Ársskýrsla Konukots 2022

Ársskýrsla Konukots 2022

Tekin hefur verið saman ársskýrsla fyrir Konukot fyrir árið 2022 og má lesa hana hér. Í yfirlitinu er einnig farið yfir þá nálgun sem notuð er í Konukoti.

Ársskýrsla fyrir árið 2022

Sjá einnig sjá hér í PDF-skjali.

Efnisyfirlit
Efnisyfirlit 1
Inngangur. 2
Tölfræði 3
Jákvæðar afleiðingar verklagsbreytinga. 7
Stefna og gæðaviðmið í Konukoti 7
Áfallamiðuð nálgun. 7
Skaðaminnkun. 8
Kvennamiðuð þjónusta. 8
Þjónandi leiðsögn. 10
Niðurstaða. 10

Inngangur

Hér á eftir fer yfirlit yfir tölfræði fyrir Konukot fyrir árið 2022. Tölurnar eru settar í samhengi við tölfræði síðustu tveggja ára til að sjá þróunina sem orðið hefur á árunum 2020 til 2022 en Rótin tók við rekstri Konukots árið 2022.

Því miður er það svo að konum er að fjölga sem koma í Konukot og þær dvelja þar lengur en áður. Þó að okkur vitanlega hafi ekki verið gerðar úttektir á þessari þróun má gera sér í hugarlund nokkra þætti sem hafa áhrif.

Fyrst ber að nefna Covid-19 sem hefur haft mikil áhrif á jaðarsett fólk og fólk í viðkvæmri stöðu í Evrópu. Reyndar var það svo að á Covid-tímanum fengu margir heimilislausir mun betri þjónustu en áður, ekki síst konur, þar sem opnað var sérstakt neyðarskýli á hóteli fyrir þær í Reykjavík þar sem þær þurftu ekki að fara út á daginn. Þessi tilraun í bættri þjónustu virðist hafa skilað þeim árangri að margar konurnar eru mun betur settar í dag en ætla mætti að verið hefði án hennar. Innilokun og ströng fyrirmæli um hegðun getur þó reynst þessum hópi mjög mótdræg.

Þegar Covid lauk komu túristarnir aftur til landsins og það þýddi að húsnæðismarkaðurinn varð erfiðari, bæði dýrari og erfiðara að fá húsnæði. Það er líklegt að þessar aðstæður hafi mikil áhrif á heimilisleysi ekki síst þar sem sköpuðust kjöraðstæður fyrir ofbeldi í nánum samböndum en það er helsta ástæða fyrir heimilisleysi kvenna.

Margar borgir í Evrópu og Bandaríkjunum hafa sett, eða eru að íhuga að setja, strangari reglur um skammtímaleigu, Airbnb t.d., vegna þess hversu alvarleg áhrif hún hefur haft á félagslega uppbyggingu borganna. Þetta á við fjölda borga í Þýskalandi og Lissabon hefur sett reglur sem banna útgáfu leyfa fyrir túristaíbúðir.

Stjórnvaldsákvarðanir og stefna, eða ákvarðana- og stefnuleysi, hefur áhrif á heimilisleysi. Ef marka má þá tölfræði sem birtist okkur í Konukoti þarf að grípa til róttækra aðgerða gegn þeirri alvarlegu þróun að konum þar sé að fjölga jafn mikið og raun ber vitni. Alvarlegast er að konur sem koma í fyrsta skipti í Konukot eru að dvelja þar mun fleiri daga en áður.

Ekki er óskandi að sjá fleiri neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk á Íslandi. Markmiðið hlýtur að vera að útrýma heimilisleysi og til þess þarf samtakamátt ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Við þurfum fjölbreyttari þjónustu og stjórnvaldsaðgerðir sem koma í veg fyrir vaxandi fátækt og misskiptingu.

Gömlu dæmisöguna um kanarífuglana í kolanámunni, sem voru viðvörunarmerki um að hættulegt magn metans væri í námum, má yfirfæra á Konukot þannig að eftir því sem gestum þar fjölgar er hægt að líta á það sem hættuástand í samfélaginu og vísbendingu um að misrétti sé að aukast.

