Heggur sá er hlífa skyldi? – Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Heggur sá er hlífa skyldi? – Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Guðrún ebba Ólafsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.

Katrín G. Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.

Við Rótarkonur vitum af eigin raun að fjölmiðlar vilja gjarnan fá fólk í viðtöl til að segja reynslusögur. Þær vekja oft mikla athygli og því er freistandi að finna viðmælenda, enda er tilgangurinn góður. Á sama tíma fylgir því ónotatilfinning að ýta fólki inn í kastljós fjölmiðla til að tjá sig um erfiða lífsreynslu, ofneyslu og ofbeldi.

Sú hugmynd virðist vera á kreiki að það sé einhvers konar terapía að koma fram í fjölmiðlum og segja sína sögu, jafnvel fyrir fólk sem lítið sem ekkert hefur unnið úr sínum áföllum.

Þau áföll sem hafa alvarlegustu áhrifin á heill og hamingju fólks eru kynferðisbrot, ekki síst þau sem framin eru gagnvart börnum og ungu fólki. Nauðgun er svo sá einstaki atburður sem mestar líkur eru á að valdi áfalla­streituröskun og konur eru í miklum meirihluta þeirra sem glíma við hana.

Meirihluti kvenna sem glíma við fíknivanda á sér áfalla- og ofbeldissögu. Það er á engan hátt markmið Rótarinnar að taka þátt í þöggun um kynbundið ofbeldi og það getur vissulega verið mjög valdeflandi að afhjúpa ofbeldi. Hins vegar viljum við leggja okkar af mörkum til þess að fram fari umræða um það hvernig samfélagið fjallar um kynbundið ofbeldi. Við leggjum áherslu á að það er þess sem fyrir ofbeldinu verður að ákveða hvar, hvenær, hvort og hvernig saga hans birtist opinberlega. (more…)

Framtíð fíknimeðferðar

16.11.2016

Meðferð við fíknivanda á Íslandi er að mestu í höndum einkaaðila og frjálsra félagasamtaka og þjónusta Landspítala er eingöngu ætluð fólki með tvíþættan vanda, alvarleg geðræn vandamál og fíknivanda. Hið opinbera hefur ekki mótað neina stefnu né gefið út klínískar leiðbeiningar um fíknimeðferð og hefur því í rauninni látið einkaaðilum það eftir að móta þjónustuna eftir hverri þeirri stefnu sem rekstraraðilum þóknast.

Óbreytt meðferð á nýjum stað
SÁÁ er um þessar mundir að stækka meðferðaraðstöðu sína á Vík á Kjalarnesi og mun í framhaldinu hætta að reka meðferðarheimilið á Staðarfelli. Ekki hefur komið fram í fréttum að samhliða þessu sé um stefnubreytingu að ræða í meðferðarframboði. Ef það er rétt skilið vekur það undrun að farið sé í slíka uppbyggingu án þess að jafnframt fari fram endurmat á meðferðinni. Innan heilbrigðiskerfisins hefur á undanförnum árum verið lögð aukin áhersla á framboð dagdeildar- og göngudeildarþjónustu í stað inniliggjandi meðferðar. Ekki virðist vera gert ráð fyrir þessari þróun í uppbyggingu SÁÁ.

Nýjar rannsóknir erlendis sýna að ekki er betri árangur af inniliggjandi meðferð en af dag- og göngudeildarmeðferð. Ákveðinn hópur þarf vissulega á innlögn að halda en hér á landi virðast litlar tilraunir hafa verið gerðar til að þarfagreina þann hóp sem fer í fíknimeðferð. Þetta er sérstakt áhyggjuefni fyrir konur þar sem rannsóknir sýna að konur leita frekar í slíka þjónustu Ef hins vegar er ætlunin að auka dag- og göngudeildarþjónustu þá er staðsetning á Kjalarnesi ekki mjög aðgengileg. (more…)

Hliðarveruleiki allsgáðra blaðamanna

Hliðarveruleiki allsgáðra blaðamanna

Í Fréttatímanum í dag (3. september 2016) skrifar Gunnar Smári Egilsson grein um uppsetningu söng­leiksins Djöflaeyjunnar, sem byggð er á samnefndri bók Einars Kárasonar. Í hliðarramma er svo hugleiðing um framsetningu alkans í skáldskap, út frá persónu Bóbós í verkinu.

Í þessum hliðarramma birtist hefðbundin varnarræða fyrir sjúkdómskenninguna um fíkn. Gunnar Smári ber þar á borð þá túlkun að kenningar um tengsl áfalla og fíknar séu tilkomnar vegna þess að heilasjúk­dóms­kenningin um fíkn sé ekki nógu rökrétt fyrir leikræna uppbyggingu og því hafi rithöfundar fundið upp á því að tengja áföll og þróun fíknar.

