Rótin sendi eftirfarandi erindi til Embættis landlæknis í dag, 14. febrúar 2014.

Erindi: Skráning atvika.

  1. Óskað er eftir tæmandi lista frá Embætti landlæknis yfir þær stofnanir/aðila sem veittu fíknimeðferð/afvötnun og bar að skrá atvik í samræmi við lýsingu Landspítala[1] [1]) skv. 9. og 10. gr. laga um embættið, eða skv. sambærilegum ákvæðum eldri laga, á tímabilinu 2009‒2013.
  2. Hversu mörg atvik skráðu umræddar stofnanir/aðilar á tímabilinu 2009‒2013 í heild?
  3. Óskað er eftir að Embætti landlæknis setji upplýsingar um atvik samkvæmt spurningu 2 fram í töflu sem sýnir skiptingu þeirra árin 2009‒2013 eftir stofnunum/aðilum annars vegar og atvikaflokkum hins vegar.
  4. Hvernig brást Embætti landlæknis við þeim atvikum sem upp komu á umræddu tímabili? Hvernig var t.d. eftirfylgni embættisins háttað og hvaða árangur bar hún?
  5. Hvernig brugðust viðkomandi stofnanir/aðilar við þeim atvikum sem upp komu á umræddu tímabili? Breyttu þeir t.d. verklagsreglum sínum eða meðferð? Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum um viðbrögðin eftir stofnunum/aðilum.
  6. Hversu margar kvartanir bárust Embætti landlæknis á tímabilinu 2009‒2013 í heild vegna stofnana/aðila sem veita fíknimeðferð/afvötnun samkvæmt 12. gr. laga um Embætti landlæknis eða sambærilegum ákvæðum eldri laga?
  7. Óskað er eftir að Embætti landlæknis setji upplýsingar um kvartanir samkvæmt spurningu 6 fram í töflu sem sýnir skiptingu þeirra árin 2009‒2013 eftir stofnunum/aðilum annars vegar og eðli kvartana hins vegar.
  8. Hefur orðið breyting á flokkun atvika og/eða kvartana á tímabilinu 2009‒2013? Ef já, í hverju var sú breyting fólgin?
  9. Hvernig háttar Embætti landlæknis gæðaeftirliti sínu með stofnunum/aðilum sem veita fíknimeðferð/afvötnun?

[1] „Atvik telst það ef greining, meðferð eða umönnun sjúklings á ábyrgð LSH fer úrskeiðis, eitthvað gerist sem skaðar sjúkling eða hefði getað skaðað hann. Ennfremur ef greining, meðferð eða umönnun sjúklings er í ósamræmi við faglega þekkingu, skráð fyrirmæli, verklagsreglur eða vinnuleiðbeiningar í viðkomandi tilviki. Skráning og úrvinnsla atvika er grunnur að umbóta- og gæðastarfi.“ Sjá: https://slxkaldur1.landspitali.is/bokasafn/timaritabrunnurlsh.nsf/Ey%C3%B0ubla%C3%B0/480C0EDB1BF112C40025795E003CA028/$file/skurd_3001.pdf.

Share This