Rótin hefur sent eftirfarandi erindi til Ríkisendurskoðunar vegna starfsemi SÁÁ:

Til: Ríkisendurskoðunar
Frá: Rótin – Félag um konu, áföll og vímuefni
Efni: Starfsemi SÁÁ

30. ágúst 2020

Ágæti viðtakandi.

Í aðdraganda stjórnarkjörs innan SÁÁ – Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, hinn 22. júní, birtist yfirlýsing frá 57 af 100 starfsmönnum samtakanna þar sem fram kemur m.a. að vandi SÁÁ snúist um „yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum“ að „ógnarstjórn“ hafi verið við lýði í rekstri samtakanna.

Augljóst er að í yfirlýsingunni er verið er að vísa í tæplega fjögurra áratuga stjórnartíð Þórarins Tyrfingssonar sem á um 20 ára tímabili var bæði framkvæmdastjóri og formaður stjórnar SÁÁ.

Það verða að teljast mikil tíðindi, og hreinlega einstakt, að bróðurpartur starfsmanna í samtökum með þá stöðu sem SÁÁ hefur haft í íslensku samfélagi sendi frá sér svo afdráttarlausa yfirlýsingu um misbresti í starfi samtakanna sem hafa verið á fjárlögum í árafjöld og þegið um milljarð úr ríkissjóði árlega.

Við því var að búast að í kjölfar yfirlýsingarinnar færi af stað vinna á vegum ríkisins og/eða að frumkvæði nýrrar forystu SÁÁ við að kanna réttmæti hennar og rannsaka hversu mikinn skaða téð ofbeldi hefur haft á þá sem starfað hafa eða þegið meðferð hjá samtökunum. Vert er að nefna að fjöldi barna hafa verið send til meðferðar hjá SÁÁ undanfarna áratugi og að það var beinlínis stefna samtakanna að hafa börn með fullorðnum í meðferð, öfugt við aðrar heilbrigðisstofnanir þar sem mikil áhersla er á öryggi barna. Vist barna á Vogi var ekki hluti af verkefnum nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn sem Alþingi skipaði árið 2007 þó að vissulega hefði verið ástæða til þess.

Í blaðagrein frá árinu 2011 skrifar þáverandi formaður samtakanna, Gunnar Smári Egilsson:

Í kjölfar umfjöllunar Kastljóss hefur mátt greina enduróm af gagnrýni á þá ráðstöfun; að ungir krakkar geti spillst af samvistum við eldra fólk í meðferð. Þessi tilhögun er hins vegar hvorki tilviljun né tilkomin vegna rekstrarlegrar hagræðingar. Hún er hluti af meðferðarstefnunni. Það er trú starfsmanna SÁÁ að meðferð ungmenna skili betri árangri þegar ungmennin blandast hópi fólks af ólíkum aldri og með mismunandi bakgrunn. Það ber vott um fordóma að sjá fyrir sér sjúklingahóp Vogs sem harðsvíraða glæpamenn eða illmenni.

Þess ber að geta að samkvæmt meistararitgerð Ara Matthíassonar, frá árinu 2010, „Þjóðfélags-leg byrði af áfengis- og vímuefnaneyslu“ höfðu 32% þeirra sem komu á Vog árið 2008 hlotið dóm og 14% sögðust hafa framið afbrot síðustu 30 daga. Þrír sjúklingar á Vogi, sama ár, höfðu verið ákærðir fyrir að fremja morð og 10 fyrir nauðgun. Sjá nánar hér: https://www.rotin.is/tolfraedi-um-afbrotamenn-a-vogi/. Í óformlegu samtali Rótarinnar við Fangelsismálastofnun, fyrir nokkrum árum, kom fram að þeir sem komu úr réttarvörslukerfinu inn í vímuefnameðferð voru ekki valdir með tilliti til þess hvaða afbrot þeir höfðu framið heldur var valið byggt á hegðun í fangelsi.

Svo til algjör þögn hefur ríkt um yfirlýsingu starfsmanna SÁÁ og ekki virðist unnið að nauðsynlegu uppgjöri við það „yfirgengilega ofbeldi“ og „ógnarstjórn“ sem sögð er hafa ríkt hjá samtökunum, hvorki innan þeirra eða á vegum hins opinbera, áður en Valgerður Rúnarsdóttir tók við framkvæmdastjórn lækninga hjá samtökunum árið 2017, hvorki.