Tölfræði

Árið 2022 nýttu 92 konur sér þjónustu Konukots og heildar gistinætur notanda voru 3.883 nætur sem þýðir að meðaltalið 10,6 konur í húsi á hverri nóttu. Nýting kvennanna var mismikil og styst var dvölin 1 nótt en sú kona sem dvaldi lengst var þar í 351 nótt. Á töflunni sést samanburður á milli gistinátta síðustu þriggja ára og hve gríðarleg fjölgun er í hópi gesta í Konukoti á þessu tímabili.

Þegar heildartala gistinátta síðustu þrjú ár er skoðuð sést þessi fjölgun mjög skýrt. Um 10% gistinátta, 362, árið 2022 eru tilkomnar vegna gesta úr öðrum sveitarfélögum en Reykjavík.

Þegar nýting, það er fjöldi kvenna sem kemur í Konukot á mánuði, er skoðuð sést að árið 2022 eru konurnar alltaf fleiri en 30 í hverjum mánuði, nema í febrúar og desember, miðað við að árin á undan en þá var sjaldgæft að sjá fjölda gesta fara upp í 30, það gerðist einu sinni árið 2020 og tvisvar árið 2021.

Þegar litið er til fjölda gistinátta á hverja konu sést sama tilhneiging, hver kona er að gista fleiri nætur á ári í Konukoti:

Þegar litið er til nýliðunar í Konukoti árinu stingur í augu að konur sem eru að koma í fyrsta sinn eru að gista mikið fleiri nætur yfir árið en síðustu ár sem bendir til þess að erfiðara sé að komast inn í viðeigandi úrræði eða húsnæði. Á árinu komu 29 nýjar konur í Konukot sem er ekki mikið frávik frá fyrri árum en það sem stingur í augu að þær gista miklu fleiri nætur en árið áður eða alls 20 nætur að meðaltali á hverja konu en þessi tala var þrjár nætur á síðasta ári og 6 árið þar á undan.

Mikil fækkun var í útköllum á lögreglu árið 2022 en þau fóru úr, 103 í 65 þar af hringdu notendur sjálfir 14 sinnum. Útköllum í sjúkrabíla fækkaði líka úr 83 árið 2021 í 65 árið 2022. Þegar horft er á fjölgun í húsinu þá eru þessar tölur mjög jákvæðar og útköllum á lögreglu fækkar um helming, ef miðað er við hlutfall útkalla á gistinótt, og útköllum sjúkrabíl fækkar líka um 40%.

Þá fækkaði alvarlegum atvikum í húsi einnig mjög mikið eða úr 37 í 13. Engin alvarleg líkamsárás var gerð á starfsmann árið 2022. Líklegt er að breytt nálgun í starfi með innleiðingu þjónandi leiðsagnar og áfallamiðaðrar nálgunar hafi þarna áhrif.

Frávísanir voru 38 árið 2021, 2 í 30 daga, 6 í 3-7 daga, 5 í 24 klst., kæling í 25 skipti og samtals voru þetta 38 frávísanir. Árið 2022 voru frávísanir 4 alls, ein kæling og 3 sinnum var konum vísað frá í 24 tíma. Þessi árangur tengist markvissri vinnu við að innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar og þjónandi leiðsagnar í Konukoti.

Að lokum er hér yfirlit yfir aldursskiptingu gesta í Konukoti á árunum 2020-2022. Þar má sjá að konum í yngstu aldursflokkunum, 18-30 ára, hefur fjölgað talsvert árið 2022. Það er áhyggjuefni en það getur líka þýtt að konurnar treysti sér til að koma í Konukot. Ekki er hægt að fullyrða um það án frekari gagna. Þetta eru í öllu falli of háar tölur ungra kvenna.

