by Rótin félag um málefni kvenna | 4.03.2022 | Námskeið
Námskeiðið Karlar og áföll – leiðir til bata er nú haldið í fimmta sinn. Námskeiðið er ætlað körlum sem hafa orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi, meðvituðu og ómeðvituðu, t.d. vanrækslu og einelti. Markmið þess er að leiða þátttakendur til aukins skilnings á afleiðingum áfalla og til að finna leiðir til halda áfram að þroskast, byggja upp seiglu, öðlast meiri lífsánægju og að eiga í innilegri og innihaldsríkari samböndum. Námskeiðið heitir Exploring Trauma á ensku og höfundar þess eru Dr. Stephanie Covington og Roberto A. Rodriquez. Guðrún Ebba Ólafsdóttir þýddi námskeiðið og hefur þróað það í ljósi reynslunnar á Íslandi.
Efnisþættir sem unnið er með á námskeiðinu eru:
- Hvað eru áföll?
- Áföllin skoðuð nánar, ACE listinn, þegar áföllin okkar meiða aðra.
- Hugsa, finna, framkvæma.
- Handan við sektarkennd, skömm og reiði.
- Heilbrigð sambönd.
- Ástin, kærleikurinn og lok námskeiðsins.
Mikil áhersla er á að skapa andrúmsloft sem byggir á trausti og einlægni. Áhersla er á þrjú lykilatriði: skilning á hvað áfall er, hvernig áfallaferlið er og áhrif þess á bæði líðan (hugsanir, tilfinningar, skoðanir og gildi) og breytni (hegðun og sambönd). Með auknum skilningi og þekkingu á áhrifum áfalla er að koma upp á yfirborðið aukinn skilningur á áhrifum áfalla á karla. Þar á meðal er þögnin um ofbeldi sem karlar verða fyrir, áhrif félagsmótunar á viðbrögð karla við misnotkun, hættuna á því að fórnarlömb verði gerendur og þörfina á því að skilja ótta karla og skömm.
Markmið
Markmiðið með námskeiðinu er að styðja karla til bata með því að auka skilning þeirra á áhrifum áfalla á lífsferilinn.
Skipulag
Námskeiðið er frá kl. 10:00-14:00 helgina 7. og 8. maí og laugardaginn 14. maí, að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík. Námskeiðið er 12 klst.
Skráning
Verð
33.900 kr. –
Námskeiðið er niðurgreitt af styrk til félagsins.
Leiðbeinendur og verkefnisstjórn
Leiðbeinendur eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir. Sjá nánar.
Umsagnir þátttakanda á fyrri námskeiðum:
„Námskeiðið hjálpaði mér að skoða heildarmyndina af mínum áföllum og hvernig ég get byrjað að vinna úr þeim.“
„Þakklæti. Þakklæti fyrir að víkka sjóndeildarhringinn hjá mér og opna augun mín fyrir því að það var hellingur af óunnum málum og áföllum sem ég var áður blindur fyrir.“
„Mér fannst gagnlegt að fá að opna á áföll, að vinna í hópi þar sem flestir eru að eiga við sömu vandamál.“

by Rótin félag um málefni kvenna | 9.01.2022 | Hópastarf, Námskeið
Konur finna styrk sinn er áfalla- og kynjamiðaður leiðsagnarhópur (e. Psychodynamic Group) þar sem lögð er áhersla á að vinna með rætur áfengis- og vímuefnavanda og annað andstreymi í lífi kvenna. Vímuefnavandi eða skaðleg vímuefnanotkun er ekki einangrað vandamál heldur á sér m.a. rætur í áföllum. Unnið er með þann fjölþætta vanda sem konur glíma jafnan við. Á milli tíma er verkefnavinna sem þátttakendur eru hvattar til að vinna svo að þær fái sem mest út úr námskeiðinu og fá þátttakendur veglega vinnubók.
Námskeiðið er úr smiðju dr. Stephanie Covington og heitir á ensku Helping women recover. Covington er frumkvöðull í vinnu með konum með áfallasögu sem notað hafa sjálfskaðandi bjargráð eins og vímuefnanotkun.
Umsagnir þátttakenda á fyrri námskeiðum
„Mér fannst rosalega gott að vinna með að bæta líkamsvitund, hugsa jákvætt til líkama síns. Einnig mjög gagnleg um kynlíf í tengslum við neyslu.“
„Að finna rótina að því hver ég er, hvernig hlutverk ég hef alist upp við og fests í. Að geta skapað nýja mig.“
„Námskeiðið var fullkomið og afar gagnlegt.“
„Ég er óendanlega þakklát!“
„Leiðbeinandi var alveg yndisleg og mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.“
„Frábærlega góð nærvera og fullkomið traust.”
