Fjórða fréttabréf MARISSA-verkefnisins

Fjórða fréttabréf MARISSA-verkefnisins

MARISSA-fréttir

Fréttabréf janúar til maí 2022

Á síðasta misseri MARISSA-verkefnisins var unnið með greiningar- og skimunar-verkfæri í Grikklandi, Eistlandi og á Íslandi í samstarfi við fagfólk í úrræðum fyrir folk með vímuefnavanda og þjónustu vegan ofbeldis í nánum samböndum. Prófunar tímabilinu lauk í mars 2022 og endurgjöfin sem fékkst var nýtt til að búa til heildræn verkfæri sem síðan fengu jákvæða umsögn.

MARISSA-verkefnið fékk, og heldur áfram að fá, talsverða athygli í Evrópu. Afurðir og niðurstöður MARISSA-verkefnisins voru kynntar á eftirfarandi Evrópsku ráðstefnum:

  • Á “3rd Global Conference on Women’s Studies” sem var haldin 27/02/22 í Rotterdam, Hollandi
  • Á “The FASA Conference. Free from Addiction, Safe from Abuse”sem haldin var 30/03/22, í Reykjavík, Íslandi
  • Á “7th International Conference on New Findings on Humanities and Social Sciences (HSCONF)” sem haldin var 24/04/22 í Barcelona, Spáni

Lokaráðstefna í Heraklion (Krít)

Maí var lokamánuður MARISSA-verkefnisins og verkefnisstjórnin hélt lokafund sinn í Heraklíon .

Fagfólk og verkefnisstjórar háskólans í Tartu (Eistlandi), Women Support and Information Centre (Eistlandi), Rótin (Ísland), RIKK- (Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum HÍ), Háskólinn á Krít (Grikklandi), og  Union of Women Associations of Heraklion Prefecture (Grikkland) voru viðstaddir fundinn sem stóð í tvo daga.

Á lokaráðstefnunni kynntu allir fulltrúar afurðir verkefnisins og greindu samslátt ofbeldis í nánum samböndum og vímuefnavanda með fræða- og fagfólki á Krít.

Í MARISSA-verkefninu hófst vegferð þar sem fagfólk sem vinnur í úrræðum við vímuefnavanda og fagfólk sem vinnur með ofbeldi í nánum samböndum tekur höndum saman til hagsbóta fyrir konur sem eru þolendur ofbeldis. Auka þarf vitund, þjálfun og stuðla að kerfisbreytingum til að samþætta ferla og viðbrögð.

 

Fylgdu okkur á Facebook: MarissaProject

 

Innihald þessa fréttabréfs er eingöngu á ábyrgð MARISSA-verkefnisins og endurspeglar ekki endilega sjónarmið Evrópusambandsins.

Hér má nálgast fréttabréfið á ensku í PDF-skjali. 

 

Nýtt ráð Rótarinnar

Nýtt ráð Rótarinnar

Aðalfundur Rótarinnar var haldinn 30. maí 2022 og fóru þar fram hefðbundin aðalfundarstörf. Brynhildur Heiðar- Ómarsdóttir  fundarstjóri, Kristín I. Pálsdóttir flutti skýrslu ráðsins og kynnti reikninga félagsins þar sem gjaldkeri boðaði forföll. Þá var starfsáætlun næsta starfsárs kynnt.

Nýtt ráð félagsins hélt svo sinn fyrsta fund samdægurs og skipti með sér verkum þannig að Kristín I. Pálsdóttir var valin talskona, Marta Sigríður Pétursdóttir ritari og Sara Stef gjaldkeri. Aðrar í ráðinu eru Helga Baldvins Bjargardóttir, og Þórunn Sif Böðvarsdóttir. Í vararáð voru kosnar: Anna Daníelsdóttir og Elísabet Brynjarsdóttir og skoðunaraðili reikninga er Auður Önnu Magnúsdóttir.

Nokkrar lagabreytingar voru samþykktar á aðalfundinum og sú helsta að fækkað var í ráði félagsins úr níu í fimm og vararáðskonum fækkar úr þremur í tvær. Einnig var framkvæmdaráð tekið út úr lögunum. Í 4. gr. var talað um talskonu sem ‘hann’ og var því breytt í ‘hún’. Einnig var röð dagskrárliða í dagskrá aðalfundar breytt þannig að lagabreytingar voru færðar á undan kosningu í ráð.

Samþykkt var á fundinum að fela ráði Rótarinnar að óska eftir aðild að Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Að lokum voru Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur þökkuð vel unnin störf fyrir félagið en hún hættir nú í ráðinu eftir að hafa setið í því frá stofnun Rótarinnar. Guðrún Ebba var ekki á fundinum en fékk sendan blómvönd frá félaginu.

