Bandaríski sálfræðiprófessorinn Elisabeth Loftus er einn þekktasti sérfræðingur heims í minnisrannsóknum og upphafsmanneskja kenninga um ‚falskar minningar‘. Loftus birti rannsóknarniðurstöður á áttunda áratugnum sem bentu til þess að auðvelt væri að hafa áhrif á og búa til minningar um atburði sem aldrei áttu sér stað og brengla minni vitna.[i] Styr hefur staðið um kenningar Loftus frá upphafi ferils hennar og því fer fjarri að einhugur sé um framlag hennar til vísindanna.

Aðferðafræðilegar takmarkanir

Minningum er almennt skipt upp í tegundir og þau ferli sem eiga sér stað eftir tegundum eru mismunandi. Þannig kalla ævisögulegar minningar, sem fela í sér persónulega upplifun, á aðra hugræna ferla en táknminni sem felur frekar í sér lærða þekkingu og huglægan skilning. Þegar hin ævisögulega reynsla er tengd áfalli eru miklar líkur á að það hafi áhrif á minni og sumir áfallasérfræðingar halda því fram að áfallaminni sé í grundvallaratriðum ólíkt frásagnarminninu og tengist frekar skynhreyfiþáttum en að vera yrt.[ii]

Minnisrannsóknir sem gerðar voru á níunda áratugnum[iii] sýndu að verulegar takmarkanir væru á aðferðafræði Loftus, bæði siðferðilega[iv] og aðferðafræðilega. Þátttakendur voru einsleitur hópur stúdenta, þær voru allar framkvæmdar á tilraunastofu og fólu ekki í sér áhorf á raunverulega atburði heldur áhorf á myndbönd. Áhrif atburðanna á tilfinningar vitnanna voru því allt önnur og minni en ef þau hefðu orðið vitni að raunverulegum atburðum. Gagnrýnendur benda á að Loftus dragi of víðtækar ályktanir um hvernig hægt sé að hafa áhrif á minni.

Vissulega er minni okkar ekki óbrigðult og sálfræðiprófessorinn Gail S. Goodman þrætir ekki fyrir falskar minningar en bendir á að þær séu aðallega tengdar meðferð með dáleiðsluaðferðum, notkun hugbreytandi efna eða meðferð innan sértrúarsafnaða. Hins vegar bendir hún á að hættan sem fylgir því að meðferðaraðilar spyrji ekki út í áföll í æsku, hvort sem þær eru í fersku minni eða geymdar, sé mun meiri og alvarlegri en hættan á því að skapa falskar minningar.[v]

Til varnar Bundy, Cosby, Jackson, Simpson, Weinstein og Woody

Elizabeth Loftus hefur verið áhrifamikið sérfræðivitni í málum er varða kynferðisbrot og -ofbeldi og þá iðulega fyrir þá sem sakaðir eru um slík brot. Hún hefur komið O. J. Simpson, Ted Bundy, lögreglumönnunum sem ákærðir voru fyrir að myrða Rodney King og Harvey Weinstein til varnar. Þá kom hún einnig að máli Bill Cosby og Michael Jackson sem sérfræðingur. Þó að hún hafi, okkur vitanlega, ekki komið beint að máli Woody Allen, sem óþarfi er að rekja hér, var honum ekki lítill akkur í kenningum hennar.

Þannig hafa kenningar Loftus orðið mikilvægt verkfæri til að grafa undan trúverðugleika þolenda og veikja stöðu þeirra, sem ekki var burðug fyrir, bæði fyrir dómstólum, í viðskiptum við kerfi og stofnanir og á meðal almennings.

Í réttarhöldunum yfir Harvey Weinstein var Loftus fengin til að viðra kenningar sínar um falskar minningar. Í grein sem skrifuð var af því tilefni segja sálfræðiprófessorinn Anne P. DePrince og dósentinn Joan M. Cook: „Við erum sérfræðingar í áfallafræðum og rannsóknir okkar og reynsla sýnir að staðhæfingar um falskar minningar eru vísindalega ónákvæmar, skaðlegar fyrir þolendur og gagnslausar fyrir almenning. Þessar fullyrðingar skyggja ekki bara á sannleikann heldur gera þær þolendur ótrúverðuga og koma í veg fyrir að þær fái þann stuðning sem þeim ber.“[vi]