 

 

 

 

Jákvæðar afleiðingar verklagsbreytinga

Þegar Rótin tók við rekstri Konukots voru tæp þrjú stöðugildi sem sjálfboðaliðar inntu af hendi og 5 stöðugildi starfskvenna, og forstöðukona var eini stjórnandinn í húsinu. Með samningum við Reykjavíkurborg tókst að tryggja fulla mönnun vakta með launuðum starfskonum og einnig var ráðinn teymisstýra í hálft starf sem einnig sinnir vöktum í hálfu starfi. Teymisstýra er staðgengill forstöðukonu og hefur fyrirkomulagið reynst mjög vel og stuðlað að bættum gæðum starfsins árið 2022.

Mikilvægt er í slíku starfi að skapa stöðugleika þar sem hægt er því að nóg er af óvissuþáttum sem er einkenni á rekstri neyðarskýlis. Breytingin stuðlar að meiri stöðugleika í starfinu.

Mikil lækkun var í útköllum á lögreglu árið 2022 en þau fóru úr, 103 í 65 þar af hringdu notendur sjálfir 14 sinnum. Útköllum sjúkrabíla fækkaði líka úr 83 árið 2021 í 65 árið 2022. Þegar horft er á fjölgun í húsinu þá eru þessar tölur mjög jákvæðar og útköllum á lögreglu fækkar um 50% ef miðað er við hlutfall útkalla á hverja gistinótt og útköllum sjúkrabíl fækkar um 40%. Þá fækkaði alvarlegum atvikum í húsi einnig mjög mikið eða úr 37 í 13. Engin líkamsárás var gerð á starfsmann árið 2022.

Á árinu voru teknir upp húsfundir með notendum hússins sem haldnir eru einu sinni í mánuði og er þá farið yfir stöðuna, reglur og breytingar gerðar í samráði við notendur. Slíkt skipulagt notendasamstarf hefur reynst vel og haft jákvæð áhrif á starfið.

Tvö smáhýsi eru staðsett við Konukot og þjónustar Konukot íbúana með mat og annað sem til fellur. Þetta sambýli hefur gengið mjög vel.

Stefna og gæðaviðmið í Konukoti

Í kröfulýsingu sem fylgir samningi Rótarinnar við Reykjavíkurborg segir að þjónustan í Konukoti skuli byggjast á grundvelli mannréttinda og skal mannréttindastefna Reykjavíkurborgar höfð að leiðarljósi og vera „áfalla- og kynjamiðuð og fylgja viðmiðum um öryggi, trúverðugleika og gagnsæi, jafningjastuðning, samvinnu og gagnvirkni, valdeflingu og val“. Hún á líka að vera í samræmi við hugmyndafræði skaðaminnkunar, einstaklingsmiðuð, valdeflandi og viðhafa samvinnu og notendasamráð. Þegar Rótin tók við starfseminni í Konukoti kom inn í kröfulýsingu, að ósk félagsins, að þar yrði unnið eftir áfalla og kynjamiðaðri nálgun og „konur sinna konum“-viðmiði.

Þar fyrir utan var þjónandi leiðsögn innleidd í Konukoti vorið 2022 en hún vinnur mjög vel með skaðaminnkun, áfalla- og kynjamiðaðri nálgun þar sem áhersla er á að draga úr valdmiðaðri nálgun og gera þjónustuna notenda- og mannréttindamiðaðri. Lögð var mikil vinna í að þjónusta notendur samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem er í miklum samhljómi við áfallamiðaða nálgun og skaðaminnkun. Það gengur vel en slíkar breytingar eru alltaf krefjandi og taka tíma.

Starfskonur hafa bæði sótt námskeið sem hafa verið í boði hjá Reykjavíkurborg og hjá Rótinni til að tileinka sér nýtt vinnulag í Konukoti og styrkja sig í skaðaminnkandi starfi.

