Næsta miðvikudag, 23. október kl. 20, kemur Sigríður Guðmarsdóttir, Ph.D. í guðfræði og sóknarprestur í Reykjavík til okkar Rótarkvenna og talar við okkur. Umræðukvöldið er haldið að Hallveigarstöðum eins og vant er.
Vitundin um eigin gildi og dýrmæti mótar sjálfsmynd og reisn hverrar manneskju. Á sama hátt er sektarkennd órjúfanlegur þáttur í skaphöfn hinnar skyni gæddu siðferðisveru þegar manneskjan upplifir að hún hafi gerst brotleg við eigin gildi og siðferðisboð. Við tökumst á við sekt með ýmsu móti, metum hana, horfumst í augu við hana, notum hana til að gera betur og bæta fyrir, sem agastjórnunartæki og uppeldistæki, við bælum hana niður, vörpum henni yfir á aðra til þess að þurfa ekki að takast á við sársauka hennar og afleiðingar. Því hefur verið haldið fram að kynin takist á við sekt og sjálfsmyndarleit á ólíkan hátt og fíkn getur haft áhrif á sektaraðferðir okkar líka. Erindið fléttar saman hugleiðingum um fíkn, kynjahlutverk og sektarkennd með það fyrir augum að opna umræður um kynbundna sekt og sekt í skugga fíknar.

Allir, konur og karlar, eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar!

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook: https://www.facebook.com/events/1422202728008057/1422202878008042/?notif_t=like

Share This