Vorið 2021 hélt Rótin þrjú námskeið í Hlaðgerðarkoti, tvö fyrir konur og eitt fyrir karla. Gott samstarf hefur verið með félaginu við Hlaðgerðarkot og Helgu Lind Pálsdóttur, forstöðukonu, og starfsfólk í Hlaðgerðarkoti um verkefnið.
Um er að ræða námskeiðið Konur finna styrk sinn, sem haldið var tvisvar sem er þýtt gagnreynt, áfalla- og kynjamiðað námskeið frá dr. Stephanie Covington. Námskeiðið er 90-120 mínútur í hvert sinn í 10 skipti. Góði hirðirinn styrkti verkefnið með veglegum styrk í desember 2020.
Hins vegar var námskeiðið Að byggja upp seiglu haldið fyrir karla. Námskeiðið er 6 skipta námskeið, 90 mínútur í senn og er líka áfalla- og kynjamiðað. Þýðing á efninu fékk styrk frá Landsbankanum og Landsvirkjun.
Verkefnisstjórn var í höndum Kristínar I. Pálsdóttur og Guðrún Ebba Ólafsdóttir hafði veg og vanda af þýðingu, aðlögun og þróun námsefnisins. Hún var jafnframt leiðbeinandi á öllum námskeiðunum.
Einnig var haldið námskeið fyrir alla starfsmenn Hlaðgerðarkots um nálgun Rótarinnar á vímuefnavanda og áfalla- og kynjamiðaða nálgun. Ráðgjafi frá Hlaðgerðarkoti er alltaf viðstaddur á námskeiðunum.
Þjónustukönnun um námskeiðin var lögð fyrir þátttakendur á seinna kvennanámskeiðinu og á karlanámskeiðinu og hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum þeirra.
Tekið skal fram að mismunandi fyrirkomulag var á námskeiðunum. Allar konur sem koma til meðferðar í Hlaðgerðarkoti fengu boð um að taka þátt í námskeiðinu og geta þær komið inn í námskeiðið fljótlega eftir að meðferð hefst óháð því hvenær námskeið hefst. Sumar konurnar sátu því hluta af báðum námskeiðunum. Karlarnir sem tóku þátt voru hins vegar valdir til þátttöku og enginn nýr kom inn eftir að námskeiðið hófst.
Fimm karlar, allir sem kláruðu námskeiðið, og fimm konur svöruðu könnununum. Fleiri konur sátu þó allt námskeiðið eða hluta af því, sumar tóku þátt í fjögur skipti og aðrar upp í fjórtán skipti.

Konur finna styrk sinn

Könnunin fyrir Konur finna styrk sinn var þrískipt. Í fyrri hlutunum tveimur voru konurnar sem tóku þátt spurðar um ánægju með námskeiðið annars vegar og ánægju með námsefnið hins vegar og svöruðu þær spurningum með því að gera hring um númer á skalanum 0-4 þar sem 0 er alls ekki sammála, 1 svolítið sammála, 2 nokkuð sammála, 3 frekar sammála og 4 mjög mikið sammála. Í síðasta hlutanum voru opnar spurningar um námskeiðið þar sem konurnar höfðu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri.
Óhætt að segja að niðurstöðurnar bera vitni um mikla ánægju þátttakendanna og í fyrsta hlutanum er nánast fullt hús stiga. Annar hlutinn er aðeins lægri en meðaltalið er samt vel yfir 9. Konurnar lýsa allar ánægju með námskeiðið, leiðbeinandinn fær  mikið lof og þær lýsa allar áhuga á því að taka þátt í hópastarfi hjá Rótinni.

Fyrsti hluti könnunarinnar, ánægja með námskeið. Myndin sýnir ánægju meðaleinkunn frá öllum þátttakendum á skalanum 1-10.


Annar hluti könnunarinnar, ánægja með námsefni. Myndin sýnir meðaleinkunn frá öllum þátttakendum á skalanum 1-10.


