Miðvikudag 9. október verður umræðukvöld hjá Rótinni þar sem Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur, flytur erindi um samkenndarmiðaða nálgun við áföllum (e. Compassion focused therapy).

Þar sem Rótarhópur fellur niður þau kvöld sem boðið er upp á umræðukvöld verður enginn fundur í Rótarhópnum næsta miðvikudag. Við hvetjum ykkur hins vegar til að koma á umræðukvöldið  sem er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 9. október, kl. 20.00-21.30.

Þá fellur Rótarhópur og námskeið félagsins einnig niður vikuna 21.-25. október vegna vetrarleyfis.

Rótarhópurinn er fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðum á vegum Rótarinnar, konur sem hafa áhuga á að taka þátt í slíkum námskeiðum og konur sem eru komnar vel af stað í bata með öðrum leiðum eru einnig velkomnar og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Við söfnum þó í pott fyrir kaffi og te.

Markmið hópsins er að styðja konur í bata frá áföllum og fíkn með því að efla sjálfsþekkingu og efla vitund þeirra um eigin styrkleika. Í Rótarhópunum er unnið út frá þekkingu á sambandi áfalla og vímuefnavanda og er þátttaka í hópunum aðeins einn hluti af áframhaldandi bataferli. Starf Rótarhópanna byggir á gagnreyndri þekkingu og umræðuefnin tengjast viðfangsefnum námskeiða Rótarinnar Konur studdar til bata og Áföll –Leiðir til bata sem þróuð eru af einum helsta sérfræðingi heims í áfalla- og vímuefnavanda kvenna, dr. Stephanie Covington.
Hóparnir funda á miðvikudögum kl. 19.15-20.15 í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg.

Sjá nánar um umræðukvöldið og annað starf félagsins á vefnum okkar.

 

Share This