Rótin hefur sent eftirfarandi umsögn til Alþingis. Hana má nálgast í PDF-skjali hér. 

Efni: Umsögn Rótarinnar – félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda um tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, 409. mál.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda barst til umsagnar þingsályktunartillaga um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019-2022 og fagnar því að hún sé fram komin og mörgum þeirra aðgerða sem áætlað er að ráðast í samkvæmt tillögunni.

Rótin vill koma á framfæri athugasemdum við tillöguna og þá aðallega að því er varðar samslátt ofbeldis og vímuefnavanda þar sem ekki er vikið að því samhengi einu orði í þingsályktunartillögunni.

  1. Fyrsta athugasemdin lítur að því að hvergi í þingsályktunartillögunni er minnst á samband ofbeldis og vímuefnavanda sem þó er bæði augljóst og nauðsynlegt hafa í huga alltaf þegar verið er að setja lög, móta stefnu, úrræði eða aðgerðir um annað hvort. Rannsóknir á tengslum áfalla í æsku og heilsufars síðar á lífsleiðinni styðja sífellt betur þá staðreynd að ofneysla áfengis eða annarra vímuefna verður ekki til í tómarúmi. Að baki vandanum býr oftar en ekki saga um áföll og ofbeldi sem vinna þarf með á bataleiðinni. Kyn hefur líka áhrif, það að fæðast kona í karllægum heimi veikir stoðirnar og því er nauðsynlegt að meðferð við vímuefnavanda taki mið af því. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að um 80% kvenna sem leita sér lækninga vegna vímuefnavanda hafa orðið fyrir ofbeldi.

  • Ótal gögn staðfesta nauðsyn þess að skoða ofbeldi og vímuefnavanda í samhengi og má þar nefna tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar[1] sem í nóvember 2011 birti upplýsingablað um ofbeldi í nánum samböndum og áfengi þar sem kemur fram að rannsóknir á forvörnum sem beinast að áfengistengdu ofbeldi séu af skornum skammti. Einnig er lögð áhersla á mikilvægi forvarna og hlutverk heilbrigðiskerfisins í því að koma í veg fyrir ofbeldi í nánum samböndum, m.a. með því að fást við samband ofbeldis við áfengisneyslu. Ein afleiðing ofbeldis er að þolendur þess nota áfengi sem sjálfsmeðhöndlun (e. self-medicating) og auka þannig líkur á fíknivanda. Einnig segir að sú trú manna að áfengi valdi ofbeldishneigð sé jafnvel notuð sem afsökun fyrir ofbeldishegðun og að börn sem verða vitni að ofbeldi á milli foreldra sinna séu líklegri til að lenda í drykkjuvanda síðar á ævinni en önnur börn. Stofnunin setur svo fram ákveðnar tillögur um hvernig best sé að fást við vandann þar sem skýrt kemur fram mikilvægi þess að vímuefnavandi, ofbeldi og áföll séu skoðuð og meðhöndluð í samhengi. Þar er lögð áhersla á að í meðferð sé gert ráð fyrir tengslum milli ofbeldis í nánum samböndum og áfengisdrykkju og að þar sem tekið sé á móti fórnarlömbum ofbeldis sé skimað fyrir áfengisvanda og ennfremur sé skimað fyrir ofbeldi þegar einstaklingar koma í áfengismeðferð og þeim vísað á viðeigandi úrræði í báðum tilfellum.
  • Aðrar alþjóðastofnanir hafa gefið út efni og leiðbeiningar um samband kyns, vímuefnavanda og ofbeldis og má þar nefna UN Women, fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNODC), Millisvæðastofnun Sameinuðu þjóðanna um rannsóknir á afbrotum og viðurlögum (UNICRI), og Alþjóðafíkniefnaráðið (INCB), sem og Pompidou-hóp Evrópuráðsins.
  • Því miður skilst okkur að ekki sé lengur skimað eftir ofbeldi á sjúkrahúsinu Vogi en samkvæmt niðurstöðum úr skimun þar segir Ingólfur V. Gíslason, í skýrslu sinni um Ofbeldi í nánum samböndum, Orsakir, afleiðingar, úrræði[2],sem unnin var fyrir félags- og tryggingaráðuneytið:

Í fyrsta lagi er ofbeldi nokkuð sameiginleg reynsla kvenna sem leita á Vog, þær hafa langflestar verið beittar einhverju ofbeldi. Raunar var það samdóma álit viðmælenda, bæði á Vogi og í áhættumeðgöngunni hjá Landspítalanum, að konur sem væru í mikilli neyslu væru með ofbeldi sem „sjálfsagðan“ þátt í sínu lífi og raunar eitthvað sem þær upplifi yfirleitt ekki sem sitt megin vandamál. Þannig var talið að a.m.k. 70–80% þeirra kvenna sem stríddu við fíkn hefðu verið beittar einhverju ofbeldi.

