Dagskrá haust 2020

Dagskrá haust 2020

Fyrsti viðburðurinn í starfi Rótarinnar haustið 2020 er námskeiðið Forvarnir fyrir grunnskóla sem haldið er 2. september. Í haust verða haldin nokkur námskeið á vegum félagsins, Rótarhópurinn hefur göngu sína 16. september og þá býður félagið upp á fjölbreytta fræðslu meðal annars fyrir ráðgjafa og dvalarkonur Kvennaathvarfsins.

Athugið að félagið fylgir sóttvarnareglum vegna Covid-19 og því komast færri að á námskeið og hópa.

Vegna Covid-19 er nú gert hlé á umræðukvöldum félagsins í haust og eins er um Hreyfiaflið.

(more…)

Forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir

Forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir

Rótin, félag um konur, áföll og vímugjafa heldur námskeið um forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir miðvikudaginn 2. september 2020 kl. 13.30-16.00 í sal Laugalækjarskóla. Námskeiðið hlaut styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla og er því niðurgreitt. Þátttökugjald er 2.000 kr. og innifalið í því er verkefnahefti sem allir þátttakendur fá.

Einnig er hægt að fá námskeiðið í einstaka skóla eða svæði.

Sjá einnig á vef Rótarinnar þar sem skráning fer fram og þessari færslu er hægt að deila af Facebook.

Námskeið Rótarinnar byggist á gagnreyndri þekkingu á forvörnum. Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um börn og unglinga í áhættuhópum og áhrifaþætti vímuefnanotkunar eins og þeir birtast t.d. rannsóknum á erfiðri lífsreynslu í æsku og tengsl við vímuefnanotkun (ACE-listinn). Unnið er út frá því að vímuefnanotkun sé ekki einangrað vandamál heldur eigi sér m.a. rætur í áföllum. Þá er einnig fjallað um kynjavinkilinn á fíkniferlinum. Kynnt verða líkön um skipulag forvarna, eins og íslenska módelið, og skoðað hvað virkar og hvað ekki í forvörnum (European Prevention Curriculum). Einnig verður fjallað um verndandi þætti sem styðja gegn áhættuhegðun og vímuefnanotkun með sérstakri áherslu á hlut skóla í því sambandi.

Markmiðið með námskeiðinu er að styðja og styrkja starfsfólk skóla í að vinna að forvörnum í samræmi við nýjustu gagnreynda þekkingu og auka þekkingu á aðferðum sem styðja við betri líðan barna í skólunum. (more…)

Að vinna með ráðgjafa

Að vinna með ráðgjafa

Viðmið fyrir konur sem leita trausts og góðs ráðgjafa til að vinna með úr afleiðingum ofbeldis og áfalla

Að velja ráðgjafa

Ef þú ert að leita að ráðgjafa til að vinna úr afleiðingum áfalla mælum við með því að þú takir þér góðan tíma til þess. Þú þarft ekki að taka ákvörðun eftir fyrsta viðtal hjá ráðgjafa. Jafnvel þó að þú sért að ganga í gegnum tímabil mikilla erfiðleika þarftu ekki að skuldbinda þig í langtímaráðgjöf fyrr en þú ert búin að velja þann sem þú treystir. (more…)

Nýtt ráð og breytt nafn félagsins

Nýtt ráð og breytt nafn félagsins

Aðalfundur Rótarinnar haldinn fimmtudaginn 6. maí kl. 20 í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14. Guðrún Ebba Ólafsdóttir stýrði fundinum. Kristín I. Pálsdóttir talskona fór yfir skýrslu ráðs fyrir liðið starfsár og Árdís gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins sem voru samþykktir einhljóða. Kynningu á skýrslu ráðsins með reikningum og starfsáætlun má nálgast hér..

Þá voru lagðar fram lagabreytingatillögur sem allar voru samþykktar að því undanskildu að tillaga um að breyta nafni félagsins í Rótin – félag um konur, áföll og vímuefni fékk ekki brautargengi heldur ný tillaga um að nefna félagið Rótin – félag um konur áföll og vímugjafa. (more…)

Aðalfundur 2020

Aðalfundur 2020

Aðalfundur Rótarinnar verður haldinn miðvikudaginn 6. maí kl. 20:00, í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir varafulltrúar í ráðið og skoðunarkona reikninga. Athygli er vakin á tillögum um lagabreytingar sem fylgja fundarboðinu en tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.

Áhugasamar félagskonur eru hvattar til að bjóða sig fram í ráð eða vararáð með því að senda póst á netfangið rotin@rotin.is. Frekari upplýsingar fást hjá Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu, í sama netfangi eða í síma 893-9327. (more…)

