Laus störf í Konukoti

Laus störf í Konukoti

Nú eru laus til umsóknar störf í Konukoti – neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Í Konukoti er unnið samkvæmt hugmyndafræði um skaðaminnkandi-, áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Áhugasamar fylla út meðfylgjandi form og senda einnig ferilskrá á konukot@rotin.is fyrir 10. janúar.

Starfssvið starfskonu er varsla athvarfsins á opnunartíma og móttaka kvenna auk umsjónar í athvarfinu. Hún þarf að vera til taks, elda létta kvöldmáltíð, sjá um frágang, þvott, þrif, aðstoða notendur við athafnir daglegs lífs og sinna öðrum störfum sem til falla og forstöðukona ákveður.

Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningi Eflingar og Rótarinnar sem er sambærilegur við samning Eflingar og Reykjavíkurborgar.

Unnið er samkvæmt eftirfarandi hugmyndafræði:

  • Skaðaminnkun er hugmyndafræði á sviði lýðheilsufræða sem hefur það að markmiði að draga úr heilsufars-, félags- og efnahagslegum afleiðingum vímuefnaneyslu, án þess að krefjast bindindis. Leitast er við að styðja allar jákvæðar breytingar á högum einstaklings sem minnka skaða og bæta lífsgæði hans.
  • Áfalla- og kynjamiðuð nálgun felur í sér að sá sem veitir þjónustu tekur mið af víðtækum áhrifum áfalla og hefur skilning á mögulegum leiðum til bata; ber kennsl á vísbendingar og einkenni áfalla hjá þeim sem nota þjónustuna, aðstandendur starfsfólki og öðrum sem koma að þjónustunni og bregst við með því að samþætta þekkingu á áföllum inn í stefnu, verkferla og framkvæmd og vinnur markvisst að því að hindra að endurvekja áföll.
  • „Konur sinna konum“: Unnið er eftir viðurkenndu verklagi í þjónustu við konur í viðkvæmri stöðu að konur sinni konum.

Nánari upplýsingar veitir Halldóra R. Guðmundsdóttir í síma 7935080 eða halldora@rotin.is.

Forstöðukona ráðin í Konukot

Forstöðukona ráðin í Konukot

Halldóra R. Guðmundsdóttir

Rótin tók við rekstri Konukots 1. október og auglýsti í kjölfarið eftir forstöðukonu í neyðarskýlinu. Alls bárust 32 umsóknir. Nú hefur verið gengið frá ráðningu Halldóru R. Guðmundsdóttur í starf forstöðukonu en hún starfar nú sem forstöðumaður í sértækri búsetu fyrir fólk með einhverfu og hegðunarfrávik. Halldóra er með menntun í sálfræði, heilsuhagfræði og þjónandi leiðsögn. Hún hefur einnig verið sjálfboðaliði hjá skaðaminnkunarúrræðinu Frú Ragnheiði.

Halldóra hefur störf hinn 1. desember og býður ráð Rótarinnar hana velkomna til starfa og þakkar Þóreyju Einarsdóttur, umsjónarkonu í Konukoti, sem hefur starfað í afleysingum sem forstöðukona, hennar störf.

Rótin tekur við rekstri Konukots

Rótin tekur við rekstri Konukots

Rótin skrifaði undir samning við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar  um rekstur á Konukoti, sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur í lok september. Hér má lesa frétt á vef Reykjavíkurborgar í tilefni af samningnum.

Konukot er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur með 8-12 uppbúin rúm opið og er opið á milli klukkan 17:00 og 10:00, alla daga ársins. Öll þjónusta í Konukoti er konunum sem þar dvelja að kostnaðarlausu.

Rauði krossinn á Íslandi stofnaði Konukot sem tilraunaverkefni árið 2004 og hefur rekið það þangað til nú þegar Rótin tekur við. Rótin vill þakka Rauða krossinum fyrir stuðninginn við yfirtökuferlið sem hefur verið mikils virði. Ekki síst það örlæti sem Rauði krossinn hefur sýnt með því að eftirláta Rótinni rekstur fatamarkaðar Konukots sem er mjög mikilvægur fyrir starfsemina.

Með yfirtöku á rekstri Konukots er Rótin orðin sjálfboðaliðasamtök og eru sjálfboðaliðar félagsins í tveimur verkefnum við störf í Konukoti og á fatamarkaði Konukots. Vaktir sjálfboðaliða í Konukoti eru ýmist frá kl. 8:00-12:00 á morgnana eða frá kl. 17:00 22:00. Miðað er við að hver sjálfboðaliði taki ca. tvær vaktir á mánuði. Sjálfboðaliðar á fatamarkaði vinna eftir samkomlagi við verkefnisstjóra hans. Félagið leitar nú að sjálfboðaliðum til starfa í Konukoti og hér má nálgast umsóknarformið. Ekki vantar sjálfboðaliða á markaðinn eins og er. (more…)

MARISSA-verkefnið

MARISSA-verkefnið

MARISSA-verkefnið (Multi-agency approach to support victims of intimate partner violence with substance abuse issues) er tveggja ára Evrópskt samvinnuverkefni (2020-2021) sem hlaut styrk úr áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt. Markmið verkefnisins er að fjalla um samslátt heimilisofbeldis og vímuefnavanda og byggja upp þekkingu og þjálfa starfsfólk sem vinnur með konum sem orðið hafa fyrir heimilisofbeldi og glíma við vímuefnavanda.

MARISSA er á Facebook og Twitter og einnig er hægt að vera á póstlista verkefnisins.

Eins og staðan er skortir á að þolendum heimilisofbeldis með vímuefnavanda sé veitt viðeigandi þjónusta þar sem þetta tvennt hefur hingað til verið meðhöndlað í sitt hvoru lagi þegar ljóst er að betur fari á því að vinna með hvort tveggja á samþættan hátt. (more…)

Forstöðukona í neyðarskýli – Laus staða

Forstöðukona í neyðarskýli – Laus staða

Rótin leitar að framsýnni, metnaðarfullri og öflugri forstöðukonu yfir neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík.

Markmið með þjónustu neyðarskýlisins er að mæta þörfum húsnæðislausra kvenna á heildstæðan og einstaklingsmiðaðan hátt. Notendum skal veitt félagsleg þjónusta og sértækur stuðningur til þess að geta dvalið í neyðarskýlinu. Skal þjónustan veitt með það að markmiði að efla vald notenda yfir aðstæðum sínum og lífi, styrkja sjálfsmynd þeirra, sjálfstraust, félagslega stöðu, sjálfsvirðingu og lífsgæði. Þjónustan tekur mið af skaðaminnkandi, áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. (more…)