by Rótin félag um málefni kvenna | 4.02.2021 | Erindi til stjórnvalda, Fréttatilkynning
Yfirlýsing frá Rótinni, félagi um konur, áföll og vímugjafa, vegna umfjöllunar Stundarinnar um meðferðarheimili Barnaverndarstofu
Nokkrar hugrakkar konur stíga fram og segja reynslu sína af meðferðarheimilum Barnaverndarstofu í Stundinni 29. janúar sl.
Rótin krefst þess að gerðar séu upp þær ófaglegu og oft ofbeldisfullu aðferðir sem liðist hafa í meðferð bæði barna og fullorðinna. Litlar úttektir hafa verið gerðar á meðferðarkerfinu þar sem talað er við fólkið sem var í meðferð og t.d. var bara talað við yfirmenn í úttekt Embættis landlæknis á þremur meðferðarstöðum árið 2016 þar sem þær fengu allar falleinkunn.
Rótin sendi Landlækni erindi vegna yfirlýsingar frá meirihluta starfsfólks SÁÁ 22. júlí sl. „um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum“ með ósk um að heilbrigðisráðuneyti og Embætti landlæknis skoði málið. Einnig óskar félagið eftir því að áhrif þessarar ógnarstjórnar á þá sem sóttu sér meðferðar hjá SÁÁ, ekki síst á barnsaldri, verði sérstaklega skoðuð. (more…)
by Rótin félag um málefni kvenna | 9.12.2020 | Erindi til stjórnvalda
Rótin hefur sent eftirfarandi erindi til Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra.
Sæll Ásmundur.
Okkur langar að þakka þér fyrir einlægt viðtal sem birtist í Morgunblaðinu um helgina. Sérstaklega þökkum við þér fyrir falleg orð í garð Konukots en Rótin tók við rekstri þess 1. október sl. Frásögnin af móður þinni snerti okkur djúpt af því að reynsla hennar og fjölda annarra kvenna er ástæða þess að við stofnuðum félagið Rótina 8. mars 2013. Okkur fannst skorta á að tekið væri heildstætt á tengslum áfalla og vímuefnavanda kvenna. Auk þess sem við höfum enn áhyggjur af öryggi kvenna í meðferðarkerfinu. (more…)
by Rótin félag um málefni kvenna | 30.08.2020 | Erindi til stjórnvalda
Rótin hefur sent eftirfarandi erindi til Ríkisendurskoðunar vegna starfsemi SÁÁ:
Til: Ríkisendurskoðunar
Frá: Rótin – Félag um konu, áföll og vímuefni
Efni: Starfsemi SÁÁ
30. ágúst 2020
Ágæti viðtakandi.
Í aðdraganda stjórnarkjörs innan SÁÁ – Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, hinn 22. júní, birtist yfirlýsing frá 57 af 100 starfsmönnum samtakanna þar sem fram kemur m.a. að vandi SÁÁ snúist um „yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum“ að „ógnarstjórn“ hafi verið við lýði í rekstri samtakanna.
Augljóst er að í yfirlýsingunni er verið er að vísa í tæplega fjögurra áratuga stjórnartíð Þórarins Tyrfingssonar sem á um 20 ára tímabili var bæði framkvæmdastjóri og formaður stjórnar SÁÁ. (more…)
by Rótin félag um málefni kvenna | 30.06.2020 | Erindi til stjórnvalda
Rótin hefur sendi í dag, 30. júní 2020, eftirfarandi erindi til RÚV:
Til: Baldvins Þórs Bergssonar, dagskrárstjóra Rásar 2, Sigmars Guðmundssonar, dagskrárgerðarmanns og Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri
Efni: Þöggun ofbeldis og hludrægni í dagskrárgerð
Reykjavík 30. júní 2020
„Vandi SÁÁ snýst um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum,“ segir í yfirlýsingu frá 57 starfsmönnum SÁÁ þar sem þeir frábiðja sér frekari afskipti Þórarins Tyrfingssonar af starfi félagsins. Af yfirlýsingunni má skilja að Þórarinn, sem hefur starfað hjá samtökunum í 42 ár, þar af í 20 ár sem bæði framkvæmdastjóri lækninga og formaður samtakanna, sé aðalgerandi í því ofbeldi sem starfsfólkið lýsir. Í Viðskiptablaðinu kemur einnig fram í máli Kristbjargar Höllu, starfsmanns SÁÁ að „ógnarstjórn sem hafi verið við lýði þegar hann var við stjórn.“ (more…)
by Rótin félag um málefni kvenna | 30.03.2020 | Erindi til stjórnvalda, Fréttatilkynning
Rótin lýsir miklum áhyggjum af þróun meðferðarmála í landinu í ljósi þeirra atburða sem nú eru að gerast innan SÁÁ, ekki síst með tilliti til aðstæðna í samfélaginu.
