Rótin sendi í dag, 27. maí 2015, eftirfarandi fyrirspurn til Miðstöðvar um framhaldsnám við Háskóla Íslands, Sigurveigar H. Sigurðardóttur, deildarforseta Félagsráðgjafardeildar og Daða Más Kristóferssonar forseta Félagsvísindasviðs Háskólans um diplómanám í áfengis- og vímuefnamálum:

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda – hefur mikinn áhuga á því að bætt sé úr menntun þeirra sem stýra meðferðarmálum og starfa við meðferð fólks með fíknivanda á Íslandi. Því fögnum við því að Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands taki af skarið og bjóði upp á nýja námsleið á framhaldsstigi á sviði áfengis- og vímuefnamála. Hingað til hefur einungis verið í boði hér á landi óformlegt nám vímuefnaráðgjafa sem ekki stenst nútímakröfur. ekki er til námskrá fyrir né tilheyrir það nám ákveðnu skólastigi.

Nám í fíknifræðum er mjög mismunandi eftir löndum og í Bandaríkjunum hefur loðað við fagið ákveðin bókstafstrúarhyggja. Þar vísum við annars vegar til áhrifa AA-samtakanna á meðferð og menntun á þessu sviði og hinsvegar til kenningarinnar um fíkn sem heilasjúkdóm. AA-samtökin byggja á trúarlegum en ekki vísindalegum grunni og starf vímuefnaráðgjafa hefur þróast út frá hugmyndum samtakanna um jafningjahjálp. Heilasjúkdómskenningin, sem einnig á rætur innan AA-samtakanna, hefur náð fótfestu í Bandaríkjunum, og hér á landi, en hún hvílir á veikum vísindalegum grunni og er ekki viðurkennd af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni né er hún í samræmi við greiningarstaðal stofnunarinnar, ICD-10.

Í lýsingu á náminu í Háskóla Íslands eru notuð hugtök sem benda til þess að líffræðilegar kenningar, eins og heilasjúkdómskenningin, séu lagðar því til grundvallar. Þar vísum við til orðanna „vímuefnasjúkir“ og „vímuefnasýki“. Við vörpum því fram nokkrum spurningum til forsvarsmanna námsins og Miðstöðvar framhaldsnáms um tilhögun þess.

  • Í fyrsta lagi spyrjum við fyrir hvaða störf námið á að undirbúa nemendur? Eiga þeir að verða hæfir til ráðgjafastarfa við fólk í fíknivanda, í stefnumótun í málaflokknum, í störf að forvörnum eða við heilsugæslu?
  • Hvaða meðferðarmódel verður lögð áhersla á í náminu? Hugræna athyglismeðferð, 12-spora meðferð, áhugahvetjandi samtalstækni, sálfélagslega nálganir, sálfræðilega meðferð eða aðrar nálganir?
  • Á hvaða þekkingargrunni námið byggir? Teljast kennarar námsins viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði? 
  • Eru tengsl við aðra háskóla sem bjóða upp á nám í fíknifræðum? 
  • Er hægt að fá upplýsingar um það námsefni sem stuðst verður við?
  • Einnig spyrjum við hvaða kenningar um fíkn verða lagðar til grundvallar í náminu? Verður lögð áhersla á fyrirmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar sem sál- og félagslegar skýringar og lýðheilsunálgun á fíknivanda eru ráðandi eða verður áherslan á líffræðilegar skýringar eins og erfðir og heilasjúkdómskenninguna?
  • Fíknivandi og geðheilbrigði eru nátengd svið og stór hluti þeirra sem glímir við fíknivanda á við önnur undirliggjandi vandamál að stríða, s.s. afleiðingar áfalla og erfiðra upplifana, geðraskanir og aðrar raskanir. Þessi vandi er þar að auki mjög kynbundinn og mikilvægt að hann sé skoðaður með kynjagleraugum. Því spyrjum við, mun þessi raunveruleiki endurspeglast í náminu sem félagsráðgjafadeildin býður upp á?
Share This