Heimsókn í kvennameðferð í Belgíu

Heimsókn í kvennameðferð í Belgíu

Talskona Rótarinnar, Kristín I. Pálsdóttir, heimsótti á dögunum meðferðarsamfélagið (e. therapeutic community) De Kiem í nágrenni Gent í Belgíu. Með í för var Þórlaug Sveinsdóttir fv. ráðskona og ein af stofnendum Rótarinnar. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast meðferðarstarfinu en De Kiem, sem þýðir ‘kím’ eða ´kímblað´á íslensku, rekur m.a. þjónustu fyrir konur með börn. Þær koma ýmist á meðgöngu eða eftir fæðingu og geta dvalið í eitt og hálft ár í meðferðinni. Eftir það gefst þeim færi á að fara á áfangaheimili.

Útibúið sem Kristín og Þórlaug heimsóttu er í litlu þorpi, Gavere, í Flæmingjalandi. Konurnar búa tvær og tvær með börnum sínum í íbúð og er alls pláss fyrir átta konur. Börnin fara í skóla og leikskóla í þorpinu en konurnar hugsa svo um börnin á kvöldin og um helgar og fá stuðning til þess. Einstæðir feður hafa líka tækifæri til að nýta þessa þjónustu.

De Kiem eru samtök sem bjóða fjölbreytta þjónustu, bæði göngudeildir, inniliggjandi meðferð (meðferðarsamfélag), fráhvarfsmeðferð, áfangaheimili og aðstoð við fanga í flæmskumælandi hluta Belgíu. Þjónustan er kostuð af opinberu fé.

Húsnæðið var nýlegt og þægilegt og íbúðir kvennanna ágætlega rúmgóðar með aðgengi að garði.

Hér er vefsíða samtakanna.

Hér á landi vantar sárlega sambærilega þjónustu fyrir konur á meðgöngu og konur með ung börn og Rótin er alltaf á útkikki eftir fyrirmyndum að slíkri þjónustu. Margt gott er gert hjá De Kiem og þjónusta þeirra fyrir konur er mjög mikilvæg. Þó má þar bæta sérþekkingu á þjónustu í samræmi við þá þekkingu sem nú er gagnreynd og aðgengileg um sérþarfir kvenna og annarra kynja.

 

 

Greinargerð um heimilislausar konur

Greinargerð um heimilislausar konur

Þær Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, og Halldóra R. Guðmundsdóttir, forstöðukona í Konukoti, mættu fyrir hönd félagsins og Konukots á fund ofbeldisvarnarnefndar hinn 17. október. Fyrir utan áherslur á það sem kemur fram í greinargerðinni lögðu þær áherslu á mikilvægi þess að efla þyrfti skaðaminnkandi þjónustu við heimilislausar konur með alvarlegan vímuefnavanda og skoða þarfir þeirra sérstaklega með tilliti til þess að oft er meiri skaði fólgin í því að útvega sér efni en í notkun þeirra.

Greinargerð um heimilislausar konur

Um heimilisleysi kvenna og ofbeldi

Konur sem glíma við heimilisleysi eiga aðra reynslu að baki en karlar í sömu stöðu og í rannsókn á viðhorfi og reynslu félagsráðgjafa af Konukoti segir að konurnar sem þangað sækja „hafi flestar átt erfiða æsku, hafi orðið fyrir áföllum í lífinu og margar þeirra eiga einnig við geðræn vandamál að stríða. Bakland kvennanna er lélegt og flestar þeirra neyta áfengis- og/eða vímuefna“.[1] Sögur þessara kvenna einkennast oft af flóknum, kynjuðum vanda og því þarf að taka á honum með kynjagleraugun á sínum stað og áætlunum sem miða að því að koma í veg fyrir að þær festist í þeirri stöðu að þurfa að treysta á þjónustu neyðarskýlis.

Fíknistefna á Íslandi hefur verið heldur íhaldssamari en í mörgum löndum í kringum okkur og ekki fylgt þeirri mannréttindamiðuðu og skaðaminnkandi nálgun sem verið hefur að vinna lönd í kringum okkur fyrr en á allra síðustu árum. Stefnumótun stjórnvalda endurspeglar því ekki þær menningarlegu breytingar í átt til aukinna mannréttinda þeirra sem glíma við vímuefnavanda, og aðrar áskoranir sem valda jaðarsetningu, sem hafa átt sér stað á undanförnum árum þó að Reykjavíkurborg hafi verið skrefi á undan ríkinu að breyta um stefnu í átt til skaðaminnkunar og kynjasamþættingar í málaflokknum.

