Rótin, í samstarfi við geðheilsuteymi fanga (GHF) og Fangelsismálastofnun (FMS), hefur sent erindi til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, með ósk um rúmlega 10 milljóna króna styrk til innleiðingar og þjálfunar starfsfólks í réttarvörslukerfinu í áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Erindið var einnig sent á Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, og Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra, í von um stuðning þeirra við verkefnið líka.

Innleiðingin felur í sér að fá hingað til lands sérfræðinga frá Center for Gender and Justice,(CG&J), í Kaliforníu, til að þjálfa starfsfólk fangelsanna, geðheilsuteymis og Rótarinnar. CG&J býr að áratuga reynslu, bæði í Bandaríkjunum og víða um heim, af vinnu með fólki í fangelsum og hefur gefið út mikið af hagnýtu efni sem notað er í fangelsum og víðar.

Dr. Stephanie S. Covington er forstöðukona Center for Gender og Justice í San Diego í Kaliforníu ásamt Barböru E. Bloom. Báðar hafa þær á löngum starfsferli sérhæft sig í málefnum kvenna og stúlkna í réttarvörslukerfinu og á seinustu árum útfært þá þekkingu fyrir karla og drengi. Rótin hefur átt í farsælu samstarfi við dr. Covington undanfarin 6 ár, eða síðan hún koma á ráðstefnu félagsins um konur og fíkn, árið 2015.

Rótin hefur um nokkurra ára skeið unnið að því að byggja upp þekkingu á áfalla- og kynjamiðaðri nálgun og höfum allt frá haustinu 2018 boðið upp á námskeið fyrir konur með vímuefnavanda og áfallasögu. Guðrún Ebba Ólafsdóttir hefur þýtt námskeiðin úr ensku og þróað þau í ljósi reynslunnar á Íslandi. Í byrjun árs hóf félagið samstarf við Hlaðgerðarkot og bauð konum sem þar eru í meðferð þátttöku í námskeiðum og í kjölfarið var bætt við námskeiði fyrir karla. Í sumar var þetta mikilvæga þróunarverkefni svo styrkt af félagsmálaráðherra og er tryggt næsta árið.

Árangur af þessum námskeiðum hefur verið mjög góður. Þátttakendur svara könnun um ánægju með þátttökuna. Óhætt að segja að gríðarleg ánægja hefur verið meðal þátttakenda sbr. þessa tilvitnun í karl sem tók þátt í námskeiðinu um hvað væri honum efst í huga.

Þakklæti. Þakklæti fyrir að víkka sjóndeildarhringinn hjá mér og opna augun mín fyrir því að það var hellingur af óunnum málum og áföllum sem ég var áður blindur fyrir.[1]

Rótin rekur Konukot og þar þjónum við mörgum þeirra kvenna sem einnig eiga sögu í réttar­vörslukerfinu og höfum mikinn áhuga á að hafa jákvæð áhrif í þessum málaflokki. Hagsmunir fólks með vímuefnavanda og fanga liggja saman á mörgum stöðum og mikilvægt er að stuðla að þjónustu sem byggir á nýrri, gagnreyndri þekkingu og tekur mið af þeim fjölþætta vanda sem þessir einstaklingar glíma oft við.

Við teljum að verkefnið geti haft mikil og góð áhrif í réttarvörslukerfinu, ekki síst þar sem mikilvægt samstarf hefur verið tryggt við Fangelsismálastofnun og geðheilsuteymi fanga.

Í samstarfsyfirlýsingu GHF segir: „Í samningi SÍ og HH um rekstur GHF er mikil áhersla lögð á fíknimeðferð fyrir fangana. Hefur GHF þegar lagt grunninn að einstaklingsmiðaðri fíknimeðferð, m.a. með aðferðum skaðaminnkandi nálgunar, áhugahvetjandi samtals og kynjamiðaðrar nálgunar að einhverju leyti. Hefur teymið jafnframt orðið þess mjög svo áskynja að stór hluti fanga hefur flókna áfallasögu, auk fíkni- og geðraskana, sem tengjast áföllum. Þá hefur teymið áttað sig á sláandi mikilvægi kynjamiðaðrar nálgunar við fanga. Því er afar mikilvægt að efla þjálfun allra starfsmanna, sem annast fanga í daglegu starfi .

GHF á þegar í mjög góðu samstarfi við meðferðarsvið FMS um innleiðingu meðferðar í fangelsum landsins. Höfum við sameiginlega þegar farið af stað með námskeið/hópa í reiðistjórnun, núvitund, kvíða o.fl. Þessari innleiðingu hefur miðað allvel, en tekur sinn tíma að þróa.

Báðum aðilum er ljóst að mikil þörf er á þjálfun bæði heilbrigðisstarfsmanna og fangavarða að því er varðar fíknimeðferð almennt og áfalla- og kynjamiðaða nálgun sérstaklega. Eru stjórnendur GHF og meðferðarsviðs FMS sammála um að boð Rótarinnar um skipulagða þjálfun á vegum CGJ, eins og lýst er í meðfylgjandi fylgiskjali, einstakt og kærkomið tækifæri og hvatning til að efla allt meðferðarstarf í fangelsunum.“

Í samstarfsyfirlýsingu FMS segir að innleiðing áfallamiðaðrar nálgunar sé í fangelsisumhverfinu sé „mikilvægt skref enda vitað að mjög hátt hlutfall (allt að 65%) þeirra sem eru í afplánun eiga við virkan vímuefnavanda að stríða sem og hafa upplifað ótal áföll í gegnum tíðina.“ Þá segir að : „Meginmarkmið Fangelsismálastofnunar sé að fullnusta refsingar með mannúðlegum hætti þar sem takmarkið er að aðstoða skjólstæðinga til þess að ná bata og draga úr líkum á að þeir brjóti aftur af sér að lokinni afplánun. Fræðsla um og innleiðing áfallamiðaðrar nálgunar er að mati stofnunarinnar ákaflega mikilvægur liður í þeirri vegferð. Fangelsismálastofnun samþykkir þetta samstarf við Rótina, félag um velferð og lífsgæði kvenna og fagnar því um leið.“

[1] Sjá mat af námskeiðum í Hlaðgerðarkoti.

Nánari upplýsingar um verkefnið í PDF-skjali.

Share This