Ráðstefna um mannréttindamiðaða fíknistefnu, 17.-18. október

Ráðstefna um mannréttindamiðaða fíknistefnu, 17.-18. október

Treading the Path to Human Rights. Gender, Substance Use and Welfare States er þverfagleg ráðstefna um mannréttindamiðaða nálgun í mótun fíknistefnu í velferðarríkjum sem var haldin dagana 17.–18. október 2023. Á ráðstefnunni var sjónum beint að stöðu og framtíð í fíknistefnu og vímuefnanotkun í velferðarríkjum. Erlendir og innlendir sérfræðingar fjölluðu um stefnumótun í málaflokknum að því er varðar mannréttindi, skaðaminnkun og bæði kynjaða og félagslega áhrifaþætti vímuefnanotkunar. Sérstök áhersla er á fíknistefnu í velferðarríkjum, og þá ekki síst norrænum, og fjallað um mismunun á grundvelli kynþáttar, stéttar, kynferðis, kynhneigðar ásamt kynjamisrétti, í samræmi við áskoranir alþjóðastofnana og fólks sem notar vímuefni. Einnig er áhersla á nauðsyn þess að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun, með hliðsjón af bæði þörfum kvenna og hinsegin fólks og hvernig þær eru frábrugðnar þörfum gagnkynhneigðra sís karla. Ráðstefnan er skipulögð af Rótinni og RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Ráðstefnan fer fram á Hótel Reykjavík Grand.

Dagskrá og upplýsingar má finna hér og skráning á vegum RIKK, hér.

Ráðstefnan og vinnustofur eru á ensku.

Markmið ráðstefnunnar eru að vekja athygli á mikilvægi stefnumótunar í málflokknum, safna saman sérfræðingum, fagfólki, embættismönnum, stjórnmálafólki og öðrum sem áhrif hafa á stefnumótun eða vilja miðla þekkingu sinni og reynslu. Einnig að fá til landsins nýjustu strauma og stefnur um málefnið frá Evrópu.

Fyrirlesarar eru í stafrófsröð:

Danilo Ballotta er aðal stefnumótunarsérfræðingur og fulltrúi samskipta hjá Eftirlitsmiðstöð Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn (EMCDDA). Hann er tengiliður við stofnanir Evrópusambandsins og fulltrúi í vinnuhópi um vímuefni hjá Evrópuráðinu (HDG), hjá Pompidou-hópnum og tengiliður við UNODC. Hann hefur tekið þátt í hundruðum nefnda og stefnumótunarviðburða á vegum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Ballotta ætlar að fjalla um þróun fíknistefnu í Evrópu í samtímanum. 

Fyrirlestur: Nú á tímum krefjandi fíknivanda á heimsvísu, stuðlar Evrópusambandið að sameiginlegri aðferðafræði á sviðinu sem byggir á raunsæi, yfirvegun og gagnreyndri nálgun. Stefnan sem orðið hefur til innan sambandsins er mótuð á löngum tíma með „mjúkri samleitni“ mismunandi stefna aðildarríkja ESB. Nú er hins vegar brýn þörf á víðtækara bandalagi í átt að sameiginlegri sýn þar sem mannréttindi fara hönd í hönd við markmið um heilbrigðari og öruggari fíknistefnu.

Hér má horfa á erindi Danilos.

Emma Eleonorasdotter lektor og rannsakandi í mannfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Rannsóknir hennar veita menningarlega innsýn í misrétti, þá sérstaklega um löglega og ólöglega notkun vímuefna. Emma fjallar um hversdagslega notkun kvenna í Svíþjóð á vímuefnum út frá menningarlegu sjónarhorni með áherslu á kyn og stétt. Doktorsritgerð Emmu, „Det hade ju aldrig hänt annars”. Om kvinnor, klass och droger (2021), hefur verið endurskrifuð á ensku og kemur út hjá Palgrave haustið 2023 undir titlinum Women’s Drug Use in Everyday Life í opnum aðgangi eins og sænska ritgerðin.

Emma fjallaði um hversdagslega notkun kvenna í Svíþjóð á vímuefnum út frá menningarlegu sjónarhorni, með áherslu á kyn og stétt. Kynjamiðuð etnógrafía, eða vettvangslýsing, á hversdagslegri vímuefnanotkun getur aukið þekkingu á hlutverki vímuefnanotkunar í neyslusamfélögum samtímans. Hugað var að laga-, sögu-, félagshagfræðilegum, kynjuðum, stéttar- og menningarlegum bakgrunni vímuefnanotkunar og -hegðunar. Fyrirlesturinn sækir efnivið sinn í átta ára rannsókn að baki doktorsritgerð Emmu, sem er þátttökuathugun um tólf sænskar konur, 25-65 ára gamlar, sem nota vímuefni í daglegu lífi. Þemu verkefnisins eru fíkn, lyf, börn og hamingja sem og áhrif lagaumhverfis á konurnar.