Áfallamiðuð nálgun

Áfallamiðuð nálgun færir áhersluna frá „Hvað er að þér?“ yfir í „Hvað kom fyrir þig?“ með því að:

 • Viðurkenna djúpstæð áhrif áfalla og hafa yfir að ráða mögulegum leiðum til bata
 • Viðurkenna einkenni áfalla hjá þjónustuþegum, fjölskyldum þeirra og starfsfólki
 • Samtvinna þekkingu um áföll inn í stefnu, verkferla og vinnulag
 • Vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að áföll séu endurvakin t.d. með því að forðast að skapa umhverfi sem óafvitandi minnir þjónustuþega á áfallareynslu og veldur því að þeir upplifa tilfinningalega eða líffræðilega streitu

Markmið áfallamiðaðrar nálgunar er að koma í veg fyrir að áföll séu endurvakin og að auka öryggi, val og sjálfstjórn þjónustuþega. Hún miðar að því að skilja einstaklinginn frekar en að einblína á vandamál eða einkenni. Því spyrjum við, hvernig get ég skilið þessa konu? Þessi nálgun setur fókusinn á einstaklinginn og í burtu frá takmörkuðu sjónarhorni á virkni hennar. Þannig sendum við líka þau skilaboð að líf hennar sé skiljanlegt og að hegðun hennar sé skiljanleg í samhengi við stóru myndina.[1]

Skaðaminnkun

Skaðaminnkun miðar að því að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu á notendur þeirra, fjölskyldur þeirra, nærsamfélagið og samfélagið í heild. Þetta er gert með því leitast við að lágmarka skaðann sem neyslan veldur fremur en að koma í veg fyrir notkun vímuefnanna. Skaðaminnkun er gagnreynd og viðurkennd aðferð sem bætir lýðheils og eykur mannréttindi. Hún er ríkjandi í lýðheilsustefnu sem er viðurkennd og studd af Sameinuðu þjóðunum og fíknistefnu og framkvæmdaáætlunum Evrópusambandsins og er hluti af fíknistefnu víðast hvar í Evrópu.

Lengi framan af var skaðaminnkunarhreyfingin lítið að huga að áhrifum kyns á nálgun í skaðaminnkun en þetta er að breytast með meiri þekkingu á þörfum og sögum kvenna sem þurfa skaðaminnkandi þjónustu.

Konur sem nota vímuefni búa við tvöfalda brennimerkingu – stigma – og veigra sér oft við að leita þjónustu þar sem að þá “kemst upp um þær”. Þ.e. að þær séu að nota vímuefni og þær leita líka síður til samfélagsverkefna.

Konur verða oftar fyrir fordómum í heilbrigðiskerfi og jafnvel í skaðaminnkunarþjónustu þar sem þær lenda í neikvæð framkoma starfsfólks og verða fyrir fordómum og búast við að verða fyrir fordómum. Því er mjög mikilvægt að þær hafi aðgang að samfélagsþjónustu sem er bæði kvennamiðuð og kynjaskipt. Þá þarf einnig að gæta að því að samþætta þjónustu og ferla.

Kvennamiðuð þjónusta

Rótin vinnur út frá kvennamiðuðu sjónarhorni og í því fellst að viðurkenna að heimilisleysi kvenna, geðheilsa og vímuefnanotkun getur verið ólík reynslu karla. Kvennamiðað sjónarhorn horfir til samhengisins í lífi kvenna og hvernig margir þættir fléttast þar saman og lögð er áhersla á mikilvægi þess að byggja upp sambönd kvenna á milli og styðja við tengsl þeirra.

Kjarninn er: Áhersla á konurnar sjálfar, valdefling, aðild og þátttaka og virðing og öryggi.