„Leiðbeinandinn stóð sig frábærlega! Alveg yndisleg og mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.“
„Allt var svo gott og þægilegt umhverfi,“
Fyrir hverjar?
Námskeiðið er ætlað konum sem eiga sögu um vímuefnavanda. Það hentar jafnt konum sem hafa ekki notað vímuefni í langan tíma sem og konum sem eru að hefja vinnu við að bæta lífsgæði sín. Hámarksfjöldi er venjulega 10 þátttakendur en vegna sóttvarnaráðstafana eru nú einungis sex pláss í boði.
Markmið
Markmið námskeiðsins er að konur öðlist aukna sjálfsþekkingu sem einstaklingar en skilgreini sig ekki í gegnum sambönd eða stöðu sína. Einnig að þær átti sig á styrkleikum sínum og geti byggt framtíð sína og betra líf á þeim.
Innihald
Aðaláherslan er á fjóra þætti: Sjálfsmynd, samskipti, kynverund og andlega heilsu. Innan þessara þátta eru undirflokkar þar sem farið er ítarlega í atriði sem eru mikilvæg til að auka lífsgæði og kynntar nýjar aðferðir sem stuðla að þeim. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim, hvernig þær komust af og til hvaða bjargráða greip hver og ein þeirra.
Samþykktir fyrir námskeið og hópa Rótarinnar gilda á námskeiðinu eins og í öðru starfi félagsins.
Hvenær?
Hópurinn hittist 10 sinnum í u.þ.b. 90 mínútur í hvert skipti. Næsta námskeið hefst 9. febrúar 2022. Tímarnir hefjast stundvíslega kl. 16:30 og lýkur yfirleitt kl. 18:00 og aldrei seinna en upp úr kl. 18:30. Undantekning á þessu er að tíminn 2. mars hefst kl. 16:00.
Hvar?
Námskeiðið er haldið í sal í kjallara, Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.
Þátttökugjald er 36.000 kr.
Skráning.
Dagsetningar
Tími |
Dagsetning |
Tími |
Dagsetning |
1 |
9. febrúar |
6 |
7. mars |
2 |
14. febrúar |
7 |
9. mars |
3 |
16. febrúar |
8 |
16. mars |
4 |
23. febrúar |
9 |
23. mars |
5 |
2. mars |
10 |
30. mars |
Leiðbeinendur og verkefnisstjórn
Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir.
Námskeiðið er niðurgreitt með styrkjum frá Lýðheilsusjóði og heilbrigðisráðuneyti.
by Rótin félag um málefni kvenna | 25.11.2021 | Námskeið, Viðburður
Miðvikudaginn 24. nóvember hittist fagfólk í vímuefnameðferð og starfsfólk í úrræðum fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum í vinnustofu MARISSA-verkefnisins sem er tveggja ára samstarfsverkefni Grikkja, Eista og Íslendinga. Markmið þess er að styðja fagfólk sem vinnur með þolendum ofbeldis annars vegar og fagfólki sem vinnur með fólki sem glímir við vímuefnavanda hins vegar.
Markmiðið með vinnustofunni, sem haldinn var að Hallveigarstöðum, var að fá speglun frá fagfólki um notkun handbókar sem er lokaafurð verkefnisins og verður gefin út á íslensku á næsta ári og gerð aðgengileg á netinu. Handbókin heitir á ensku: Training Manual on Supporting Women Dealing with Co-occurring Victimization of Intimate Partner Violence and Problematic Substance Use: A Guide for Facilitators.
Leiðbeinendur í vinnustofunni voru Guðrún Sif Friðriksdóttir, verkefnisstjóri hjá RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, fræðslustjóri Rótarinnar og Kristín I. Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Rótarinnar.
(more…)
by Rótin félag um málefni kvenna | 17.09.2021 | Námskeið
Áföll – leiðir til bata er námskeið þar sem athyglinni er beint að þeim áföllum sem konur eru í mestri hættu á að verða fyrir eins og kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum og öðru ofbeldi á milli tengdra aðila. Námskeiðið er kynjamiðað og byggt er á styrkleikanálgun. Þátttaka í námskeiðinu styður konur í að vinna úr afleiðingum áfalla. Kennd eru bjargráð sem nýtast við úrvinnslu áfalla almennt. Þátttakendur fá veglegt verkefnahefti. (more…)
by Rótin félag um málefni kvenna | 4.09.2021 | Erindi til stjórnvalda, Fréttatilkynning, Hópastarf, Námskeið
Rótin, í samstarfi við geðheilsuteymi fanga (GHF) og Fangelsismálastofnun (FMS), hefur sent erindi til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, með ósk um rúmlega 10 milljóna króna styrk til innleiðingar og þjálfunar starfsfólks í réttarvörslukerfinu í áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Erindið var einnig sent á Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, og Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra, í von um stuðning þeirra við verkefnið líka.
Innleiðingin felur í sér að fá hingað til lands sérfræðinga frá Center for Gender and Justice,(CG&J), í Kaliforníu, til að þjálfa starfsfólk fangelsanna, geðheilsuteymis og Rótarinnar. CG&J býr að áratuga reynslu, bæði í Bandaríkjunum og víða um heim, af vinnu með fólki í fangelsum og hefur gefið út mikið af hagnýtu efni sem notað er í fangelsum og víðar.
Dr. Stephanie S. Covington er forstöðukona Center for Gender og Justice í San Diego í Kaliforníu ásamt Barböru E. Bloom. Báðar hafa þær á löngum starfsferli sérhæft sig í málefnum kvenna og stúlkna í réttarvörslukerfinu og á seinustu árum útfært þá þekkingu fyrir karla og drengi. Rótin hefur átt í farsælu samstarfi við dr. Covington undanfarin 6 ár, eða síðan hún koma á ráðstefnu félagsins um konur og fíkn, árið 2015. (more…)
by Rótin félag um málefni kvenna | 28.07.2021 | Grein, Námskeið
Konur finna styrk sinn í Hlaðgerðarkoti
Það er mikilvægt að konur finni fyrir öryggi þegar þær sækja sér áfengis- og vímuefnameðferð. Í mörgum tilvikum þarf að gera upp erfiða hluti úr fortíðinni og það krefst mikillar og viðkvæmrar vinnu ef ná á árangri. Rótin hefur á liðnum árum unnið að bættum meðferðarúrræðum fyrir konur og lagt áherslu á að auka þekkingu á meðferðarmálum kvenna. Mikið samstarf er nú á milli Rótarinnar og Hlaðgerðarkots um bætt úrræði fyrir konur í meðferð.
______________________________________________________________________________________
Fíknivandi og meðferðarnálganir voru lengi mjög karlmiðaðar. Til að mynda ber áttundi kafli AA bókarinnar yfirskriftina Til eiginkvenna. Eru konur þannig ávarpaðar sem aðstandendur alkóhólista, eiginmanna sinna, og þannig lítur út fyrir að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að konur gætu verið alkóhólistar. Hafa ber í huga að bókin er skrifuð árið 1939, af karlmönnum, og á þeim tíma höfðu ekki margar konur leitað sér aðstoðar vegna alkóhólisma. Það var í raun ekki fyrr en á níunda áratug síðustu aldar, samhliða því sem kvenréttindahreyfingunni óx fiskur um hrygg, sem vitundarvakning varð um málefni kvenna sem glíma við fíknivanda.
Í dag eru konur um þriðjungur þeirra sem sækja sér aðstoð vegna fíknivanda. Til að fjalla nánar um stöðu og málefni kvenna sem glíma við fíknivanda settist Samhjálparblaðið niður með Helgu Lind Pálsdóttur, forstöðumanni í Hlaðgerðarkoti, og Kristínu Pálsdóttur, talskonu og framkvæmdastjóra Rótarinnar.
Báðar segja þær að nokkur munur sé á konum og körlum þegar kemur að fíknivanda. Þar hafa bæði líkamlegir
og félagslegir þættir áhrif. Konur eru eftir tilvikum veikari fyrir og lenda hraðar í því sem kalla má niðurþróun
fíkniröskunarinnar. Það er þó ekki algilt, enda fjölmörg dæmi um konur sem ná að fela fíkn sína í daglegu lífi, meðal annars með því að sinna daglegum þörfum heimilis og fjölskyldu. Oft virðast þær konur vera ólíklegri til að leita sér aðstoðar, eða leita sér seinna aðstoðar, en yngri konur sem lent hafa í harðari neyslu.
Sjálf var Kristín rúmlega fertug þegar hún fór í meðferð.
„Ég átti þá mann og börn, var í námi og var að reka heimili,“ segir Kristín.
„Ég var í góðum félagslegum aðstæðum en samt að eiga við vanda sem hafi mikil áhrif á líf mitt og minna nánustu. Það er oft meira í húfi fyrir konur, þá sérstaklega þær sem eru að reka heimili, og þær hika því við að viðurkenna að þær séu með vímuefnavanda. Konur eru líka dæmdar harðar, þær upplifa skömm yfir því að eiga við þessi vandamál samhliða móðurhlutverkinu sem þær eru að sinna. Það eru því of margar konur sem fara leynt með sína neyslu, á meðan þær geta. Það veldur þeim auðvitað mikilli vanlíðan.“ (more…)