MARISSA – Fréttabréf maí 2021

MARISSA – Fréttabréf maí 2021

MARISSA: Evrópskt samstarfsverkefni um ofbeldi í nánum samböndum og áfengis- og vímuefnavanda

Fréttabréf – Nóvember 2020-maí 2021

Fundahald fyrir MARISSA verkefnið átti sér áfram stað á netinu á öðru hálfárs tímabili verkefnisins vegan þeirra ferðatakmarkanna í stað staðbundinna funda vegna þeirra ferðatakmarkana sem Covid-19 hefur valdið. Þrátt fyrir það hefur samstarfið gengið vel og fyrirhugaðir verkþættir gengið eftir. Til dæmis má nefna að rýnihópar komu saman í Grikklandi, Eistlandi og á Íslandi. Þar að auki unnu þátttakendur að því að fara yfir fyrirliggjandi gögn og að greina þá þjónustu sem nú eru í boði fyrir fólk sem orðið hefur fyrir ofbeldi í nánum samböndum og fólk með áfengis- og vímuefnavanda. Þá hefur einnig verið unnið að þarfagreiningarskýrslu, handbók fyrir leiðbeinendur og að þróun vefs verkefnisins. (more…)

Aðalfundur 2021 haldinn 2. júní

Aðalfundur 2021 haldinn 2. júní

Aðalfundur Rótarinnar 2021 verður haldinn 2. júní kl. 20:00, í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14.
Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir varafulltrúar í ráðið og skoðunarkona reikninga. Athygli er vakin á tillögum um lagabreytingar sem fylgja fundarboðinu en tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.
Við hvetjum áhugasamar félagskonur til að bjóða sig fram í ráð eða vararáð með því að senda póst á netfangið rotin@rotin.is. Frekari upplýsingar hjá Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu, í sama netfangi eða í síma 793-0090.

Dagskrá aðalfundur:
Fundur settur.
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
Ákvörðun félagsgjalda.
Lagabreytingar
Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
Kosning á skoðunaraðila reikninga.
Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
Önnur mál.
Tillögur um lagabreytingar skulu berast eigi síðar en 27. maí 2021.

TILLÖGUR UM LAGABREYTINGAR

Nafn félagsins – Tillaga um breytingu á 1. gr:

Núgildandi grein:

Félagið heitir Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa. Lögheimili og varnarþing þess eru í Reykjavík.

Verði svona:

Félagið heitir Rótin – félag um velferð og lífsgæði kvenna. Lögheimili og varnarþing þess er í Reykjavík.

Markmið félagsins – Tillaga um breytingu á 2. gr.

Núgildandi grein:

Markmið Rótarinnar eru að halda uppi umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og beita sér fyrir faglegri stefnumótun í málaflokknum. Félagið vill stuðla að því að konum standi til boða áfalla- og kynjamiðuð þjónusta og að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.

Verði svona:

Markmið Rótarinnar er:

  1. Að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra.
  2. Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun um skaðaminnkun, mannréttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.
  3. Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða.
  4. Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.
  5. Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Ráð félagsins – Tillaga um breytingu á 6. gr.:

Núgildandi grein:

Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs. Á aðalfundi skulu kosnir níu félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir þrír varafulltrúar í ráð félagsins. Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins. Ráðið skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Skipaður skal ritari og gjaldkeri félagsins. Ráðið skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi;

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð
  6. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
  7. Ákvörðun félagsgjalda.
  8. Lagabreytingar
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Verði svona:

Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs. Á aðalfundi skulu kosnir níu félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir þrír varafulltrúar í ráð félagsins. Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins. Ráðið skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Skipaðar skulu talskona, ritari og gjaldkeri félagsins. Talskona, ritari, gjaldkeri og/eða starfskona mynda framkvæmdaráð ráðsins. Ráð Rótarinnar samþykkir verkefni og umboð framkvæmdaráðsins. Ráð Rótarinnar skipar þrjár konur í framkvæmdahóp/ráð Konukots, tvær komi úr ráðinu en þriðja sé fagaðili sem ekki situr í ráðinu. Ráð Rótarinnar skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi;

  1. Fundur settur
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá
  5. Kosning á skoðunaraðila reikninga
  6. Ákvörðun félagsgjalda
  7. Lagabreytingar
  8. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár
  10. Önnur mál

Reikningsár og félagsgjöld – Tillaga um breytingu á 7. gr.:

Núgildandi grein:

7.gr.

