Rótinni hefur borist svar frá Embætti umboðsmanns barna við fyrirspurn vegna forvarna sem send var á Barnaverndarstofu, borgarstjóra, Embættis landlæknis, menntamálaráðuneytis og Umboðsmanns barna. Landlæknir svaraði fyrirspurninni 8. október.

Svar umboðsmanns barna er eftirfarandi:

Takk fyrir bréfið og upplýsingarnar. Embætti umboðsmanns barna hefur ávallt lagt áherslu á að forvarnarfræðsla til barna og ungmenna sé fjölbreytt og lifandi, taki mið af síbreytilegu umhverfi þeirra, og ekki síst stigvaxandi rétti þeirra til ákvörðunartöku um þátttöku í samræmi við aldur og þroska.

Að mati embættis umboðsmanns barna ber þó að leggja megináherslu á fræðslu- og forvarnarefni sem búið er til sérstaklega fyrir börn og ungmenni og þá ber jafnframt að leita til ungmennanna sjálfra við gerð slíks efnis. Þá er það jafnframt mat embættis umboðsmanns barna að skólum og öðrum opinberum aðilum beri í öllum tilvikum að virða aldurstakmörk sem gilda um kvikmyndir eða annað efni.

Án þess að taka neina afstöðu til umræddrar kvikmyndar eða efnistaka hennar, er það mat embættis umboðsmanns barna, að leikið efni af ýmsum toga geti verið til þess fallið að stuðla að mikilvægum umræðum í skólum um ýmis málefni sem varða börn og ungmenni. Að mati umboðsmanns barna fer jafnframt best á því að slíkt eigi sér stað í skólum og að efni viðkomandi kvikmyndar eða efnis sé ávallt sett í samhengi við kennslu og/eða aðra umræðu í skólanum.

Umboðsmaður barna vill þó árétta að áður en skólar eða sveitarfélög taka ákvörðun um að beina leiknu efni að börnum og ungmennum sem hluta af forvarnarfræðslu, þarf ávallt að fara fram heilstætt mat fagaðila á því, hvort  umrætt efni sé raunverulega til þess fallið að fræða og upplýsa börn og hafi marktækt  forvarnargildi.

 

 

Share This