Kvennamiðuð þjónusta …

 • Horfir til hins flókna veruleika í lífi kvenna
 • Felur í sér fjölbreytileika (e. inclusive)
 • Er heildræn og samþætt (e. integrated)
 • Kemur til móts við það form tjáningar og samskipta sem konurnar nota
 • Veitir upplýsingar og fræðslu

Reynsla kvenna af ofbeldi og kúgun karla verður til þess að þær forðast kynjablandaða þjónustu. Þjónusta þar sem konur sinna konum, þ.e. þar sem bæði starfsfólk og þjónustuþegar eru konur, skiptir sköpum fyrir konur bæði andlega og líkamlega. Kvennarými eru öruggir staðir þar sem konur geta rætt frjálslegu um reynslu sína.[1]

Almennt má segja að stuðningur vegna heimilisleysis sé oft settur fram á kynhlutlausan hátt en hins vegar hafa konur sérþarfir og reynslu af óöryggi varðandi húsnæðismál og heimilisleysi. Tvær ástæður eru fyrir því að konur upplifa heimilisleysi á annan hátt og hin fyrri er sú að ástæður fyrir heimilisleysi þeirra eru aðrar en karla og hin ástæðan er að konur haga sér öðruvísi í heimilisleysi. Þessi reynsla tengist líka öðrum félagslegum mismunabreytum eins og kyngervi, kynþætti, þjóðaruppruna, fötlun, hvort viðkomandi er aðfluttur eða á flótta, félags- og fjárhagsstöðu og kynvitund sem eru grundvöllur margþættrar mismununar sem konur verða fyrir og jaðarsetja þær.[2]

Því er nauðsynlegt að nýta þá þekkingu og kynjafræðilegu greiningar sem fyrir liggja til að veita konum sem besta þjónustu og við þeirra hæfi. Á síðustu árum hefur margt gerst hér á landi til að fleyta okkur í þá átt, eins og það að neyðarskýli eru öll kynjaskipt og áhugi og þekking á kynbundnum þáttum er vaxandi. Rótin hefur t.d. fengið góða hlustun hvað þetta varðar hjá Reykjavíkurborg sem unnið hefur að úrbótum í þjónustu við konur.

Kvennamiðuð þjónusta er gagnreynd aðferð sem byggir á þekkingu á sérþörfum kvenna og kynjafræðilegum rannsóknum og ráðleggingar alþjóðastofnana, t.d. UN Women, UNFPA, WHO, UNDP og UNODC, og Evrópustofnana ásamt því að mæta sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hún er í samræmi við þá þekkingu að konur sem glíma við vímuefnavanda, heimilis-leysi og jaðarsetningu eiga sér iðulega langa sögu um kynbundið ofbeldi og vanrækslu, bæði innan fjölskyldna og kerfisins. Þessi saga hefur síðan alvarleg áhrif á heilsu þeirra, bæði andlega og líkamlega.

Jafnréttisrófið (WHO – Gender Responsive Assessment Scale: criteria for assessing programmes and policies) er mælikvarði frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sem hefur verið notaður til að máta hvar úrræði í heilbrigðis- og velferðarkerfi standa með tilliti til þess hvort þau eru að stuðla að jafnrétti eða að viðhalda ójafnrétti. Á vinstri endanum ríkir misrétti en á þeim hægri er jafnrétti og aðferðum til að auka jafnrétti er beitt.[3]

Sjá einnig nánar í Greinargerð Rótarinnar um heimilislausar konur.[4]

Þjónandi leiðsögn

Þjónandi leiðsögn byggir á grunnhugmynd um gagnkvæm tengsl og að við séum öll háð hvert öðru á einn eða annan hátt. Kjarninn í þjónandi leiðsögn er hlýja og skilyrðislaus umhyggja í garð annarra en það krefst þægilegrar nærveru, að hlýlega sé talað til fólks og því sýnd vinsemd og blíðlegt augnaráð. Skilyrðislaus umhyggja felur í sér að ekki er krafist neins á móti. Eins og áfallamiðuð nálgun krefst þjónandi leiðsögn þess að fólk horfi í eigin barm og skoði eigin viðhorf gagnvart þeim einstaklingum sem verið er að þjóna.

Slík nálgun á einkar vel við þar sem unnið er með fólki sem býr við mikið óöryggi, ótta, reiði og pirring. Þetta getur tekið á starfsfólk en er mjög mikilvægur liður í því að skapa öryggi og traust í úrræðum eins og Konukoti sem er oft eini öruggi staðurinn í lífi gesta okkar. Tengslamyndun og samkennd eru lykilhugtök sem geta stutt við myndun félagstengsla sem styðja konurnar í því að þróa ný hegðunarmynstur og að hætta að beita ofbeldi.