  • Upplýsingar um ofbeldi sem karlar, sem koma í vímuefnameðferð á Íslandi, verða fyrir né ofbeldi sem þeir beita hafa ekki komið fram opinberlega, svo okkur sé kunnugt hins vegar kemur fram í úttekt á verkefninu Saman gegn ofbeldi að:

Þátttakendur í verkefninu telja almennt að fíkn sé í mörgum tilfellum nátengd heimilisofbeldismálum og margir telja einnig að geðræn vandamál þurfi að fást við á heildrænni hátt í þessu samhengi. Gögn frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sýna þetta einnig, en 64 brotaþolar og 130 gerendur voru ölvaðir eða undir áhrifum á vettvangi, svo umfang vandans er verulegt.[3]

  • Í meistararitgerð Evu Daggar Ásu og Kristinsdóttur kemur fram að rúmur helmingur kvenna í Kvennaathvarfinu telur að ofbeldismaðurinn, sem beitti þær ofbeldi, ætti við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.[4]
  • Írsk rannsókn, Watson & Parsons (2005)[5], á heimilisofbeldi gefur hins vegar hugmynd um algengi þessa sambands en þar kemur fram að áfengi komi „einhvern tíma“ við sögu hjá 44% svarenda og alltaf hjá 27% svarenda þar sem heimilisofbeldi átti sér stað. Einnig kemur fram hjá Galvani (2007)[6] að á milli 44% og 60% karla sem koma til fíknimeðferðar segjast beita líkamlegu ofbeldi í nánum samböndum. Hjá Easton og fleirum (2000)[7] að um helmingur manna sem koma til meðferð við vímuefnaneyslu greina frá því að þeir séu á sama tíma að beita ofbeldi í nánum samböndum. Einnig má benda á rannsókn Stuart, Moore, Kahler & Ramsey (2003)[8] þar sem fram kemur að helmingur þeirra karla sem koma í meðferð vegna þess að þeir beita ofbeldi í nánum samböndum eigi við vímuefnavanda að etja.

Þá koma nokkrar athugasemdir um það sem fram kemur í þingsályktunartillögunni:

  1. Ef Ísland vill vera í fararbroddi (I. FRAMTÍÐARSÝN OG VIÐFANGSEFNI) þegar kemur að aðgerðum gegn ofbeldi þurfa aðgerðir og stefnumótun að byggja á nýjustu þekkingu í málaflokknum og sjá til þess að sú þekking sé aðgengileg og sjálfsagður hluti af menntun hinna fjölmörgu fagstétta sem kemur að málaflokknum, í réttarkerfi, menntakerfi og heilbrigðiskerfi t.d. einnig þeir sem vinna að vímuefnameðferð.
  2. Bent er á að orðið „hefndarklám“ (A6) er særandi fyrir þolendur og er „rafrænt kynferðisofbeldi“ notað núorðið.
  3. Félagið bendir á að sáttamiðlun (B.4. Sáttamiðlun í sakamálum) þjónar ekki brotaþolum ofbeldis í nánu sambandi ekki eins og skýrt hefur komið fram í fjölmiðlaumfjöllun á undanförnum mánuðum þar sem konur lýsa því hversu þungbært það er að vera þvingaðar í slíka meðferð með gerendum þeirra og vekur þetta atriði í þingsályktunartillögunni margar spurningar sem er ósvarað. Kynbundið ofbeldi þarf að meðhöndla sem glæp og varast að gera þolendur ábyrga í úrlausn slíkra mála, eins og segja má að sáttamiðlun bjóði upp á.
  4. Rótin setur spurningarmerki við að notað sé orðalagið „að skila skömminni“ (C. Valdefling – samstarf og samhæfing). Skömmin er lykilþáttur í andlegum þjáningum og tilfinningavanda þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi og eitt af einkennum áfallastreitu. Hún er greypt í hina kynjuðu menningu þar sem hún er öflugt verkfæri í vopnabúri karla og elur á kynferðislegri skömm hjá konum. Sterkt batamerki þegar unnið er úr afleiðingum kynferðisofbeldis er þegar þolandi finnur að skömmin hefur minnkað. Því miður er sú goðsögn lífseig að þolendur þurfi bara „að skila skömminni“ og þá verði þeir frjálsir og lausir við áfallastreitu, neyslu eða aðrar afleiðingar ofbeldisins. Þetta er ótrúlega mikil einföldun á djúpstæðum tilfinningum. Í fyrsta lagi er með þessu verið að hvetja þolendur til að skila skömminni til ofbeldismannsins sem í langflestum tilvikum er ekkert á því að taka á móti skömm sem hann finnur ekki á nokkurn hátt fyrir. Í öðru lagi er enn og aftur verið að koma ábyrgðinni á verknaðinum yfir á þolandann.
  5. Félagið fagnar því að Bjarkarhlíð verði styrkt sem miðlægt úrræði (C. 3).
  6. Tryggja verður að meðferðarúrræði sem ætluð eru gerendum ofbeldis (C.7. Fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum) sé ávalt samþætt við meðferð við vímuefnavanda og að þar sem vímuefnameðferð er sé einnig veitt sérhæfð meðferð fagfólks fyrir þá sem beita ofbeldi. Eins og fram kemur í lið 1. viðurkennir helmingur karla sem kemur í vímuefnameðferð að þeir beiti ofbeldi í nánum samböndum og því er brýnt að ná til þessa hóps með rétta fræðslu og meðferð þar sem þeir leita ásjár í kerfinu.
  7. Félagið fagnar áherslum á ofbeldi gegn öldruðum (C.8. Hagsmunagæsla aldraðra þegar grunur er um að þeir séu beittir ofbeldi) en saknar þess að minnst sé á aðra viðkvæma og jaðarsetta hópa eins og fólk með vímuefnavanda, sérstaklega konur og börn, hinsegin fólk og fólk af erlendum uppruna og brýnt að samráð sé haft við félagasamtök sem tala fyrir þessa hópa, sem ekki var gert við undirbúning þingsályktunartillögunnar en slíkt samráð hefði styrkt undirbúning hennar.
  8. Þar sem rekin eru kvennaathvörf (C.9. Mat á þörf fyrir kvennaathvörf á landsbyggðinni) þarf að vera aðgengi fyrir konur sem eru í vímuefnaneyslu en á það vantar í dag. Sú krafa að þvinga konur til að hætta neyslu áður en þær fá aðra þjónustu, eins og vegna ofbeldis, stuðlar að því að þær komist ekki út úr ofbeldissamböndum og þarf að endurskoða þessa nálgun og bjóða upp á alhliða þverfaglega aðstoð við þennan hóp.
  9. Mörg og brýn verkefni eru fyrirliggjandi í málaflokknum og því nauðsynlegt að í það sé sett meira fé en fram kemur í núverandi tillögu. Tölur um ofbeldi í íslensku samfélagi eru sláandi og fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna sýnir að fjórðungur íslenskra kvenna hefur orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun á lífsleiðinni og jafn margar hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi. Það er því full ástæða til að taka á málinu af myndarskap og ef hugmyndin er að hafa áhrif sem eftir er tekið þarf að áætla meira en 45 milljónir á ári í verkefnið.

