Fimmtudaginn 28. september mun Katrín G. Alfreðsdóttir kynna fyrir Rótarkonum hópastarf sem félagið hefur í hyggju að koma af stað. Að venju verðum við í kjallara Hallveigarstaða kl. 20.

Í júní síðastliðinn fór Katrín, sem er félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, á ráðstefnuna og námskeiðið Covington Curriculum Conference, í Connecticut í Bandaríkjunum, um aðferðir Stephanie S. Covington sem er sérfræðingur og frumkvöðull í meðferð kvenna með fíknivanda. Covington var aðalfyrirlesari á ráðstefnu Rótarinnar og samstarfsaðila um konur og fíkn haustið 2015.

Á ráðstefnunni í Connecticut var áherslan á mikilvægi kynjaskiptrar fíknimeðferðar, bæði fyrir konur og karla. Jafnframt var kynnt hvernig ætti að koma á þjónustu fyrir þessa hópa þar sem öryggi og traust væri í fyrirrúmi. Nokkur námskeið voru í boði fyrir þátttakendur sem öll miðuðu að því að kenna meðferðarvinnu með hópum en viðfangsefnin voru ólík.

Katrín sótti námskeið sem bar nafnið „Helping women recover: A program for treating substance abuse“. Námskeiðið fjallaði um stofnun meðferðarhópa til að styðja konur í fíknivanda og vinna með þeim til að taka á vanda sínum. Stephanie Covington er frumkvöðull í vinnu með fíkn og áföll hjá konum og í samræmi við það er lögð á að fíknivandi sé afleiðing af áfalli (ens. trauma) og öðrum fjölþættum vanda í lífi kvenna. Neyslan er því einkenni en ekki frumorsök. Þátttakendur fóru í gegnum meðferðarhandrit með leiðbeinanda til að upplifa sjálfir hvernig er að sitja í hóp og deila með öðrum líðan sinni og reynslu. Einkunnarorðin voru „Try it before you buy it“.

Meðferðarvinnan felst í því að hópurinn hittist í 17 skipti í 90 mínútur í senn, í hópnum eru 6-10 þátttakendur. Aðaláhersla í hópavinnunni er á 4 þætti sem eru:

1) sjálfsmynd kvennanna

2) sambönd þeirra og samskipti

3) kynvitund og

4) andlega upplifun þeirra.

Innan þessara þátta eru undirflokkar þar sem unnið er dýpra með ákveðin atriði sem talin eru mikilvæg fyrir konur sem eru að vinna með fíknivanda sinn og eru í bataferli.

Í hópavinnunni er spurt hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað er að þeim. Hvert er bjargráð hverrar og einnar og hvert er samband hennar við sín eigin bjargráð. Kynntar eru fyrir konunum nýjar aðferðir til að takast á við vanda sinn í stað þess að nota neyslu til að takast á við hann.

Markmiðið með hópavinnunni er að konurnar læri að þekkja sjálfar sig sem einstaklinga í stað þess að skilgreina sig í gegnum sambönd eða stöðu sína, að þær geti fundið styrkleika sína og geti byggt framtíð sína og betra líf á styrkleikanum.

Í fyrirlestrinum mun Katrín kynna hópavinnuna enn frekar á grunni meðferðarhandritsins og fara yfir þau atriði sem talin eru mikilvæg í meðferðarvinnu með konum.

Allir eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar sem haldin eru á Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook!

Share This