Rótinni hlotnaðist sá heiður 31. október 2019 að þiggja jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir árið 2019. Við sama tækifæri fékk Rauðsokkahreyfingin einnig viðurkenningu ráðsins og vefmiðillinn Knúz.is fékk fjölmiðlaviðurkenningu þess. Sendum við þeim árnaðaróskir!

Rökstuðningur með viðurkenningunni er eftirfarandi:

“Jafnréttisráð hefur ákveðið að veita Rótinni jafnréttisviðurkenningu ráðsins til grasrótarsamtaka fyrir árið 2019.

Rótin er félag áhugakvenna um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði. Félagið er brautryðjandi í umræðunni um tengsl áfalla, ofbeldis og fíknar hér á landi. Rótin var stofnuð í Reykjavík 8. mars 2013 og hefur því starfað óslitið á sjöunda ár.

Frá upphafi hefur Rótin beitt sér með eftirtektarverðum hætti í opinberri umræðu um þjónustu við konur og börn sem eiga við fíknavanda að stríða. Talskonur Rótarinnar hafa vakið athygli á ýmsum brotalömum í heilbrigðisþjónustu á þessu sviði. Þær hafa verið óþreytandi við að benda á tengsl áfalla og ofbeldis gagnvart konum við fíkni- og geðsjúkdóma. Þær hafa fært gild rök fyrir nauðsyn kynjaskiptrar meðferðar og gagnrýnt að börn séu höfð í fíknimeðferð með fullorðnum. Rótin hefur einnig varað við hvers kyns hræðsluáróðri um fíkn og afleiðingar hennar. Þá má nefna að Rótin hefur gefið út leiðbeiningar fyrir konur sem vilja tjá sig um fíkn eða áföll opinberlega og heldur reglulega fræðslunámskeið sem er sérstaklega beint til kvenna. Rótin hefur með starfi sínu og málflutningi ögrað viðteknum kenningum og hugmyndum í samfélaginu um konur og fíkn og leiðir til bata.

Rótin hefur með starfi sínu og málflutningi kynnt nýjar kenningar og hugmyndir um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði. Þannig hefur Rótin ögrað viðteknum hugmyndum um leiðir til bata”.

Share This