Nú eru laus til umsóknar sumarstörf í Konukoti – neyðarskýli fyrir heimilislausar konur, trans og kynsegin fólk. Fullt starf eða hlutastarf kemur til greina. Í Konukoti er unnið samkvæmt hugmyndafræði um skaðaminnkandi-, áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Áhugasamar fylla út meðfylgjandi form og senda einnig ferilskrá á konukot@rotin.is fyrir 14. apríl 2021.

Starfssvið starfskonu er varsla athvarfsins á opnunartíma og móttaka kvenna auk umsjónar í athvarfinu. Hún þarf að vera til taks, elda létta kvöldmáltíð, sjá um frágang, þvott, þrif, aðstoða notendur við athafnir daglegs lífs og sinna öðrum störfum sem til falla og forstöðukona ákveður.

Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningi Eflingar og Rótarinnar sem er sambærilegur við samning Eflingar og Reykjavíkurborgar.

Unnið er samkvæmt eftirfarandi hugmyndafræði:

  • Skaðaminnkun er hugmyndafræði á sviði lýðheilsufræða sem hefur það að markmiði að draga úr heilsufars-, félags- og efnahagslegum afleiðingum vímuefnaneyslu, án þess að krefjast bindindis. Leitast er við að styðja allar jákvæðar breytingar á högum einstaklings sem minnka skaða og bæta lífsgæði hans.
  • Áfalla- og kynjamiðuð nálgun felur í sér að sá sem veitir þjónustu tekur mið af víðtækum áhrifum áfalla og hefur skilning á mögulegum leiðum til bata; ber kennsl á vísbendingar og einkenni áfalla hjá þeim sem nota þjónustuna, aðstandendur starfsfólki og öðrum sem koma að þjónustunni og bregst við með því að samþætta þekkingu á áföllum inn í stefnu, verkferla og framkvæmd og vinnur markvisst að því að hindra að endurvekja áföll.
  • „Konur sinna konum“: Unnið er eftir viðurkenndu verklagi í þjónustu við konur í viðkvæmri stöðu að konur sinni konum.

Nánari upplýsingar veitir Halldóra R. Guðmundsdóttir í síma 7935080 eða halldora@rotin.is.

Share This