Ályktun ráðs Rótarinnar vegna þróunar meðferðarmála

Ályktun ráðs Rótarinnar vegna þróunar meðferðarmála

Rótin lýsir miklum áhyggjum af þróun meðferðarmála í landinu í ljósi þeirra atburða sem nú eru að gerast innan SÁÁ, ekki síst með tilliti til aðstæðna í samfélaginu.
Til margra ára ríkti stöðnun í meðferðargeiranum hér á landi þar sem SÁÁ var allsráðandi með hið svokallaða „íslenska módel“. Landspítalinn breytti sinni nálgun í samræmi við nýjustu þekkingu upp úr aldamótum og fór að leggja áherslu á dag- og göngudeildarþjónustu og sálfræðilega meðferð.[1]
Gæðastarf og stefnumótun hjá SÁÁ fékk falleinkunn í hlutaúttekt Embættis landlæknis árið 2016. Bent var á að engin gögn væru til um árangur meðferðarinnar og engar þjónustukannanir.[2] Á sama tíma var félagið í stórtækum framkvæmdum á Vík með áherslu á inniliggjandi meðferð eftir gamla meðferðarlíkaninu sem að mestu er í höndum áfengis- og vímuefnaráðgjafa með litla menntun.[3] Erlendar rannsóknir sýni hins vegar að ekki er betri árangur af inniliggjandi meðferð en af dag- og göngudeildarmeðferð [4] og að fráhvarfsmeðferð, eins og hún hefur verið stunduð, sé ekki sérstaklega árangursrík aðferð heldur. [5]
Eftir að Rótin hóf sína baráttu hafa orðið ýmsar jákvæðar breytingar hjá SÁÁ, ekki síst eftir að Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir, og Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur, tóku við stjórnartaumunum á Vogi. Unnið hefur verið að aukinni fagmennsku í meðferðinni, kynjaskiptingu og innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar og aukinnar faglegrar þjónustu eins og sálfræðiþjónustu. Allt eru þetta skref í rétta átt.
Forsvarsmenn SÁÁ þreytast ekki á að hamra á því að fíknivandi sé „krónískur læknisfræðilegur sjúkdómur eins og hjartasjúkdómar og sykursýki“[6] það skýtur því verulega skökku við, og lýsir mikilli rörsýn á nútíma heilbrigðisþjónustu, að sjá Arnþór Jónsson, formann þessara stóru almannasamtaka, kvarta undan auknum faglegum metnaði og áherslum hjá forstjóra sjúkrahússins Vogs:
„Undanfarin ár hefur rekstrarkostnaður á meðferðarsviði SÁÁ vaxið mjög. Kostnaður fer upp þótt afköst þjónustunnar standi í stað eða minnki jafnvel og ástæðan er ráðningar háskólamenntaðs starfsfólks til að mæta faglegum áherslum forstjóra sjúkrahússins Vogs“.[7]
Formanni SÁÁ finnst sárt að segja upp körlum sem komnir eru á eftirlaunaaldur á meðan honum er það sársaukalaust að reka fagfólk eins og sálfræðinga. Þá er spurning hvort að ríkið þurfi ekki að endurskoða samninga við SÁÁ ef rétt reynist að þar sé kveðið á um að greiða fyrir vinnu áfengis- og vímuefnaráðgjafa en ekki háskólamenntaðs fagfólks:
„Öflugu starfsfólki sem var komið á aldur var einnig sagt upp, þar á meðal Þórarni Tyrfingssyni, fyrrverandi yfirlækni á Vogi og formanni SÁÁ. „Það var mjög sárt líka. Þetta voru menn með áratuga reynslu, kunnáttu og þekkingu. Það er mjög vont að missa þá,“ segir Arnþór og bætir við að ríkið borgi ekkert fyrir sálfræðiþjónustuna sem er veitt hjá SÁÁ. Hún sé öll í boði samtakanna og því kostnaðarsöm.“[8]
Rótin skorar á yfirvöld að tryggja að fólk sem notar vímuefni fái faglega þjónustu sem byggir á gagnreyndri þekkingu samkvæmt tilmælum alþjóðastofnana og tekur undir með þeim sem fordæma vinnuaðferðir framkvæmdastjórnar og formanns SÁÁ.
Rótin, sem býr yfir sérþekkingu á vímuefnavanda kvenna, er með útfærðar hugmyndir um þjónustu við konur með áfallasögu og/eða vímuefnavanda og áréttar að við erum tilbúnar til að leggja okkar af mörkum við uppbyggingu þjónustu við þennan hóp.

Heimildir:

[1] Bjarni Össurarson. 2005. „ Bætt aðstaða vímuefnadeildar LSH.“ Morgunblaðið, 15. mars. Sjá https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1006920/.
[2] Embætti landlæknis. 2016. Hlutaúttekt. Meðferðarstofnanir SÁÁ. Sjá https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item29702/.
[3] Samkvæmt netfangalista starfsmanna 30. mars 2020 störfuðu 22 áfengis- og vímuefnaráðgjafar hjá SÁÁ, 4 dagskrárstjórar, sem líka eru ráðgjafar, 17 ráðgjafanemar, 13 sjúkraliðar, 2 sjúkraliðanemar, 4 sálfræðingar, 1 yfirsálfræðingur og 2 sálfræðinemar, 11 hjúkrunarfræðingar, 2 hjúkrunarfræðinemar, 3 læknaritarar, 3 móttökuritarar, 4 læknar, 1 yfirlæknir og svo starfsfólk á skrifstofu sem ekki vinnu við umönnun eða meðferð. Sjá https://saa.is/samtokin/netfong/.
[4] Dennis McCarty og fl. 2014. Substance Abuse Intensive Outpatient Programs: Assessing the Evidence, í Psychiatry Online. Sjá: http://ps.psychiatryonline.org/doi/full/10.1176/appi.ps.201300249
[5] Jason Luty. (2003). „What works in drug addiction?“ BJPsych Advances, 9(4). Sjá doi:10.1192/apt.9.4.280.
[6] Arnþór Jónsson. 27. nóvember2014. Fíkn er heilasjúkdómur. Sjá https://saa.is/fikn-er-heilasjukdomur/.
[7] Mbl.is. 28. mars 2020. Býðst til að stíga til hliðar. Sjá https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/28/bydst_til_ad_stiga_til_hlidar/.
[8] Mbl.is. 27. mars 2020. Segir neyðarástand ríkja hjá SÁÁ. Sjá https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/27/segir_neydarastand_rikja_hja_saa/.

Ályktunin í PDF-skjali.