___________________

Helga Sif Friðjónsdóttir er Sérfræðingur í hjúkrun með áherslu á fíkn og staðgengill ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu, Ph.D, APMHN, RN, aðjúnkt og klínískur lektor við Háskóla Íslands. Helga Sif hefur alla sína starfsævi haft brennandi áhuga á vönduðum samskiptum, mannlegri reisn, jafnrétti, breytingum, hvatningu og gæðum heilbrigðisþjónustu. Hún hefur lagt áherslu á að þróa og endur-skipuleggja geðheilbrigðis- og fíkniþjónustu auk kennslu og þjálfunar geðhjúkrunarfræðinga framtíðarinnar á Íslandi. Vegna brautryðjendastarfs síns við skaðaminnkun sæmdi forseti Íslands hana fálkaorðu árið 2021.

Fyrirlestur: Vorið 2021 ákvað heilbrigðisráðherra að gera heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnaraskanir. Á gagnasöfnunarstigi var lögð áhersla á að skoða alþjóðlega staðla, klínískar leiðbeiningar og rannsóknir. Haldnir voru fundir með fulltrúum frá ýmsum hagsmunasamtökum til að varpa ljósi á sérstakar þarfir ólíkra hópa fyrir heilbrigðisþjónustu vegna vímuefnaraskana. Þessir fundir veittu einnig innsýn í reynslu ólíkra hópa af núverandi kerfum og gáfu upplýsingar um hvar úrbóta væri þörf til að mæta þjónustuþörfum þeirra.

___________________

Matilda Hellman er prófessor í félagsfræði við háskólann í Uppsölum og rannsóknarstjóri við háskólann í Helsinki. Rannsóknir hennar snúast um félags-, félagssögu- og menningarlegan skilning og túlkun á fíkn, lífsstíl, heilsu, frávikshegðun og félagslega jaðarsetningu. Hún hefur lagt sérstaka áherslu á hvernig pólitísk og almenn orðræða, sem og stjórnarhættir og stofnanir, festa í sessi skoðanir á málefnum eins og vímuefnaneyslu, áfengisstefnu, fjárhættuspili, kenningum um fíkn sem heilasjúkdóm og hvernig hún hefur áhrif á einstaklinga, hópa og samfélög. Hún er aðalritstjóri Nordic Studies on Alcohol and Drugs (NAD).

Í fyrirlestrinum er lögð áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr skaða af völdum vímuefnaneyslu í velferðarríkjum. Hvernig hefur verið tekið á vímuefnanotkun og fíkn í norræna velferðarríkinu og hverjar eru helstu áskoranirnar í dag? Þær leiðir sem við höfum farið í að koma í veg fyrir og minnka skaða af völdum vímuefnanotkunar hefur fylgt ákveðnum skoðunum á eðli vandans (félagslegur, læknisfræðilegur o.s.fr.) og hvern hann snertir (einstaklinga, ákveðna hópa, samfélagið allt o.s.fr.). Nýjar áskoranir eru bæði þekkingarfræðilegar og varða skipuleg kerfa: nýr skilningur er á vandanum og það er flóknara að skipuleggja og samhæfa stefnur og þjónustukerfi.

Sarah Morton er lektor við University College Dublin þar sem hún leiðir m.a. Community Partnership Drugs Programme, hefur þróað nám um konur og vímuefnavanda, situr í stjórn stærstu meðferðarsamtaka Írlands, hefur leitt breytingar er varða stefnumótun og enduruppbyggingu þjónustu fyrir konur með vímuefnavanda og var í 10 ár þróunarstjóri Safe Ireland, landsamtaka um öryggi kvenna og barna. Hún hefur veitt félagasamtökum, sveitarfélögum og öðrum stjórnvöldum ráðgjöf í málum er varða samtvinnun vímuefnanotkunar og heimilis- og kynferðisofbeldis. Árið 2020 hlaut hún Evrópuverðlaun fyrir Excellence in Teaching in the Social Sciences and Humanities Hún er fulltrúi í National Oversight Committee for the National Drug Strategy og rannsóknir hennar snúast um samtvinnun vímuefna-notkunar og ofbeldis ásamt skapandi og þátttökumiðuðum rannsóknaraðferðum.

Fyrirlestur: Hver er reynsla kvenna sem eru að fást við flókinn vanda og hver er þörf þeirra fyrir stuðning, þar með talið vímuefnavanda? Byggt er á rannsókn sem hafði það markmið að öðlast ítarlegan skilning á lífsreynslu kvenna, fíkniferil þeirra, vímuefnaneyslu og hvernig þau tengjast þáttum eins og móðurhlutverki, fátækt, félagslegri einangrun, heimilisofbeldi, kynlífi gegn endurgjaldi, heimilisleysi og fangelsun. Kynningin mun draga fram kynbundna reynslu kvenna, auk þess að kanna hugsanlegar aðgerðir sem myndu bæta fíknistefnu og þjónustu við konum. Sérstaklega er litið til samtvinnunar á vímuefnavanda kvenna og þess að hann er flóknari en að leysa megi hann á hálfu ári, eins og titillinn vísar til. Rannsóknin var fjármögnuð af Irish Research Council New Foundations-áætluninni sem styður samstarf fræðimanna og frjálsra félagasamtaka (NGO) til að taka á mikilvægum málum sem koma upp í írsku samhengi.