Ársskýrslan er aðgengileg í PDF-skjali hér.

Hvað er fíkn? – Erindi dr. Lance Dodes

Hvað er fíkn? – Erindi dr. Lance Dodes

Eftir aðalfund Rótarinnar, 30. maí, heldur dr. Lance Dodes erindið Hvað er fíkn? Erindið hefst kl. 19:00 og er flutt í gegnum fjarfundarbúnað. eftir erindið verða umræður þar sem dr. Dodes svarar spurningum úr sal..

Fyrirlesturinn er öllum opinn og gjaldfrjáls og er haldinn að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík eins og aðalfundurinn.

Dr. Lance Dodes er geðlæknir og sálgreinandi sem stjórnaði rannsóknum við Boston Psychoanalytic Society and Institute, var dósent í klínískum geðlækningum við Harvard Medical School og starfaði við New Center for Psychoanalysis, Los Angeles. Hann var forstöðumaður fíknimeðferðardeildar McLean-spítala, sem er hluti af Harvard-háskóla, forstöðumaður áfengismeðferðardeildar við Spaulding Rehabilitation Hospital (sem nú er hluti af Massachusetts General Hospital) og forstöðumaður Boston Center for Problem Gambling. Hann hefur skrifað fjölda greina um vímuefnavanda og fíknihegðun og er höfundur bókanna The Heart of Addiction (HarperCollins, 2002), Breaking Addiction: A 7-Step Handbook for Ending Any Addiction (HarperColliins, 2011) og The Sober Truth: Debunking the Bad Science Behind 12-Step Programs and the Rehab Industry. Sjá nánar á vef dr. Dodes. Greinin Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja er aðgengileg í íslenskri þýðingu á vef Rótarinnar.

Í erindinu fjallar dr. Dodes um kenningar sínar um fíkn en hann hefur þróað eigin aðferðir til að vinna með fólki með fíknivanda. Hann telur að fíknihegðun hafi lengi verið misskilda, bæði í menningunni og í meðferðarstarfi. Fíknihvatar séu næstum alltaf viðbragð við tilfinningaálagi. Sambandsslit, ótti við átök, uppgjöf, niðurlæging, sorg og aðrir sálfræðilega mikilvægir þættir hafa allir forspárgildi fyrir fíknihegðun hjá fólki. Þess vegna sé best að skilja fíkn og meðhöndla hana með aðferðum sálgreiningar.
Erindið er aðgengilegt á Youtube.
 

Aðalfundur Rótarinnar 2022

Aðalfundur Rótarinnar 2022

Tilkynning um aðalfund Rótarinnar 2022

Aðalfundur félagsins verður haldinn 30. maí kl.17.30 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík. Fundarstjóri er Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir. Að loknum aðalfundarstörfum heldur dr. Lance Dodes erindið Hvað er fíkn?, í gegnum fjarfundarbúnað, og svarar spurningum úr sal.

Ársskýrsla ráðsins er aðgengileg í PDF-skjali hér. 

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir varafulltrúar í ráðið og skoðunarkona reikninga. Athygli er vakin á tillögum um lagabreytingar sem fylgja fundarboðinu en tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.

Við hvetjum áhugasamar félagskonur til að bjóða sig fram í ráð eða vararáð með því að senda póst á netfangið rotin@rotin.is. Frekari upplýsingar fást hjá Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu, í sama netfangi eða í síma 793-0090.

Dagskrá aðalfundur:

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  6. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
  7. Ákvörðun félagsgjalda.
  8. Lagabreytingar
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Viðburðurinn er á Facebook!

Tillögur um lagabreytingar

Ráð félagsins leggur fram eftirfarandi tillögur um lagabreytingar.

Lögin í heild sinni er að finna á vef félagsins: https://www.rotin.is/um-rotina/.

Tillaga um breytingu á 4. gr.

Núgildandi grein:

Framlög til félagsins eru öllum frjáls. Heimilt er að leggja fram stuðning og styrki til samtakanna í öðru formi en peningum og skal þess þá sérstaklega getið. Félaginu er heimilt en ekki skylt að taka við fjárframlögum, gjöfum, styrkjum eða stuðningi sem bundin er kvöðum.

Ákvörðun um móttöku skv. ákvæði þessu skal tekin af talskonu ráðsins en hann getur jafnframt ákveðið að eigin frumkvæði að fela ráði samtakanna að taka ákvörðun um móttöku í einstaka tilvikum.

