Viðtal um Rótina

Viðtal um Rótina

Soffía Auður Birgisdóttir og Ævar Kjartansson ræddu við Kristínu I. Pálsdóttur talskonu Rótarinnar í þætti sínum Samtal um femínisma, á Rás 1 á RÚV, sunnudaginn 27. október 2019. Fyrri hluti þáttarins er helgaður Rannsóknastofnuní jafnréttisfræðum en á tuttugustu mínútu hefst umfjöllun um Rótina og konur með vímuefnavanda.

Hér er hægt að hlusta á viðtalið:

(more…)

Staðreyndir um hræðsluáróður

Staðreyndir um hræðsluáróður

Hvað er hræðsluáróður/óttaboð?

Hræðsluáróðri eða óttaboðum er ætlað að hræða fólk til heilbrigðrar breytni (t.d að hætta að reykja, nota ekki vímuefni, hætta hraðakstri, stunda meiri líkamsrækt). Oft er notað áhrifamikið og óþægilegt mynd- og tölfræðiefni sem vekur ótta og ónot. Dæmi um hræðsluáróður eru sviðsetningar á bílslysum, myndir af sjúkum lungum reykingamanna og þekkt auglýsing með mynd af spældu eggi og yfirskriftinni „Þetta er heilinn í þér í vímu“. (more…)

Óásættanleg meðferð á sjúkragögnum og lítilsvirðing við viðkvæman hóp

Óásættanleg meðferð á sjúkragögnum og lítilsvirðing við viðkvæman hóp

„Sjúkragögn frá SÁÁ sögð hafa farið á flakk“ var fyrirsögn fréttar sem birtist á Mbl.is hinn 23. júlí s.l. og eins og hún gefur til kynna fjallar fréttin um óvarlega og ólöglega meðferð sjúkragagna fólks sem þegið hefur meðferð á meðferðarstöð SÁÁ að Vík á Kjalarnesi.
Í fréttinni er vitnað í Arnþór Jónsson, formann SÁÁ s.l. 6 ár, og Hjalta Björnsson, sem starfaði sem dagskrárstjóri hjá samtökunum í áratugi, þar sem þeir vísa ábyrgð á ferðalagi þessara viðkvæmu sjúkragagna hvor á annan. Það þarf hins vegar ekkert að rífast um það hver ber ábyrgð á þessum gögnum því að það er skilgreint í 12. gr. laga nr. 55 um sjúkraskrár frá árinu 2009 að ábyrgðaraðili sjúkraskráa er „Heilbrigðisstofnun eða starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna þar sem sjúkraskrár eru færðar“ og í reglugerð um sjúkraskrár segir:
„Ábyrgðaraðili sjúkraskráa hverrar stofnunar og starfsstofu heilbrigðisstarfsmanna skal sjá til þess að þar sé rekið öryggiskerfi sem tryggir vernd sjúkraskrárupplýsinga sem að lágmarki uppfylli fyrirmæli landlæknis um öryggi og gæði sjúkraskráa“, því er ljóst að SÁÁ ber því ábyrgð á þessum gögnum og Embætti landlæknis „skal hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma.“ (more…)

Skömmin þrífst í þögninni

Skömmin þrífst í þögninni

Ef maður hefur gert eitthvað rangt er að sjálfsögðu gott að skammast sín, en það getur reynst mjög afdrifaríkt fyrir manneskjur að finna til óverðskuldaðrar skammar, eins og algengt er með fórnarlömb sifjaspella. Óverðskulduð skömm eyðileggur sjálfsmynd barnsins og spillir lífsviðhorfum þess. Börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi trúa því oft sjálf að þau eigi það skilið, að Guð sé að refsa þeim eða að þau hafi valdið því að það gerðist.“ (Ekki líta undan, bls. 177.)

Sjálfsásökun

Ein algengasta afleiðing kynferðisofbeldis er sjálfsásökun og breytir engu þó að skynsemin, annað fólk, og meira að segja öll rök, vitni um að sökin sé aldrei þess sem fyrir ofbeldinu verður. Margar ástæður liggja þar að baki. Þolendum kynferðisofbeldis er oft sagt að þeir hafi viljað ofbeldið. Þeim er hótað hefndum komist það upp og jafnvel þó að þeim sé ekki hótað er skömmin oft yfirsterkari lönguninni til að segja frá. Sjálfsásökunin á sér einnig upphaf í því að hafa ekki komist undan, að hafa „látið ofbeldið gerast“, eins fáránlegt og það hljómar. Sumir ofbeldismenn gefa fórnarlömbum sínum gjafir, peninga eða annað og mikil skömm hlýst af því að hafa þegið gjafir frá ofbeldismanninum.
Kynferðisofbeldi á sér oftast stað á milli einstaklinga sem tengjast. Það fylgir því meiri skömm að faðir, bróðir, afi eða kærasti sé gerandi ofbeldisins en ókunnugur maður í dimmu skuggasundi. Slík áföll trufla þroska barna á mjög djúpstæðan hátt, afskræma sjálfsmyndina og brjóta gegn sjálfsforræði þeirra. Ráðist er á líkamann, hann særður og svívirtur og skömmin er svar við því hjálparleysi sem fylgir slíkri árás á líkamlegt sjálfræði og niðurlægingu í viðurvist annarrar manneskju.

