24. maí 2015

Ráðstefna um konur, fíkn, áföll og meðferð

Í september er fyrirhuguð ráðstefna um konur, fíkn, áföll og meðferð sem við bindum miklar vonir við að muni hafa jákvæð áhrif á þróun úrræða fyrir fólk með fíknivanda hér á landi. Til landsins koma erlendir sérfræðingar og verður Stephanie Covington, höfundur bókarinnar „A Woman’s Way through the Twelve Steps“ og frumkvöðull á sviði vinnu og rannsókna á konum og fíkn, aðalfyrirlesari ráðstefnunnar.
Tilgangur ráðstefnunnar er að auka skilning og þekkingu á kynjafræðilegu sjónarhorni á fíkn, áföll og meðferð og á nauðsyn kynjamiðaðrar meðferðar.
Ráðstefnan er haldin að frumkvæði Rótarinnar en RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands sér um framkvæmd hennar. Aðrir samstarfsaðilar eru: Jafnréttisstofa, Rannsóknarstofnun um áfengi og vímuefni við Stokkhólmsháskóla, Heilbrigðisráðuneyti Grænlands, Rannsóknarstofnun um samfélag, efnahag og fjölmiðlun við Háskólann á Grænlandi, Reykjavíkurborg og ReykjavíkurAkademían.

Nýtt ráð og ársskýrsla

Aðalfundur Rótarinnar var haldinn miðvikudaginn 20. maí og fóru þar fram hefðbundin aðalfundarstörf ásamt því að Arnþrúður Ingólfsdóttir kynjafræðingur hélt mjög áhugaverðan fyrirlestur um orðræðu geðlækna um konur og kyn.

Talskona, Kristín I. Pálsdóttir, kynnti skýrslu ráðsins og er hún nú aðgengileg á vef Rótarinnar.

Annað starfsár Rótarinar var viðburðaríkt, umræðukvöld voru haldin reglulega, ráðskonur skrifuðu greinar og sendu erindi til yfirvalda, gerðu athugasemdir við frumvörp og heimsóttu stofnanir og sérfræðinga. Síðast en ekki síst hefur Rótin fengið vel þegnar viðurkenningar og styrki á árinu.

Fræðslusjóður Rótarinnar var stofnaður 26. mars s.l. Stofnun sjóðsins er möguleg vegna stofnframlaga þeirra sem vilja halda nafni Önnu Kristínar Ólafsdóttur stjórnsýslufræðings á lofti og hafa staðið að söfnun í sjóðinn. Sjóðnum er ætlað að kosta rannsóknir viðurkenndra aðila á viðfangsefnum sem snerta konur, fíkn og áföll og að nýtast til fræðslustarfs og ráðstefnuhalds. Rótin þakkar Þórunni Sveinbjarnardóttur sérstaklega fyrir frumkvæði að stofnun sjóðsins.

Á aðalfundinum voru Árdís Þórðardóttir, Brynhildur Jensdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gunnhildur Bragadóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir, Hildur Þórðardóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir kosnar í ráð Rótarinnar. Í vararáð voru kjörnar Guðrún Kristjánsdóttir, Edda Arinbjarnar og Lísa Kristjánsdóttir.

Share This