Rótin býður á námskeið og í sjálfshjálparhópastarf, Rótarhópa fyrir konur sem glímt hafa við fíknivanda. Námskeiðið kallast á ensku Helping women recover og er höfundur efnisins Stephanie Covington sem er frumkvöðull í vinnu með fíkn og áföll hjá konum. Í samræmi við það er lögð áhersla á að fíknivandi sé afleiðing af áfalli (ens. trauma) og/eða öðrum fjölþættum vanda í lífi kvenna og að neysla vímuefna sé því einkenni en ekki frumorsök.

Aðaláherslan er á fjóra þætti, sem eru:

  1. sjálfsmynd
  2. sambönd og samskipti
  3. kynverund
  4. andleg heilsa

Innan þessara þátta eru undirflokkar þar sem farið er ítarlega í þau atriði sem talin eru mikilvæg fyrir konur í bataferli. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim. Hvernig hafa þær komist af og til hvaða bjargráða hver og ein þeirra hafi gripið. Kynntar eru nýjar aðferðir til að takast á við vandann í stað neyslu.

Markmiðið með námskeiðinu og hópastarfinu er að konurnar öðlist aukna sjálfsþekkingu sem einstaklingar, í stað þess að skilgreina sig í gegnum sambönd eða stöðu sína, að þær finni styrkleika sína og geti byggt framtíð sína og betra líf á þeim.

Nánar um námskeiðið Konur studdar til bata

Alls er um að ræða 16 skipti á tímabilinu frá 16. janúar til 10. apríl 2019. Hvert skipti er 90 mínútur frá kl. 17.15–18.45. Þátttökugjald fyrir hópastarfið er kr. 40.000.

Dagsetningar:

Sjálfsmynd 16., 23. og 30. janúar, 4. og 6. febrúar
Sambönd og samskipti 13., 18., 20., 27. febrúar og 4. mars
Kynverund 6., 11., 13., 20. og 27. mars
Andleg upplifun 3. og 10. apríl

Námskeiðið fer fram í Bjarkarhlíð, Bústaðavegi, 108 Reykjavík.

Leiðbeinendur: Katrín G. Alfreðsdóttir og Guðrún Ebba Ólafsdóttir

Skráning fer fram á síðu Rótarinnar til 10. janúar.

Haft verður samband við allar sem sækja um áður en hópastarfið hefst.

Sjá enn fremur https://www.rotin.is/konur-studdar-til-bata/.

Bókin A Woman’s Journal. Helping Women Recover sem er vinnubók á ensku fyrir þátttakendur er til sölu hjá félaginu á 6.000 kr. Verkefni í námskeiðinu verða einnig afhent á lausum blöðum á íslensku og það er hverri konu í sjálfsvald sett hvort að hún kaupir bókina.

Vinsamlega sendið inn pöntun hér.

Nánar um sjálfshjálparhópa, Rótarhópa

Rótin hefur ákveðið að stofna sjálfshjálparhópa, Rótarhópa, fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðinu Konur studdar til bata. Hóparnir funda á miðvikudögum kl. 19.15-20.15 í Bjarkarhlíð, Bústaðavegi. Leiðbeinendur eru þær sömu og á námskeiðinu og umræðuefnin tengjast einnig viðfangsefnum námskeiðsins. Hóparnir eru ætlaðir þeim konum sem hafa sótt námskeiðið Konur studdar til bata eða verið í sambærilegri batavinnu. Hópastarfið er konunum að kostnaðarlausu.

Skráning fer fram á síðu Rótarinnar til 10. janúar. 

Nánar um leiðbeinendur:

Katrín G. Alfreðsdóttir er félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur Hún fór á ráðstefnuna og námskeiðið Covington Curriculum Conference, í Connecticut í Bandaríkjunum, um aðferðir Stephanie S. Covington sem er sérfræðingur og frumkvöðull í meðferð kvenna með fíknivanda. Covington var aðalfyrirlesari á ráðstefnu Rótarinnar og samstarfsaðila um konur og fíkn haustið 2015. Katrín situr í ráði Rótarinnar.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir er grunnskólakennari og kennir lífsleikni og ensku í Laugalækjarskóla. Hún hefur leitt hópa í Stígamótum og Drekaslóð. Guðrún Ebba hefur tekið virkan þátt í starfi á þessu sviði undanfarin ár. Í október 2011 kom út saga hennar sem Elín Hirst skráði með henni, Ekki líta undan. Hún hefur setið í ráði Rótarinnar frá stofnun.

Share This