(more…)

Föllum ekki í hræðsluáróðursgryfjuna

Föllum ekki í hræðsluáróðursgryfjuna

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

4. október 2018

Fyrir stuttu var myndin „Lof mér að falla“ eftir Baldvin Z frumsýnd en myndin fjallar um sorgleg örlög tveggja stúlkna sem ánetjast vímuefnum. Í umræðum um myndina er áberandi að bundnar eru miklar vonir við að hún verði til þess að fæla börn og ungmenni frá eiturlyfjaneyslu og hafi mikið forvarnargildi.

Því miður hafa sögur eins og sú sem er sögð í myndinni lítið sem ekkert forvarnargildi, enda er myndin ekki forvarnarverkefni. Þó að við skyldum alla nemendur til að sjá hana er ólíklegt að það forði þeim frá neyslu vímuefna. Dapurlegar neyslusögur eða hræðsluáróður hafa lítið sem ekkert forvarnargildi eða fælingarmátt. Líklegt er að ungmenni sem horfa á myndina spegli sig ekki í persónum hennar, ekki einu sinni þó að þau séu að fikta við neyslu. Unglingar lifa í þeirri trú að þau muni aldrei missa svona stjórnina, þau muni hætta áður en svo langt væri gengið. Auk þess er sumum alveg sama og hræðast ekki dauðann. Rannsóknir síðustu áratuga sýna að forvarnir sem byggja á hræðsluáróðri virka einfaldlega ekki á ungt fólk og geta haft öfug áhrif á þá sem í mestri hættu eru.

Samkvæmt „íslenska módelinu“ sem svo hefur verið kallað, virkar ekki vel að „ganga á milli skóla og predika yfir ungmennum um skaðsemi áfengis og reykinga“. Forvarnir eiga ekki að snúast um að reyna að stjórna unglingum heldur frekar hvetja til samvista með foreldrum, leiðbeina á rétta braut og hvetja fjölskyldur til að gera ýmislegt saman. (Sjá nánar https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/10/03/arangur_i_forvornum_fangar_athygli_dana/.(more…)

Föllum ekki í hræðsluáróðursgryfjuna

Ótímabær umræða um fyrirgefningu, iðrun og yfirbót

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

5. september 2018

Heimspekingurinn Kathryn Norlock setur fram femíníska kenningu um fyrirgefninguna í bókinni „Forgiveness from a feminist perspective“. Kyn er lykilhugtak þegar kemur að því að rýna í hugtakið „fyrirgefning“ og Norlock færir fyrir því rök að það sé rík tilhneiging til að ætlast til fyrirgefningar af hendi kvenna, en mun síður karla, og að sáttfýsi og fúsleikinn til að fyrirgefa sé iðulega tengdur kvenleikanum. Þá bendir Norlock á að fyrirgefninguna verði alltaf að skoða út frá tengslum þeirra sem fyrirgefa og er fyrirgefið og að hefð sé fyrir því að horfa á fyrirgefninguna með augum heimspekingsins Kants, sem gerði ráð fyrir því að hún ætti sér stað á milli jafningja. Fyrirgefningin er hins vegar alltaf háð samhengi og valdatengslum og þar komum við aftur að kyninu þar sem sambönd okkar og valdastaða eru verulega háð því af hvaða kyni við erum. Það er því gagnslítið að ræða um fyrirgefninguna í tengslalausu tómarúmi.
Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði, hefur einmitt skrifað áhugaverða grein, „Að fyrirgefa ekki – gildi gremjunnar fyrir einstaklinga og samfélög“, þar sem hún bendir annars vegar á að sumt sé einfaldlega ófyrirgefanlegt og að í kristninni sé það aðeins Guð sem geti mögulega fyrirgefið hið ófyrirgefanlega. Hin kristna sýn er sú að það sé bara sá sem valdið hefur sem getur fyrirgefið.
Það samrýmist því hvorki kristinni siðfræði né femínískri sýn á fyrirgefninguna að látið sé í veðri vaka að þolendur kynferðisofbeldis skuldi gerendum fyrirgefningu, eða nokkuð annað.  (more…)