Ég er reyndar alveg sammála því að það vantar trúverðugleika og raunsæi í sjúkdómskenninguna um fíkn enda hafa rannsóknir síðastliðinna 20 ára á tengslum erfiðra upplifana og heilsufars sýnt fram á órjúfanleg tengsl þar á milli. Ása Guðmundsdóttir gerði t.d. rannsókn árið 2000 þar sem fram kom að 50% kvenna sem þá voru í fíknimeðferð á Vífilsstöðum höfðu verið beittar kynferðisofbeldi í æsku. Hins vegar hafa milljarðarnir sem hafa verið lagðir í það á heimsvísu að finna alkagenið ekki skilað miklum árangri. Allen J. Frances, ritstjóri greiningarstaðalsins DSM 4 og höfundur bókarinnar Saving Normalbenti t.d. á, á ráðstefnu Geðhjálpar í júní síðastliðnum, að skönnun á heila fólks með geðrænan vanda hafi ekki hjálpað einum einasta sjúklingi hingað til, en litríkar myndir af heilanum hafa verið mjög vinsælar á undanförnum árum til að selja hugmyndir um að geðrænn vandi, þar á meðal fíkn, sé aðallega líffræðilegur en ekki umhverfislegur. (more…)

Ekkert örreytiskot

Ekkert örreytiskot

4.8.2016

Myndaniðurstaða fyrir konukotFlest okkar eiga erfitt með að gera sér í hugarlund hvernig það er að eiga hvergi heima, helst líkist það því að vera flóttamaður í eigin landi. Við getum samt rétt ímyndað okkur hvað það eru þung spor að þiggja þjónustu Konukots í fyrsta sinn.

Konukot er skaðaminnkandi úrræði fyrir heimilislausar konur sem rekið er af Rauða krossinum í Reykjavík í samstarfi við Reykjavíkurborg. Ráðskonur Rótarinnar þáðu nýlega boð í kotið og Svala Jóhannesdóttir verkefnisstýra kynnti starfsemina fyrir okkur. Hún og hennar starfsfólk og sjálfboðaliðar leggja mikla áherslu á að koma fram við konurnar af virðingu, kærleika og samkennd. Á mildan hátt er forðast að setja sig á háan hest gagnvart konum sem eiga við fíknivanda að stríða eða falla ekki að siðaboðum og reglum samfélagsins á annan hátt. Konurnar í Konukoti eiga margar erfiða lífssögu að baki og kusu ekki þetta líf. Margar eiga sára reynslu af ofbeldi í æsku og sumar hafa búið við ofbeldi meira og minna alla ævi.

Þó að Konukot sé ekki meðferðarstofnun gilda að mörgu leyti sömu lögmál um starfsemina þar og í fíknimeðferð, því stærsti hluti kvennanna sem sækja þangað glímir við áfengis- og fíknivanda. Á Charles. K. Post meðferðarstöðinni í New York-fylki, og fleiri meðferðarstöðvum, er stuðst við þá reglu að konur meðhöndli konur. Þessu er ekki þannig farið á Íslandi og sjálfsagt er um að kenna skorti á þekkingu á sértækum vanda kvenna. Enn eimir mjög eftir af forræðis- og refsianda í heilbrigðis- og velferðarkerfi sem er lítt til þess fallinn að hjálpa þeim sem jaðarsettastir eru í samfélaginu. Þar eru konur á ysta hjaranum með sínar ofbeldis- og áfallasögur og eru þær enn viðkvæmari fyrir slíkri nálgun en karlar.

Við vitum að það er mikið af hugsjónafólki að vinna við meðferð og aðra þjónustu en samt hafa yfirvöld brugðist þessum konum að því leyti að ekki hefur verið mörkuð skýr stefna um áfallameðvitaða og kynjamiðaða meðferð og þjónustu þar sem nýjasta og besta þekking er nýtt. Konur með alvarlegan fíkni- og geðrænan vanda verða fyrir flókinni, margþættri og kerfisbundinni kúgun og því þarf heilbrigðis- og velferðarkerfið að nálgast þær á þeim forsendum. Reglan um að konur meðhöndli konur ætti þar af leiðandi að vera ófrávíkjanleg í allri meðferð og persónulegri þjónustu við konur í þessum hópi. Þetta á við í meðferð við fíknivanda og í athvörfum og gistiskýlum fyrir konur.

Fyrirmyndarúrræði
Konukot er griðastaður fyrir konurnar sem þangað sækja. Þær eiga rétt á vernd og öryggi meðan þær dvelja þar, þó að það sé aðeins opið í 17 klst. á sólarhring. Eftir að hafa sætt miklu ofbeldi af hendi karlmanna, einkum ef það hefur verið af hendi einhvers sem stendur þeim nærri, eins og föður, afa, bróður, frænda eða kærasta og maka, getur hvaða karlmaður sem er valdið þeim mikilli vanlíðan, ekki síst ef þær eru á einhvern hátt háðar ákvörðunum hans í þeirri stöðu sem hann gegnir. Þetta hefur ekkert með persónuna að gera eða hve fagmannlega hún sinnir sínu starfi.