Gagnrýnendur Loftus benda á að vitnisburður hennar í kynferðisbrotamálum sé „einhliða og gloppóttur og hneigist til að afvegaleiða kviðdómendur.“[vii] Þá hefur henni verið borðið á brýn að nota ósiðleg vinnubrögð í rannsóknum sínum og í Hoffman-skýrslunni, sem var gerð um Ameríska sálfræðifélagið (APA), kemur fram að Loftus hafi verið kærð fyrir siðanefnd APA vegna óvandaðra vinnubragða en að forseti félagsins hafi varað hana við og hún sagt sig úr félaginu áður en kærurnar voru teknar upp í nefndinni.[viii]

Loftus var einnig vitni varnaraðila í Libby-málinu, svokallaða,[ix] en þegar saksóknarinn Patrick J. Fitzgerald yfirheyrði hana viðurkenndi hún að „aðferðafræðin sem hún byggði sinn langa fræðimannsferil á væri ekki mjög vísindaleg, að niðurstöður hennar um minni væru mótsagnakenndar og að hún hefði ýkt tölur og staðhæfingu“ úr gögnunum sínum til að styðja vörnina.[x]

McMartin-málið

Í hinum geysivinsæla þætti Í ljósi sögunnar hinn 11. september sl. er fjallað um McMartin-málið og þáttastjórnandinn, Vera Illugadóttir, segir þar:

„Þá þegar voru sálfræðingar, eins og hin bandaríska Elisabeth Loftus, sem tók raunar þátt í McMartin-réttarhöldunum fyrir hönd verjenda, búnir að afsanna kenninguna um niðurbældar minningar. Að í raun munum við frekar hryllilegustu atriði ævi okkar sérstaklega skýrt og sýna fram á það hvernig ógætilegar aðferðir sálfræðinga og geðlækna, og leiðandi spurningar, geti plantað jafnvel plantað furðulegustu minningum í kolli fullorðinna skjólstæðinga og hvað þá kornungra barna.“

McMartin-málið á upptök á leikskóla í Kaliforníu þar sem starfsmenn voru sakaðir um barnaníð. Málið er víðfrægt og fór algjörlega úr böndunum, var sjö ár að veltast í réttarkerfinu, olli miklum múgæsingi, og jafnvel ásökunum um djöfladýrkun, og var svo illa höndlað af yfirvöldum að sennilega verður aldrei hægt að komast að því hvað gerðist í raun og veru. Sjö voru ákærðir en að lokum voru allir sýknaðir og er það þakkað sérfræðiframburði Loftus. Málið varpaði löngum og viðvarandi skugga á orðræðuna um vitnisburð barna með því að varpa út í almannarýmið hugmyndum úr rannsóknarstofu Loftus um sefnæmi.[xi]

Þegar McMartin-málið kom upp voru rannsóknir Loftus á frumstigi og þær höfðu ekki beinst að áföllum eða börnum sem sjónarvottum og voru því ekki gott verkfæri í málinu.[xii] „Rannsóknir á því hvernig þessar tvær breytur gætu haft áhrif á minni skorti í tengslum við leikskólaréttarhöld á níunda áratugnum, þar sem dómar voru jafn háðir frásögnum ungra barna af eigin reynslu.“[xiii]

McMartin-málið er upphafið að mýtunni um að ásakanir um kynferðisofbeldi gegn börnum séu „nornaveiðar“ sem byggja á óáreiðanlegum og óvitandi tilbúningi barna og er ein af driffjöðrum víðtækrar þöggunar á reynslu barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Í bókinni The witch-hunt narrative: politics, psychology and the sexual abuse of children gerir Ross E. Cheit upp við þessa goðsögn eftir að hafa í 15 ár rannsakað fræg og umtöluð kynferðisbrotamál. Niðurstaða hans er sú að ekkert af málunum sem hann rannsakaði geti flokkast sem nornaveiðar. Þó að fjaðrafokið og mistökin í kringum McMartin-málið hafi vissulega verið til staðar hefði vönduð rannsókn á sönnunargögnunum sem lögð voru fyrir dóminn að hans mati sýnt að „réttsýnn kviðdómari gæti kosið með sakfellingu, eins og margir gerðu“.[xiv]

