Rótin hefur sent inn umsögn vegna frumvarps um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (afglæpavæðing vörslu neysluskammta). Þingskjal 24 ̶ 24. mál. Félagið sendi einnig umsögn þegar frumvarpið var lagt fram árið 2019.

Almennt

Rótin þakkar fyrir tækifærið sem hér gefst til umsagnar á frumvarpi um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta.

Rótin hefur m.a. þau markmið að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefna­vanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra og beita sér fyrir faglegri stefnu­mótun um skaðaminnkun, mannréttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu. Þá rekur Rótin Konukot sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Rótin hefur frá stofnun beitt sér fyrir hagsmunum kvenna með sögu um skaðlega vímuefna­notkun, beitt sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um málefni kvenna með vímuefnavanda m.a. með rannsókn á reynslu á kvenna af vímuefnameðferð. Þá er félagið þátttakandi í Evrópuverkefnum sem stuðla að bættri stefnumótum í málaflokknum og byggja upp þekkingu til og þjálfa starfsfólk sem vinnur með konum sem orðið hafa fyrir heimilis-ofbeldi og glíma við vímuefnavanda.

Umsögn um frumvarpið

Rótin fagnar framlögðu frumvarpi um afglæpavæðingu og refsileysi vegna vörslu neysluskammta og styður þær lagabreytingar sem felast í frumvarpinu og fagnar sérstaklega þeirri breytingu að kaup á neysluskömmtum séu afglæpavædd.

Rótin styður þá stefnu að meðhöndla eigi vanda þeirra sem eru í skaðlegri notkun vímuefna (e. PSU – Problematic Substance Use) í íslensku samfélagi í velferðar- og heilbrigðiskerfi fremur en í dómskerfinu. Einnig leggur félagið áherslu á að nauðsynlegt sé að samræma stefnu og aðgerðir í málaflokknum að því er varðar fólk í skaðlegri notkun vímuefna til að tryggja úrbætur í málefnum þess hóps.

Rótin fagnar áherslu á að fjármagni „verði veitt til að aðstoða neytendur fíkniefna og draga enn frekar úr neikvæðum afleiðingum neyslu fíkniefna“ eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Þar horfum við sérstaklega til kvenna í skaðlegri vímuefnaneyslu sem jafnvel hljóta meiri skaða af því að útvega efnin en neyta þeirra. Horfa ber til þess að konur með vímuefnavanda eru sérstaklega útsettar fyrir yfirráðum og ofbeldi og í stað refsistefnu horfa til þess að tryggja öryggi þessa hóps.

Einnig býður Rótin fram krafta sína í starfshóp til að hafa eftirlit með áhrifum og ávinningi af afglæpavæðingu vörslu neysluskammta vímuefna sem fjallað er um í 4. gr. frumvarpsins og bendir jafnframt á mikilvægi þess að fá notendur vímuefna að borðinu til samráðs.

Lokaorð

Fulltrúar Rótarinnar eru tilbúnar að funda með velferðarnefnd Alþingis til frekari viðræðna um frumvarpið og gera grein fyrir sjónarmiðum félagsins, sé þess óskað.

Share This