Ótímabær umræða um fyrirgefningu, iðrun og yfirbót

Ótímabær umræða um fyrirgefningu, iðrun og yfirbót

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

5. september 2018

Heimspekingurinn Kathryn Norlock setur fram femíníska kenningu um fyrirgefninguna í bókinni „Forgiveness from a feminist perspective“. Kyn er lykilhugtak þegar kemur að því að rýna í hugtakið „fyrirgefning“ og Norlock færir fyrir því rök að það sé rík tilhneiging til að ætlast til fyrirgefningar af hendi kvenna, en mun síður karla, og að sáttfýsi og fúsleikinn til að fyrirgefa sé iðulega tengdur kvenleikanum. Þá bendir Norlock á að fyrirgefninguna verði alltaf að skoða út frá tengslum þeirra sem fyrirgefa og er fyrirgefið og að hefð sé fyrir því að horfa á fyrirgefninguna með augum heimspekingsins Kants, sem gerði ráð fyrir því að hún ætti sér stað á milli jafningja. Fyrirgefningin er hins vegar alltaf háð samhengi og valdatengslum og þar komum við aftur að kyninu þar sem sambönd okkar og valdastaða eru verulega háð því af hvaða kyni við erum. Það er því gagnslítið að ræða um fyrirgefninguna í tengslalausu tómarúmi.
Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði, hefur einmitt skrifað áhugaverða grein, „Að fyrirgefa ekki – gildi gremjunnar fyrir einstaklinga og samfélög“, þar sem hún bendir annars vegar á að sumt sé einfaldlega ófyrirgefanlegt og að í kristninni sé það aðeins Guð sem geti mögulega fyrirgefið hið ófyrirgefanlega. Hin kristna sýn er sú að það sé bara sá sem valdið hefur sem getur fyrirgefið.
Það samrýmist því hvorki kristinni siðfræði né femínískri sýn á fyrirgefninguna að látið sé í veðri vaka að þolendur kynferðisofbeldis skuldi gerendum fyrirgefningu, eða nokkuð annað.  (more…)

Er kynjaskipt meðferð tískustraumur?

Er kynjaskipt meðferð tískustraumur?

31. ágúst 2018

Í morgunútvarpi Rásar 1, 28. ágúst sl., var viðtal við Pál Bjarnason dagskrárstjóra á sjúkrahúsinu Vogi þar sem hann upplýsti að „straumar og tískur í samfélaginu“ kalli á ýmsar breytingar á starfsemi SÁÁ. Páll nefndi sem dæmi að félagið hefði „gengið ansi langt“ í því að aðskilja kynin í meðferð og þegar hann var inntur eftir ástæðum breytinganna svaraði hann: „það er svona að hluta til bara krafa samfélagsins að þetta sé þannig. Fólk eigi ekki að mixa saman reitum þarna. Það er stundum vandamál af því, menn verða svo uppteknir af hinu kyninu, það getur, það er ágætt að þurfa ekki að vera að velta því of mikið fyrir sér á meðan maður er að skoða sín vandamál“.

Við í Rótinni teljum að það sé út af fyrir sig gott að hlustað sé á kröfur samtímans, en það hlýtur þó að þurfa að gera ríka kröfu um að stærsti rekstraraðili landsins í fíknimeðferð láti stjórnast af gagnreyndri þekkingu en ekki tískustraumum.

Krafan um að veitt sé meðferð sem byggir á gagnreyndri þekkingu sem tekur mið af kyni (e. gender-responsive) og er áfallamiðuð (e. trauma-informed) er ekki krafa um „apartheit“-stefnu heldur krafa um að sú þekking sem til er um mismunandi þarfir kynja, hópa og einstaklinga sé nýtt í meðferð. Undanfarna áratugi hefur þekking á kynjamun, þegar kemur að þróun og meðferð við fíknivanda, aukist mikið og nýlega hafa alþjóðastofnanir gefið út efni um mikilvægi þess að gangskör sé gerð að því að bæta stefnumótun og meðferð fyrir konur með fíknivanda. Eitt helsta baráttumál Rótarinnar frá stofnun félagsins er að meðferðin sé heildræn og að fíknivandinn sé skoðaður út frá afleiðingum áfalla og ofbeldis sem einkennir reynslu meirihluta kvenna sem glíma við fíkn, í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnununarinnar, stofnana SÞ og Evrópustofnanir sem fjalla um fíkn. (more…)

Að sleppa tökunum á rananum

Að sleppa tökunum á rananum

Annette Messager, My Vows

21. maí 2018

Í vikunni sótti ég þrjá viðburði sem snertu á málum fólks með fíknivanda. Vissulega er jákvætt að upplifa þá vakningu sem er í málaflokknum og sívaxandi meðvitund um að heilsa okkar og líðan sé ekki meitluð í genamengið okkar, heldur sé hún beintengd umhverfi, atlæti og upplifun á mótunarárum æskunnar. Ástæðan fyrir því að nú eru fundir og málþing á hverju strái er m.a. #metoo-byltingin, aukin meðvitund um afleiðingar kynferðisofbeldis og bráður vandi ungmenna með fíknivanda. Mikið úrræðaleysi hefur einkennt meðferð ungmenna og lengi hefur verið gagnrýnt það fyrirkomulag að hafa börn í meðferð á sama stað og fullorðna.