Því var haldið fram að um hundruð mála sem flokkast gætu sem „nornaveiðar“ væri að ræða en niðurstaða Cheit var að þó að mistök hafi verið gerð í meðhöndlun margra þeirra mála sem komu upp á níunda áratugnum hafi ekki verið um neitt slíkt fár að ræða heldur hafi í mörgum þeirra verið trúverðug sönnunargögn um barnaníð.[xv]

Stofnun um falskar minningar lögð niður

Stofnun um falskar minningar, The False Memory Syndrome Foundation (FMSF), var stofnuð árið 1992 af Pamelu og Peter Freyd eftir að fram komu ásakanir um að Peter hefði brotið á dóttur þeirra Jennifer Freyd. Samtökin voru tengslanet foreldra og nákominna sem héldu því fram að fullorðin börn þeirra hafi, ranglega, ásakað þau um kynferðisofbeldi í æsku.

Stofnunin byggði á kenningum Loftus og hélt á lofti hugmyndum um að falskar minningar birtust sem heilkenni (e. false memory syndrome) sem lýst var þannig að „fólk (aðallega vel menntaðar, vel stæðar konur á fertugsaldri) endurheimtu minningar sem aðrir segja að séu falskar, þær fá þráhyggju fyrir þessum minningum og einangra sig síðan frá fjölskyldunni“.[xvi] Því var líka haldið fram að sálfræðingar stunduðu meðferð sem endurheimti minningar (e. recovered memory therapy) en hvorugt hefur ratað inn í greiningarstaðla eða aðrar viðurkenndar leiðbeiningar um greiningar og meðferð.

Elizabeth Loftus sat í ‚Vísinda- og fagráði‘ FMSF ásamt t.d. töframanninum og skemmtikraftinum James Randi[xvii] og einn af stofnendum FMSF var Ralph Underwager sem var sálfræðingur og prestur sem þvingaður var til að segja sig frá störfum fyrir FMSF árið 1993 vegna ummæla í viðtali þar sem hann sagði það „Guðs vilja“ að fullorðnir stunduðu kynlíf með börnum.[xviii] Þá sagði hann hópi fréttamanna árið 1994 að „vísindaleg gögn“ hefðu sannað að 60% allra kvenna sem orðið hefðu fyrir kynferðisofbeldi á barnsaldri tryðu því að sú reynsla hefði „gert þeim gott.[xix] FMSF var lögð niður í kyrrþey á gamlárskvöld 2019 og var því víða fagnað.[xx]

Ný þekking

Á síðustu árum hefur þekkingu í áfallafræðum fleygt fram. Á tíunda áratugnum verða þau til sem fræðigrein þó að rætur þeirra megi rekja aftur til nítjándu aldarinnar. Í kjölfar Víetnam-stríðsins, um 1980, börðust fyrrverandi hermenn fyrir viðurkenningu á áfallastreituröskun sem geðgreiningu og á þeim tíunda benda Laura Brown, Judith Herman og fleiri meðferðaraðilar sem vinna með konum, á hversu karllæg þessi greining er og á hinn menningarlega mun þess hvernig tráma birtist í lífi karla og kvenna. Á meðan tráma karla gerist á vígvellinum og opinberum stöðum verða konum fyrir því heima hjá sér og í nánum samböndum.[xxi]

Tölur um fjölda þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi í æsku eru mismunandi og lítið er vitað um umfang þess á Íslandi en samkvæmt tölum frá UNICEF hafa 1 af hverjum 5 börnum orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi.[xxii] Þess má geta að nær 40% íslenskra kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni.[xxiii] Tölur frá Bandaríkjunum sýna að 1 af hverjum fimm stúlkum og 1 af hverjum 20 börnum sé beitt kynferðisofbeldi og 20% af konum og 5-10% karla segjast muna eftir því að hafa orðið fyrir kynferðisárás eða -misnotkun.[xxiv]