Reikningsár félagsins er 1. maí til 30. apríl. Á aðalfundi skal kjósa einn skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins leggur fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins.

Verði svona:

Reikningsár félagsins er 1. janúar til 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa einn skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins tekur ákvörðun um hvort leggja skuli fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins, valfrjáls eða ekki.

Rótin hlaut Mannrréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar

Rótin hlaut Mannrréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar

Hinn 17. maí 2021 afhenti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Rótinni Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2021 í tengslum við  mannréttindadag Reykjavíkurborgar. Þetta var í fjórtánda sinn en þau eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og mikilvægi samfélags þar sem mannréttindi eru virt. Handhafi mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar hlýtur að launum kr. 600.000,-.

Í umsögn  valnefndar kemur fram að „félagið hefur haft mikil áhrif á umræðu með uppbyggilegri og rökstuddri gagnrýni innan málaflokksins, ekki síst á staðnað meðferðarkerfi. Félagið hefur hvatt hið opinbera til nútímalegrar stefnumótunar og aukins gæðaeftirlits og skrifað fjölda erinda til stjórnvalda, eftirlitsaðila og annarra sem koma að þessum málaflokki ”. Þá segir að félagið hafi unnið ötullega að mannréttindum kvenna með vímuefnavanda og/eða áfallasögu.

Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar, sagði við afhendingu verðlaunanna að það væri mikilvægt að fá þessa viðurkenningu. „Það er mikilvægt að viðurkenna mannréttindi þessa jaðarsetta hóps og vekja athygli á málstað og starfsemi Rótarinnar“.

Yfirlýsing vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands

Yfirlýsing vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands

Yfirlýsing frá Rótinni vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands

Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa telur gríðarlega mikilvægt að tryggt sé að meðferðarheimilið Laugalands starfi áfram á sömu forsendum og nú er, það er að segja fyrir stúlkur og á forsendum kenninga um kynjaskipta meðferð. Í janúar bárust af því fréttir að loka ætti heimilinu og ekki er ljóst hver staða málsins er nú.[1]
Ein grunnforsenda þess að geta unnið með stúlkur sem glíma við áföll og vímuefnavanda er að meðferðin sé örugg og þær upplifi traust, virðingu og stuðning. Þá þarf meðferðin að taka mið að þeirra þörfum og ótækt er að nota meðferðarefni sem samið er fyrir karla og drengi eins og því miður staðan er víða í dag.
Þó að unglingsárin geti verið mikil áskorun fyrir alla er mikilvægt að huga að kynjamun í reynslu þeirra og áskorunum í úrræðum sem þeim eru ætluð. Það breytir miklu um lífsferil okkar hvers kyns við fæðumst og það hefur líka mikil áhrif á þróun vímuefnavanda. Það er því nauðsynlegt að þekking og leiðbeiningar um bestu meðferð fyrir konur og stúlkur sé höfð að leiðarljósi í meðferðarstarfi fyrir þær.
Unglingsstúlkum mæta margar áskoranir á þroskabrautinni og samkvæmt kenningum í þroskasálfræði verður mikilvæg breyting í átt að sjálfstæði, aðskilnaði og þróunar sjálfsins á unglingsárum. Þó er það þannig að samfélagslegur þrýstingur er hindrun á leið stúlkna til sjálfsþekkingar og -tjáningar. Stúlkum er sniðinn mjög þröngur kvenímyndarstakkur sem veitir þeim ekki mikið svigrúm til að finna eigin rödd og standa með sjálfum sér.
Stúlkur verða illa fyrir barðinu á kynlífsvæðingu fjölmiðla og væntingum um „kvenlega“ hegðun þar sem áherslan er á útlit og kynþokka. Frá unga aldri geta þessi skilaboð skekkt mynd þeirra af því hvað í því fellst að vera kona. Þeim er kennt frá unga aldri að vera fallegar, mjóar og kynþokkafullar á meðan drengjum er kennt að dæma þær eftir þessum þröngu viðmiðum sem eru tilbúin, óraunhæf og grunnhyggin.
Átta konur stigu nýlega fram og lýstu ofbeldi og illri meðferð sem þær sættu af hálfu fyrrverandi rekstraraðila Laugalands og er það nú til rannsóknar. Rótin telur að þessar hugrökku konur eigi það inni hjá Barnaverndarstofu og félags- og barnamálaráðherra að þarna verði áfram rekið meðferðarheimili sem er eingöngu fyrir stúlkur og þeim tryggt öruggt og traust umhverfi.