Rótin hefur látið sig mjög varða öryggi og velferð fólks í fíknimeðferðarkerfinu. Á eftirfarandi mynd má sjá hluta af ástæðunni fyrir stofnun Rótarinnar þar sem reglulega berast fréttir af misnotkun í meðferð í fjölmiðlum.

Mynd 1 – Fyrirsagnir úr fjölmiðlum um ofbeldi og áreitni í vímuefnameðferðarkerfinu

Þá var árið 2016-2017 gerð rannsókn á reynslu kvenna af meðferð á vegum RIKK – Rannsókna-stofnunar í jafnréttisfræðum og Rótarinnar. Þar kom fram að þátttakendur sögðu frá miklu ofbeldi og áreitni sem þær höfðu orðið vitni að eða upplifað á sjálfum sér í íslenska meðferðar-kerfinu og einnig hversu alvarlega áfalla- og ofbeldissögu konur sem koma í meðferð eiga.

Tafla 1 – Svör þátttakenda um ofbeldi og áreitni í meðferð. Þegar spurt var um geranda ofbeldis þá var það oftast annar þátttakandi í meðferð (74,2%), starfsmaður (16,1%) og svo annar aðili (9,7%)

 

Table 2 – Á myndinni má sjá svör þátttakendanna í rannsókninni við spurningu um hverju þær höfðu orðið fyrir, fyrir 18 ára aldur

Félagið hefur sent ótal erindi til yfirvalda, skrifað greinargerðir, greinar  og umsagnir við þingmál til að þrýsta á um aukið öryggi og gæði í meðferðarkerfinu og má hér sjá nokkur þeirra: https://www.rotin.is/oryggi-kvenna-i-medferd-yfirlit/. Þar á meðal er greinargerð til heilbrigðis-ráðherra frá árinu 2017, https://www.rotin.is/greinargerd-til-heilbrigdisradherra/, þar sem m.a. er fjallað um hlutaúttekt Embættis landlæknis á meðferðarstarfi á Vogi en í úttektinni kemur m.a. fram:

Árangur starfseminnar hvað varðar gæði og öryggi er ekki sýnilegur. Gæðahandbók er ekki fyrir hendi, ekki eru skriflegar verklagsreglur varðandi marga þætti starfseminnar. Til að mynda eru engar skriflegar verklagsreglur varðandi þjónustu á gátinni á Vogi. Ekki kemur fram hvort gerðar hafa verið þjónustukannanir en gerðar hafa verið kannanir varðandi fræðslufyrirlestra.

Rótin hefur einnig ítrekað óskað eftir tölfræði um lögboðna atvikaskráningu í meðferðarkerfinu, en skráning atvika hlýtur að vera grundvallaratriði í gæðaeftirliti með heilbrigðisþjónustu, og því illskiljanlegt að Embætti landlæknis hafi slíkar tölfræðiupplýsingar ekki handbærar og að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi stutt embættið í því að afhenda ekki þessar upplýsingar.

Þá óskaði félagið eftir upplýsingum, tölfræði, úr vistunarskrá fyrr á árinu en Embætti landlæknis hafði heldur ekki þær upplýsingar. Fram kom í svari embættisins að verið væri að koma sjálfvirkri skráningu hjá SÁÁ í ferli.

Það eru miklir hagsmunir fólgnir í réttlæti til handa þeim sem beittir hafa verið ofbeldi innan stofnana ríkisins eða sem studdar eru af ríkinu. Miðað við að hér koma fram afdráttarlausar ásakanir meirihluta starfsfólks samtaka sem ríkið hefur fjármagnað að miklu leyti í áratugi er það ósk Rótarinnar að Ríkisendurskoðun skoði málið. Ef stofnunin telur þetta verkefni ekki falla undir sínar skyldur er óskað eftir leiðbeiningum um hvert félagið getur snúið sér til að leiða fram sannleikann og réttlætið til handa því fólki sem varð fyrir ofbeldinu og bjó við þá ógnarstjórn sem lýst er í yfirlýsingu starfsmanna SÁÁ. Þá er þess sérstaklega óskað eftir að áhrif á þá sem sóttu sér meðferðar, ekki síst á barnsaldri, hjá félaginu séu skoðuð.

Til að ná sér af afleiðingum vímuefnavanda, sem oft er nátengdur áfallasögu, er öryggi mikilvæg forsenda fyrir bata. Þar sem ógnarstjórn ríkir er hvorki öryggi né réttlæti. Hvort tveggja er sérstaklega mikilvægt þar sem mikið valdaójafnvægi er, eins og þar sem unnið er með jaðarsett fólk. Fáir eru jaðarsettari en fólk með alvarlegan vímuefnavanda og eftir átta ára starf vitum við að þessi hópur er ekki líklegur til að berjast fyrir rétti sínum eða leggja inn formlegar kvartanir.