Erfðir eða umhverfi

ACE-rannsóknin, sem hófst á Kaiser Permanente-heilbrigðisstofnuninni í Kaliforníu árið 1997 (sjá t.d. http://hugarafl.is/afoll-skipta-thau-mali/), markar upphaf endurreisnar kenninga um áhrif umhverfis og atlætis á líðan okkar og heilsu eftir tímabil tvíhyggju í heilbrigðisvísindum þar sem sál og líkami voru aðskilin og einblínt á líffræðilega þætti. Þessi aðskilnaðarstefna hefur mest verið ríkjandi innan læknisfræðinnar en síður í kvennastéttum eins og meðal hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra.

(more…)

Óskalistinn

Óskalistinn

Rótin fór í heimsókn á Vog sumarið 2017 og sendi í kjölfarið óskalista sinn á yfirmenn stofnunarinnar. Sjá: https://www.rotin.is/oskalisti-rotarinnar/. Sá listi var miðaður að starfi SÁÁ en nú höfum við búið til almennan lista þar sem við setjum fram nokkra þætti sem gott er að séu til staðar í fíknimeðferð.

  1. Meðferðarstofnun er öruggur staður fyrir konur en ekki staður til að æfa sig í uppbyggilegum samskiptum við hitt kynið
  2. Jafnréttisáætlun er mikilvægt verkfæri til að vinna að kynjajafnrétti
  3. Kynjasjónarmið í meðferð þurfa að byggja á sérþekkingu. Kynjaskipting, kynjamiðun og klínískar leiðbeiningar eru til staðar
  4. Viðmið og verklagsreglur um kynferðislegt áreiti og ofbeldi eru virkar
  5. Meðferðin er áfalla- og einstaklingsmiðuð
  6. Frásagnir kvenna sem greina frá kynferðisofbeldi eða áreitni í meðferð eru teknar alvarlega
  7. „Konur meðhöndla konur“ er besta viðmið fyrir konur með áfallasögu. Konum er svo vísað í viðeigandi úrræði
  8. Meðferð og afvötnun á dagdeild eða göngudeild er aðgengileg þeim sem það hentar. Engin ein meðferð hentar öllum
  9. AA-samtökin eru kynnt á upplýstan hátt og samkvæmt bestu þekkingu. Konum sem kjósa að fara AA-fundi er bent á kosti þess að sækja kvennafundi
  10. Menntun starfsmanna er í samræmi við kröfur í nútíma heilbrigðisþjónustu
Af hverju er fyrirgefning ofmetin?

Af hverju er fyrirgefning ofmetin?

Ef þú hefur lesið þér eitthvað til um sálfræði, eða hlustað á sálfræðilegt efni, lesið sjálfshjálparbækur eða hlustað á gúrúa, hefur þú sennilega heyrt á það minnst.

F-orðið.

Í því liggur svarið. Lykillinn að upplýsingunni, lykillinn að því að verða betri manneskja.

Ef við fyrirgefum ekki breytumst við í ólgandi reiða eldhnetti, föst í sjálfheldu tilfinningalegs uppnáms og ekki annað skapað en að veslast upp í vítahring sjálfselsku og þvergirðingslegrar sjálfseyðileggingar.

Eða þannig, ég ætti kannski að láta þetta nægja, af því að:

Ég fyrirgef ekki.

Reyndar fyrirgef ég, en aðeins rétta fólkinu. Þeim sem axla ábyrgð á eigin gjörðum, þeim sem sannarlega bæta fyrir brot sín, jafnvel þó að það hafi í för með sér að viðkomandi þurfi að horfast í augu við erfiða hluti í eigin fari.

En fyrirgefningin á sér líka mörk. Þegar farið er yfir þau verður ekki aftur snúið.

Þar af leiðandi hef ég enga trú á þeirri nálgun að fyrirgefningin eigi alltaf við. Sumu fólki langar mig einfaldlega ekki að fyrirgefa. (more…)

En það kom ekki fyrir mig!

En það kom ekki fyrir mig!

Vill SÁÁ ekki gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi sjúklinga sinna? spyrja konur sem sitja í ráði og vararáði Rótarinnar. Ef SÁÁ ætli að taka frásagnir kvenna af meðferðinni alvarlega þurfi samtökin að ráðast í allsherjarúttekt á starfseminni. Í jafnréttislögum séu skýrar skilgreiningar á kynferðisáreitni sem samtökin ættu að miða við, setja sér verklagsreglur um meðferð slíkra brota og endurmennta starfsfólk um þennan brotaflokk.

Þolendur kynferðisofbeldi þurfa stuðning og aðstoð við að vinna úr ofbeldinu. Það er því afar mikilvægt að þolendur treysti sér til þess að segja öðrum frá og leita sér hjálpar. Enn í dag eru viðbrögð sumra að afneita brotunum, gera lítið úr þolendum eða reynslu þeirra og því velja margir þolendur að þegja.

Stundin hefur fjallað mjög ítarlega um atvik sem gerst hafa á meðferðarstofnunum SÁÁ. Konur hafa stigið fram og fengið tækifæri til að segja frá kynferðislegri áreitni sem þær urðu fyrir í meðferð og/eða viðbrögðum starfsfólks þegar þær lýstu reynslu sinni. (Sjá t.d. „Það sem SÁÁ vill ekki tala um“ og „Var látin afneita áföllum í meðferð“.) (more…)