Rótin, félag um konur, áföll og vímugjafa heldur námskeið um forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir miðvikudaginn 2. september 2020 kl. 13.30-16.00 í sal Laugalækjarskóla. Námskeiðið hlaut styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla og er því niðurgreitt. Þátttökugjald er 2.000 kr. og innifalið í því er verkefnahefti sem allir þátttakendur fá.

Einnig er hægt að fá námskeiðið í einstaka skóla eða svæði.

Sjá einnig á vef Rótarinnar þar sem skráning fer fram og þessari færslu er hægt að deila af Facebook.

Námskeið Rótarinnar byggist á gagnreyndri þekkingu á forvörnum. Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um börn og unglinga í áhættuhópum og áhrifaþætti vímuefnanotkunar eins og þeir birtast t.d. rannsóknum á erfiðri lífsreynslu í æsku og tengsl við vímuefnanotkun (ACE-listinn). Unnið er út frá því að vímuefnanotkun sé ekki einangrað vandamál heldur eigi sér m.a. rætur í áföllum. Þá er einnig fjallað um kynjavinkilinn á fíkniferlinum. Kynnt verða líkön um skipulag forvarna, eins og íslenska módelið, og skoðað hvað virkar og hvað ekki í forvörnum (European Prevention Curriculum). Einnig verður fjallað um verndandi þætti sem styðja gegn áhættuhegðun og vímuefnanotkun með sérstakri áherslu á hlut skóla í því sambandi.

Markmiðið með námskeiðinu er að styðja og styrkja starfsfólk skóla í að vinna að forvörnum í samræmi við nýjustu gagnreynda þekkingu og auka þekkingu á aðferðum sem styðja við betri líðan barna í skólunum.

Í aðalnámskrá grunnskóla er fjallað um heilbrigði og velferð og mikilvægi þess að kennarar og annað starfsfólk skólanna sé meðvitað um forvarnir og geti nýtt sér áreiðanlegar upplýsingar um þætti sem hafa áhrif á heilbrigði (2.1.5) og að jákvæður skólabragur sé í eðli sínu forvarnarstarf sem geti dregið úr neikvæðum samskiptum, s.s. einelti og öðru ofbeldi (7.6). Þá segir að grunnskólinn skuli vinna markvisst að forvörnum og heilsueflingu þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda skólans (7.8). Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög hafa sett sér forvarnastefnu og í stefnu Reykjavíkurborgar er meginmarkmið hennar að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur meðal barna og unglinga og hlúa að verndandi þáttum allt frá fyrstu æviárum barna.

Námskeið Rótarinnar er ætlað kennurum, náms- og starfsráðgjöfum og stjórnendum í grunnskólum.

Fyrirlesarar:

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, grunnskólakennari með diplóma í starfstengdri leiðsögn, Hún þýddi tvær handbækur fyrir kennara og skólastjóra sem Menntamálastofnun gefur út: Viðkvæm álitamál og nemendur og Stjórnun á tímum ágreinings og átaka. Hún er ein af stofnendum Rótarinnar og er námsstjóri félagsins og leiðbeinandi á námskeiðum.

Kristín I. Pálsdóttir, MA í ritstjórn og útgáfufræðum og með ProfCert um konur og vímuefni. Kristín sat í starfshópi velferðarráðuneytis um stefnumótun í áfengis- og vímuvörnum 2012-2013 og í Jafnréttisráði frá 2015-2018. Hún er í vinnuhópi Pompidou-hóps Evrópuráðsins um útgáfu handbókar fyrir fagfólk um innleiðingu kynjasjónarmiða í stefnumótun og meðferð fólks sem er jaðarsett og/eða notar vímuefni. Hún er einnig fulltrúi Rótarinnar í Evrópuverkefni um konur, heimilisofbeldi og vímuefnanotkun. Hún er ein af stofnendum Rótarinnar, talskona félagsins og verkefnisstjóri.

Upplýsingar um námskeiðið í PDF-skjali.

Share This