Undarleg þögn hefur einnig ríkt um málið í fjölmiðlum og sú litla umfjöllun sem við urðum varar við var í mjög litlu samræmi við alvarleika málsins. Erindi okkar, https://www.rotin.is/thoggun-ofbeldis/, þar um til RÚV var t.d. ekki svarað nema með skeytasendingum á samfélagsmiðlum.

Hægt væri að halda áfram að telja upp ástæður fyrir nauðsyn skoðunar á starfsemi SÁÁ en við ljúkum erindinu á því að vitna í Marai Larasi, framkvæmdastjóra Imkaan-samtakanna í London:

„Ef öryggi konu í vímuefnameðferð er virt að vettugi getur það komið í veg fyrir að hún nái nokkurn tíma bata. Ef ekki er unnið jöfnum höndum með vímuefnanotkun og ofbeldi, sem konan hefur orðið fyrir, getur það orðið til þess að hún finni aldrei til öryggis.“

Með góðri kveðju, f.h. ráðs Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir

Yfirlýsing starfsmanna SÁÁ má sjá hér, sjá einnig hér.

Erindið í PDF-skjali.   

Eftirfarandi svar barst frá Ríkisendurskoðun hinn 14. október 2020:

“Góða kvöldið.

Ríkisendurskoðun vísar til tölvupóstar sem barst 30. ágúst 2020 frá Rótinni – Félagi um konu, áföll og vímuefni og ítrekun sem barst þann 13. október sl.

Í tölvupóstinum er vísað til yfirlýsingar frá 57 starfsmönnum SÁÁ í tengslum við stjórnarkjör innan samtakanna þar sem fram kemur að vandi SÁÁ snúist um “yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum”. Þá kemur einnig fram að misbrestir hafi verið í starfsemi SÁÁ um langt skeið og vísað um það til fjölmiðlaumfjöllunar frá árinu 2011, meistararitgerðar frá árinu 2010 og rannsókn sem gerð var á árunum 2016-2017. Ennfremur kemur fram að Rótin hafi sent ótal erindi til yfirvalda, skrifað greinargerðir, greinir og umsagnir við þingmál til að þrýsta á um aukið öryggi og gæði í meðferðarkerfinu. Orðrétt segir svo í tölvupóstinum: “Miðað við að hér koma fram afdráttarlausar ásakanir meirihluta starfsfólks samtaka sem ríkið hefur fjármagnað að miklu leyti í áratugi er það ósk Rótarinnar að Ríkisendurskoðun skoði málið.”

Af framangreindu tilefni tekur Ríkisendurskoðun fram að samkvæmt lögum nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er hlutverk ríkisendurskoðanda að hafa í umboði Alþingis eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja. Hlutverkinu sinnir ríkisendurskoðandi einkum með að sinna fjárhagsendurskoðun hjá ríkisaðilum annars vegar og hins vegar með stjórnsýsluendurskoðun. Fjárhagsendurskoðun tekur mið af því að reikningsskil ríkisaðila gefi glögga mynd af rekstri og fjárhagslegri stöðu, kanna innra eftirlit hjá ríkisaðilum og hvort rekstur og umsvif séu í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga, lögmæt fyrirmæli o.fl. Stjórnsýsluendurskoðun felur í sér mat á frammistöðu þeirra aðila sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með. Markmiðið er að stuðla að úrbótum þar sem einkum er horft til meðferðar og nýtingar ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt.

Af erindi Rótarinnar er ljóst að sú úttekt sem óskað er eftir að Ríkisendurskoðun fellur ekki að tilvitnuðu hlutverki og starfssviði ríkisendurskoðanda enda virðist erindið einkum beinast að því að uppgjör fari fram við það “yfirgengilega ofbeldi og ógnarstjórn” sem sögð er hafa ríkt hjá samtökunum eins og segir í tölvupóstinum. Ríkisendurskoðun bendir á að það sé embætti Landlæknis sem hefur eftirlit með og sinnir kvörtunum með heilbrigðisþjónustu. Þá tekur Vinnueftirlitið við ábendingum og kvörtunum telji starfsmenn sig hafa orðið fyrir einelti á vinnustað.

Kveðja,
Guðrún Jenný Jónsdóttir
sviðsstjóri stjórnsýslu- og lögfræðisviðs
Ríkisendurskoðun”

Share This