Heimsókn okkar í Konukot var fróðleg og skemmtileg og ljóst að aðstandendur þess hafa byggt upp fyrirmyndarúrræði þar sem reynt er eftir bestu getu að beita áfallameðvitaðri og kynjamiðaðri nálgun þar sem reglan er að konur þjónusti og styðji konur.
Við þökkuðum fyrir okkur með því að færa Konukotskonum tvö eintök af bók Stephanie Covington, A Womans Way through the Twelve Steps, ásamt vinnubókum.

Takk fyrir okkur og til hamingju með faglegt og nærgætið starf. Konukot lætur kannski lítið yfir sér í veraldlegu tilliti en þar er ekki í kot vísað hvað inntak og atlæti varðar.

Edda Arinbjarnar, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Heiða Brynja Heiðarsdóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 4. ágúst 2016

(more…)

Hvað er að hjá SÁÁ?

Hvað er að hjá SÁÁ?

Þórlaug Ágústsdóttir, Áslaug Árnadóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Guðrún Ebba ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir. Á myndinga vantar Eddu Arinbjarnar.

Þórlaug Ágústsdóttir, Áslaug Árnadóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Guðrún Ebba ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir. Á myndinga vantar Eddu Arinbjarnar.

Umræða um fíkn hefur tekið miklum stakkaskiptum á þeim árum sem liðin eru frá því að Rótin var stofnuð enda er löngu tímabært að endurskoða íslenska meðferðarkerfið.

Á innan við ári hafa tveir alþjóðlegir fyrirlesarar í fremstu röð heimsótt Ísland og fjallað um tengsl fíknar og áfalla. Stephanie Covington, frumkvöðull á sviði áfallameðvitaðrar meðferðar við fíknivanda kvenna, kom sl. haust í boði Rótarinnar og fleiri aðila og fjallaði um mikilvægi þess að meðferð sé kynjamiðuð, kærleiksrík og valdeflandi.
Hinn 12. júní sl. hélt svo kanadíski læknirinn og rithöfundurinn Gabor Maté fyrirlestra í Hörpu um lífsálfélagslega (e. biopsychosocial) kenningu um fíkn, en eftir því sem rannsóknum á áhrifum lífsreynslu og erfiðra upplifana í æsku fjölgar verða æ skýrari tengslin á milli áfallareynslu, fíknar og annars heilsufarsvanda síðar á ævinni.

Félagasamtök áhugafólks um fíknivandann, SÁÁ, fær bróðurpart þess fjármagns sem notað er til meðferðar við fíknivanda hér á landi. Minnesóta-módel þeirra byggist á þeirri umdeildu kenningu að fíkn sé ólæknandi heilasjúkdómur sem allir þurfi svo til sömu meðferð við og markmið meðferðarinnar er að fólk fari inn í AA-samtökin. (more…)

Samtal um sálgreiningu og fíkn

Samtal um sálgreiningu og fíkn

Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, var í föstudagsviðtali Ólafar Skaftadóttur og Viktoríu Hermannsdóttur á Vísir.is hinn 20. maí 2016. Sæunn hefur ýmislegt áhugavert til málanna að leggja um fíknivanda og meðferð við honum og því fengum við Rótarkonur góðfúslegt leyfi til að birta þann hluta viðtalsins sem fjallar um fíkn á vefnum okkar. Það skal tekið fram að millifyrirsagnir eru á okkar ábyrgð og einnig var nokkrum hikorðum sleppt. Þetta er síðasti hluti viðtalsins sem hefst þegar um 56. mínútur eru liðnað af upptökunni og má hlusta á allt viðtalið hér:

Sá hluti viðtalsins sem er hér uppskrifaður er aðgengilegur á Facebook-síðu Rótarinnar og byrjar á 57. mínútu á upptökunni hér fyrir ofan.

Fíkn og áföll

Sæunn: Líka með áföll, ég veit ekki hvort að þið hafið heyrt talað um ACE Study, Adverse Childhood Experiences.

Viktoría: Hvað er það?

Sæunn: Það er um … Það er rannsókn sem skoðar það hvernig áföll í barnæsku, og það eru skilgreind ákveðin áföll, bæði áföll og vanræksla, allt frá því tilfinningalegrar vanrækslu yfir í kynferðislegt ofbeldi eða skilnað foreldra eða að missa foreldri. Ég held að þetta séu tíu áföll sem eru skilgreind og því fleiri, þú færð eitt stig fyrir hvert áfall, og því fleiri stig sem þú hefur því meiri hætta á sjúkdómum á fullorðinsaldri og þá erum við ekki bara að tala um andlega erfiðleika heldur erum við líka að tala um líkamlega sjúkdóma.

Ólöf: Þeta hefur maður nefnilega heyrt að og það er kannski vaxandi umræða um þetta núna að áföll sem þú verður fyrir hafi áhrif á líkamlega heilsu og líkamlegt bara ásigkomulag.

Sæunn: Algjörlega, já. (more…)