Rótin hefur sent eftirfarandi erindi til Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra.

Sæll Ásmundur.

Okkur langar að þakka þér fyrir einlægt viðtal sem birtist í Morgunblaðinu um helgina. Sérstaklega þökkum við þér fyrir falleg orð í garð Konukots en Rótin tók við rekstri þess 1. október sl. Frásögnin af móður þinni snerti okkur djúpt af því að reynsla hennar og fjölda annarra kvenna er ástæða þess að við stofnuðum félagið Rótina 8. mars 2013. Okkur fannst skorta á að tekið væri heildstætt á tengslum áfalla og vímuefnavanda kvenna. Auk þess sem við höfum enn áhyggjur af öryggi kvenna í meðferðarkerfinu.

Markmið Rótarinnar er samkvæmt lögum félagsins að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Við höfum sérhæft okkur á þessu sviði og innan Rótarinnar er mikil sérfræðiþekking og við höfum einnig komið okkur upp alþjóðlegu tengslaneti sérfræðinga ásamt því að standa fyrir stofnun samráðsvettvangs þeirra sem vinna með konum með vímuefnavanda og jaðarsettum konum hér á landi

Þær konur sem nú sitja í aðalráði félagsins eru: Anna Daníelsdóttir, Áslaug Kristjana Árnadóttir, Elísabet Brynjarsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir ritari, Hulda Stefanía Hólm, Katrín G. Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir talskona, Vagnbjörg Magnúsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir. Vararáðið skipa: Guðrún Magnúsdóttir (Gunný), Elínrós Líndal og Sólveig Þorleifsdóttir. Þá sitja eftirtaldar konur í fagráði fyrir Ástuhús: Gunnhildur Kristjánsdóttir, Helena Bragadóttir, Alma Árnadóttir, Margrét Ólafía Tómasdóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir.

Rótin fagnar einnig mjög frumvarpi um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Farsæld barna, kvenna og fjölskyldna eru nátengd og trauðla hægt að slíta hagsmuni barna og foreldra í sundur. Rótin er frumkvöðull á Íslandi í umfjöllun um áfallamiðaða nálgun með því að flytja til landsins dr. Stephanie Covington, árið 2015, og hefur félagið m.a. unnið að kynningu á áfallamiðuðu skólastarfi á meðal kennara. Einnig höfum við haldið á lofti afleiðingum áfalla á fólk með vímuefnavanda og mikilvægi þess að skoða ætíð vímuefnavanda, ofbeldi og áföll í samhengi. Félagið er nú þátttakandi í Evrópuverkefni um samþættingu meðferðar við vímuefnavanda og heimilisofbeldis.

Við erum sífellt að efla þjónustu við konur sem glíma við áföll og vímuefnavanda og aðstandendur þeirra. Katrín Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, veitir viðtöl, stuðning og meðferð og í undirbúningi er að Anna Daníelsdóttir læknir og Birna Matthíasdóttir listmeðferðarfræðingur gangi til liðs við okkar þjónustu. Auk þess erum við fjölbreytt námskeið og stuðningshópa. Markmiðið er að koma Ástuhúsi á laggirnar fyrir alla starfsemi Rótarinnar og þó að ekki sé enn búið að opna það formlega lítum við svo á að Ástuhús sé yfirheiti yfir þjónustu okkar.

Við höfum sent ráðuneyti þínu erindi og styrkumsóknir en óskum hér með eftir að fá að koma á þinn fund og fara betur yfir þessi mál sem eru okkur öllum mikið hjartans mál.

Með góðri kveðju, f.h. ráðs Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastjóri
Rótin – Félag um konur, áföll og vímuefni
rotin@rotin.is

Share This