Í eftirfarandi töflu má sjá muninn á hvetjandi umhverfi annars vegar og hins vegar niðurdrep-andi/stýrðu umhverfi.

Hvetjandi umhverfi Niðurdrepandi umhverfi
 • Grundvallast á félagsskap
 • Einblínt á það að stjórna
 • Leiðsögn í gegnum samvinnu
 • Leiðbeint til hlýðni
 • Einblínt á persónuna
 • Einblínt á hegðun
 • Felur í sér gagnkvæmar breytingar sem byrja hjá starfsfólki
 • Felur í sér kröfu um breytingar eftir geðþótta annarra

 

Niðurstaða

Ársskýrsla Konukots sýnir að Gestum Konukots hefur fjölgað mikið á síðustu tveimur árum og að þær dvelja þar líka lengur. Þá er einnig fjölgun í yngsta hópnum. Þetta er áhyggjuefni og þó að Rótin telji sig vita um sumar ástæður fjölgunarinnar væri gott að hafa betri gögn sem skýra þessar breytingar.

Góðu fréttirnar eru þær að sú aðferðafræði, þjálfun og aðgerðir sem félagið notar virðist vera að skila þeim árangri að alvarlegum atvikum hefur fækkað og einnig frávísunum frá Konukoti.

Þá má minnast á það að Kolbrún Kolbeinsdóttir, kennari og kynjafræðingur, skrifaði meistararitgerð í kynjafræði um reynslu kvenna af Konukoti: „„Eini staðurinn í samfélaginu þar sem ekki er horft niður á þig“: Reynsla kvenna af Konukoti“. Markmiðið með verkefninu var að vekja athygli á félagslegu misrétti sem hópurinn verður fyrir og draga þannig úr jaðarsetningu hans. Í niðurstöðum Kolbrúnar kom fram mikil ánægja með þjónustu Konukots. Konurnar settu hins vegar út á aðstöðuna sem almenn vitneskja er um að þarfnist mikilla úrbóta.

F.h. Rótarinnar – Félags um velferð og lífsgæði kvenna

Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar og Halldóra R. Guðmundsdóttir, forstöðukona Konukots

[1] FEANTSA. Guide for developing effective gender-responsive support and solutions for women experiencing homelessness. Sjá: https://www.feantsa.org/public/user/Resources/resources/Guide%20supporting%20and%20solutions%20for%20women.pdf.

[1] Sjá: https://www.stjoes.ca/hospital-services/mental-health-addiction-services/addiction-services/womankind-addiction-service/trauma-matters.pdf og

https://ncsacw.samhsa.gov/userfiles/files/SAMHSA_Trauma.pdf

[2] Canadian Centre for Housing Rights. 2023. Canada Canada must have a more inclusive definition of homelessness for women and gender-diverse people. Sjá: https://housingrightscanada.com/canada-must-have-a-more-inclusive-definition-of-homelessness-for-women-and-gender-diverse-people/.

[3] Sjá nánar: Pederson, Ann; Lorraine Greaves og Nancy Poole. 2017. Gender-transformative health promotion for women: a framework for action í Health Promotion International, 30(1). Sjá: doi:10.1093/heapro/dau083.

[4] Greinargerð um heimilislausar konur: https://www.rotin.is/greinargerd-um-heimilislausar-konur/.

