Kæru fundargestir.

Fyrir hönd undirbúningshóps Rótarinnar langar mig að bjóða ykkur hjartanlega velkomin. Það er góð tilfinning að vera að stofna Rótina – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars.

Um Kvenfélag SÁÁ

Ástæða þess að ég stend hér í dag er sú að gönguvinkona mín Guðrún Kristjánsdóttir hringdi í mig fyrir um það bil ári og sagði mér að innan SÁÁ væri verið að huga að jafnréttismálunum og þar sem ég sat þá í ráði Femínistafélags Íslands datt henni í hug hvort að ég gæti ekki komið með innlegg í þá umræðu innan félagsins.

Þar með var ég komin í undirbúningshóp að stofnun Kvenfélags SÁÁ ásamt Guðrúnu, Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og Gunnhildi Bragadóttur

Það er skemmst frá því að segja að síðan þá hefur líf mitt að miklu leyti snúist um það málefni sem Rótin ætlar að beita sér fyrir og ég held að það sé óhætt að segja það sama um aðrar konur sem sátu í ráði Kvenfélagsins. En fyrir utan þær sem áður eru nefndar bættust Árdís Þórðardóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Katrín Björk Eyjólfsdóttir, Sara Lind Þórðardóttir og Þórlaug Sveinsdóttir í hópinn þegar félagið var stofnað hinn 27. september 2012.

Það er óneitanlega sérstakt að standa hér rúmum fimm mánuðum eftir stofnun Kvenfélagsins til að stofna nýtt félag sem gegna á sama hlutverki. En það er líka til marks um algjört áhugaleysi innan forystu SÁÁ gagnvart frumkvæði okkar og hugmyndum. Við vorum alveg vissar um hvað við vildum gera þegar við stofnuðum Kvenfélagið og settum okkur strax skýr markmið sem nú hafa fundið sér farveg í Rótinni, utan SÁÁ.

Allt starf innan Kvenfélagsins var í fullu samræmi við þessi markmið en við kvenfélagskonur fundum mjög fljótlega fyrir mikilli tortryggni í okkar garð og fengum fátt annað en aðfinnslur frá formanninum og fleira starfsfólki. Þegar við hins vegar fórum fram á upplýsingar um það hvaða reglur við værum að brjóta var okkur ekki svarað. Formaðurinn nefndi þó í viðtali í vikunni að við hefðum ekki verið að vitna í rétta fræðimenn. Aldrei fengum við þó afhentan lista yfir leyfða fræðimenn innan SÁÁ.

Einnig vorum við kvenfélagskonur sakaðar um rangfærslur sem við vitum enn ekki í hverju fólust. Eftir því sem skeytasendingum fjölgaði áttuðum við okkur smám saman á að formaður Kvenfélagsins, sem við vildum reyndar hafa formannslaust, var í raun formaður SÁÁ. Þar sem okkar markmið er að nota kraftana í að vinna fyrir bættum hag kvenna var ekki annað að gera en pakka saman og hefja starfið þar sem við fáum vinnufrið og er Rótin það griðland sem við teljum okkur þurfa.

Forsaga kvenfélagsins

Það er ekki langt síðan að farið var að viðurkenna að konur geta verið alkóhólistar. Sá sjúkleiki var frátekinn fyrir karlmenn á meðan konurnar fengu að hafa hysteríu og kerlingarverk út af fyrir sig. Á fyrri hluta 20. aldar þegar AA-samtökin voru stofnuð virtist gert ráð fyrir því að hinn dæmigerði alkóhólisti væri miðaldra hvítur karlmaður í miðríkjum Bandaríkjanna og í bókinni er einmitt kafli sem heitir Til eiginkvenna þar sem ekki er gert ráð fyrir því að konur lesi bókina nema vegna vanda eiginmanna sinna.

Síðan eru liðin meira en sjötíu ár og margt hefur breyst á þeim tíma. Konur komu fljótlega inn í AA-samtökin og það var strax ljóst að að betur færi á því að hafa kynjaskipta fundi og var fyrsti kvennafundurinn í þeim samtökum var haldinn árið 1941.