Verði svona (án leturbreytinga):

Framlög til félagsins eru öllum frjáls. Heimilt er að leggja fram stuðning og styrki til samtakanna í öðru formi en peningum og skal þess þá sérstaklega getið. Félaginu er heimilt en ekki skylt að taka við fjárframlögum, gjöfum, styrkjum eða stuðningi sem bundin er kvöðum.

Ákvörðun um móttöku skv. ákvæði þessu skal tekin af talskonu ráðsins en hún getur jafnframt ákveðið að eigin frumkvæði að fela ráði samtakanna að taka ákvörðun um móttöku í einstaka tilvikum.

Tillaga um breytingu á 6. gr.

Núgildandi grein:

Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs. Á aðalfundi skulu kosnir níu félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir þrír varafulltrúar í ráð félagsins. Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins. Ráðið skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Skipaðar skulu talskona, ritari og gjaldkeri félagsins. Talskona, ritari, gjaldkeri og/eða starfskona mynda framkvæmdaráð ráðsins. Ráð Rótarinnar samþykkir verkefni og umboð framkvæmdaráðsins. Ráðið skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi;

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  6. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
  7. Ákvörðun félagsgjalda.
  8. Lagabreytingar
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Verði svona (án leturbreytinga):

Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs. Á aðalfundi skulu kosnir fimm félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir tveir varafulltrúar í ráð félagsins. Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallar-markmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins. Ráðið skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Skipaðar skulu talskona, ritari og gjaldkeri félagsins. Ráð Rótarinnar skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi;

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Lagabreytingar
  6. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  7. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
  8. Ákvörðun félagsgjalda.
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Hvað er fíkn? – Erindi Dr. Lance Dodes kl. 19.00

Eftir hefðbundin aðalfundarstörf heldur dr. Lance Dodes erindið Hvað er fíkn? í gegnum fjarfundabúnað og hefst það kl. 19.00. Að loknu erindi svarar hann spurningum úr sal.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og gjaldfrjáls.

Dr. Dodes fjallar um kenningar sínar um fíkn en hann hefur þróað eigin aðferðir til að vinna með fólki með fíknivanda. Hann telur að fíknihegðun hafi lengi verið misskilin, bæði í menningunni og í meðferðarstarfi. Fíknihvatar séu næstum alltaf viðbragð við tilfinningaálagi. Sambandsslit, ótti við átök, uppgjöf, niðurlæging, sorg og aðrir sálfræðilega mikilvægir þættir hafa allir forspárgildi fyrir fíknihegðun hjá fólki. Þess vegna sé best að skilja fíkn og meðhöndla hana með aðferðum sálgreiningar.

Dr. Lance Dodes er geðlæknir og sálgreinandi sem stjórnaði rannsóknum við Boston Psychoanalytic Society and Institute og var dósent í klínískum geðlækningum við Harvard Medical School. Hann starfar nú við New Center for Psychoanalysis (Los Angeles). Hann var forstöðumaður fíknimeðferðardeildar McLean spítala, sem er hluti af Harvard-háskóla, forstöðumaður áfengismeðferðardeildar við Spaulding Rehabilitation Hospital (sem nú er hluti af Massachusetts General Hospital) og forstöðumaður Boston Center for Problem Gambling. Hann hefur skrifað fjölda greina um vímuefnavanda og fíknihegðun og er höfundur bókanna The Heart of Addiction (HarperCollins, 2002), Breaking Addiction: A 7-Step Handbook for Ending Any Addiction (HarperColliins, 2011) og The Sober Truth: Debunking the Bad Science Behind 12-Step Programs and the Rehab Industry.

