Starf Rótarinnar á haustmisseri 2019 er nú skipulagt og býður félagið upp á þrjú ný námskeið og og aftur verða í boði námskeiðin Konur studdar til bata og Þú ert ekki ein, við erum margar sem einnig voru haldin síðasta vetur. Þá heldur Rótarhópur áfram og umræðukvöldin verða á sínum stað. Námskeiðin eru haldin í Bjarkarhlíð nema að annað sé tekið fram.

Skráning á námskeiðin er hér og í Rótarhóp hér

PDF-skjal með upplýsingum um starf Rótarinnar haustið 2019.

Konur studdar til bata

Námskeiðið Konur studdar til bata er námskeið fyrir konur þar sem lögð er áhersla á að vinna með rætur vímuefnavanda og annað andstreymi í lífi kvenna. Unnið er út frá því að vímuefnanotkun sé ekki einangrað vandamál heldur eigi sér m.a. rætur í áföllum og tekið er á þeim fjölþætta vanda sem konur með sögu um vímuefnavanda standa frammi fyrir.
Fyrir hverjar: Námskeiðið er ætlað konum sem eiga sögu um vímuefnavanda.
Markmið: Markmið námskeiðsins er að konur öðlist aukna sjálfsþekkingu sem einstaklingar en skilgreini sig ekki í gegnum sambönd eða stöðu sína. Einnig að þær átti sig á styrkleikum sínum og geti byggt framtíð sína og betra líf á þeim.
Sjá nánar.

Áföll – Leiðir til bata

Námskeiðinu er ætlað að hjálpa konum að vinna úr afleiðingum áfalla á líf þeirra. Athyglinni er beint að þeim áföllum sem konur eru í mestri hættu á að verða fyrir eins og kynferðisofbeldi í æsku, nauðgunum, ofbeldi í nánum samböndum og öðru ofbeldi á milli tengdra aðila. Kennd eru bjargráð sem nýtast við úrvinnslu áfalla almennt. Námskeiðið er kynjamiðað og byggt er á styrkleikanálgun.
Fyrir hverjar: Námskeið er fyrir konur sem glíma við afleiðingar áfalla. Námskeiðið hentar sérstakleg vel konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.
Markmið: Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti náð sér af afleiðingum áfalla, að þær finni fyrir þeim krafti sem býr innra með þeim og veiti hverri annarri m.a. stuðning til þess að létta á skömm og sektarkennd.
Sjá nánar.

Sjálfsuppgötvun og valdefling – Námskeið fyrir stúlkur og ungar konur

Námskeiðinu er ætlað að hvetja stúlkur og ungar konur til að styrkja sjálfsmynd sína og að öðlast rödd. Unglingsárin eru tími mikilla uppgötvana, áskorana og þroska. Ýmislegt í okkar kynjuðu menningu gerir þessar áskoranir snúnar fyrir stúlkur og margar þeirra ná ekki að öðlast eigin rödd eða jákvæða sjálfsímynd á þessu mikilvæga þroskaskeiði.
Fyrir hverjar: Námskeiðið er sérstaklega ætlað stúlkum og ungum konum á aldrinum 18-25 ára
Markmið: Að hjálpa stúlkum/ungum konum að skilja stöðu sína og áhrif þess að vera kona í heimi þar sem kynjamisrétti er viðvarandi, að styðja þátttakendur í úrvinnslu áfalla og beina þeim inn á braut vaxtar eftir áföll  með kynjasjónarmið að leiðarljósi og að þátttakendur öðlist aukinn skilning á hvað sjálf er, á samböndum, heilbrigðu líferni og öðlist framtíðarsýn.
Sjá nánar.

Þú ert ekki ein, við erum margar

Ástæður fjölskylduslita geta verið margvíslegar. Til dæmis geta þau orðið í kjölfar þess að konur opna umræðu um ofbeldi í skjóli fjölskyldu, hvort heldur er í kjölfar sifjaspells, kynferðisofbeldis, líkamlegs eða andlegs ofbeldis. Fjölskylduslit geta orðið að frumkvæði þolenda eða vegna útilokunar.
Fyrir hverjar: Námskeiðið er fyrir konur sem hafa upplifað fjölskylduslit.
Markmið: Markmið námskeiðsins er að konur sem hafa upplifað fjölskylduslit finni fyrir þeim krafti sem býr innra með þeim og stuðningi hver frá annarri til þess, m. a., að létta á skömm og sektarkennd og að þátttakendur öðlist betri þekkingu og skilning á aðstæðum sínum.
Sjá nánar.

Að segja frá

Konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi glíma oft við flóknar afleiðingar þess. Ein leið til valdeflingar og bata er að rjúfa þögnina sem oft ríkir um kynferðisbrot og hafa hátt! Það getur átt við að segja frá, t.d. innan fjölskyldu, vinum, samstarfsfólki, á samfélagsmiðlum eða opinberlega í fjölmiðlum. Á námskeiðinu er farið í gegnum hvernig best er að undirbúa það að rjúfa þögnina.
Fyrir hverjar: Námskeiðið er ætlað konum sem hafa hug á að opna umræðu um ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.
Markmið: Markmið námskeiðsins er að konur geti sagt frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir og afleiðingum þess, eins og til dæmis fíkn og áfallastreitu, að þær finni fyrir þeim krafti sem býr innra með þeim og veiti hverri annarri stuðning til þess, m.a. að létta á skömm og sektarkennd og að gefa konum sem þess óska tækifæri til að undirbúa sig til að segja opinberlega frá á eigin forsendum.
Sjá nánar.

Rótarhópur

Rótin býður upp á sjálfshjálparhóp, Rótarhóp, fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðinu Konur studdar til bata og öðrum námskeiðum á vegum Rótarinnar. Konur sem eru komnar vel af stað í bata með öðrum leiðum eru einnig velkomnar í Rótarhópinn. Hópastarfið er konunum að kostnaðarlausu en samskotum er safnað.
Fyrsti fundur haustsins verður miðvikudagurinn 28. ágúst kl. 19.15-20.15.
Sjá nánar um Rótarhóp.

Umræðukvöld

Rótin stendur að umræðukvöldum þar sem fyrirlesari hefur framsögu um efni sem tengist viðfangsefnum félagsins.
Umræðukvöld eru haldin um það bil tvisvar að hausti og tvisvar að vor í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum.
21. ágúst – Fyrsta umræðukvöldið verður kynningarfundur um námskeið og aðra dagskrá vetrarins.
Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur, verður fyrirlesari á öðru umræðukvöldi haustsins. Dagsetning og nánari upplýsingar koma síðar.
Lilja Steingrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur og nemandi í Bodynamics-fræðum sem fjalla um sállíkamlega nálgun á afleiðingar áfalla. Dagsetning og nánari upplýsingar koma síðar.
Sjá nánar.

 

Share This