Handbók um samþættingu kynjasjónarmiða í fíknistefnu

Handbók um samþættingu kynjasjónarmiða í fíknistefnu

Út er komin bókin Samþætting kynjasjónarmiða í fíknistefnu: Forvarnir, meðferð og refsivörslukerfi.
Handbók fyrir sérfræðinga og stefnumótendur, á vegum Pompidou-hóps Evrópuráðsins.
Markmiðið var að skrifa handbók sem inniheldur meginreglur og hagnýt dæmi til leiðsagnar við innleiðingu kynjaðrar stefnu í forvörnum, umönnun og meðferð fólks með vímuefnavanda. Einnig á bókin að vera leiðarvísir fyrir lögreglu og refsivörslukerfi um hagnýtar aðferðir til kynjasamþættingar í þeirra störfum.
Pompidou-hópur Evrópuráðsins hefur gert mannréttindi að meginstefi í fíknistefnu sinni og liður í innleiðingu þeirra er vinna að kynjasamþættingu stefnunnar. Því var farið í það verkefni að gefa út handbókina, sem nú er komin út, sem tekur til mismunandi sviða fíknistefnu.
Kristín I. Pálsdóttir talskona Rótarinnar var þátttakandi í vinnuhópnum sem skrifaði handbókina og er einn höfunda hennar ásamt þeim Carine Mutatayi, Sarah Morton, Nadia Robles Soto og Cristiana Vale Pires. Florence Mabileau, aðstoðarframkvæmdastjóri, Pompidou-hópsins stýrði vinnunni.
Leitast er við að styðja við kynjasjónarmið í viðbrögðum og áætlunum vegna vímuefnamála sem nauðsynlegs mótvægis gegn heilsumisrétti og til að virða mannréttindi, ekki síst réttinn til margbreytileika og virðingar við konur, karla og kynsegin fólk.
Bókin hefst á yfirliti yfir faraldsfræðilegar vísbendingar um kynjamun þegar kemur að vímuefnanotkun og skyldum afleiðingum.
Markmið handbókarinnar er að láta stefnumótendum og sérfræðingum í té gagnreynd tilmæli til að þróa og innleiða stefnu og íhlutun sem samþætta sértækar þarfir kynjanna (e. gender-sensitive approach) og stuðla að jafnræði kynjanna (e. gender-transformative approach) í hópi þeirra sem starfa að vímuefnaforvörnum og -þjónustu (áhættu- og skaðaminnkun, meðferð, endurhæfingu) þar á meðal í refsivörslukerfi.
Í samræmi við þau markmið Pompidou-hópsins að tryggja tengingu á milli rannsókna, stefnumótunar og starfshátta, fjallar handbókin fyrst um kenningaleg álitamál um kyn og fíknistefnu, nýtir fyrirliggjandi fræðaþekkingu og setur fram tilmæli og dæmi um góða starfshætti. Handbókin er byggð á víðtækum samræðum og samkomulagi sérfræðinga frá 13 löndum með fjölbreyttan faglegan bakgrunn í þeirri viðleitni að tryggja þvermenningarlegt gildi hennar.
Pompidou-hópurinn er undirstofnun Evrópuráðsins og var stofnaður árið 1971 til að samræma stefnu og starf þátttökuríkja hvað varðar fíknistefnu og aðgerðir. Pompidou-hópurinn starfar samkvæmt grunngildum Evrópuráðsins um mannréttindi, lýðræði og réttarríki.
Handbókin er aðgengileg án endurgjalds á vef Evrópuráðsins.

 

Mat þátttakenda á námskeiðinu „Konur studdar til bata“, haust 2018

Mat þátttakenda á námskeiðinu „Konur studdar til bata“, haust 2018

Námskeiðið Konur studdar til bata var haldið var á vegum Rótarinnar, í samstarfi við Janus endurhæfingu, haustið 2018 og fóru námskeiðin fram í húsnæði Janusar, Skúlagötu 19. Námskeiðið er byggt á efni frá dr. Stephanie Covington, Helping Women Recover. Guðrún Ebba Ólafsdóttir hafði veg og vanda af þýðingu námsefnisins.

Verkefnið þáði styrki frá heilbrigðisráðuneyti, velferðarráði Reykjavíkurborgar og Lýðheilsusjóði. Þá studdi Fræðslusjóður Rótarinnar þýðingu námsefnisins og kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Könnun á ánægju með námskeiðið var lögð fyrir þátttakendur að því loknu og hér birtast niðurstöður hennar.

