Hinn 17. maí 2021 afhenti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Rótinni Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2021 í tengslum við  mannréttindadag Reykjavíkurborgar. Þetta var í fjórtánda sinn en þau eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og mikilvægi samfélags þar sem mannréttindi eru virt. Handhafi mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar hlýtur að launum kr. 600.000,-.

Í umsögn  valnefndar kemur fram að „félagið hefur haft mikil áhrif á umræðu með uppbyggilegri og rökstuddri gagnrýni innan málaflokksins, ekki síst á staðnað meðferðarkerfi. Félagið hefur hvatt hið opinbera til nútímalegrar stefnumótunar og aukins gæðaeftirlits og skrifað fjölda erinda til stjórnvalda, eftirlitsaðila og annarra sem koma að þessum málaflokki ”. Þá segir að félagið hafi unnið ötullega að mannréttindum kvenna með vímuefnavanda og/eða áfallasögu.

Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar, sagði við afhendingu verðlaunanna að það væri mikilvægt að fá þessa viðurkenningu. „Það er mikilvægt að viðurkenna mannréttindi þessa jaðarsetta hóps og vekja athygli á málstað og starfsemi Rótarinnar“.

Share This