Það er því langt síðan einhver skilningur kviknaði á því að kynin þyrftu á mismunandi og aðskilinni meðhöndlun að halda. Á sjötta áratugnum var farið að bjóða upp á kynjaskipta áfengismeðferð t.d. hjá Hazelden-stofnuninni í Minnesota í Bandaríkjunum sem setti á stofn sérstaka meðferðarstöð fyrir konur árið 1956. Þar er nú boðið upp á kynjaskipta meðferð við fíkn og samverkandi áfallaröskunum.

Í þeim tilgangi að þróa meðferð sem hentaði konum sérstaklega voru árið 1976 svo stofnuð sjálfshjálparsamtök kvenna, samtökin Women for Sobriety í Ameríku. Konurnar héldu því fram að þó að meðferð og sjálfshjálparstarf hafi að einhverju leyti verið kynjaskipt hafi sama hugmyndafræði verið notuð á bæði kynin og að sú hugmyndafræði hafi verið þróuð af körlum fyrir karla. Þær bentu á að þó að líkamleg áhrif og bati kynjanna sé ekki ósvipaður hafi konur allt aðrar þarfir en karlar fyrir sálrænan og tilfinningalegan stuðning.

Hér á Íslandi var um svipað leyti, árið 1977, stofnað mikilvirkt félag til að þurrka upp alkóhólista, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann eða SÁÁ. Menn sem höfðu farið í meðferð í Bandaríkjunum komu heim fullir af eldmóði eftir að hafa fengið lausn á sínum vanda þar og rifu hér upp öflugt meðferðarstarf með hugmyndum sem þóttu nýstárlegar. Fram að því hafði alkóhólismi helst verið talinn aumingjaskapur en Freeportarar héldu því fram að um sjúkdóm væri að ræða sem þyrfti að meðhöndla á þeim forsendum. Með miklum hugsjónaeldi og útsjónarsemi, og jafnvel vott af oflæti, tókst að sameina fólk í fjöldahreyfingu til að vinna að því að koma hér á fót mannúðlegri og skilvirkari meðferðarstöðvum en áður höfðu þekkst. Í fyrstu aðalstjórn SÁÁ sátu 38 aðilar, þar af 5 konur sem flestar hétu Ingibjörg.

Nú eru að nálgast fjörutíu ár síðan fyrrgreind félög voru stofnuð og þó að margt hafi verið vel gert hefur þróunin í meðferðarmálum kvenna alls ekki verið á þann hátt sem við teljum æskilegt og ekki í samræmi við þá vitneskju, sem komið hefur fram í dagsljósið á undanförnum árum, um samhengið á milli fíknivanda og ofbeldis- og áfallasögu.

Ofbeldi

Það hefur legið í loftinu og verið rætt á kaffistofum og í saumaklúbbum í áraraðir að meðferðarkerfið sé frekar karllægt. Það sem hins vegar kom á óvart þegar við fórum að lesa okkur til um konur og meðferð er hversu órannsakað svið þetta er. Og það er fyrst á síðustu árum sem verið er að rannsaka þarfir kvenna sérstaklega. Þó að meðferðin hafi að hluta til verið kynjaskipt hefur sama hugmyndafræðin verið brúkuð á bæði kynin og eins og Þórarinn Tyrfingsson benti okkur t.d. á í fyrra, þá er öll meðferðin hjá SÁÁ þróuð af karlmönnum.

Við fengum líka fljótlega staðfest margt sem við höfðum haft á tilfinningunni, grunað eða þóst vita.

Staðreyndin er sú að hvergi er að finna hóp kvenna sem þolað hefur meira ofbeldi en einmitt þær konur sem leita sér meðferðar. Ingólfur V. Gíslason orðar þetta svona í skýrslu sinni um Ofbeldi í nánum samböndum:

Í fyrsta lagi er ofbeldi nokkuð sameiginleg reynsla kvenna sem leita á Vog, þær hafa langflestar verið beittar einhverju ofbeldi. Raunar var það samdóma álit viðmælenda, bæði á Vogi og í áhættumeðgöngunni hjá Landspítalanum, að konur sem væru í mikilli neyslu væru með ofbeldi sem „sjálfsagðan“ þátt í sínu lífi og raunar eitthvað sem þær upplifi yfirleitt ekki sem sitt megin vandamál. Þannig var talið að a.m.k. 70 – 80% þeirra kvenna sem stríddu við fíkn hefðu verið beittar einhverju ofbeldi.