Engir afbrotamenn eru jafn tregir til að játa á sig glæpi sína og þeir sem fremja kynferðisbrot. Sem dæmi má nefna að í yfirliti yfir játningar frá breska dómsmálaráðuneytinu, á fyrsta ársfjórðungi 2019 á Englandi og í Wales, eftir flokki brota, kemur fram að þeir sem hafa stolið eða brotið á fíkniefnalöggjöfinni eru viljugastir til að játa glæp sinn, eða 78%, meðaltal fyrir alla flokka er 66% en neðstir á listanum eru þeir sem hafa framið kynferðisofbeldi, 42% þeirra játa verknað sinn.[xxv]

ACE-rannsóknin, rannsókn á erfiðri reynslu í æsku, sem hófst um miðjan tíunda áratuginn, er stærsta lýðheilsurannsókn sem gerð hefur verið.[xxvi] Hún hefur verið endurtekin í fjölda rannsókna út um allan heim og grunnspurningalisti hennar er orðinn staðalbúnaður víða í þjónustu við fólk með geðrænan vanda, afleiðingar áfalla, fíknivanda, velferðar- og heilbrigðiskerfi. Niðurstöður hennar sýna skýrt samhengi á milli áfalla í æsku og heilsufars og vellíðanar á fullorðinsárum og eins og þær Anna María Jónsdóttir, geðlæknir, og Guðlaug Thorlacius, félagsráðgjafi, benda á „er dýrkeypt fyrir samfélagið og einstaklinga/börn innan samfélagsins að taka ekki alvarlega afleiðingar áfalla, sérstaklega þeirra sem verða á barnsaldri.“[xxvii]

Áföll sem verða þegar nákomnir og stofnanir bregðast

Jennifer Freyd er sálfræðiprófessor og dóttir Freyd hjónanna, Pamelu og Peter Freyd, sem stofnuðu False Memory Syndrome Foundation eftir að tengdasonur þeirra ásakaði Peter um að hafa beitt Jennifer kynferðisofeldi í barnæsku. Jennifer sem hefur sérhæft sig í áfallafræðum og sett fram kenningar um „betrayal trauma“ eða áföll í kjölfar þess að nákomnir bregðast. Slík áföll verða þegar einstaklingar eða stofnanir sem fólk leggur sitt traust á brjóta gegn trausti þeirra og vellíðan. Ofbeldi gegn börnum, hvort sem það er líkamlegt, tilfinningalegt eða kynferðislegt, er dæmi um orsakir slíkra áfalla. Freyd hefur einnig skrifað um svikablindu (e. betrayal blindness) þá tilhneigingu þolenda, gerenda og vitna að loka augunum í þeim tilgangi að viðhalda samböndum, stofnunum-og því félagsneti sem fólk þarf á að halda. Þá fjallar hún um stofnanasvik (e. institutional betrayal) sem vísar til ranglætis af hálfu stofnana sem einstaklingar setja traust sitt á en bregðast þeim m.a. með því að koma í veg fyrir eða bregðast við með stuðningi við gerendur í kjölfar t.d. kynferðisofbeldis sem framið er í tengslum við viðkomandi stofnun.[xxix]

Skaðleg áhrif

Michael Salter sem er sérfræðingur í skipulögðu ofbeldi gagnvart börnum lýsir því að fræðimenn, blaðamenn og aktívistar hafi gleypt við hugmyndum um ‚falskar minningar‘: „Þessar fullyrðingar hafa reynst hafa svo mikil áhrif á úrskurði í barnaverndarmálum að stundum eru kvartanir barna og fullorðinna um skipulagða misnotkun hunsaðar af félagsþjónustu og börn látin fara aftur til foreldra sinna þrátt fyrir viðvarandi kvartanir og sönnunargögn fyrir slíkri misnotkun.“

Þannig hafa kenningar Elizabeth Loftus um falskar minningar og gagnrýnislaus útbreiðsla þeirra reynst börnum sem verða fyrir kynferðisofbeldi afar skaðlegar og grafið undan trúverðugleika þeirra.

Loftus á Íslandi

Svo virðist sem kenningar Elisabeth Loftus um falskar minningar lifi góðu lífi á Íslandi og þegar leitað er að gagnrýnni umfjöllun um þær er lítið sem ekkert að finna. Loftus virðist líka vera ein helsta heimild um minnisrannsóknir ef marka má lauslega skoðun á námsritgerðum í Skemmunni. Það er langt frá því að búið sé að „afsanna kenninguna um bældar minningar“ og umhugsunarvert hvað skaðlegar kenningar um ótrúverðugleika þolenda kynferðisofbeldis virðast enn viðteknar hér á landi.

