Björn Logi Þórarinsson læknir og stjórnarmaður í framkvæmdastjórn SÁÁ sendi okkur Rótarkonum nokkrar spurningar í nóvember sem við svöruðum strax með greininni Hvað býr að baki viðhorfum Rótarinnar til meðferðar?

Nú hefur Björn Logi brugðist við svari okkar og eru viðbrögð hans nokkurt undrunarefni. Gaman hefði verið ef Björn Logi hefði rökstutt mál sitt í stað þess að gera lítið úr þekkingu Rótarkvenna á notkun heimilda.

Það er rétt að árétta að við Rótarkonur látum hvorki heilbrigðisvísindi né annað stjórna okkur í blindni. Við erum ekki rannsóknarstofnun heldur frjáls félagasamtök sem vinna að hagsmunum kvenna með áfengis- og fíknivanda. Við lítum á fíknivanda sem fjölþættan vanda sem þarf að skoða á heildrænan hátt. Við tökum mark á konum sem nota meðferðarþjónustuna og finnst mikilvægt að þeirra raddir séu teknar til greina við þróun úrbóta í þjónustu við fólk í fíknivanda.

Áreiðanlegar heimildir?

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. WHO) er ein aðal heimildin í fyrra svari okkar og það vekur furðu að íslenskur læknir telji útgefið efni einnar virtustu heilbrigðisstofnunar heims ekki nógu áreiðanlega heimild. Við spyrjum hvort að það séu persónuleg sjónarmið Björns Loga gagnvart WHO, og öðrum heimildum sem við vitnum til, eða endurspegla þessi viðbrögð viðhorfin innan framkvæmdastjórnar SÁÁ?

Þó að skjalið sem vitnað er í frá WHO sé ekki langt, alls 10 blaðsíður, er þar vitnað í 54 heimildir. Þegar þær heimildir eru skoðaðar sést að ítarleg og fjölbreytt rannsóknarvinna býr að baki þessu litla skjali. Fyrsta heimildin á listanum er t.d. World report on violence and health frá 2002 frá WHO. Nelson Mandela skrifar formála skýrslunnar og bendir þar á að 20. öldin hafi verið öld ofbeldisins. Ekki bara hins sýnilega ofbeldis stríðsátaka heldur líka hins lítt sýnilega, en jafnvel útbreiddara ofbeldis, sem börn og konur eru beitt af fólki sem stendur því næst.

Við Rótarkonur viljum leggja okkar litlu lóð á vogarskálina hans Nelsons Mandela með því að vinna gegn áhrifum ofbeldis á líf fólks. Ekki bara vegna þeirra víðtæku rannsókna sem eru til á sambandi áfengisfíknar og ofbeldis heldur vegna þeirrar afstöðu okkar að taka fórnarlömb ofbeldis trúanleg.

En Björn Logi vill vísindalegar sannanir. Eftir hvern kafla í áðurgreindri skýrslu WHO eru að sjálfsögðu heimildalistar. Á eftir fyrsta kaflanum eru tilteknar 59 heimildir og flestar ættaðar úr ritrýndum vísindaritum (sem þýðir væntanlega þar að baki býr vísindaleg rannsókn), skýrslum yfirvalda (sem unnar eru af sérfræðingum og byggðar á vísindalegu starfi og rannsóknum), skýrslum frá WHO eða önnur gögn sem teljast gagnreynd þekking.

Önnur gögn sem vitnað er til í svari okkar eru:

Áhrif ofbeldis á heilsufar

Björn Logi segir að ekki sé hægt að „draga ályktanir um etíólógískt samband ofbeldis að valda áfengissýki kvenna eða therapeutisks inngrips að auka batalíkur í heilbrigðisvísindum“ og að þetta sé „basic vitneskja í heilbrigðisgeiranum“. Skyldu margir kollegar hans taka undir þetta sjónarmið? Nú fara fram mjög viðamiklar rannsóknir á sambandi heilsufars og ofbeldis. Hér er t.d. grein um það eftir prófessor í læknisfræði: Hver er þinnar gæfu smiður?

Einnig stundar Sigrún Sigurðardóttir lektor á heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri rannsóknir á kynferðislegu ofbeldi í æsku, áhrifum á heilsufar og líðan. Grein hennar og Sigríðar Halldórsdóttur Repressed and silent suffering: consequences of childhood sexual abuse for women’s health and well-being birtist í Scandinavian Journal of Caring Sciences í júlí 2013 og grein þeirra sem skrifuð er með Sóleyju Bender um sama efni nema með karla sem viðfangsefni birtist í sama ritrýnda fræðiriti í mars árið 2012.