Hóparnir voru tveir, daghópur fyrir konur í endurhæfingu hjá Janusi þar sem Katrín G. Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi sem lokið hefur leiðbeinendanámskeiði hjá Covington í notkun efnisins, og Gunnhildur Kristjánsdóttir, iðjuþjálfi, voru leiðbeinendur og hittist sá hópur eftir hádegi á þriðjudögum. Fimm konur luku námskeiðinu. Katrín og Guðrún Ebba Ólafsdóttir, grunnskólakennara, leiðbeindu hinum hópnum kl. 17.15 á þriðjudögum og luku 8 konur því námskeiði. Alls kláruðu 13. konur námskeiðin. Svörin eru ekki aðgreind eftir hópunum. Kristín I. Pálsdóttir sá um verkefnisstjórn.

Könnunin var þrískipt. Alls svöruðu 13 konur könnuninni, 9 konur á blöðum og 4 í netkönnun. Í fyrri hlutunum tveimur voru þátttakendur spurðir um ánægju með námskeiðið annars vegar og ánægju með námsefnið hins vegar og svöruðu þeir spurningum með því að gera hring um númer á skalanum 0-4 þar sem 0 er alls ekki sammála, 1 svolítið sammála, 2 nokkuð sammála, 3 frekar sammála og 4 mjög mikið sammála. Í öðrum hlutanum bættist við valmöguleikinn VE = Var ekki þegar þessi hluti var tekinn fyrir. Í síðasta hlutanum voru opnar spurningar um námskeiðið þar sem konurnar höfðu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri. (more…)

Fíknivandi kvenna og meðferð við honum

Fíknivandi kvenna og meðferð við honum

Rit Geðverndarfélags Íslands, 44. tbl. 32015

Rit Geðverndarfélags Íslands

30. janúar 2016

Talskona Rótarinnar, Kristín I. Pálsdóttir, hefur skrifað grein í 44. árg. tímarits Geðverndarfélags Íslands sem kom út nú eftir áramót. Þar fer hún yfir stöðu mála í framboði á meðferð fyrir fólk með fíknivanda, kenningar um fíkn og meðferðarúrræði og um nýlega gagnrýni á heilasjúkdómskenninguna um fíkn. Einnig fjallar hún um þær breytingar sem eru að eiga sér stað í meðferðarþjónustu í Bandaríkjunum og sérstakar þarfir kvenna með vísun í leiðbeiningar og fyrirmæli stjórnvalda og alþjóðastofnana eins og Alþjóða-heilbrigðisstofnunarinnar og áskoranir Rótarinnar til yfirvalda um að halda betur á málum.

Í greininni hefur skolast til texti í tilvísun í Lance Dodes á bls. 18 þar sem rætt er um líkindi fíknimeðferðarkerfisins í dag við vanmáttuga meðferð við berklum fyrir hundrað árum. (more…)

„Ef fjölmiðlar hafa samband“

„Ef fjölmiðlar hafa samband“

Rótin gefur um þessar mundir út bæklinginn „Ef fjölmiðlar hafa samband. Leiðbeiningar fyrir brotaþola og aðstandendur“ sem ætlaður er þolendum ofbeldisglæpa og inniheldur leiðbeiningar um samskipti við fjölmiðla eftir áföll vegna ofbeldis. Bæklingurinn er þýddur úr ensku með góðfúslegu leyfi Canadian Resource Centre for Victims of Crime. Mannréttindaráð Reykjavíkur og Sorpa/Góði hirðirinn styrktu gerð bæklingsins og þökkum við þann mikilvæga stuðning.

Aðdragandi þess að Rótin ákvað að ráðast í þýðingu og útgáfu bæklingsins er sú að færst hefur í aukana að fólk tjái sig um kynferðisbrot og önnur ofbeldisbrot í fjölmiðlum. Stundum er fólk að opna á slíka reynslu í fyrsta skipti. Við teljum að leiðbeiningarnar geti hjálpað brotaþolum að gera upp hug sinn um það hvernig þeir vilja haga samskiptum við fjölmiðla. (more…)