Samtal um sálgreiningu og fíkn

Samtal um sálgreiningu og fíkn

Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, var í föstudagsviðtali Ólafar Skaftadóttur og Viktoríu Hermannsdóttur á Vísir.is hinn 20. maí 2016. Sæunn hefur ýmislegt áhugavert til málanna að leggja um fíknivanda og meðferð við honum og því fengum við Rótarkonur góðfúslegt leyfi til að birta þann hluta viðtalsins sem fjallar um fíkn á vefnum okkar. Það skal tekið fram að millifyrirsagnir eru á okkar ábyrgð og einnig var nokkrum hikorðum sleppt. Þetta er síðasti hluti viðtalsins sem hefst þegar um 56. mínútur eru liðnað af upptökunni og má hlusta á allt viðtalið hér:

Sá hluti viðtalsins sem er hér uppskrifaður er aðgengilegur á Facebook-síðu Rótarinnar og byrjar á 57. mínútu á upptökunni hér fyrir ofan.

Fíkn og áföll

Sæunn: Líka með áföll, ég veit ekki hvort að þið hafið heyrt talað um ACE Study, Adverse Childhood Experiences.

Viktoría: Hvað er það?

Sæunn: Það er um … Það er rannsókn sem skoðar það hvernig áföll í barnæsku, og það eru skilgreind ákveðin áföll, bæði áföll og vanræksla, allt frá því tilfinningalegrar vanrækslu yfir í kynferðislegt ofbeldi eða skilnað foreldra eða að missa foreldri. Ég held að þetta séu tíu áföll sem eru skilgreind og því fleiri, þú færð eitt stig fyrir hvert áfall, og því fleiri stig sem þú hefur því meiri hætta á sjúkdómum á fullorðinsaldri og þá erum við ekki bara að tala um andlega erfiðleika heldur erum við líka að tala um líkamlega sjúkdóma.

Ólöf: Þeta hefur maður nefnilega heyrt að og það er kannski vaxandi umræða um þetta núna að áföll sem þú verður fyrir hafi áhrif á líkamlega heilsu og líkamlegt bara ásigkomulag.

Sæunn: Algjörlega, já. (more…)

Tilfinningaleg vandamál kvenna í áfengis- og vímuefnavanda

Tilfinningaleg vandamál kvenna í áfengis- og vímuefnavanda

Ása Guðmundsdóttir kemur á næsta umræðukvöld Rótarinnar, miðvikudaginn 27. nóvember, kl. 20 í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum.

Ása er sérfræðingur í klínískri sálfræði. Hún starfar á Landspítalanum og rekur eigin sálfræðistofu. Hún vann um margra ára skeið við meðferð áfengis- og vímuefnavanda á Landspítala jafnframt því að sinna áfengisrannsóknum. Hún var m.a. með stuðnings- og meðferðarhópa fyrir konur í áfengis- og vímuefnameðferð og rannsakaði tilfinningalegan og félagslegan vanda þeirra. Hún hefur einnig um langt árabil sinnt einstaklingum á sálfræðistofu sinni, sem glímt hafa við áfengis-og vímuefnavanda, einkum konum. Hún sinnir nú m.a. meðferð þeirra sem leita á neyðarmóttöku nauðgana.

Í erindinu verður greint frá niðurstöðum rannsókna hennar á tilfinningalegum og félagslegum vanda kvenna í áfengis- og vímuefnameðferð auk þess sem fyrirlesari fjallar um eigin reynslu úr meðferðarstarfi með konum. Rætt verður um ástæður þess að huga þarf að þörfum kvenna sérstaklega er þær leita sér meðferðar.

Allir, konur og karlar, eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar!

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Fabebook: https://www.facebook.com/events/1435332200022917/.