Sú tilhugsun að kenningum Loftus um falskar minningar sé haldið uppi á stalli í íslenskum stofnunum er hrollvekjandi. Með því er skaðlegri menningu viðhaldið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og svikum gagnvart þeim sem síst skyldi, börnum sem beitt eru kynferðisofbeldi.

Kristín I. Pálsdóttir og Guðrún Ebba Ólafsdóttir eru í ráði Rótarinnar – Félagi um konur, áföll og vímuefni

Greinin birtist fyrst í Stundinni 2. október 2020 og er fyrri greinin af tveimur.  Seinni greina má nálgast hér

Heimildir

[i] Loftus, E. F., & Palmer, J. C. 1974. „Reconstruction of auto-mobile destruction: An example of the interaction between language and memory“ í Journal of Verbal Learning and Verbal behavior, 13: 585-589.
[ii] Elizabeth Samson. 2019. Beyond a Reasonable Doubt: A Discourse Analysis of Forensic and Psychological Truth in Child Narratives. Duquesne Scholarship Collection, Duquesne University, bls. 8. Sjá: https://dsc.duq.edu/etd/1812.
[iii] Saul McLeod. 2014. Loftus and Palmer. Sjá: https://www.simplypsychology.org/loftus-palmer.html og Yuille, J. C., & Cutshall, J. L. 1986. A case study of eyewitness memory of a crime. Journal of Applied Psychology, 71(2), 291–301. https://doi.org/10.1037/0021-9010.71.2.291.
[iv] Lynn S. Cook og Martha C. Dean. 1999. „„Lost in a Shopping Mall“. A Breach of Professional Ethics“ í Ethics & Behavior 9(1): 39-50. Sjá: https://doi.org/10.1207/s15327019eb0901_3.
[v] Gail S. Goodman, Lauren Gonzalves, Samara Wolpe. 21. september 2018. False Memories and True Memories of Childhood Trauma: Balancing the Risks. Sjá: https://doi.org/10.1177/2167702618797106.
[vi] Anne P. DePrince og Joan M. Cook. 30. janúar 2020. „Harvey Weinstein’s ‘false memory’ defense is not backed by science“ í The Conversation. Sjá: https://theconversation.com/harvey-weinsteins-false-memory-defense-is-not-backed-by-science-130856.
[vii] „This ‘false memory’ expert has testified in hundreds of trials. Now she’s been hired by Harvey Weinstein“: https://www.latimes.com/california/story/2020-02-06/false-memory-expert-testify-harvey-weinstein-trial.
[viii] Í neðanmálsgrein nr. 2350 í skýrslunni má lesa eftirfarandi: „The Ethics Office was not insulated from outside influence and the nature of the process allowed for manipulation at times. Koocher told Sidley that Raymond Fowler manipulated the adjudication process when there was a complaint filed against Elizabeth Loftus, a high-profile psychologist who did work on false memories. When Fowler found out there was an ethics complaint pending against Loftus, he reached out to her and told her she should resign her membership before a case could be formally opened against her. He later denied that he had done so and appointed one of his deputies to “investigate” how Loftus had found out about the complaint.” David H. Hoffman. 2015. Report to the Special Committee of the Board of Directors of the American Psychological Association. Independent Review, Relating to APA Ethics Guidelines, National Security Interrogations, and Torture. Sjá: https://www.apa.org/independent-review/revised-report.pdf. Nánar er fjallað um málið í leiðara Journal of Trauma & Dissociation, „Ethical standards, truths, and lies“, 2016, 17(3): 258-266.: https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/27111429/.
[ix] Lewis “Scooter” Libby, er fyrrverandi aðstoðarmaður Dick Cheneys, varaforseta Bandaríkjanna sem dæmdur var í tveggja og hálfs árs fangelsi, árið 2007, fyrir að hindra framgang réttvísinnar í rannsókn lögreglu á því hver lak í fjölmiðla nafninu á fyrrverandi CIA njósnaranum Valerie Plame.
