„Heggur sá er hlífa skyldi?“ Málþing um samfélagslega ábyrgð gagnvart þolendum kynbundins ofbeldis verður haldið föstudaginn 4. nóvember, kl. 14:00–17:30, í Bíósalnum á Hótel Reykjavík Natura (áður Loftleiðahótelið).

Samfélagsumræða um kynferðisbrot hefur aukist mjög undanfarin ár. Þolendur koma fram og segja sínar sögur og afhjúpa ofbeldi sem hafði legið í þagnargildi. Með hjálp samfélagsmiðla hefur „valdeflingarherferðum“ þolenda, eins og Druslugöngu, Free the Nipples- og Beauty tips-byltingu, verið hleypt af stokkunum. Jafnframt berast stöðugt fréttir af því, hérlendis og erlendis, að hylmt hafi verið yfir með kynferðisbrotamönnum, jafnvel í áratugi, og þar koma við sögu valdamiklar stofnanir eins og trúarstofnanir og fjölmiðlar.

Á málþinginu verður fjallað um siðferðileg, lagaleg og sálræn álitaefni í opinberri umræðu um kynferðisbrot og ábyrgð samfélagsstofnana eins og fjölmiðla, réttarkerfisins og félagasamtaka þegar kemur að því að vernda þolendur gegn óvæginni umfjöllun. Spurt verður um siðferðislegar skyldur félagasamtaka sem nota sögur, nöfn og andlit skjólstæðinga í kynningar- og fjáröflunarstarfi. Hvert er hlutverk siðareglna fagstétta eins og blaðamanna og lögmanna? Hafa einstakir fjölmiðlar sett sér eigin siðareglur sem eiga að ná yfir slíka umfjöllun? Hafa blaðamenn þekkingu á því hvernig hægt er að birta nafnlaus viðtöl þannig að viðmælandi þekkist ekki í litlu samfélagi?

Málþingið er haldið í framhaldi af útgáfu bæklings Rótarinnar „Ef fjölmiðlar hafa samband. Leiðbeiningar fyrir brotaþola og aðstandendur“, sem kom út árið 2015. Í bæklingnum er fjallað um kosti þess og galla að segja slíkar sögur opinberlega.

Málþingið er styrkt af mannréttindaráði Reykjavíkur og Lýðheilsusjóði. Skipuleggjendur málþingsins eru RIKK – rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda.

Dagskrá

  • Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar og verkefnisstjóri RIKK
  • Guðrún Ebba Ólafsdóttir, ráðskona í Rótinni og annar höfunda bókarinnar Ekki líta undan: „Fórnarlamb falskra minninga“.
  • Hallgrímur Helgason, rithöfundur og höfundur bókarinnar Sjóveikur í München: „Að þegja eða segja?“
  • Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni: „Kynferðisbrot og fjölmiðlar“.
  • Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði: „Ef fjölmiðlar hafa samband. Hugleiðingar um siðfræði, mannskilning og andóf!“

Kaffihlé

  • Brynhildur G. Flóvenz, dósent í lögfræði: „Vernd brotaþola gegn birtingu persónuupplýsinga“.
  • Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans: „Umfjöllun um kynferðisbrot – hvar liggja mörk fjölmiðla?“
  • Umræður – Frummælendur sitja í panel

Fundarstjóri: Mikael Torfason, rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri

Málþingið var tekið upp og er aðgengileg á vefnum:

Share This