Virðingarfyllst,

f.h. Rótarinnar

Kristín I. Pálsdóttir, talskona

[1] Alþjóðaheilbrigðisstofnunin. (2011). Interpersonal violence and alcohol. Sjá https://www.who.int/violence_injury_prevention/violence/world_report/factsheets/pb_violencealcohol.pdf.

[2] Ingólfur V. Gíslason. (2008). Ofbeldi í nánum samböndum, Orsakir, afleiðingar, úrræði. Útg. Félags- og tryggingamálaráðuneytið. Sjá https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/Ofbeldisbaekur/OfbeldiAdalbokin.pdf.

[3] Erla Hlín Hjálmarsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Rannveig Sigurvinsdóttir. (2016). Saman gegn ofbeldi. Úttekt á samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæinu gegn heimilisofbeldi. Útg. Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum. Sjá https://rikk.hi.is/wp-content/uploads/Lokauttekt_Saman_gegn_ofbeldi_FIN.pdf.

[4] FElva Dögg Ásu- og Kristinsdóttir. (2010). Fremjendur ofbeldis í nánum samböndum og samfélagsleg viðbrögð. ML ritgerð í lögfræði frá HR. Sjá https://kvennaathvarf.is/wp-content/uploads/2018/03/Fremjendur-ofbeldis-%C3%AD-n%C3%A1num-samb%C3%B6ndum-og-samf%C3%A9lagsleg-vi%C3%B0br%C3%B6g%C3%B0.pdf.

[5] Watson, Dorothy og Sara Parsons. (2005). Domestic Abuse of Women and Men in Ireland: Report on the National Study of Domestic Abuse. Útg. National Crime Council in association with the Economic and Social Research Institute.

[6] Galvani, S (2007) Safety in Numbers? Tackling domestic abuse in couples and network therapies. Drug and Alcohol Review, 26, 175-181.

[7] Easton C, Swan S, Sinha R. Prevalence of family violence in clients entering substance abuse treatment. Journal of Substance Abuse Treatment. 2000;18:23–28. Sjá https://pdfs.semanticscholar.org/0e31/855c26227a7a76ed0aa7cba027679397cff8.pdf.

[8] Stuart G.L., Moore T.M., Ramsey S.E., Kahler C.W. (2003). Relationship aggression and substance use among women court-referred to domestic violence intervention programs. Sjá https://www.academia.edu/15306059/Relationship_aggression_and_substance_use_among_women_court-referred_to_domestic_violence_intervention_programs.

Share This