Rótin býður upp á sjálfshjálparhópa, Rótarhópa, fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðinu Konur studdar til bata og konur sem eru komnar vel af stað í bata með öðrum leiðum. Hópastarfið er konunum að kostnaðarlausu en samskotum verður safnað í hópunum.

Hóparnir funda á miðvikudögum kl. 19.15-20.15 í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg. Leiðbeinendur eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Katrín G. Alfreðsdóttir.

Í Rótarhópunum er unnið út frá þekkingu á sambandi áfalla og vímuefnavanda og er þátttaka í hópunum aðeins einn hluti af áframhaldandi bataferli. Engin skyndilækning er til á áhrifum áfalla og allt lífið erum við að skoða fortíð okkar, læra af henni og skapa okkur betri framtíð í kjölfarið.

Umræðuefni hópanna tengjast viðfangsefnum námskeiðsins Konur studdar til bata þar sem aðaláherslan er á fjóra þætti, sem eru: sjálfsmynd, sambönd og samskipti, kynverund og andleg heilsa. Innan þessara þátta eru undirflokkar sem allir snerta mikilvæg atriði fyrir konur í bataferli. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim. Hvernig hafa þær komist af og til hvaða bjargráða hver og ein þeirra hafi gripið. Rætt er um nýjar aðferðir til að takast á við vandann í stað neyslu.

Skráning fer fram á síðu Rótarinnar

Bókin A Woman’s Journal. Helping Women Recover, eftir Stephanie S. Covington, er vinnubók á ensku sem er til sölu hjá félaginu á 6.000 kr. Hverri konu í sjálfsvald sett hvort að hún kaupir bókina en í henni eru verkefni sem tengjast umfjöllunarefni hópanna.

Vinsamlega sendið inn pöntun hér

 Eftirfarandi reglur gilda í hópunum:

  • Trúnaður. Þeim persónulegu upplýsingum sem deilt er innan hópsins má ekki deila utan hans. Við verðum að vera vissar um að það ríki trúnaður innan hópsins. Það er ein undantekning frá þessu, hópstjórar verða að tilkynna það til réttra aðila ef fram koma upplýsingar um að öryggi einhvers sé í hættu.
  • Öryggi. Mikilvægt er að hver og ein upplifi öryggi innan hópsins. Til að tryggja öryggi beitum við hvorki andlegu né líkamlegu ofbeldi. Ekki er í boði að tala dónalega eða niðrandi við aðrar konur í hópnum.
  • Þátttaka. Allar konur þurfa að fá að taka þátt í umræðum í hópnum. Ekki er hjálplegt ef einhverjar verða ráðandi í umræðunum og aðrar sitja hljóðar. Vinsamlegast deilið öllum athugasemdum með öllum í hópnum. Athugasemdir ykkar, spurningar og álit eiga erindi til okkar allra. Það getur bæði truflað og valdið skiptingu innan hópsins ef tvær og tvær eru að tala saman. Ef það kemur upp spurning um ákveðið efni sem einhver treystir sér ekki til að tala um má hún segja „PASS“.
  • Virðing. Þegar þið segið frá skoðun ykkar, vinsamlegast gerið það með virðingu fyrir öðrum í hópnum. Þá má ekki gagnrýna, dæma eða tala niður til nokkurs í hópnum. Vinsamlegast grípið ekki fram í fyrir þeirri sem er að tala. Ef einhver ætlar að taka yfir umræðuna munu leiðbeinendur grípa inn í svo allar fái tækifæri til að tala. Það getur verið að einhverri líði illa, finni fyrir reiði og vilji ekki taka þátt í umræðunni en hluti af virðingu fyrir hópnum að trufla hann ekki með slæmri framkomu. Það má velja að taka ekki þátt fyrr en ykkur er runnin reiðin eða ykkur líður betur.
  • Stundvísi. Við byrjum á réttum tíma og við endum á réttum tíma. Allir tímarnir byrja klukkan 19:15 og enda klukkan 20:15.

Um leiðbeinendur hópanna

Katrín G. Alfreðsdóttir er félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og ProfCert Women and Substance Use frá University College Dublin. Hún hefur lokið námskeiði um aðferðir Stephanie S. Covington sem er sérfræðingur og frumkvöðull í meðferð kvenna með fíknivanda. Katrín situr í ráði Rótarinnar.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir er grunnskólakennari og kennir lífsleikni og ensku í Laugalækjarskóla. Hún hefur leitt hópa í Stígamótum og Drekaslóð. Guðrún Ebba hefur tekið virkan þátt í starfi á þessu sviði undanfarin ár. Í október 2011 kom út saga hennar sem Elín Hirst skráði með henni, Ekki líta undan. Guðrún Ebba hefur setið í ráði Rótarinnar frá stofnun.

Share This