Drögum kynjatjöldin frá: Til móts við kynjaða heildarsýn á áföll og fíkn er yfirskrift ráðstefnu sem haldin er á Hótel Natura, hinn 28. febrúar og 1. mars næstkomandi, í samvinnu Rótarinnar, Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum (RIKK), Alþjóðajafnréttisskólans og Jafnréttisstofu. Sjá nánar: https://conference.hi.is/genderandaddiction/ og á Facebook

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, opnar ráðstefnuna með ávarpi en fjöldi erlendra sérfræðinga tekur þátt í henni. Þar er fyrsta að telja Dr. Elizabeth Ettorre, prófessor emerítus í félagsfræði og félagsmálastefnu við Háskólann í Liverpool og Leverhulme Emeritus styrkþega, heiðursprófessor við Árósaháskóla og Háskólann í Plymouth á Bretlandi. Hún fjallar um konur, vímuefnaneyslu og samþættingu. Elizabeth hefur starfað við rannsóknir á vímuefnaneyslu síðan á áttunda áratug síðustu aldar og er einn virtasti fræðimaður Evrópu á sínu sviði.

Dr. Nancy Poole kemur alla leið frá Bresku-Kólumbíu í Kanada. Þar er hún forstöðukona Centre of Excellence for Women’s Health og starfar einnig við Women’s Hospital and Health Centre. Nancy er virtur alþjóðlegur sérfræðingur með víðtæka reynslu af kynjaðri nálgun á heilsu og fíkn og fjallar hennar erindi um mikilvægi þess að hafa kyn, áföll og réttlæti í brennidepli þegar vímuefnastefna er mótuð.

Dr. Sarah Morton er lektor við University College Dublin og hún verður því miður bara með okkur seinni dag ráðstefnunnar vegna þeirra gleðilegu tíðinda að hinn 27. febrúar er hún að taka á móti University Teaching Excellence award við sinn háskóla. Dr. Sarah er sérfræðingur í skaðaminnkandi nálgun, konum og heimilisofbeldi og í erindi sínu fjallar hún um konur, heimilisofbeldi, vímuefnanotkun, áföll og nýbreytni í þekkingu og úrræðum.

Með Söruh koma einnig Geraldine Mullane og Mary Barry frá Cuan Saor, kvennaathvarfi sem nýlega var breytt í anda skaðaminnkunar og er í bænum Clonmel í Tipparary. Þær segja okkur frá sínu starfi en nýlega hefur ACE-listinn, matslisti á áhrifum áfalla í æsku á heilsufar, verðir gerður að föstum lið í starfseminni.

Einnig koma gestir frá Belgíu en það eru þær Julie Schamp, doktorsnemi og rannsakandi, og Dr. Tina Van Havere, lektor, sem báðar koma frá Háskólanum í Ghent. Julie mun fjalla um hindranir, úrræði og reynsla af vímuefnameðferð fyrir konur í blandaðri áfengis- og vímuefnaneyslu. Tina mun hins vegar bera saman áfengis- og vímuefnaneyslu karla og kvenna.

Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði ætlar að fjalla um ofbeldi gegn konum og kristna siðfræði kynverundar og Hjördís Björg Tryggvadóttir, sálfræðingur og teymisstjóri á Teigi, göngudeild fíknigeðdeildar, LSH, mun fjalla um áfallarannsókn sem gerð var á Teigi. Þá mun Dr. Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur SÁÁ einnig fjalla um rannsókn á áföllum sem gerð hefur verið hjá SÁÁ.

Þær Katrín G. Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og ProfCert Konur og vímuefnanotkun, og Guðrún Ebba Ólafsdóttir, kennari, dipl. í starfstengdri leiðsögn og ein af stofnendum Rótarinnar, ætla að fjalla um námskeið og leidda sjálfshjálparhópa sem Rótin hefur boðið upp á síðan haustið 2018. Námskeiðin kallast Konur studdar til bata og er þar fylgt meðferðarhandriti frá Stephanie Covington sem var aðalfyrirlesari á ráðstefnunni 2015. Einnig mun Margrét Gunnarsdóttir, sjúkraþjálfari, sálmeðferðarfræðingur og jógakennari segja frá áfallamiðuðu jóga sem hún hefur sérhæft sig í. Katrín, Guðrún og Margrét eru allar í ráði Rótarinnar.

Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, verkefnisstjóri RIKK og ProfCert Konur og vímuefnaneysla, og Ívar Karl Bjarnason, MA kynjafræði kynna nýjar niðurstöður úr viðtölum við konur um reynslu þeirra af fíknimeðferð og Dr. Sigrún Sigurðardóttir gefur svo innsýn í reynslu kvenna í íslenskum fangelsum af meðferðarúrræðum innan og utan fangelsa. Meðhöfundur Sigrúnar að þeirri rannsókn er Arndís Vilhjálmsdóttir.

Þá mun Elísabet Sigfúsdóttir, félagsráðgjafi og teymsstjóri FMB-teymis á Landspítala fjalla um fíkn og foreldrahlutverkið og Sólveig Rós, fræðslustýra Samtakanna ’78 gefur innsýn í málefni hinsegin fólks með vímuefnavanda.

Þær Linda Vilhjálmsdóttir, Natalie Gunnarsdóttir og Ragna Jóhannsdóttir koma í sófaspjall sem Guðrún Ebba stýrir og fjalla um leiðina til bata eftir neyslu.

Þá eru ótaldir fleiri þátttakendur meðal annars þeir sem taka þátt í umræðum í panel, stjórna umræðum og stýra fundi.

Það er von þeirra sem að ráðstefnunni standa að margir úr hópi þeirra sem starfa með og/eða í návígi við fólk með fíknivanda, hvort sem er í heilbrigðis- eða velferðarkerfi, hjá sveitarfélögum, embættismenn og aðrir sem hafa áhuga á efninu taki þátt ráðstefnunni.

Share This