Lykilatriði í gagnrýni okkar á meðferðarstefnu SÁÁ

Björn Logi segir að ekki sé hægt að álykta út frá „greinaskrifum annarra“ eða „persónulegri reynslu“. Þarna erum við Rótarkonur á öndverðum meiði. Læknavísindi sem meta það svo að „persónuleg reynsla“ sé ómarktæk og einskis virði eru ekki upp á marga fiska í okkar augum. Mikið af vísindalegum gögnum eru þar að auki fengin með rannsóknum á persónulegri reynslu.

Lykilatriði varðandi persónulega reynslu er þó að fólki sem leitar hjálpar í heilbrigðisþjónustu sé trúað og brugðist við á réttan hátt þegar það opnar á erfiða lífsreynslu. Þegar fólk kemur til meðferðar er það venjulega niðurbrotið, það hefur náð botni í lífinu og þess vegna leitar það sér hjálpar. Það er því ekki óalgengt að það opni á gömul, eða ný, ofbeldismál og þó að slíkt sé ekki beint meðhöndlað á afvötnunarstöðvum þá er alltaf mikilvægt að fólk fái viðurkenningu á sínum tilfinningum, því sé trúað og vísað veginn til úrvinnslu slíkra mála. Þegar brotið er gegn trausti skjólstæðingsins á þennan hátt er ekki víst að tækifærið komi aftur. Takmarkaður skilningur er nú á slíkri nálgun á Vogi og er það að mati okkar Rótarkvenna mjög ámælisvert.

Vísindalegur málflutningur

Nú nýverið skoðuðum við Rótarkonur menntamál áfengis- og vímuefnaráðgjafa og niðurstaðan var sú, samkvæmt svörum frá landlæknisembætti, velferðarráðuneyti og menntamálaráðuneytað nám ráðgjafa séu í ólestri, það tilheyrir engu skólastigi og litlar sem engar kröfur eru gerðar til þeirra sem annast kennslu ráðgjafanna. Í kjölfar frétta af svörum yfirvalda til okkar hafa hagsmunaaðilar, ráðgjafar, skrifað greinar til að verja sinn hlut. Magnús Einarsson ráðgjafi hjá SÁÁ rekur í grein sinni Um starf áfengis- og vímuefnaráðgjafa þá ábyrgð sem ráðgjafar SÁÁ bera.

Þeir „hjálpa fólki að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína“, „bera hitann og þungann af meðferðinni. Þeir eru í mestri nálægð við sjúklingana og bera því mikla ábyrgð. Þeir halda fyrirlestra, sjá að mestu um hópmeðferð og einstaklingsráðgjöf varðandi vímuefna- og spilafíkn“ og svo „starfa áfengis- og vímuefnaráðgjafar meðal annars við forvarnir og rannsóknir.“

Samkvæmt þessari lýsingu bera ráðgjafar sem hafa enga akademíska menntun ótrúlega mikla ábyrgð á sjúklingum SÁÁ og starfa auk þess við rannsóknir.

Ráðgjafafyrirkomulagið á meðferðarstofnunum er sprottið upp úr jarðvegi 12 spora samtaka sem byggja alfarið á jafningjahjálp en ekki á gagnreyndri þekkingu og rannsóknum. Þó að starf ráðgjafa hafi þróast í áranna rás er ennþá eftirfarandi ákvæði í ráðningarsamningum SÁÁ: „Ráðgjafar skulu stunda AA eða Al-Anon og þeir starfsmenn SÁÁ, sem eru alkóhólistar eða aðstandendur þeirra skulu stunda AA eða Al-Anon.“

Þetta verður að teljast mjög í mótsögn við vísindalega kenningarfestu Björns Loga gegn trú á persónulegri reynslu.

Rótin er ekki rannsóknarstofnun heldur hagsmunafélag en hins vegar rekur SÁÁ sjúkrahús þar sem ráðgjafar með illa skilgreinda menntun eru hryggjarstykkið í starfseminni.

Það er því vissulega verðugt verkefni fyrir Björn Loga að beita sér fyrir vísindalegum vinnubrögðum innan sinna samtaka og seta hans í framkvæmdastjórn SÁÁ gefur honum ómetanlegt færi til þess að láta þar til sín taka.

Orðsending Björns Loga til Rótarinnar

Orðsending Björns Loga til Rótarinnar

Share This