Helena Bragadóttir, geðhjúkrunarfræðingur, kynnir lokaverkefni sitt í heilbrigðisvísindum á umræðukvöldi hinn 21. febrúar, athugið viðburðinum hefur verið frestað um viku frá því sem upphaflega var áætlað.

Tilgangur rannsóknar Helenu var að skoða reynslu kvenna með fíknivanda af námskeiðinu „Núvitund sem bakslagsvörn“, eða MPRP (e. Mindfulness based relapse prevention) sem er sniðin að einstaklingum með fíknivanda og skoða hvort það gagnist sem bakslagsvörn eða við einkennum geðraskana.

Helena lauk nýverið meistaraprófi (MSc) í heilbrigðisvísindum. Hún hefur langa reynslu af störfum með fólki með vímuefnavanda, m.a. á fíknigeðdeild Landspítala – Háskólasjúkrahúss (LSH), en í dag er hún teymisstjóri geðheilsuteymis fangelsa hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar:
Kt. 500513-0470, bankanr. 0101-26-011472.

Viðburðurinn er á Facebook!

Staður: Kvennaheimilið, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Umræðukvöld Rótarinnar eru haldin tvisvar til þrisvar að vori og hausti. Næsta umræðukvöld verður haldið 7. mars en þá kynnir Kolbrún Kolbeinsdóttir, kynjafræðingur, fyrir okkur rannsókn sína á konum í Konukoti „„Eini staðurinn í samfélaginu þar sem ekki er horft niður á þig“: Reynsla kvenna af Konukoti.“

Ef þið vitið af áhugaverðum umræðuefnum og erindum, sendið okkur endilega línu á rotin@rotin.is.

Share This