri í Geðheilsuteymi fangelsa; sem heilbrigðisráðherra setti af stað í ársbyrjun 2020 og var ný á þeim tíma.

Helena og Sigurður héldu erindi um geðheilsuteymi fangelsa sem var sett á fót sem nýsköpunarverkefni á sviði geðheilbrigðismála til eins árs árið 2020 og síðan framlengt um eitt ár. Algjör stakkaskipti hafa orðið á geðheilbrigðisþjónustu við fólk sem afplánar dóma í fangelsum með tilkomu teymisins, líkt og að var stefnt og ljóst er að þörfin fyrir þjónustuna er mikil.

Þá taka einnig þátt í ráðstefnunni:

Halldóra Dýrleif Gunnarsdóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar

Hjördís B. Tryggvadóttir, teymisstjóri á Teigi, eftirmeðferðardeild fíknigeðdeildar Landspítala

Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félags- og afbrotafræði, Háskóla Íslands

Styrktaraðilar:

Heilbrigðisráðuneytið er aðalstyrktaraðili og ráðstefnan er einnig styrkt af Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Yfirlýsing um stöðu flóttafólks

Yfirlýsing um stöðu flóttafólks

Rótin er eitt af aðildarfélögum Kvenréttindafélags Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands og því aðili að yfirlýsingu félagasamtaka sem lýsa þungum áhyggjum af mjög alvarlegri stöðu sem upp er komin í málefnum fólks á flótta. Rótin vill hér með ítreka fullan stuðning við yfirlýsinguna í eigin nafni.
Félgið vill einnig benda á að GREVIO – Nefnd Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi – gaf út skýrslu sína á síðasta ári um stöðuna hér á landi en nefndin hefur eftirlit með framkvæmd Istanbúl-samningsins. Þar segir að kerfi hérlendis séu ekki nægilega í stakk búin til að bregðast við ofbeldi gegn jaðarsettum hópum, svo sem konum af erlendum uppruna, konum með fötlun eða konum með vímuefnavanda. Ákvæði 4. gr. 3. mgr. Istanbúl-samningsins um vernd þolenda krefst þess að öllum konum sem búa við eða eru í hættu á að verða fyrir ofbeldi sé framkvæmd án nokkurrar mismununar.
Mikil er niðurlæging jafn ríkrar þjóðar og Íslendingar eru að beita valdi gegn fólki í viðkvæmri stöðu á þann hátt sem breytingar á útlendingalögum hafa leitt af sér.

Yfirlýsing samtakanna
„Neðangreind félagasamtök lýsa þungum áhyggjum af mjög alvarlegri stöðu sem komin er upp í málefnum fólks á flótta sem vísað hefur verið úr allri þjónustu opinberra aðila eftir neikvæða niðurstöðu umsóknar um vernd á báðum stjórnsýslustigum. Afdrif þess, öryggi og mannleg reisn eru í hættu.
Samtökin harma að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra lagaákvæða. Þá leikur mikill vafi á að framkvæmdin standist þær mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.
Margt sem ráðamenn hafa sagt í þessari umræðu er villandi, óljóst og byggir á skorti á upplýsingum um raunverulega stöðu fólksins.
Samtökin skora á yfirvöld að tryggja öryggi þessa hóps, mannréttindi og grunnaðstoð með virku samráði við hjálpar- og mannréttindasamtök.
Því boða neðangreind samtök stjórnvöld til samráðsfundar nk. mánudag 21. ágúst 2023 klukkan 17.00 í sal Hjálpræðishersins á Suðurlandsbraut 72. Sérstaklega hefur verið óskað eftir viðveru hlutaðeigandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Reykjavík, 18. ágúst 2023

 • Barnaheill
 • Biskup Íslands
 • FTA – félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd
 • Geðhjálp
 • GETA hjálparsamtök
 • Hjálparstarf kirkjunnar
 • Hjálpræðisherinn á Íslandi
 • Íslandsdeild Amnesty International
 • Kvenréttindafélag Íslands
 • Mannréttindaskrifstofa Íslands
 • No Boarders
 • Prestar innflytjenda, Þjóðkirkjunni
 • Rauði krossinn á Íslandi
 • Réttur barna á flótta
 • Samhjálp
 • Samtökin 78
 • Solaris
 • Stígamót
 • UNICEF á Íslandi
 • UN Women á Íslandi
 • W.O.M.E.N. – samtök kvenna af erlendum uppruna
 • Þroskahjálp
 • ÖBÍ – heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi“