Námskeiðið Karlar og áföll – leiðir til bata er nú haldið í fimmta sinn. Námskeiðið er ætlað körlum sem hafa orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi, meðvituðu og ómeðvituðu, t.d. vanrækslu og einelti. Markmið þess er að leiða þátttakendur til aukins skilnings á afleiðingum áfalla og til að finna leiðir til halda áfram að þroskast, byggja upp seiglu, öðlast meiri lífsánægju og að eiga í innilegri og innihaldsríkari samböndum. Námskeiðið heitir Exploring Trauma á ensku og höfundar þess eru Dr. Stephanie Covington og Roberto A. Rodriquez. Guðrún Ebba Ólafsdóttir þýddi námskeiðið og hefur þróað það í ljósi reynslunnar á Íslandi.

Efnisþættir sem unnið er með á námskeiðinu eru:
  1. Hvað eru áföll?
  2. Áföllin skoðuð nánar, ACE listinn, þegar áföllin okkar meiða aðra.
  3. Hugsa, finna, framkvæma.
  4. Handan við sektarkennd, skömm og reiði.
  5. Heilbrigð sambönd.
  6. Ástin, kærleikurinn og lok námskeiðsins.

Mikil áhersla er á að skapa andrúmsloft sem byggir á trausti og einlægni. Áhersla er á þrjú lykilatriði: skilning á hvað áfall er, hvernig áfallaferlið er og áhrif þess á bæði líðan (hugsanir, tilfinningar, skoðanir og gildi) og breytni (hegðun og sambönd). Með auknum skilningi og þekkingu á áhrifum áfalla er að koma upp á yfirborðið aukinn skilningur á áhrifum áfalla á karla. Þar á meðal er þögnin um ofbeldi sem karlar verða fyrir, áhrif félagsmótunar á viðbrögð karla við misnotkun, hættuna á því að fórnarlömb verði gerendur og þörfina á því að skilja ótta karla og skömm.

Markmið
Markmiðið með námskeiðinu er að styðja karla til bata með því að auka skilning þeirra á áhrifum áfalla á lífsferilinn.

Skipulag
Námskeiðið er frá kl. 10:00-14:00 helgina 7. og 8. maí og laugardaginn 14. maí, að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík. Námskeiðið er 12 klst.

Skráning 

Verð
33.900 kr. –

Námskeiðið er niðurgreitt af styrk til félagsins.

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn
Leiðbeinendur eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir. Sjá nánar.

Umsagnir þátttakanda á fyrri námskeiðum:

„Námskeiðið hjálpaði mér að skoða heildarmyndina af mínum áföllum og hvernig ég get byrjað að vinna úr þeim.“
„Þakklæti. Þakklæti fyrir að víkka sjóndeildarhringinn hjá mér og opna augun mín fyrir því að það var hellingur af óunnum málum og áföllum sem ég var áður blindur fyrir.“
„Mér fannst gagnlegt að fá að opna á áföll, að vinna í hópi þar sem flestir eru að eiga við sömu vandamál.“

Share This