Skýrsla starfshóps um meðferðarheimilið að Laugalandi

Skýrsla starfshóps um meðferðarheimilið að Laugalandi

Á vormánuðum tók Rótin að sér utanumhald starfshóps um meðferð stúlkna með áhættuhegðun,  meðferðarheimilið að Laugalandi, með samningi við Barnaverndarstofu. Kristín I. Pálsdóttir framkvæmdastjóri og talskona Rótarinnar leiddi vinnu hópsins sem skilaði skýrlsu sinni í september 2021.

Yfirlýsing starfshópsins

Við hvetjum yfirvöld til að uppfylla lagalegar skyldur sínar gagnvart stúlkum á aldrinum 13-18 ára sem sýna áhættuhegðun og opna án tafar öruggt og kynjaskipt úrræði fyrir þær. Við hvetjum einnig til þess að Barnaverndarstofa reki úrræðið sjálf en ekki í verktöku. Þá leggjum við áherslu á að forstöðufólk eða yfirmenn slíkra úrræða séu í öllum tilfellum fagfólk.
Starfshópurinn telur lokun Laugalands hafa verið ótímabæra, ekki síst þar sem um var að ræða mikilvægt og traust úrræði fyrir stúlkur og að ekki var búið að tryggja önnur úrræði af sömu gæðum fyrir lokun.
Þá telur starfshópurinn áríðandi að endurskoða allt meðferðarkerfið á landinu, fyrir börn með vímuefnavanda og áfallasögu í huga, en einnig börn með fjölþættan vanda. (more…)

Yfirlýsing vegna vændiskaupa formanns SÁÁ

Yfirlýsing vegna vændiskaupa formanns SÁÁ

25. janúar 2022

Rótin harmar þann skaða sem skjólstæðingur SÁÁ hefur lýst að Einar Hermannsson hafið valdið henni. Einar hefur setið í stjórn SÁÁ frá því árið 2015 og var því í stjórninni þegar brotin sem lýst er í Stundinni áttu sér stað, á árunum 2016–2018.
Brot Einars gegn konunni er nöturleg valdamisnotkun stjórnarmanns í frjálsum félagasamtökum sem stjórnvöld hafa í rúm 40 ár treyst til að sjá um meginþorra heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með vímuefnavanda. Í þeim hópi er margt af jaðarsettasta fólki landsins og í ljósi þess valds sem stjórnvöld hafa fært SÁÁ í málaflokknum er um fádæma siðleysi að ræða sem sannarlega hefur haft áhrif á störf Einars sem formanns, þrátt fyrir yfirlýsingu hans um hið gagnstæða. Í fáum störfum hefur siðferðiskennd meira gildi en í störfum fyrir fólk með vímuefnavanda og jaðarsett fólk.
Þó að ekki sé hlutverk stjórnvalda að skipta sér af stjórnun frjálsra félagasamtaka, hljótum við að gera þær kröfur að hjá þeim aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu fyrir ríki og sveitarfélög ríki hvorki ógnarstjórn[1] né annað ofbeldi og að faglegir ferlar séu til staðar til að taka á slíkum málum. Árið 2017 spurði Rótin stjórnendur SÁÁ um verkferla samtakanna varðandi kynferðislega áreitni og ofbeldi og var því svarað að þeirra væri ekki þörf.[2]
Það eru mikil vonbrigði að Embætti landlæknis hafi haft vitneskju um brotið í tvö ár án þess að aðhafast.
Rótin var stofnuð fyrir tæpum 9 árum til að vinna að málum kvenna með vímuefnavanda. Áður höfðu stofnendur félagsins gert tilraun til að vinna að útbótum í stefnu og meðferð kvenna innan SÁÁ, en fljótlega varð ljóst að þar væri lítill áhugi á þeirri áfalla- og kynjamiðuðu nálgun sem nauðsynleg er í meðferðarstarfi.[3] Rótin var stofnuð til að vinna þessum málum framgang en SÁÁ tekið illa í hugmyndir félagsins, gert lítið úr þeim og beitt þöggunartilburðum.
Öryggi er lykilorð í vímuefnameðferð og í meðferð fólks með erfiða áfallasögu. Því miður hefur þetta öryggi ekki verið skapað í meðferðarkerfinu, eins og kom glöggt fram í rannsókn Rótarinnar og RIKK á reynslu kvenna af meðferð.[4] Síðustu ár hefur Rótin ítrekað vakið athygli á vöntun á öryggi kvenna í meðferð og bent á þann vanda að láta meðferð fólks, sem oft á við fjölþættan og flókinn vanda að etja, vera að mestu í höndum áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Stjórnvöld hafa viðurkennt að menntun þeirra sé ekki í samræmi við önnur störf í heilbrigðiskerfinu en hefur ekki gripið til aðgerða til að bæta úr því.
#MeToo-byltingin snýst um að breyta samfélaginu til hins betra, að hafna kerfum sem byggjast á misnotkun valds. Sá hörmulegi atburður að formaður samtaka, sem stjórnvöld hafa gefið vald yfir fólki með vímuefnavanda, bregðist svo hrapallega er ekki óheppileg tilviljun heldur hlekkur í langri keðju. Þessi keðja rofnar ekki nema farið sé í markvissar aðgerðir til að uppræta ofbeldismenninguna.
Fólki í 12 spora samtökum er tamt að nota orðalagið að það að vera edrú og allsgáður sé „framkvæmdaprógramm“. Hið sama á við um jafnrétti.