Vegna þess hversu skilgreiningar á heimilisleysi hafa fram til þessa verið blindar á hegðun og þarfir heimilislausra kvenna er mikilvægt að vera vakandi fyrir því að konur séu sýnilegar í stefnumótun og þjónustuúrræði séu miðuð við raunverulegar þarfir þeirra. (more…)

Konur finna styrk sinn í Hlaðgerðarkoti

Konur finna styrk sinn í Hlaðgerðarkoti

Konur finna styrk sinn í Hlaðgerðarkoti

Það er mikilvægt að konur finni fyrir öryggi þegar þær sækja sér áfengis- og vímuefnameðferð. Í mörgum tilvikum þarf að gera upp erfiða hluti úr fortíðinni og það krefst mikillar og viðkvæmrar vinnu ef ná á árangri. Rótin hefur á liðnum árum unnið að bættum meðferðarúrræðum fyrir konur og lagt áherslu á að auka þekkingu á meðferðarmálum kvenna. Mikið samstarf er nú á milli Rótarinnar og Hlaðgerðarkots um bætt úrræði fyrir konur í meðferð. 

______________________________________________________________________________________

Fíknivandi og meðferðarnálganir voru lengi mjög karlmiðaðar. Til að mynda ber áttundi kafli AA bókarinnar yfirskriftina Til eiginkvenna. Eru konur þannig ávarpaðar sem aðstandendur alkóhólista, eiginmanna sinna, og þannig lítur út fyrir að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að konur gætu verið alkóhólistar. Hafa ber í huga að bókin er skrifuð árið 1939, af karlmönnum, og á þeim tíma höfðu ekki margar konur leitað sér aðstoðar vegna alkóhólisma. Það var í raun ekki fyrr en á níunda áratug síðustu aldar, samhliða því sem kvenréttindahreyfingunni óx fiskur um hrygg, sem vitundarvakning varð um málefni kvenna sem glíma við fíknivanda.
Í dag eru konur um þriðjungur þeirra sem sækja sér aðstoð vegna fíknivanda. Til að fjalla nánar um stöðu og málefni kvenna sem glíma við fíknivanda settist Samhjálparblaðið niður með Helgu Lind Pálsdóttur, forstöðumanni í Hlaðgerðarkoti, og Kristínu Pálsdóttur, talskonu og framkvæmdastjóra Rótarinnar.
Báðar segja þær að nokkur munur sé á konum og körlum þegar kemur að fíknivanda. Þar hafa bæði líkamlegir
og félagslegir þættir áhrif. Konur eru eftir tilvikum veikari fyrir og lenda hraðar í því sem kalla má niðurþróun
fíkniröskunarinnar. Það er þó ekki algilt, enda fjölmörg dæmi um konur sem ná að fela fíkn sína í daglegu lífi, meðal annars með því að sinna daglegum þörfum heimilis og fjölskyldu. Oft virðast þær konur vera ólíklegri til að leita sér aðstoðar, eða leita sér seinna aðstoðar, en yngri konur sem lent hafa í harðari neyslu.
Sjálf var Kristín rúmlega fertug þegar hún fór í meðferð.
„Ég átti þá mann og börn, var í námi og var að reka heimili,“ segir Kristín.
„Ég var í góðum félagslegum aðstæðum en samt að eiga við vanda sem hafi mikil áhrif á líf mitt og minna nánustu. Það er oft meira í húfi fyrir konur, þá sérstaklega þær sem eru að reka heimili, og þær hika því við að viðurkenna að þær séu með vímuefnavanda. Konur eru líka dæmdar harðar, þær upplifa skömm yfir því að eiga við þessi vandamál samhliða móðurhlutverkinu sem þær eru að sinna. Það eru því of margar konur sem fara leynt með sína neyslu, á meðan þær geta. Það veldur þeim auðvitað mikilli vanlíðan.“ (more…)

Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja

Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja

Í fjölda ára hefur þeirri hugmynd statt og stöðugt verið haldið að almenningi að fíkn sé „heilasjúkdómur“ sem þróist vegna galla í taugalíffræði heilans. Þetta er rangt.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að þessi ranghugmynd er hluti af stærri rangtúlkun, þ.e. á sálarfræði mannsins, og að hægt sé að smætta þau hugarferli sem gera okkur mennsk niður í rafboð sem taugafrumur senda í heilanum. Þessi hugmynd horfir alveg fram hjá þekkingu sem orðin er hluti af nútíma eðlisfræði, flækjufræði (e. Complexity Theory)