Til margra ára ríkti stöðnun í meðferðargeiranum hér á landi þar sem SÁÁ var allsráðandi með hið svokallaða „íslenska módel“. Landspítalinn breytti sinni nálgun í samræmi við nýjustu þekkingu upp úr aldamótum og fór að leggja áherslu á dag- og göngudeildarþjónustu og sálfræðilega meðferð.[1]
Gæðastarf og stefnumótun hjá SÁÁ fékk falleinkunn í hlutaúttekt Embættis landlæknis árið 2016. Bent var á að engin gögn væru til um árangur meðferðarinnar og engar þjónustukannanir.[2] Á sama tíma var félagið í stórtækum framkvæmdum á Vík með áherslu á inniliggjandi meðferð eftir gamla meðferðarlíkaninu sem að mestu er í höndum áfengis- og vímuefnaráðgjafa með litla menntun.[3] Erlendar rannsóknir sýni hins vegar að ekki er betri árangur af inniliggjandi meðferð en af dag- og göngudeildarmeðferð [4] og að fráhvarfsmeðferð, eins og hún hefur verið stunduð, sé ekki sérstaklega árangursrík aðferð heldur. [5]
Eftir að Rótin hóf sína baráttu hafa orðið ýmsar jákvæðar breytingar hjá SÁÁ, ekki síst eftir að Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir, og Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur, tóku við stjórnartaumunum á Vogi. Unnið hefur verið að aukinni fagmennsku í meðferðinni, kynjaskiptingu og innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar og aukinnar faglegrar þjónustu eins og sálfræðiþjónustu. Allt eru þetta skref í rétta átt.
Forsvarsmenn SÁÁ þreytast ekki á að hamra á því að fíknivandi sé „krónískur læknisfræðilegur sjúkdómur eins og hjartasjúkdómar og sykursýki“[6] það skýtur því verulega skökku við, og lýsir mikilli rörsýn á nútíma heilbrigðisþjónustu, að sjá Arnþór Jónsson, formann þessara stóru almannasamtaka, kvarta undan auknum faglegum metnaði og áherslum hjá forstjóra sjúkrahússins Vogs:
„Undanfarin ár hefur rekstrarkostnaður á meðferðarsviði SÁÁ vaxið mjög. Kostnaður fer upp þótt afköst þjónustunnar standi í stað eða minnki jafnvel og ástæðan er ráðningar háskólamenntaðs starfsfólks til að mæta faglegum áherslum forstjóra sjúkrahússins Vogs“.[7]
Formanni SÁÁ finnst sárt að segja upp körlum sem komnir eru á eftirlaunaaldur á meðan honum er það sársaukalaust að reka fagfólk eins og sálfræðinga. Þá er spurning hvort að ríkið þurfi ekki að endurskoða samninga við SÁÁ ef rétt reynist að þar sé kveðið á um að greiða fyrir vinnu áfengis- og vímuefnaráðgjafa en ekki háskólamenntaðs fagfólks:
„Öflugu starfsfólki sem var komið á aldur var einnig sagt upp, þar á meðal Þórarni Tyrfingssyni, fyrrverandi yfirlækni á Vogi og formanni SÁÁ. „Það var mjög sárt líka. Þetta voru menn með áratuga reynslu, kunnáttu og þekkingu. Það er mjög vont að missa þá,“ segir Arnþór og bætir við að ríkið borgi ekkert fyrir sálfræðiþjónustuna sem er veitt hjá SÁÁ. Hún sé öll í boði samtakanna og því kostnaðarsöm.“[8]
Rótin skorar á yfirvöld að tryggja að fólk sem notar vímuefni fái faglega þjónustu sem byggir á gagnreyndri þekkingu samkvæmt tilmælum alþjóðastofnana og tekur undir með þeim sem fordæma vinnuaðferðir framkvæmdastjórnar og formanns SÁÁ.
