Þann 10. desember fáum við til okkar góða gesti sem ætla að gleðja okkur með góðum listum. Rithöfundarnir Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Steinar Bragi og Þórdís Gísladóttir koma og lesa úr verkum sínum ásamt Iðunni Steinsdóttur sem les fyrir systur sína Kristínu Steinsdóttur. Einnig ætlar Jökull Júlíusson söngvari hljómsveitarinnar Kaleo að syngja og spila fyrir okkur.
Elísabet Kristín er að gefa út ljóðabókina Ástin ein taugahrúga, enginn dans við ufsaklett. Þar fjallar hún um konu sem er að leita að sjálfsmynd því hin hefur hrunið og að dyrum út úr skaðlegu sambandi,

Steinar Bragi sendi frá sér bókina Kata nú í haust. Dóttur aðalpersónunnar, Kötu, er nauðgað og hún drepin. Á heimasíðu forlagsins segir um bókina: „KATA er saga um glæp og eftirköst hans, um óskiljanlega grimmd, ærandi sorg og stríðið milli kynjanna þar sem einungis annað þeirra hefur verið gerandi – þangað til núna. Að venju nálgast Steinar Bragi viðfangsefni sitt af vægðarleysi og snertir lesendur djúpt.“

Þórdís Gísladóttir gaf í sumar út aðra ljóðabók sína, Velúr. Áður hefur hún gefið út ljóðabókina Leyndarmál annarra og tvær bækur um þau Randalín og Munda. Þórdís hefur mjög næmt auga fyrir hinu skoplega í hversdagslegu vafstri okkar og ljóðin hennar bera þess glögg merki.

Kristín Steinsdóttir hefur sent frá sér bókina Vonarlandið um sögu alþýðukvenna sem uppi voru í Reykjavík á seinni hluta 19. aldar. „Áföll dynja yfir en þær kunna líka að snúa á tilveruna og brosa framan í heiminn“, segir á síðu Forlagsins um sögupersónurnar. Kristín kemst ekki sjálf til okkar þetta kvöld en systir hennar Iðunn ætlar að koma í hennar stað og lesa úr bókinni.

Síðast en ekki síst ætlar hann Jökull Júlíusson söngvari hljómsveitarinnar Kaleo að koma til okkar og spila nokkur lög á gítarinn og syngja með.

Jólamenningarkvöldið er haldið að Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík hinn 10. desember kl. 20-21.30.

Allir, konur og karlar, eru velkomnir á viðburðinn!

Boðið er upp á te og kaffi og jafnvel piparkökur en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook!

Share This