Ráð Rótarinnar sendir kærleikskveðjur til þolanda Einars. Við trúum þér og stöndum með þér.

[1] „Við viljum ekki Þórarin Tyrfingsson aftur!“ – Starfsmenn SÁÁ óttast viðbrögð Þórarins og endurkomu ógnarstjórnar: https://www.dv.is/frettir/2020/06/22/vid-viljum-ekki-thorarinn-tyrfingsson-aftur-starfsmenn-saa-ottast-vidbrogd-thorarins-og-endurkomu-ognarstjornar/.
[2] Óskalistinn: https://www.rotin.is/oskalisti/.
[3] Hættar í SÁÁ vegna samstarfsörðugleika: https://www.ruv.is/frett/haettar-i-saa-vegna-samstarfsordugleika.
[4] Sláandi niðurstöður um reynslu kvenna af fíknimeðferð: https://www.rotin.is/slaandi-nidurstodur/.

Þjálfun starfsfólks í réttarvörslukerfi

Þjálfun starfsfólks í réttarvörslukerfi

Rótin, í samstarfi við geðheilsuteymi fanga (GHF) og Fangelsismálastofnun (FMS), hefur sent erindi til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, með ósk um rúmlega 10 milljóna króna styrk til innleiðingar og þjálfunar starfsfólks í réttarvörslukerfinu í áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Erindið var einnig sent á Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, og Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra, í von um stuðning þeirra við verkefnið líka.

Innleiðingin felur í sér að fá hingað til lands sérfræðinga frá Center for Gender and Justice,(CG&J), í Kaliforníu, til að þjálfa starfsfólk fangelsanna, geðheilsuteymis og Rótarinnar. CG&J býr að áratuga reynslu, bæði í Bandaríkjunum og víða um heim, af vinnu með fólki í fangelsum og hefur gefið út mikið af hagnýtu efni sem notað er í fangelsum og víðar.

Dr. Stephanie S. Covington er forstöðukona Center for Gender og Justice í San Diego í Kaliforníu ásamt Barböru E. Bloom. Báðar hafa þær á löngum starfsferli sérhæft sig í málefnum kvenna og stúlkna í réttarvörslukerfinu og á seinustu árum útfært þá þekkingu fyrir karla og drengi. Rótin hefur átt í farsælu samstarfi við dr. Covington undanfarin 6 ár, eða síðan hún koma á ráðstefnu félagsins um konur og fíkn, árið 2015. (more…)

Mat á Rótarnámskeiðum í Hlaðgerðarkoti

Mat á Rótarnámskeiðum í Hlaðgerðarkoti

Vorið 2021 hélt Rótin þrjú námskeið í Hlaðgerðarkoti, tvö fyrir konur og eitt fyrir karla. Gott samstarf hefur verið með félaginu við Hlaðgerðarkot og Helgu Lind Pálsdóttur, forstöðukonu, og starfsfólk í Hlaðgerðarkoti um verkefnið.
Um er að ræða námskeiðið Konur finna styrk sinn, sem haldið var tvisvar sem er þýtt gagnreynt, áfalla- og kynjamiðað námskeið frá dr. Stephanie Covington. Námskeiðið er 90-120 mínútur í hvert sinn í 10 skipti. Góði hirðirinn styrkti verkefnið með veglegum styrk í desember 2020.
Hins vegar var námskeiðið Að byggja upp seiglu haldið fyrir karla. Námskeiðið er 6 skipta námskeið, 90 mínútur í senn og er líka áfalla- og kynjamiðað. Þýðing á efninu fékk styrk frá Landsbankanum og Landsvirkjun.
Verkefnisstjórn var í höndum Kristínar I. Pálsdóttur og Guðrún Ebba Ólafsdóttir hafði veg og vanda af þýðingu, aðlögun og þróun námsefnisins. Hún var jafnframt leiðbeinandi á öllum námskeiðunum.
Einnig var haldið námskeið fyrir alla starfsmenn Hlaðgerðarkots um nálgun Rótarinnar á vímuefnavanda og áfalla- og kynjamiðaða nálgun. Ráðgjafi frá Hlaðgerðarkoti er alltaf viðstaddur á námskeiðunum.
Þjónustukönnun um námskeiðin var lögð fyrir þátttakendur á seinna kvennanámskeiðinu og á karlanámskeiðinu og hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum þeirra. (more…)