Síðasti hluti könnunarinnar eru opnar spurningar um námskeiðið þar sem konurnar höfðu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri um hvað gagnaðist þeim best, hverju mætti breyta eða bæta, hvernig leiðbeinandi stóð sig, hvort þær vildu koma einhverju á framfæri og hvort þær hefðu áhuga á þátttöku í stuðningshópastarfi Rótarinnar í framhaldi af námskeiðinu.
Aðspurðar um gagnlegasta hluta námskeiðsins sagði ein „allt mjög gagnlegt. Ef ég ætti að velja eitt þá væri það að stunda kynlíf edrú. Og minn réttur til þess og mín mörk.“ Önnur skrifaði að það sem henni hafi þótt gagnlegast hefði verið að „finna rótina að því hver ég er hvernig hlutverk ég hef alist upp við og fests í. Að geta skapað nýja mig.“ Sú þriðja talaði um að henni hefði þótt „rosalega gott að vinna með að bæta líkamsvitund, hugsa jákvætt til líkama síns. Einnig mjög gagnleg um kynlíf í tengslum við neyslu“ og sú fjórða talaði um að hún hefði fengið betri vitund um hvenær hún væri í hættu og lært bjargráð til að vinna með „atburði og tilfinningar fortíðar“.
Spurðar að því hverju mætti breyta eða bæta á námskeiðinu sögðust þær ekki hafa breytingatillögur nema ein kom með tillögur um upplýsingar fyrir verkefnahefti.
Spurðar hvernig leiðbeinandi stóð sig voru svörin öll á jákvæðum nótum: „Hún stóð sig mjög vel“, „Mjög vel. Alúðleg og indæl“, „Alveg til fyrirmyndar“ og „Bara mjög vel. Kom öllu vel og skýrt frá sér.“
Spurðar að því hvort þær vilji koma einhverju á framfæri er þakklæti flestum í huga: „Nei, þessi námskeið eru frábær“, „Kærar þökkum fyrir tækifærið að fá að taka þátt“ og „Bara þakklæti og hlýhug til ykkar í Rótinni. Takk fyrir mig.“ Allar svara þær játandi að þær hafi áhuga á að halda áfram í stuðningshópastarfi Rótarinnar.
Niðurstaðan er sérstaklega ánægjuleg með tilliti til þess hversu krefjandi námskeiðið er fyrir konurnar.

Að byggja upp seiglu

Fimm karlar kláruðu námskeiðið og skiluðu allir inn matsblaði. Námskeiðið er styttra en námskeiðið sem konurnar tóku þátt í og spurningalistinn er líka styttri og skiptist í spurningar um ánægju með námskeiðið annars vegar og hins vegar opnar spurningar þar sem þátttakendur svöruðu því hvað gagnaðist þeim mest, hverju mætti breyta eða bæta, hvernig leiðbeinandi stóð sig og hvort þær vildu koma einhverju á framfæri.
Sama er uppi á teningnum hjá þátttakendum á námskeiði fyrir karla, almennt er mikil ánægja með námskeiðið, ánægja með námskeiðið í heild, þeir telja sig hafa haft mikið gagn af námskeiðinu, myndu mæla með því og lýsa mikilli ánægju með innihald þess eins og sjá má á eftirfarandi grafi.

Fyrsti hluti könnunarinnar, ánægja með námskeið. Myndin sýnir ánægju meðaleinkunn frá öllum þátttakendum á skalanum 1-10.


Þegar spurt var hverju mætti breyta eða bæta er nefnt að námskeiðið mætti vera einstaklings-miðaðra og annar að hann hafi haldið að farið yrði „meira í áföllin sjálf en skiljanlega kannski erfitt að gera það í hóp“. Þriðji nefnir hraðann á námskeiðinu og sá fjórði kemur með þá tillögu að hópurinn „ætti að hafa merktan tíma í stundaskrá þar sem grúbban hittist og vinnur saman verkefni“ og að það eigi að vera skyldumæting. Sá fimmti telur mikilvægt að sami hópur fylgist að allt námskeiðið: „Ekki opna hópinn fyrir nýjum meðferðarfélögum, hafa lokaðan hóp sem er saman frá upphafi til enda.“
Leiðbeinandi námskeiðsins fær lofsamlegar umsagnir og allir segja að hún hafi staðið sig mjög vel, ekki síst þar sem þetta var fyrsti karlahópurinn sem hún leiðbeindi á Rótarnámskeiðum. Einn bætir við að hún sé „yndisleg kona!“
Að lokum fengu þátttakendur tækifæri til að koma öðru á framfæri og nýttu þrír þátttakendur það tækifæri. Einn sagði að námskeiðið kæmi ekki í staðinn fyrir einstaklings samtalsmeðferð og annar að námskeiðið hefði verið fínt í alla staði. Þriðja og síðasta var þakklæti efst í huga: „Þakklæti. Þakklæti fyrir að víkka sjóndeildarhringinn hjá mér og opna augun mín fyrir því að það var hellingur af óunnum málum og áföllum sem ég var áður blindur fyrir.“
Við sem stöndum að námskeiðinu getum tekið undir það að þetta verkefni er svo sannarlega þakklátt og gefandi að fá að vinna með því hugrakka fólki sem tók þátt í námskeiðunum.