Handbók um samþættingu kynjasjónarmiða í fíknistefnu

Handbók um samþættingu kynjasjónarmiða í fíknistefnu

Út er komin bókin Samþætting kynjasjónarmiða í fíknistefnu: Forvarnir, meðferð og refsivörslukerfi.
Handbók fyrir sérfræðinga og stefnumótendur, á vegum Pompidou-hóps Evrópuráðsins.
Markmiðið var að skrifa handbók sem inniheldur meginreglur og hagnýt dæmi til leiðsagnar við innleiðingu kynjaðrar stefnu í forvörnum, umönnun og meðferð fólks með vímuefnavanda. Einnig á bókin að vera leiðarvísir fyrir lögreglu og refsivörslukerfi um hagnýtar aðferðir til kynjasamþættingar í þeirra störfum.
Pompidou-hópur Evrópuráðsins hefur gert mannréttindi að meginstefi í fíknistefnu sinni og liður í innleiðingu þeirra er vinna að kynjasamþættingu stefnunnar. Því var farið í það verkefni að gefa út handbókina, sem nú er komin út, sem tekur til mismunandi sviða fíknistefnu.
Kristín I. Pálsdóttir talskona Rótarinnar var þátttakandi í vinnuhópnum sem skrifaði handbókina og er einn höfunda hennar ásamt þeim Carine Mutatayi, Sarah Morton, Nadia Robles Soto og Cristiana Vale Pires. Florence Mabileau, aðstoðarframkvæmdastjóri, Pompidou-hópsins stýrði vinnunni.
Leitast er við að styðja við kynjasjónarmið í viðbrögðum og áætlunum vegna vímuefnamála sem nauðsynlegs mótvægis gegn heilsumisrétti og til að virða mannréttindi, ekki síst réttinn til margbreytileika og virðingar við konur, karla og kynsegin fólk.
Bókin hefst á yfirliti yfir faraldsfræðilegar vísbendingar um kynjamun þegar kemur að vímuefnanotkun og skyldum afleiðingum.
Markmið handbókarinnar er að láta stefnumótendum og sérfræðingum í té gagnreynd tilmæli til að þróa og innleiða stefnu og íhlutun sem samþætta sértækar þarfir kynjanna (e. gender-sensitive approach) og stuðla að jafnræði kynjanna (e. gender-transformative approach) í hópi þeirra sem starfa að vímuefnaforvörnum og -þjónustu (áhættu- og skaðaminnkun, meðferð, endurhæfingu) þar á meðal í refsivörslukerfi.
Í samræmi við þau markmið Pompidou-hópsins að tryggja tengingu á milli rannsókna, stefnumótunar og starfshátta, fjallar handbókin fyrst um kenningaleg álitamál um kyn og fíknistefnu, nýtir fyrirliggjandi fræðaþekkingu og setur fram tilmæli og dæmi um góða starfshætti. Handbókin er byggð á víðtækum samræðum og samkomulagi sérfræðinga frá 13 löndum með fjölbreyttan faglegan bakgrunn í þeirri viðleitni að tryggja þvermenningarlegt gildi hennar.
Pompidou-hópurinn er undirstofnun Evrópuráðsins og var stofnaður árið 1971 til að samræma stefnu og starf þátttökuríkja hvað varðar fíknistefnu og aðgerðir. Pompidou-hópurinn starfar samkvæmt grunngildum Evrópuráðsins um mannréttindi, lýðræði og réttarríki.
Handbókin er aðgengileg án endurgjalds á vef Evrópuráðsins.

 

Laus störf í Konukoti

Laus störf í Konukoti

Nú eru laus til umsóknar sumarstörf í Konukoti – neyðarskýli fyrir heimilislausar konur, trans og kynsegin fólk. Fullt starf eða hlutastarf kemur til greina. Í Konukoti er unnið samkvæmt hugmyndafræði um skaðaminnkandi-, áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Áhugasamar fylla út meðfylgjandi form og senda einnig ferilskrá á konukot@rotin.is fyrir 14. apríl 2021.

Starfssvið starfskonu er varsla athvarfsins á opnunartíma og móttaka kvenna auk umsjónar í athvarfinu. Hún þarf að vera til taks, elda létta kvöldmáltíð, sjá um frágang, þvott, þrif, aðstoða notendur við athafnir daglegs lífs og sinna öðrum störfum sem til falla og forstöðukona ákveður.

Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningi Eflingar og Rótarinnar sem er sambærilegur við samning Eflingar og Reykjavíkurborgar.

Unnið er samkvæmt eftirfarandi hugmyndafræði:

  • Skaðaminnkun er hugmyndafræði á sviði lýðheilsufræða sem hefur það að markmiði að draga úr heilsufars-, félags- og efnahagslegum afleiðingum vímuefnaneyslu, án þess að krefjast bindindis. Leitast er við að styðja allar jákvæðar breytingar á högum einstaklings sem minnka skaða og bæta lífsgæði hans.
  • Áfalla- og kynjamiðuð nálgun felur í sér að sá sem veitir þjónustu tekur mið af víðtækum áhrifum áfalla og hefur skilning á mögulegum leiðum til bata; ber kennsl á vísbendingar og einkenni áfalla hjá þeim sem nota þjónustuna, aðstandendur starfsfólki og öðrum sem koma að þjónustunni og bregst við með því að samþætta þekkingu á áföllum inn í stefnu, verkferla og framkvæmd og vinnur markvisst að því að hindra að endurvekja áföll.
  • „Konur sinna konum“: Unnið er eftir viðurkenndu verklagi í þjónustu við konur í viðkvæmri stöðu að konur sinni konum.

Nánari upplýsingar veitir Halldóra R. Guðmundsdóttir í síma 7935080 eða halldora@rotin.is.