[x] Carol D. Leonnig. 27. október 2006. „In the Libby Case, A Grilling to Remember“ í The Washington Post. Sjá: https://www.washingtonpost.com/archive/politics/2006/10/27/in-the-libby-case-a-grilling-to-remember/f5b3a032-2929-4925-aea9-013c57204cca/.
[xi] Elizabeth Samson. 2019. Beyond a Reasonable Doubt: A Discourse Analysis of Forensic and Psychological Truth in Child Narratives. Duquesne Scholarship Collection, Duquesne University, bls. 3. Sjá: https://dsc.duq.edu/etd/1812.
[xii] Faller, K. C. (1996). „Interviewing children who may have been abused: A historical perspective and overview of controversies“ í Child Maltreatment, 1(2), 83-95.
[xiii] Elizabeth Samson. 2019. „Beyond a Reasonable Doubt: A Discourse Analysis of Forensic and Psychological Truth in Child Narratives“ í Duquesne Scholarship Collection, Duquesne University, bls. 7. Sjá: https://dsc.duq.edu/etd/1812.
[xiv] Ross E. Cheit. 2014. The witch-hunt narrative: politics, psychology and the sexual abuse of children. Oxford University Press, bls. 14.
[xv] Bethany L. Brand og Linda McEwen. 2016. „Ethical standards, truths, and lies“, í Journal of Trauma & Dissociation, 17(3): 258-266.: https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/27111429/.
[xvi] Elliot. 1994. „Backlash against survivors: The false memory syndrome foundation“ í Off our backs 24(2): 10-13.
[xvii] Kate McMaugh & Warwick Middleton. 2020. Focus on ISSTD History. „The Rise and Fall of the False Memory Syndrome Foundation“ í International Society for the Study of Trauma and Dissociation. Sjá: https://news.isst-d.org/the-rise-and-fall-of-the-false-memory-syndrome-foundation/.
[xviii] Joseph Geraci. 1993. Viðtal við Ralph Underwager og Hollida Wakefield í Paidika: The Journal of Pedophilia, 9(1).
[xix] Kate McMaugh & Warwick Middleton. 2020. Focus on ISSTD History. „The Rise and Fall of the False Memory Syndrome Foundation“ í International Society for the Study of Trauma and Dissociation. Sjá: https://news.isst-d.org/the-rise-and-fall-of-the-false-memory-syndrome-foundation/.
[xx] Renee Fabian. 30. desember 2019. „Survivors Celebrate the End of the False Memory Syndrome Foundation After 27 Years“ í The Mighty. Sjá: https://themighty.com/2019/12/false-memory-syndrome-foundation-folds/.
[xxi] Sarah Wood. Anderson. 2012. Readings of Trauma, Madness, and the Body. Palgrave Macmillan, bls. 7.
[xxii] UNICEF. 2019. Staða barna á Íslandi. Ný tölfræði um þróun ofbeldis gegn börnum á Íslandi. Sjá: https://unicef.is/sites/unicef.is/files/atoms/files/stadabarnaaislandi_final_0.pdf.
[xxiii] Mbl.is. 8. mars 2019. Nær 40% kvenna orðið fyrir ofbeldi. Sjá: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/03/08/naer_40_prosent_kvenna_ordid_fyrir_ofbeldi/.
[xxiv] National Center for Victims of Crime. 2020. Child Sexual Abuse Statistics. Sjá: https://victimsofcrime.org/child-sexual-abuse-statistics/.
[xxv] Ministry of Justice. 2019. Criminal court statistics quarterly, England and Wales, January to March 2019, bls. 7. Sjá: https://assets.publishing.service.gov.uk/government/uploads/system/uploads/attachment_data/file/812556/ccsq-bulletin-q1-2019.pdf.
[xxvi] Jane Ellen Stevens. 2017. „The Adverse Childhood Experiences Study — the Largest Public Health Study You Never Heard Of“ í Huffington Post. Sjá: https://www.huffpost.com/entry/the-adverse-childhood-exp_1_b_1943647.
[xxvii] Anna María Jónsdóttir og Guðlaug Thorlacius. 2016. „Áföll – Skipta þau máli?“ Sjá: http://hugarafl.is/afoll-skipta-thau-mali/.
[xxix] Jennifer J. Fryed. [?]. What is a Betrayal Trauma? What is Betrayal Trauma Theory? Sjá: https://dynamic.uoregon.edu/jjf/defineBT.html.

Share This