Sigrún Ólafsdóttir er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún beint sjónum að heilsu, geðheilsu, ójöfnuði, stjórnmálum og menningu, þá sérstaklega hvernig stærri samfélagslegir þættir, svo sem velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið, hafa áhrif á líf einstaklinga.Hún hefur meðal annars skoðað heilsufarsmisrétti og skoðað fordóma í garð fólks með geðrænan vanda, val almennings á notkun geðheilbrigðisþjónustu og sjúkdómsvæðingu geðheilbrigðis. Hún leiðir þátttöku Íslands í þremur alþjóðlegum félagslegum könnunum (European Social Survey, European Values Study og International Social Survey) og var ritstjóri Acta Sociologica frá 2019-2023. Hún hefur stjórnað hlaðvarpi íslenskrar félagsfræði, Samtal við samfélagið, síðastliðin fimm ár.

Sigrún hélt erindið The Public Stigma of Mental Illness and Substance Use.

___________________

Sigurður Örn Hektorsson er yfirlæknir hjá Embætti landlæknis og er sérfræðingur í heimilislækningum, fíknlækningum og geðlækningum. Hann hefur 40 ára reynslu af fjölbreytilegu klínísku læknisstarfi með fólki með vímuefnavanda og föngum bæði hér á landi og í Kaliforníu. Sigurður var yfirlæknir í geðheilsuteymi fangelsa; sem heilbrigðisráðherra setti af stað í ársbyrjun 2020 innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Íslandi og var ný á þeim tíma.

Helena Bragadóttir, geðhjúkrunarfræðingur með starfsleyfi, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Helena starfaði á ýmsum deildum á Landspítalanum frá 2009-2018, bæði legudeildum og göngudeildum. Hún hefur starfað með fólki í skaðlegri vímuefnaneyslu og með geðrænan vanda. Helena lét nýlega af störfum sem teymisstjóri í Geðheilsuteymi fangelsa; sem heilbrigðisráðherra setti af stað í ársbyrjun 2020 og var ný á þeim tíma.

Helena og Sigurður héldu erindi um geðheilsuteymi fangelsa sem var sett á fót sem nýsköpunarverkefni á sviði geðheilbrigðismála til eins árs árið 2020 og síðan framlengt um eitt ár. Algjör stakkaskipti hafa orðið á geðheilbrigðisþjónustu við fólk sem afplánar dóma í fangelsum með tilkomu teymisins, líkt og að var stefnt og ljóst er að þörfin fyrir þjónustuna er mikil.

Þá taka einnig þátt í ráðstefnunni:

Halldóra Dýrleif Gunnarsdóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar

Hjördís B. Tryggvadóttir, teymisstjóri á Teigi, eftirmeðferðardeild fíknigeðdeildar Landspítala

Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félags- og afbrotafræði, Háskóla Íslands

Styrktaraðilar:

Heilbrigðisráðuneytið er aðalstyrktaraðili og ráðstefnan er einnig styrkt af Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Drögum kynjatjöldin frá: Til móts við kynjaða heildarsýn á áföll og fíkn

Drögum kynjatjöldin frá: Til móts við kynjaða heildarsýn á áföll og fíkn

Drögum kynjatjöldin frá: Til móts við kynjaða heildarsýn á áföll og fíkn er yfirskrift ráðstefnu sem haldin er á Hótel Natura, hinn 28. febrúar og 1. mars næstkomandi, í samvinnu Rótarinnar, Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum (RIKK), Alþjóðajafnréttisskólans og Jafnréttisstofu. Sjá nánar: https://conference.hi.is/genderandaddiction/ og á Facebook

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, opnar ráðstefnuna með ávarpi en fjöldi erlendra sérfræðinga tekur þátt í henni. Þar er fyrsta að telja Dr. Elizabeth Ettorre, prófessor emerítus í félagsfræði og félagsmálastefnu við Háskólann í Liverpool og Leverhulme Emeritus styrkþega, heiðursprófessor við Árósaháskóla og Háskólann í Plymouth á Bretlandi. Hún fjallar um konur, vímuefnaneyslu og samþættingu. Elizabeth hefur starfað við rannsóknir á vímuefnaneyslu síðan á áttunda áratug síðustu aldar og er einn virtasti fræðimaður Evrópu á sínu sviði.

Dr. Nancy Poole kemur alla leið frá Bresku-Kólumbíu í Kanada. Þar er hún forstöðukona Centre of Excellence for Women’s Health og starfar einnig við Women’s Hospital and Health Centre. Nancy er virtur alþjóðlegur sérfræðingur með víðtæka reynslu af kynjaðri nálgun á heilsu og fíkn og fjallar hennar erindi um mikilvægi þess að hafa kyn, áföll og réttlæti í brennidepli þegar vímuefnastefna er mótuð. (more…)