Talskona Rótarinnar hélt erindi fyrir starfsmenn velferðarráðuneytis í maí þar sem hún fór yfir áherslur félagsins og þau erindi sem Rótin hefur sent stjórnsýslunni. Erindinu var vel tekið og ljóst að ekki vantar áhuga á málaflokknum þar.

Reyndar vakti erindið áhuga utan ráðuneytisins og þegar ráð Rótarinnar hafði af því spurnir sendum við inn beiðni um aðgang að gögnum, er vörðuðu fyrirlesturinn, skv. 5. gr. upplýsingalaga. Í dag, 16. júní 2015, barst okkur svar ráðuneytisins og eftirfarandi samskipti vegna fyrirlestrar Kristínar Pálsdóttur, talskonu Rótarinnar:

—– Forwarded by Steinunn Halldórsdóttir/FOR/NotesSTJR on 28.05.2015 10:29 —–

From: Arnþór Jónsson <arnthor@saa.is>
To: “ragnhildur.arnljotsdottir@for.is” <ragnhildur.arnljotsdottir@for.is>, “steinunn.halldorsdottir@for.is” <steinunn.halldorsdottir@for.is>
Date: 27.05.2015 09:14
Subject: Ráðuneytisskólinn 21 maí 2015

Heil og sæl
Meðfylgjandi er glærubunki sem útskýrir sig sjálfur.
Er það rétt sem kemur fram á titilblaðinu að fyrirlestur þessi hafi verið fluttur á vegum Ráðuneytisskólans 21 maí sl.?
Ef svo er – voru margir sem sóttu þennan fyrirlestur?
Er Ráðuneytisskólinn opinn vettvangur fyrir áhugafólk að segja frá áhugamálum sínum?
Ef svo er –  hver ber þá ábyrgð á að rétt sé farið með staðreyndir?
Mbk,
Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ

Með erindi sínu sendi Arnþór glærur Rótarinnar en áhugasamir geta skoðað þær hér: Glærur, stjórnarráðsskólinn. Þess ber þó að geta að glærurnar eru gagnlegri þegar fyrirlesarinn fylgir með.

Hinn 2. júní sendir ráðuneytið eftirfarandi svar til formanns SÁÁ.

 Frá: Margrét Erlendsdóttir/VEL/NotesSTJR
Dags: 02.06.2015 10:05:25
Til: arnthor@saa.is
Efni: Re: Fw: Ráðuneytisskólinn 21 maí 2015
———————————————————
Tilvísun í mál: VEL15052366

Sæll Arnþór.

Vegna spurninga þinna um Ráðuneytisskólann (framsendar velferaðrráðuneytinu með tölvupósti frá forsætisráðuneytinu 28. maí sl.) er því til að svara að hér í velferðarráðuneytinu eru haldnir klukkustundarlangir fræðslufundir fyrir starfsfólk ráðuneytisins hálfsmánaðarlega sem við köllum Ráðuneytisskóla. Undirrituð skipuleggur þetta skólahald og umfjöllunarefnin geta verið af ýmsu tagi en eiga það jafnan sammerkt að hafa snertiflöt við einhver af þeim fjölmörgu málefnasviðum og verkefnum sem ráðuneytið varðar.

Glærurnar sem þú spurðist fyrir um eru úr erindi sem haldið var í Ráðuneytisskólanum.

Af því þú spyrð hvort Ráðuneytisskólinn sé ,,opinn vettvangur fyrir áhugafólk að segja frá áhugamálum sínum“ þá er það auðvitað ekki svo, því stjórnun og skipulag skólahaldsins felst í því að ákveða hvað er tekið til umfjöllunar hverju sinni.

Fræðslufundir Ráðuneytisskólans eru með því sniði að fyrirlesari kynnir efni sitt og svarar jafnframt fyrirspurnum úr sal. Starfsfólk ráðuneytisins er vel að sér um staðreyndir á þeim málefnasviðum sem heyra undir ráðuneytið og því ágætlega fært um að halda uppi gagnrýni og spyrjast fyrir telji það einhverju áfátt af hálfu fyrirlesara.

Ég treysti mér ekki til að segja hve margir sátu fyrirlesturinn sem þú spyrð um – en líklega voru það á milli 20 og 30 starfsmenn ráðuneytisins.

Vonandi svarar þetta spurningum þínum.

Með góðri kveðju,

Margrét Erlendsdóttir

 

Share This