Um námskeiðin

Um Konur finna styrk sinn

Námskeiðið Konur finna styrk sinn (e. Helping women recover) er leiðsagnarhópur fyrir konur þar sem lögð er áhersla á að vinna með rætur áfengis- og vímuefnavanda og annað andstreymi í lífi kvenna. Unnið er út frá því að vímuefnanotkun sé ekki einangrað vandamál heldur eigi sér m.a. rætur í áföllum. Tekið er á þeim fjölþætta vanda sem konur með sögu um vímuefnavanda glíma við. Unnið er með efni úr smiðju dr. Stephanie Covington sem er frumkvöðull í vinnu með vímuefnavanda kvenna með áfallasögu. Á milli tíma er verkefnavinna sem þátttakendur eru hvattar til að vinna svo að þær fái sem mest út úr námskeiðinu og fá þátttakendur veglega vinnubók.
Fyrir hverjar
Námskeiðið er ætlað konum sem eiga sögu um vímuefnavanda. Það hentar jafnt konum sem hafa ekki notað vímuefni í langan tíma sem og konum sem eru að hefja vinnu við að bæta lífsgæði sín. Hámarksfjöldi er 10 þátttakendur. Hópurinn hittist 10 sinnum.
Markmið
Markmið námskeiðsins er að konur öðlist aukna sjálfsþekkingu sem einstaklingar en skilgreini sig ekki í gegnum sambönd eða stöðu sína. Einnig að þær átti sig á styrkleikum sínum og geti byggt framtíð sína og betra líf á þeim.
Innihald
Aðaláherslan er á fjóra þætti: Sjálfsmynd, samskipti, kynverund og andlega heilsu. Innan þessara þátta eru undirflokkar þar sem farið er ítarlega í atriði sem eru mikilvæg til að auka lífsgæði og kynntar nýjar aðferðir sem stuðla að þeim. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim, hvernig þær komust af og til hvaða bjargráða greip hver og ein þeirra.
Samþykktir fyrir námskeið og hópa Rótarinnar gilda á námskeiðinu eins og í öðru starfi félagsins.

Um námskeið fyrir karla

Að byggja upp seiglu. Stutt inngrip fyrir karla

Námskeiðinu er áfallainngrip fyrir karla sem ætlað að hjálpa þeim hefja batagöngu af afleiðingum áfalla og finna leiðir til halda áfram að þroskast, byggja upp seiglu, öðlast meiri lífsánægju og að eiga í innilegri og innihaldsríkari samböndum. Námskeiðið heitir Exploring Trauma á ensku og höfundar þess eru Dr. Stephanie Covington og Roberto A. Rodriquez. Námskeiðið er í sex skipti í 90 mínútur í senn.
Efnið sem unnið er með er:

  • Áfallaferlið
  • ACE-spurningalistinn
  • Vald og misnotkun
  • Skynörvun og sjálfsefjun
  • Heilbrigð sambönd

Mikil áhersla er á hæfni til skynörvunar og jarðtengingar og efnið er sérstaklega aðlagað fyrir stutt inngrip í vímuefnameðferð, fangelsum og öðrum réttargæsluúrræðum.
Áhersla er á þrjú lykilatriði sem nauðsynleg eru bæði fyrir starfsfólk og þá sem þiggja þjónustu: skilning á hvað tráma, áföll, eru, hvernig áfallaferlið er og áhrif þess á bæði líðan (hugsanir, tilfinningar, tiltrú og gildi) og breytni (hegðun og sambönd). Með auknum skilningi á áhrifum áfalla er að koma í upp á yfirborðið aukinn skilningur á áhrifum áfalla á karla. Þar á meðal er þögnin um valdbeitingu karla, áhrif félagsmótunar á viðbrögð karla við misnotkun, hættuna á því að fórnarlömb verði gerendur og þörfina á því að skilja ótta karla og skömm.
Efnið er líka hentugt til að þjálfa starfsfólk um hvernig karlmennska og áföll tengjast.
Dagskrá tímanna:

  • Hver tími hefst á upprifjun á næsta tíma á undan.
  • Hver tími hefst á slökun (e. grounding tecnique)
  • Hver tími hefst á æfingu sem byggir upp traust og felur í sér að deila einhverju jákvæðu
  • Hver tími endar á slökun
  • Hver tími endar á að verkefni er úthlutað sem á að vinna fyrir næsta tíma
  • Hver tími felur í sér að þeir sem vilja gera jógaæfingu (um er að ræða æfingar sem tengjast ákveðnum þáttum bata eftir áföll)

Sjá nánar: https://www.stephaniecovington.com/exploring-trauma.php.

 

 

 

 

 

Share This