f.h. ráðs Rótarinnar
Kristín I. Pálsdóttir,
talskona og framkvæmdastjóri

Greinargerð með yfirlýsingu Rótarinnar vegna meðferðarheimilisins Laugalands
Rök með kynjaskiptri meðferð

Ungar stúlkur og vímuefnavandi

Í svari við fyrirspurn Rótarinnar, árið 2015, kemur eftirfarandi fram um bakgrunn þeirra barna sem koma til meðferðar á stofnunum BVS:

Unglingar sem koma til meðferðar á stofnunum Barnaverndarstofu eiga flestir við margþættan vanda að stríða. Meirihluti skjólstæðinga meðferðarheimilanna hefur neytt áfengis eða annarra vímuefna en eiga jafnframt við að stríða hegðunar­erfiðleika, tilfinningalegan vanda, þroskafrávik og jafnvel geðraskanir. Afar fáir greinast hins vegar með fíknisjúkdóm á þessum aldri og heyrir það til undan­tekninga. Stór hluti þessara barna á sögu um erfiðar heimilisaðstæður, endurtekin áföll, námserfiðleika og erfiðleika í skólagöngu, neikvæðan félagsskap og marg­víslega íhlutun hjálparkerfa samfélagsins frá unga aldri.

(more…)

Merki Konukots og Facebook-síða

Merki Konukots og Facebook-síða

Á haustmisseri 2020 átti Rótin samstarf við Listaháskóla Íslands sem fólst í því að efnt var til samkeppni á meðal nemenda á 2. ári í grafískri hönnun um merki fyrir Konukot. Konukot hefur ekki átt eigið merki og var eitt af markmiðunum með verkefninu að gera Konukot aðgengilegra fyrir gesti og velunnara á samfélagsmiðlum og  auka upplýsingaflæði um starfið til almennings. (more…)

Meðferðarheimili BVS – Yfirlýsing

Meðferðarheimili BVS – Yfirlýsing

Yfirlýsing frá Rótinni, félagi um konur, áföll og vímugjafa, vegna umfjöllunar Stundarinnar um meðferðarheimili Barnaverndarstofu

Nokkrar hugrakkar konur stíga fram og segja reynslu sína af meðferðarheimilum Barnaverndarstofu í Stundinni 29. janúar sl.

Rótin krefst þess að gerðar séu upp þær ófaglegu og oft ofbeldisfullu aðferðir sem liðist hafa í meðferð bæði barna og fullorðinna. Litlar úttektir hafa verið gerðar á meðferðarkerfinu þar sem talað er við fólkið sem var í meðferð og t.d. var bara talað við yfirmenn í úttekt Embættis landlæknis á þremur meðferðarstöðum árið 2016 þar sem þær fengu allar falleinkunn.

Rótin sendi Landlækni erindi vegna yfirlýsingar frá meirihluta starfsfólks SÁÁ 22. júlí sl. „um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum“ með ósk um að heilbrigðisráðuneyti og Embætti landlæknis skoði málið. Einnig óskar félagið eftir því að áhrif þessarar ógnarstjórnar á þá sem sóttu sér meðferðar hjá SÁÁ, ekki síst á barnsaldri, verði sérstaklega skoðuð. (more…)