Meðferð við fíkn – Umræðukvöld 9. október

Meðferð við fíkn – Umræðukvöld 9. október

Komið er að þriðja umræðukvöldi haustsins hjá Rótinni. Að þessu sinni mætir Helga Sif Friðjónsdóttir Ph.D, MN í geðhjúkrunarfræði og hjúkrunardeildarstjóri á fíknigeðdeild geðsviðs Landspítala  til okkar og ræðir meðferð við fíkn.
Áherslur Helgu Sifjar í meistara og doktorsnámi voru á meðferð og forvarnir fyrir einstaklinga með fíkni- og annan geðvanda. Hún hefur starfað að slíkri hjúkrun m.a. á Vogi og frá sumri 2007 á fíknigeðdeild Landspítala. Helga Sif er einnig í samstarfi um kennslu og þjálfun í áhugahvetjandi samtali á ýmsum vettvangi og er faglegur verkefnisstjóri Frú Ragnheiðar – skaðaminnkunn, sem starfrækt er á vegum Rauða krossins í Reykjavík.

Allir, konur og karlar, eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar!

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook: https://www.facebook.com/events/606876446018447/.

Öryggi kvenna í áfengismeðferð – erindi til ráðherra

27. ágúst 2013

Ráð Rótarinnar sendi í dag heilbrigðis- og félagsmálaráðherrum, Kristjáni Þór Júlíussyni og Eygló Harðardóttur, erindi sem Rótin sendi landlækni í apríl en engin viðbrögð hafa borist félaginu við erindinu. Erindið er svohljóðandi:

„Þann 22. apríl sendi Rótin erindi til landlæknis vegna öryggis kvenna í áfengismeðferð. Þrátt fyrir að erindið hafi verið ítrekað tvisvar höfum við engin svör fengið frá embættinu. Við höfum því ákveðið að framsenda þetta mikilvæga erindi á ráðherra heilbrigðis- og félagsmála:

Hinn 11. þessa mánaðar féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur vegna hrottalegra ofbeldisglæpa gagnvart ungum konum. Hinn dæmdi, sem er 33 ára, hafði áður hlotið langa dóma vegna alvarlegra ofbeldisglæpa gagnvart konum. Í dómsorðinu kemur fram að hann hafi kynnst síðasta fórnarlambi sínu í áfengismeðferð. Þar er á ferð 18 ára stúlka sem hafði leitað sér meðferðar inni á meðferðarstofnun þar sem hún kynntist ofbeldismanninum. Um árás mannsins á þessa ungu konu stendur í dómsorði: „Var árásin hrottaleg og fallin til þess að valda brotaþola ótta um líf sitt.“

Ráð Rótarinnar – félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda hefur verulegar áhyggjur af því að dæmdir ofbeldismenn hafi aðgang að ungum konum, og veiku fólki almennt, innan heilbrigðiskerfisins. Líta verður til þess að stór hluti kvenna sem kemur til meðferðar á ofbeldissögu að baki og sú staðreynd gerir þennan hóp enn veikari fyrir hvers kyns valdbeitingu. Hið sama á að mörgu leyti við um unga menn.
Ingólfur V. Gíslason orðar þetta svona í skýrslu sinni um Ofbeldi í nánum samböndum sem unnin var fyrir félags- og tryggingaráðuneytið:
„Í fyrsta lagi er ofbeldi nokkuð sameiginleg reynsla kvenna sem leita á Vog, þær hafa langflestar verið beittar einhverju ofbeldi. Raunar var það samdóma álit viðmælenda, bæði á Vogi og í áhættumeðgöngunni hjá Landspítalanum, að konur sem væru í mikilli neyslu væru með ofbeldi sem „sjálfsagðan“ þátt í sínu lífi og raunar eitthvað sem þær upplifi yfirleitt ekki sem sitt megin vandamál. Þannig var talið að a.m.k. 70 – 80% þeirra kvenna sem stríddu við fíkn hefðu verið beittar einhverju ofbeldi.“
Við krefjumst þess að skapaðar verði aðstæður inni í heilbrigðiskerfinu til að konur geti leitað sér meðferðar við þeim alvarlega sjúkdómi sem alkóhólismi er án þess að eiga það á hættu að lenda í klóm ofbeldismanna.““