Erindi til siðanefndar Læknafélags Íslands

Erindi til siðanefndar Læknafélags Íslands

28. apríl 2016

Rótin hefur sent erindi til siðanefndar Læknafélags Íslands vegna ummæla geðlæknis í fjölmiðlum:

„Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, óskar eftir áliti siðanefndar Læknafélags Íslands á því hvort ummæli Óttars Guðmundssonar, í viðtali við Fréttablaðið 22. apríl, 2016, samræmist þeirri ábyrgð gagnvart einstaklingum og samfélagi sem fylgir starfi læknis samkvæmt siðareglum Læknafélags Íslands. Við horfum þá sérstaklega til III. kafla í Codex Ethicus LÍ.

Viðtalið nefnist „Enginn má lenda í neinu“ (sjá: http://www.visir.is/enginn-ma-lenda-i-neinu/article/2016160429698). Mörg ummæli þess grafa undan fórnarlömbum ofbeldis, gera lítið úr áhrifum kynferðisofbeldis á þolendur og skilgreiningarvaldi þeirra á ofbeldi sem þeir verða fyrir, ásamt því að gera lítið úr meðferð við áföllum. (more…)

Samstarf ÍSÍ og aðildarfélaga við heilsuræktarstöðvar

Samstarf ÍSÍ og aðildarfélaga við heilsuræktarstöðvar

Rótin sendi eftirfarandi bréf á ÍSÍ í kvöld:

Ágætu viðtakendur.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda sendi nýlega bréf á heilsuræktarstöðvar, ráðherra íþróttamála, ASÍ og SI til að falast eftir upplýsingum um hvernig gætt sé að persónulegu öryggi iðkenda á heilsuræktarstöðvum t.d. með siðareglum og varúðarráðstöfunum við ráðningu starfsfólks.

Mörg aðildarfélög ÍSÍ hafa gert samninga við heilsuræktarstöðvar sem fela það í sér að börnum niður í 14 ára aldur er beint inn á stöðvarnar. Almennt virðast heilsuræktarstöðvarnar ekki vera með siðareglur fyrir starfsfólk né virðast samtök starfsmanna hafa sett sér slíkar reglur, s.s. einkaþjálfarar.
ÍSÍ er með ítarlegar siðareglur að því er varðar starf í aðildarfélögum en við spyrjum hvaða kröfur eru gerðar til samstarfsaðila ÍSÍ og aðildarfélaga? Er þess krafist að heilsuræktarstöðvar, t.d., séu með skýrar siðareglur og stefnu í starfsmannamálum til að tryggja persónulegt öryggi iðkenda?
Rótarkonur þekkja dæmi þess að maður sem dæmdur hefur verið fyrir mjög gróft ofbeldi gagnvart barni sé við störf á heilsuræktarstöð sem gert hefur samninga við íþóttafélög og fleiri opinbera aðila.
Við hvetjum ÍSÍ til að skoða mál sem varða persónulegt öryggi iðkenda, ekki bara inni í félögunum heldur einnig þegar þeim er vísað til þriðja aðila.

(more…)

Siðareglur heilsuræktarstöðva og þjálfara

Siðareglur heilsuræktarstöðva og þjálfara

Rótin sendi eftirfarandi bréf á heilsuræktarstöðvar, Illuga Gunnarssonar ráðherra íþróttamála, ASÍ og SI.

Ágæti viðtakandi.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda hefur mikinn áhuga á persónulegu öryggi fólks og í því sambandi höfum við verið að skoða siðareglur í heilsuræktargeiranum.

Flestar fagstéttir sem í störfum sínum hafa vald yfir öðru fólki hafa sett sér siðareglur t.d. kennarar á öllum skólastigum, þjálfarar, einkaþjálfarar og fleiri.

Bandaríkjamenn eru framarlega á þessu sviði og þar eru víðast siðareglur sem fjalla m.a. um valdatengsl þjálfara/iðkanda, kennara/nemanda. National Council on Strength & Fitness hefur sett mjög skýrar siðareglur m.a. fyrir einkaþjálfara, (Certified Personal Trainer Code of Ethics) en í þeim er t.d. eftirfarandi ákvæði:

„4. Sexual misconduct on the part of the trainer is an abuse of professional power and a violation of client trust. Sexual contact or a romantic relationship between a trainer and a current client is always unethical.“ http://www.ncsf.org/governance/conduct/ethics.aspx.

Okkur leikur forvitni á að vita hvort að félög þjálfara, einkaþjálfara og kennara á heilsuræktarstöðvum á Íslandi hafa sett sér slíkar reglur og einnig hvort að einstakar heilsuræktarstöðvar eru með gildandi siðareglur fyrir sína starfsemi.

Einnig erum við að skoða hvort að opinberar stofnanir og félög sem eru með samninga við heilsuræktarstöðvar gera kröfur um að siðareglur séu til staðar og að þeim sé framfylgt. ASÍ gerði t.d. samning við Samtök heilsuræktarstöðva, sem enn er í gildi, um ívilnanir fyrir atvinnulausa á stöðvunum og leikur okkur forvitni á að vita hvort einhverjir fyrirvarar varðandi siðareglur séu hluti af slíkum samningum.

Við óskum eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

  1. Eru í gildi siðareglur í fyrirtækinu?
  2. Ef svarið er já, taka þær á valdatengslum leiðbeinanda/skjólstæðings?
  3. Eru í reglunum ákvæði um kynferðisleg samskipti þessara aðila?
  4. Ef svarið er nei, stendur til að fyrirtækið setji sér slíkar reglur?
  5. Er starfsfólk krafið um sakavottorð og eru reglur varðandi ráðningu aðila með ofbeldisdóma?

Virðingarfyllst,

Ráð Rótarinnar:

Árdís Þórðardóttir,

Guðrún Ebba Ólafsdóttir,

Guðrún Kristjánsdóttir,

Gunnhildur Bragadóttir,

Gunný Ísis Magnúsdóttir,

Ilmur Kristjánsdóttir,

Kristín I. Pálsdóttir,

Linda Vilhjálmsdóttir og

Þórlaug Sveinsdóttir.

Bréfið er sent á 17 heilsuræktarstöðvar og Samtök iðnaðarins sem eru móðursamtök Samtaka heilsuræktarstöðva. Einnig á ASÍ og Illuga Gunnarsson ráðherra íþróttamála.