Á haustmisseri 2020 átti Rótin samstarf við Listaháskóla Íslands sem fólst í því að efnt var til samkeppni á meðal nemenda á 2. ári í grafískri hönnun um merki fyrir Konukot. Konukot hefur ekki átt eigið merki og var eitt af markmiðunum með verkefninu að gera Konukot aðgengilegra fyrir gesti og velunnara á samfélagsmiðlum og  auka upplýsingaflæði um starfið til almennings.

Dómnefnd komst að þeirri samdóma niðurstöðu, í byrjun desember, að merki Rakelar Gróu Gunnarsdóttur hefði skarað fram úr í samkeppninni og hennar merki er því orðið að merki Konukots. Í niðurstöðu dómnefndar segir: “Dómnefnd taldi merkið skera sig úr öðrum innsendingum og vera áhugaverður leikur að upphafsbókstaf sem passar táknfræðilega vel við stefnu Konukots.”

Í dómnefnd sátu þau Ragnar Freyr, fagstjóri grafískrar hönnunar við LHÍ, Birna Geirfinnsdóttir, dósent við LHÍ og Embla Vigfúsdóttir, vöruhönnuður, fyrir hönd Rótarinnar. Katrín Helena Jónsdóttir var verkefnastjóri. Við þökkum þeim öllum frábært samstarf við þetta skemmtilega verkefni ásamt nemunum sem tóku þátt og sendu inn tillögur að merki. Síðast en ekki síst þökkum við Rakel Gróu fyrir vel heppnað merki!

Nú hefur einnig verið opnuð Facebook-síða fyrir Konukot og vonandi sjáum við sem flesta gesti, vini og velunnara Konukots þar.

 

Share This