Það á augljóslega eftir að rannsaka þennan hóp ítarlegar en allar rannsóknir, vísindagreinar og alþjóðlegar og innlendar skýrslur um málið sem við höfum skoðað komast að svipuðum niðurstöðum.

Í fyrsta lagi að alkóhólismi á meðal kvenna sé vanmetinn. Konur eru um þriðjungur þeirra sem leita sér áfengismeðferðar en nú er talið að ástæðan sé ekki sú að þær séu síður alkóhólistar en karlar. Hins vegar er ekki vitað hvað veldur því að konur koma síður í meðferð en karlar þó að ýmsar kenningar séu á lofti m.a. hversu mikil skömm það er fyrir konur að viðurkenna að þær séu alkóhólistar og svo er oft erfiðara fyrir þær að komast frá heimilinu en karlana. Einnig hefur sú sögulega staðreynd hversu karllæg meðferð almennt er, áhrif á að fæla konur frá því að leita sér hjálpar.

Í öðru lagi að stórlega vanti á rannsóknir á alkóhólisma og fíknivanda kvenna. SÁÁ á gríðarlegt gagnasafn en svo virðist sem lítið sé verið að vinna úr því þar sem stofnunin er ekki rannsókna- eða háskólastofnun

Í þriðja lagi að ofbeldis- og áfallasaga hefur mjög mikil áhrif á þróun ávana- og fíknivanda. Ekki er lengra síðan en í gær að UNICEF birti skýrslu um réttindi barna á Íslandi þar sem fram koma sterk tengsl á milli ofbeldis og neyslu fíkniefna.

Tengsl fíknar og ofbeldis- og áfallasögu virðist vera mjög viðkvæmt umræðuefni þar sem sjúkdómshugtakið er grundvöllur að flestu meðferðarstarfi hér á landi. Alkóhólismi hefur hins vegar þá sérstöðu að vera skilgreindur sem líkamlegur, andlegur og félagslegur sjúkdómur og okkur sýnist að félagslegar aðstæður kvenna, sérstaklega með tilliti til kynjakerfisins, hafi að miklu leyti verið skildar útundan í meðferð á konum.

Gríðarleg vakning hefur orðið á undanförnum árum í sambandi við ofbeldi gagnvart börnum og konum og er það að mestu leyti að þakka ötulum grasrótarhreyfingum kvenna sem byggt hafa upp samtök og stofnanir til að bjarga konum og börnum frá ofbeldi og áhrifavaldi þess.

Samtök eins og Kvennaathvarfið, Stígamót, UNICEF, Drekaslóð, og Blátt áfram, svo einhver séu nefnd, hafa þar unnið mikilvægt starf. Það er þeim að þakka að í dag vitum við miklu meira um hversu alvarleg áhrif ofbeldi hefur á líf fólks, sérstaklega kynferðisofbeldi. Það er líka þeim að þakka að fjöldi fólks hefur fengið líf sitt til baka út úr skugga ofbeldisins.

Og núna er komið að konum sem glíma við ávana- og fíknivanda.

Við teljum að til að áfengismeðferð kvenna beri fullnægjandi árangur þurfi að horfast í augu við þá staðreynd að ekki dugi að meðhöndla annað en ekki hitt. Reyndar eru það fyrirmæli í skýrslu sem velferðarráðherra lagði fyrir Alþingi 2010-2011 en þar stendur:

Á meðferðarstofnunum vegna áfengis- og vímuefnaneyslu verði skimað eftir þeim körlum sem hafa beitt maka sína ofbeldi og meðferð þeirra taki mið af því. Sömuleiðis verði skimað eftir konum sem hafa verið beittar ofbeldi í nánum samböndum og tekið tillit til slíkra áfalla í meðferðinni.

Við vitum ekki til þess að farið sé að þessum fyrirmælum í meðferðarstarfi.

Rótin

Markmið félagsins sem við ætlum að stofna í dag hljóma svona:

Markmið Rótarinnar eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið vill að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samstarfið við önnur félög, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.

Félagið er því að vissu leyti pólitískt, eins og SÁÁ, þar sem við ætlum okkur að berjast fyrir þeim mannréttindum kvenna að lifa án ofbeldis og rétti þeirra til varanlegri bata frá fíkn og því að heilbrigðiskerfið grípi inn í þar sem fórnarlömb ofbeldisins er að stórum hluta að finna, í þessu tilfelli inni á meðferðarstöðvum.