Flækjufræði urðu til sem viðurkenning á því að öll flókin kerfi þrói með sér nýja eiginleika sem ekki er hægt að útskýra eða spá fyrir um út frá þeim einstöku þáttum sem saman mynda kerfið. Þetta gerist vegna þess að einstakir þættir allra flókinna kerfa innibera einfaldlega ekki sömu eiginleika og kerfið gerir í heild sinni. (more…)

Kenningum um falskar minningar beitt á Íslandi

Kenningum um falskar minningar beitt á Íslandi

Í fyrri grein okkar um falskar minningar röktum við hvernig kenningar Elizbeth Loftus hafa verið notaðar í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika frásagna um kynferðisbrot gegn börnum og að verja þá sem fremja brotin. Við sögðum frá því að Loftus hafi verið sérfræðivitni verjenda í málum gegn einstaklingum sem sakaðir eru um kynferðisbrot eins og til dæmis O. J. Simpson, Ted Bundy og Harvey Weinstein. Hingað til virðist ekki hafa verið skrifað um kenningar Loftus á þann gagnrýna hátt sem þeim ber hér á landi. Spurningin er hvort að kenningar hennar eru kenndar í háskólum landsins án fyrirvara og hvort þær eru ríkjandi kennivald í íslenskum stofnunum? Í hinu fræga „biskupsmáli“ voru þær með markvissum og skipulegum hætti notaðar til varnar biskupnum.

„Biskupsmálið“ hið síðara

Í ágúst síðastliðnum var áratugur síðan DV birti fyrst allra fjölmiðla fréttir af því að dóttir Ólafs Skúlasonar hefði óskað eftir áheyrn kirkjuráðs til að greina frá kynferðisofbeldi hans gegn sér. Það var Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir sem vann fréttina og fyrirsögnin var Kirkjan leynir bréfi biskupsdóttur[1]. Umrætt bréf sendi biskupsdóttirin, Guðrún Ebba, annar höfundur þessarar greinar, á vormánuðum árið 2009. Hún hafði stutt Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur til að fá áheyrn kirkjuráðs vegna ásakana hennar um að Ólafur Skúlason hefði beitt hana kynferðisofbeldi. Sá hluti „biskupsmálsins“ var áberandi í fjölmiðlum undir lok síðustu aldar en fyrsta fréttin af því birtist í DV í febrúar árið 1996.[2] Í frétt Ingibjargar Daggar um bréfið kemur fram að því hafi verið stungið ofan í skúffu. Hún varð hins vegar til þess að í kjölfarið varð kirkjuráð við beiðni Guðrúnar Ebbu nánast þegar í stað. (more…)

Falskar minningar eða falskar kenningar?

Falskar minningar eða falskar kenningar?

Bandaríski sálfræðiprófessorinn Elisabeth Loftus er einn þekktasti sérfræðingur heims í minnisrannsóknum og upphafsmanneskja kenninga um ‚falskar minningar‘. Loftus birti rannsóknarniðurstöður á áttunda áratugnum sem bentu til þess að auðvelt væri að hafa áhrif á og búa til minningar um atburði sem aldrei áttu sér stað og brengla minni vitna.[i] Styr hefur staðið um kenningar Loftus frá upphafi ferils hennar og því fer fjarri að einhugur sé um framlag hennar til vísindanna.

Aðferðafræðilegar takmarkanir

Minningum er almennt skipt upp í tegundir og þau ferli sem eiga sér stað eftir tegundum eru mismunandi. Þannig kalla ævisögulegar minningar, sem fela í sér persónulega upplifun, á aðra hugræna ferla en táknminni sem felur frekar í sér lærða þekkingu og huglægan skilning. Þegar hin ævisögulega reynsla er tengd áfalli eru miklar líkur á að það hafi áhrif á minni og sumir áfallasérfræðingar halda því fram að áfallaminni sé í grundvallaratriðum ólíkt frásagnarminninu og tengist frekar skynhreyfiþáttum en að vera yrt.[ii]

Minnisrannsóknir sem gerðar voru á níunda áratugnum[iii] sýndu að verulegar takmarkanir væru á aðferðafræði Loftus, bæði siðferðilega[iv] og aðferðafræðilega. Þátttakendur voru einsleitur hópur stúdenta, þær voru allar framkvæmdar á tilraunastofu og fólu ekki í sér áhorf á raunverulega atburði heldur áhorf á myndbönd. Áhrif atburðanna á tilfinningar vitnanna voru því allt önnur og minni en ef þau hefðu orðið vitni að raunverulegum atburðum. Gagnrýnendur benda á að Loftus dragi of víðtækar ályktanir um hvernig hægt sé að hafa áhrif á minni. (more…)