Rótin, sem býr yfir sérþekkingu á vímuefnavanda kvenna, er með útfærðar hugmyndir um þjónustu við konur með áfallasögu og/eða vímuefnavanda og áréttar að við erum tilbúnar til að leggja okkar af mörkum við uppbyggingu þjónustu við þennan hóp.
Heimildir:
[1] Bjarni Össurarson. 2005. „ Bætt aðstaða vímuefnadeildar LSH.“ Morgunblaðið, 15. mars. Sjá https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1006920/.
[2] Embætti landlæknis. 2016. Hlutaúttekt. Meðferðarstofnanir SÁÁ. Sjá https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item29702/.
[3] Samkvæmt netfangalista starfsmanna 30. mars 2020 störfuðu 22 áfengis- og vímuefnaráðgjafar hjá SÁÁ, 4 dagskrárstjórar, sem líka eru ráðgjafar, 17 ráðgjafanemar, 13 sjúkraliðar, 2 sjúkraliðanemar, 4 sálfræðingar, 1 yfirsálfræðingur og 2 sálfræðinemar, 11 hjúkrunarfræðingar, 2 hjúkrunarfræðinemar, 3 læknaritarar, 3 móttökuritarar, 4 læknar, 1 yfirlæknir og svo starfsfólk á skrifstofu sem ekki vinnu við umönnun eða meðferð. Sjá https://saa.is/samtokin/netfong/.
[4] Dennis McCarty og fl. 2014. Substance Abuse Intensive Outpatient Programs: Assessing the Evidence, í Psychiatry Online. Sjá: http://ps.psychiatryonline.org/doi/full/10.1176/appi.ps.201300249
[5] Jason Luty. (2003). „What works in drug addiction?“ BJPsych Advances, 9(4). Sjá doi:10.1192/apt.9.4.280.
[6] Arnþór Jónsson. 27. nóvember2014. Fíkn er heilasjúkdómur. Sjá https://saa.is/fikn-er-heilasjukdomur/.
[7] Mbl.is. 28. mars 2020. Býðst til að stíga til hliðar. Sjá https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/28/bydst_til_ad_stiga_til_hlidar/.
[8] Mbl.is. 27. mars 2020. Segir neyðarástand ríkja hjá SÁÁ. Sjá https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/27/segir_neydarastand_rikja_hja_saa/.
Ályktunin í PDF-skjali.
by Rótin félag um málefni kvenna | 22.01.2020 | Erindi til stjórnvalda
Rótin tekur heilshugar undir þá kröfu foreldra Heklu Lindar Jónsdóttur að lærdómur verði dreginn af aðstæðum við andlát hennar og gerðar verði nauðsynlegar breytingar á verklagsreglum Lögreglu og Neyðarlínu.
Ungt fólk með vímuefnavanda á Íslandi býr við algjörlega ófullnægjandi úrræði og stuðning til að losna út úr sjálfskaðandi hegðunarmynstri og saga Heklu Lindar þarf að verða stjórnvöldum hvatning til að bretta upp ermar og gera stórátak í því að bæta þjónustu við þennan berskjaldaða hóp. Hluti af því átaki þarf að felast í faglegri stefnumótun, að stórauka fræðslu og þjálfun í heilbrigðis- og réttarkerfi, markviss vinna gegn fordómum og aukin þekking á réttum viðbrögðum, t.d. við því þegar ung manneskja lendir í geðrofi vegna neyslu.
Rótin undrast það mikla afl sem fílefldir lögregluþjónar hafa beitt við handtöku Heklu Lindar sem var lítil og nett og varla verið ógn við nokkurn mann nema sjálfa sig í því ástandi sem hún var í við handtökuna. Þá er það stórkostlegt undrunarefni að það sé „mat sérfræðinga“ að þær aðferðir sem notaðar voru við handtökuna og áttu að mati réttarmeinafræðings „umtalsverðan þátt í dauða Heklu“ séu „viðurkenndar aðferðir“. Ef svo er þá er full ástæða til að endurmeta hvað er „viðurkennd aðferð“ við handtöku fólks í geðrofi. (more…)