Það þarf líka að hafa í huga að með því að konur fái valdeflandi meðferð sem hjálpar þeim að losna undan ofbeldismönnum og afleiðingum ofbeldis er líka verið að bjarga lífum barna og koma þeim út úr ofbeldisaðstæðum.

Eftir að við fórum að garfa í þessum málaflokki höfum við fundið fyrir ótrúlega mikilli þörf á því að taka meðferð kvenna til endurskoðunar. Allar höfum við fengið að heyra sögur sem styrkja okkur í því að við séum á réttri braut. Sumar sögurnar eru mjög sorglegar en sem betur fer er þeim sögum fjölgandi þar sem konur hafa fengið rétta hjálp til að ná sér á strik í lífinu. Þær þurfa samt að vera miklu fleiri.

Undanfarna daga höfum við frétt af konum sem brostið hafa í grát þegar þær fréttu af stofnun félagsins. Við höfum fengið hvatningu, þakkir, boð í leikhús og margvísleg tilboð um vinnuframlag frá konum sem eru hrærðar yfir því að konur séu loksins að fara að gera skurk í þessum málaflokki. Við okkur hefur verið sagt að við séum kjarkaðar og hugrakkar.

Þá er ágætt að hugleiða af hverju það þarf svona mikinn kjark til að taka til í þessum málaflokki. Það hlýtur að vera vegna þess að þar er ekki farið með vald á eðlilegan hátt.

Við höfum reyndar líka heyrt og lesið um það í fjölmiðlum að við séum óttalega fáfróðar og vitum ekkert um hvað við erum að tala og að við misskiljum það sem við skiljum ekki. Að ekki sé nú talað um óþekktina. Við látum það sem vind um eyru þjóta þó að það sé samt alvarlegt að þessi högg komi frá þeim er hlífa skyldi, það er formanni SÁÁ.

Það er ekkert langt síðan að læknar voru taldir guðlegar verur og svei mér þá ef þeir voru ekki aðeins nær guði en prestarnir. Þeirra orð voru lög. Ég man vel eftir hátíðleikasvipnum á henni ömmu minni, sem var fædd árið 1893, þegar hún talaði um lækna. Vald lækna yfir hinum veiku var algjört og óskert.

Svona hugmyndir eru á hraðri leið út úr heilbrigðisþjónustu og smátt og smátt er valdið, sem einu sinni var bara hjá læknunum, að færast til þannig að sjúklingarnir, sem nú orðið eru iðulega kallaðir notendur þjónustunnar, deila því með hjúkrunarfólki í valdeflandi samskiptum. Það er allavega hið æskilega samband. Við viljum flýta fyrir þessari þróun í meðferð áfengis- og vímuefnameðferð.

Margar konur sem glímt hafa við fíknivanda eru að öðlast heilsu og hamingju með aðstoð fíknifræðinga, sérfræðinga í áfallafræðum og hjá þeim sem meðhöndla þolendur ofbeldis. Okkar ósk er sú að sú þekking og þau viðhorf sem þar eru nýtist stærri hóp kvenna. Við tökum heilshugar undir með forráðamönnum UNICEF þegar þeir segja að tími sé kominn til að stofna ofbeldisvarnaráð sem hefur heildaryfirsýn yfir vandann.

Okkar tími er að sjálfsögðu kominn, nú þegar tíma Jóhönnu er að ljúka, tími til að konur taki valdið til sín og fari að miðla því inn í meðferðageirann sem þær hafa lært á batagöngu sinni. Þegar konur koma inn í heilbrigðiskerfið á að meðhöndla þær á heildrænan hátt og taka tillit til þeirra áhrifa sem ofbeldis- og áfallasaga hefur á þróun fíknisjúkdóma.

Við Rótarkonur eigum það sameiginlegt með upphafsmönnum SÁÁ að vera fullar af eldmóði. Við teljum okkur líka hafa höndlað eitthvað brot af sannleikanum, eins og þeir, og við viljum miðla honum áfram.

Við viljum hins vegar gera það á okkar hátt, ekki með flugeldasýningum heldur staðfastri auðmýkt gagnvart viðfangsefninu.

Fyrir hönd undirbúningshóps Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir

Share This