Nýtt ráð 2021-2022

Nýtt ráð 2021-2022

Aðalfundur Rótarinnar var haldinn 2. júní 2021 og fóru þar fram hefðbundin aðalfundarstörf. Guðrún Ebba Ólafsdóttir var valinn fundarstjóri, Kristín I. Pálsdóttir flutti skýrslu ráðsins og Guðrún Magnúsdóttir kynnti reikninga félagsins. Þá var starfsáætlun næsta starfsárs kynnt.

Nýtt ráð félagsins hélt svo sinn fyrsta fund hinn 15. júní og skipti með sér verkum þannig að Kristín I. Pálsdóttir var valin talskona, Þórunn Sif Böðvarsdóttir ritari og Elín Bára Lúthersdóttir gjaldkeri. Aðrar í ráðinu eru Anna Daníelsdóttir, Elísabet Brynjarsdóttir, Fanney Svansdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Helga Baldvins Bjargardóttir og Sara Stef. Hildardóttir. Í vararáð voru kosnar: Guðbjörg Thoroddsen, Sjöfn Kristjánsdóttir og Snæfríður Jóhannesdóttir og skoðunaraðili reikninga er Auður Önnu Magnúsdóttir.

Nokkrar lagabreytingar voru samþykktar á aðalfundinum og sú helsta að nafni félagsins var breytt og heitir nú Rótin – Félag um velferð og lífsgæði kvenna. Allar lagabreytingar sem lagðar voru til fyrir aðalfund voru samþykktar og má sjá þær hér:

TILLÖGUR UM LAGABREYTINGAR

Nafn félagsins – Tillaga um breytingu á 1. gr:

Núgildandi grein:

Félagið heitir Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa. Lögheimili og varnarþing þess eru í Reykjavík.

Verði svona:

Félagið heitir Rótin – félag um velferð og lífsgæði kvenna. Lögheimili og varnarþing þess er í Reykjavík.

Markmið félagsins – Tillaga um breytingu á 2. gr.

Núgildandi grein:

Markmið Rótarinnar eru að halda uppi umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og beita sér fyrir faglegri stefnumótun í málaflokknum. Félagið vill stuðla að því að konum standi til boða áfalla- og kynjamiðuð þjónusta og að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.

Verði svona:

Markmið Rótarinnar er:

  1. Að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra.
  2. Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun um skaðaminnkun, mannréttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.
  3. Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða.
  4. Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.
  5. Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Ráð félagsins – Tillaga um breytingu á 6. gr.:

Núgildandi grein:

Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs. Á aðalfundi skulu kosnir níu félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir þrír varafulltrúar í ráð félagsins. Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins. Ráðið skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Skipaður skal ritari og gjaldkeri félagsins. Ráðið skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi;

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð
  6. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
  7. Ákvörðun félagsgjalda.
  8. Lagabreytingar
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Verði svona:

Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs. Á aðalfundi skulu kosnir níu félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir þrír varafulltrúar í ráð félagsins. Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins. Ráðið skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Skipaðar skulu talskona, ritari og gjaldkeri félagsins. Talskona, ritari, gjaldkeri og/eða starfskona mynda framkvæmdaráð ráðsins. Ráð Rótarinnar samþykkir verkefni og umboð framkvæmdaráðsins. Ráð Rótarinnar skipar þrjár konur í framkvæmdahóp/ráð Konukots, tvær komi úr ráðinu en þriðja sé fagaðili sem ekki situr í ráðinu. Ráð Rótarinnar skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi;

  1. Fundur settur
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá
  5. Kosning á skoðunaraðila reikninga
  6. Ákvörðun félagsgjalda
  7. Lagabreytingar
  8. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár
  10. Önnur mál

Reikningsár og félagsgjöld – Tillaga um breytingu á 7. gr.:

Núgildandi grein:

7.gr.

Reikningsár félagsins er 1. maí til 30. apríl. Á aðalfundi skal kjósa einn skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins leggur fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins.

Verði svona:

Reikningsár félagsins er 1. janúar til 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa einn skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins tekur ákvörðun um hvort leggja skuli fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins, valfrjáls eða ekki.